Félag atvinnurekenda

Aðalfundur ÍEV: Stjórnvöld standi vörð um fríverslun og samræmi tollflokkun milli Íslands og ESB

21. júní 2022

Aðalfundur Íslensk-evrópska verslunarráðsins (ÍEV), sem Félag atvinnurekenda rekur, var haldinn í dag. Fundurinn samþykkti m.a. ályktun þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að standa gegn kröfum hagsmunaaðila í landbúnaði um að vinda ofan af fríverslun með búvörur í þeim viðræðum sem framundan eru við Evrópusambandið. Þá skorar ráðið á stjórnvöld að fara í vinnu við að samræma tollskrá og tollflokkun á Íslandi og í ESB, en nýlega hafa komið upp mál þar sem mismunandi tollflokkun skapar hindranir í viðskiptum. 

Á fundinum var Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður endurkjörinn formaður ráðsins. Arnar Atlason, framkvæmdastjóri Tor fiskvinnslu, var jafnframt endurkjörinn meðstjórnandi. María Bragadóttir, fjármálastjóri Ósa og dótturfélaganna Icepharma og Parlogis, kemur ný inn í stjórn. Auk þeirra sitja í stjórn, kjörnir á aðalfundi í fyrra, þeir Jóhannes Þór Ævarsson framkvæmdastjóri ferskvörusviðs hjá Innnesi og Sigurður Gunnar Markússon, forstöðumaður viðskiptaþróunar og umbótaverkefna hjá Krónunni.

Ályktun aðalfundarins í heild er svohljóðandi:

„Aðalfundur Íslensk-evrópska verslunarráðsins (ÍEV), haldinn 21. júní 2022, skorar á stjórnvöld að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur í fríverslun á milli Íslands og Evrópusambandsins og tryggja enn víðtækari tollfrjáls viðskipti með bæði búvörur og sjávarafurðir í þeim viðræðum við ESB, sem utanríkisráðherra hefur boðað að standi fyrir dyrum.

Mikið er til vinnandi að bæta aðgang íslenskra sjávarafurða að markaði Evrópusambandsins, en vegna hækkandi hlutfalls laxaafurða í útflutningi hefur hlutfall íslenskra sjávarafurða sem ekki bera tolla í ESB lækkað töluvert frá því að EES-samningurinn var gerður.

Þá telur ÍEV brýnt að standa gegn kröfum hagsmunaaðila í landbúnaði um að dregið verði úr fríverslun með búvörur samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins. Sá samningur hefur stuðlað að auknu samkeppnisaðhaldi við íslenskan landbúnað, lægra verði og stórauknu vöruúrvali fyrir íslenska neytendur, um leið og hann skapar íslenskum landbúnaði tækifæri til útflutnings. Íslensk matvöruverslun og íslenskir neytendur geta ekki átt að líða fyrir að landbúnaðurinn hafi ekki gripið þau tækifæri að fullu. ÍEV minnir á að 19. grein EES-samningsins skuldbindur bæði Ísland og ESB til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.

Aðalfundur ÍEV hvetur íslensk stjórnvöld til að fara í vinnu við að samræma tollskrá og tollflokkun á Íslandi og í ESB. Upp hafa komið mál þar sem íslensk tollayfirvöld tollflokka vörur, sem fluttar eru inn frá Evrópusambandinu, með öðrum hætti en þær eru tollflokkaðar innan sambandsins. Í nýlegum úrskurði tollstjóra í einu slíku máli segir að „tollskrá Evrópusambandsins og skýringabækur hafa í raun ekkert gildi hvað tollflokkun þessarar vöru varðar eða tollflokkun á Íslandi yfirleitt.“ Þetta býr til augljóst óhagræði, skort á fyrirsjáanleika og hindranir í viðskiptum á milli Íslands og Evrópusambandsins. Að tollflokka vöru með öðrum hætti en gert er á stærsta markaðssvæði íslenskra fyrirtækja getur auk þess búið til skálkaskjól fyrir íslensk stjórnvöld til að fara ekki að skuldbindingum sínum um tollfrjáls viðskipti samkvæmt EES-samningnum eða tvíhliða samningum við ESB.

Félag atvinnurekenda

Matarverðshækkanir og tollar

24. júní 2022

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á Vísi 24. júní 2022

Mikið hefur verið fjallað um hækkanir á matvælaverði að undanförnu og sýnist sitt hverjum um leiðir til að halda aftur af þeim. Sumir vilja fara leið samkeppnishamla, viðskiptahindrana og ríkisafskipta, aðrir vilja leitast við að efla samkeppni. Greinarhöfundur er í síðarnefnda hópnum og sagði eftirfarandi í morgunfréttum RÚV 15. júní síðastliðinn:

„Það er óhætt að segja að samkeppnisstaða innfluttu vörunnar hefur skaðast mikið nú þegar einfaldlega vegna hækkana á aðföngum. Við höfum sagt að það væri skynsamleg leið að lækka tollana á innflutningnum, að minnsta kosti á tilteknum vörum sem nemur þessum verðhækkunum þannig að samkeppnisstaða innfluttu varanna sé þá eins og hún var áður en þessi gríðarlega verðhækkanabylgja gekk yfir. En mér sýnist að það sé lítill pólitískur vilji til að fara þá leið.“ 

Hagfræðingnum skjöplast
Þessi ummæli gerði Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni, að umtalsefni í grein sem hún skrifaði hér á Vísi sama dag. Erna dró í efa að innfluttu vörurnar hefðu hækkað og skrifaði:

„Innan raða Félags atvinnurekenda eru m.a. stærstu innflytjendur búvara, þar með talið á þeim tollkvótum sem boðnir eru út. Það kemur spánskt fyrir sjónir að þessi fyrirtæki eru nýbúin að bjóða hærra verð í alla tollkvóta sem í boði voru frá ESB fyrir tímabilið maí til ágúst 2022 en þau gerðu þegar útboð fór fram fyrir næsta fjögurra mánaða tímabil á undan, janúar til apríl 2022? Munurinn er frá því að vera 1,3% þar sem hann er minnstur upp í 16,7% þar sem hann er mestur. Ef innfluttar vörur hafa hækkað í verði undanfarið hefði þessu einmitt átt að vera öfugt farið.“

Hér skjöplast hagfræðingnum reyndar. Það er ekkert beint samhengi á milli þess hvort verð á innfluttri vöru hækkar eða lækkar og hvort innflytjendur bjóða hærra eða lægra í tollkvóta. Þar ræður ýmislegt annað, til dæmis eftirspurn á markaði og framboð á innlendri vöru. Sjálft útboðskerfið, þar sem hæstbjóðendur hreppa tollkvótana, hvetur til þess að innflytjendur bjóði sífellt hærra verð fyrir að fá að flytja inn tollfrjálsa vöru, allt þar til útboðsgjaldið og fjármagnskostnaður innflytjanda af því að greiða það fyrirfram er farinn að nálgast fullan toll á vörunni. Þetta hefur Félag atvinnurekenda margoft bent á.

Innlendir framleiðendur drífa áfram hækkanir á útboðsgjaldi
Hagfræðingurinn gleymir líka að nefna að það eru ekki félagsmenn FA, heldur félagar Ernu í Samtökum fyrirtækja í landbúnaði sem drífa áfram hækkanir útboðsgjalds (og þar með verðhækkanir) á ýmsum innfluttum búvörum. Eins og Fréttablaðið sagði frá í vikunni eru innlendir bændur og afurðastöðvar orðin stórtækir innflytjendur á kjötvörum, í sumum flokkum búvöru þeir langstærstu. Þannig buðu innlendir framleiðendur hæst í tollkvóta fyrir svínakjöt í síðasta útboði á ESB-tollkvóta og fengu Stjörnugrís, Sláturfélag Suðurlands, Mata og Kjarnafæði samtals 90% af honum í sinn hlut. Það þýðir í raun að innlendu framleiðendurnir hafa varið sig fyrir samkeppni frá innflutningi og ráða verðinu á honum. Það er ekki gott fyrir neytendur.

Innlendir framleiðendur bjóða líka sífellt hærra í tollkvóta fyrir nautakjöt og alifuglakjöt. Í síðasta útboði á WTO-tollkvóta var það þannig Esja Gæðafæði, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, sem hreppti tvo þriðjuhluta af nautakjötskvótanum og Mata, systurfélag Síldar og fisks (Ali) og Matfugls, sem náði í helming alifuglakjötskvótans.

Ný niðurstaða á átta dögum
Í gær, 23. júní, skrifaði Erna nýja grein á Vísi og bar saman hækkanir á búvörum á Íslandi og í Danmörku. Þau gögn sem hún birtir sýna að verð hafi hækkað meira í Danmörku en á Íslandi. Nú ber svo við að hagfræðingurinn dregur allt aðra ályktun en átta dögum áður; nú telur hún að innfluttar búvörur hækki meira í verði en þær innlendu:

„Samanburðurinn við hið mikla landbúnaðarland, Danmörku, gefur til kynna að væru helstu landbúnaðarafurðir fluttar inn en ekki að mestu leyti framleiddar hér á landi hefðu verðhækkanirnar hugsanlega verið mun meiri.“

Tillaga um tollalækkun
Ég læt Ernu eftir að gera upp við sig hvort innfluttar búvörur séu að hækka meira í verði en þær innlendu eður ei. Ég ætla að halda mig við mína tillögu (sem Neytendasamtökin hafa til dæmis líka gert að sinni); að stjórnvöld lækki tolla á innfluttum búvörum til að mæta miklum verðhækkunum og stuðli þannig að því að halda aftur af verðbólgunni.

Grein Ólafs á Vísi

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Alþingi tekur höfuðið upp úr sandinum

23. júní 2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA á Vísi 23. júní 2022. 

Frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um að heimila brugghúsum smásölu áfengis á framleiðslustað var samþykkt á Alþingi í síðustu viku. Þótt breytingin sé lítil markar hún nokkur tímamót, því að í fyrsta sinn heimilar löggjafinn að einkaaðilar hafi smásölu áfengis með höndum. Samþykkt frumvarpsins og meðferð þess á Alþingi gerir frekari breytingar á áfengislöggjöfinni óhjákvæmilegar. Félag atvinnurekenda hefur um árabil goldið varhug við því að breyta áfengismarkaðnum í smáskrefum og talað fyrir því að lögin um sölu og markaðssetningu áfengis verði tekin til heildarendurskoðunar, með viðskiptafrelsi að markmiði. Ekki verður betur séð en að þau sjónarmið eigi nú meira fylgi að fagna á Alþingi en oftast áður.

Lögin búa til nýja mismunun
FA taldi frumvarp dómsmálaráðherra ganga alltof skammt eins og það var lagt fram og búa til nýja mismunun og samkeppnishindranir. FA lagði því annars vegar til að heimildin til sölu á framleiðslustað næði til allra framleiðenda áfengis, ekki eingöngu þeirra sem brugguðu bjór og ekki bara þeirra sem framleiddu undir 500 þúsund lítrum á ári. Alþingi kom til móts við þá tillögu að hluta til; smáframleiðendur sterks áfengis fengu líka heimild til sölu á framleiðslustað. Hins vegar stendur það eftir að bæði í tilviki framleiðenda sterks áfengis og bjórs þýða stærðarmörk frumvarpsins að nokkrum framleiðendum er meinað að selja vöru sína á framleiðslustað, þar af a.m.k. tveimur á landsbyggðinni, en yfirlýst markmið frumvarpsins var að efla þá ferðaþjónustu sem byggzt hefur upp úti um land í kringum brugghúsin.

Hins vegar benti FA þinginu á að það stæðist trauðla EES-samninginn að veita innlendum framleiðendum þannig smásöluheimild án þess að framleiðendur í öðrum ríkjum EES fengju sömu tækifæri til að koma vöru sinni á framfæri við neytendur. Slíkt var t.d. gert í Finnlandi þegar löggjafinn heimilaði brugghúsum að selja vörur sínar á framleiðslustað og leyfði um leið sölu sterks bjórs í verzlunum. Líklegt verður að telja að evrópskir framleiðendur bæði bjórs og sterks áfengis láti á þennan þátt löggjafarinnar reyna fyrir EFTA-dómstólnum. Íslenzka ríkið gæti komizt upp með þessa mismunun í einhver ár, en varla til lengdar. Það gefur strax tilefni til mun víðtækari endurskoðunar á áfengislöggjöfinni.

Loksins léð máls á heildarendurskoðun
FA hefur ítrekað bent á að áfengislöggjöfin í heild sinni sé úrelt, taki ekki mið af tækniþróun og breyttum viðskiptaháttum og búi til óvissu og skort á fyrirsjáanleika í viðskiptum. Ákvæði hennar um einkarétt ríkisins á smásölu eru vægast sagt orðin götótt þegar stór hluti neytenda kaupir áfengi í gegnum netverzlanir, beint af framleiðendum, í gegnum smakkklúbba eða jafnvel af vegasjoppum og matvöruverzlunum með veitingaleyfi. Þá er bann löggjafarinnar við áfengisauglýsingum orðið marklaust og hlægilegt. Áfengisauglýsingar eru alls staðar í miðlaumhverfi íslenzkra neytenda; á samfélagsmiðlum og vefsíðum, í útsendingum íslenzkra fjölmiðla frá viðburðum erlendis, í erlendum blöðum og tímaritum. Þeir sem tapa á banni laganna eru einkum innlendir framleiðendur, innlendir fjölmiðlar og innlend markaðs- og auglýsingafyrirtæki.

Alþingi hefur ekki haft kjark til að taka á áfengislöggjöfinni í heild sinni, en sú umfjöllun sem frumvarp dómsmálaráðherra fékk á þingi bendir til að það sé að breytast.

Í áliti meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem samanstendur af fulltrúum stjórnarflokkanna, auk Samfylkingar og Pírata, er vísað til sjónarmiða FA og fleiri um að mikilvægt sé að fram fari heildstæð endurskoðun á áfengislöggjöfinni í ljósi þeirra breytinga sem hafa átt sér stað í samfélaginu með hliðsjón af aukinni alþjóðavæðingu, tækniframförum og á grundvelli EES-samstarfsins, svo eitthvað sé nefnt. „Nefndin er jafnframt sammála því að það sé tilefni til að endurskoða áfengislögin á grundvelli heildstæðrar stefnumótunar í málaflokknum,“ segir svo í nefndarálitinu.

Auglýsingabann þjónar ekki tilgangi
Í umfjöllun um annað mál á nýafstöðnu þingi, lagafrumvarp um rafrettur og nikótínvörur, komu fram athyglisverð sjónarmið varðandi auglýsingabann. Í áliti meirihluta velferðarnefndar, sem er auk stjórnarflokkanna skipaður fulltrúum Samfylkingarinnar og Flokks fólksins, segir að nefndin telji að ákvæði frumvarpsins um bann við hvers konar auglýsingum á nikótínvörum þjóni „vart tilgangi sínum lengur þar sem slíkar auglýsingar eiga eftir að berast Íslendingum í erlendum miðlum, hvort sem er í gegnum erlenda hljóð- og myndmiðla, erlenda vefi og samfélagsmiðla eða erlend blöð og tímarit.“ Nefndin lagði þó ekki til að bannið yrði tekið úr frumvarpinu, heldur hélt áfram: „Að því sögðu beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að ráðist verði í heildarendurskoðun á reglum um auglýsingar er snerta nikótín-, tóbaks- og áfengisvörur hér á landi svo að heildarumgjörð og markmið laga sem um slík bönn gilda nái tilgangi sínum.“

Það er óneitanlega ný staða að fulltrúar drjúgs meirihluta Alþingis skuli annars vegar reiðubúnir að horfast í augu við að bann við auglýsingum á vörum, sem auglýstar eru með löglegum hætti í nágrannalöndunum, þjóni ekki tilgangi sínum og viðurkenni hins vegar að heildarendurskoðunar á áfengislögunum sé þörf. Það gefur vonandi fyrirheit um að þingið mæti tillögum um víðtæka endurskoðun áfengislöggjafarinnar með jákvæðara hugarfari og meiri kjarki en hingað til.

Nýtt frumvarp í haust
Þegar frumvarp dómsmálaráðherra hafði verið samþykkt, kvaddi hann sér hljóðs og fagnaði því hversu mikil samstaða hefði orðið um breytingarnar í þinginu, en frumvarpið var samþykkt mótatkvæðalaust. „Það gefur auðvitað væntingar til þess að það sé orðið ljóst að það er orðið tímabært að endurskoða þá löggjöf sem við búum við í þessum málum. Hún stenst enga tímans tönn og þær breytingar sem hafa orðið í okkar samfélagi og í kringum okkur gera kröfu til þingsins um að axla þá ábyrgð að innleiða hér breytingar í takt við nýja tíma,“ sagði Jón Gunnarsson.

Í viðtali við Viðskiptablaðið eftir samþykkt frumvarpsins sagði Jón að hann hygðist leggja fram nýtt frumvarp til breytinga á áfengislögum í haust, meðal annars til að eyða réttaróvissu um lögmæti netverzlana með áfengi. Hann vísaði jafnframt til þeirrar vinnu sem í gangi er í dómsmálaráðuneytinu til að skoða hvort bæði einkaréttur ríkisins á smásölu áfengis og auglýsingabannið standist Evrópulöggjöfina. „Við þurfum að kafa ofan í þetta og leggja svo fram frumvarp sem tekur á þessum málum,“ segir ráðherrann.

Öll rök hníga að því að það frumvarp innihaldi ekki bara breytingar varðandi netverzlanir, heldur leyfi einkaaðilum með skýrum hætti hvers konar smásölu áfengis og heimili áfengisauglýsingar, að uppfylltum ströngum skilyrðum eins og t.d. þeim sem gilda í Svíþjóð. Þessum breytingum þarf að fylgja breyting á innheimtu áfengisgjalds, en núverandi fyrirkomulag tekur mið af hinu gamla einokunarfyrirkomulagi. Út frá lýðheilsusjónarmiðum, sem oft er haldið á lofti sem röksemdum gegn breytingum á áfengislöggjöfinni, hlýtur að vera betra að setja reglur um starfsemi sem fram fer óáreitt fyrir allra augum þótt hún sé í orði kveðnu bönnuð (eins og netverzlun með áfengi og áfengisauglýsingar) heldur en að stinga hausnum á bólakaf í sandinn og láta eins og gjörbreytt umhverfi á áfengismarkaðnum sé ekki til.

Breytingarnar verða ekki umflúnar og það er gott að stjórnmálamenn séu farnir að draga höfuðið upp úr sandinum og horfast í augu við það.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Hækkun fasteignamats þýðir þriggja milljarða skattahækkun á fyrirtækin

1. júní 2022

Mikil hækkun á fasteignamati, sem tilkynnt var í gær, hefur að óbreyttu í för með sér þriggja milljarða króna hækkun á fasteignasköttum af atvinnuhúsnæði. Stjórn Félags atvinnurekenda sendi sveitarfélögum landsins í gær áskorun um að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði til að mæta hækkunum á matinu. Þrátt fyrir að sum sveitarfélög hafi lækkað álagningarprósentu, hækkuðu fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði um 70% frá 2015, þegar núverandi aðferð við fasteignamat var fyrst beitt, og fram til síðasta árs. 

Ályktun stjórnar FA er eftirfarandi: 

„Stjórn Félags atvinnurekenda ítrekar áskoranir sínar til sveitarfélaga að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár til að bregðast við miklum hækkunum fasteignamats fyrir árið 2023.

Samkvæmt nýbirtu fasteignamati er hækkun mats atvinnuhúsnæðis 10,2% á landinu öllu; 9,6% á höfuðborgarsvæðinu og 11,5% á landsbyggðinni. Án breytinga á álagningarprósentunni þýðir þetta samsvarandi skattahækkun á fyrirtækin.

FA bendir á að frá því að núverandi tekjumatsaðferð var tekin upp við útreikning fasteignamats atvinnuhúsnæðis fyrir árið 2015 og fram til ársins 2021 hefur álagður fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði á landinu hækkað úr tæplega 17 milljörðum króna á ári í um 28,8 milljarða, eins og sjá má á myndinni hér að neðan – þrátt fyrir breytingar sumra sveitarfélaga á álagningarprósentu. Skattbyrði fyrirtækjanna hefur með öðrum orðum þyngst um 11,8 milljarða eða tæplega 70%. Verði ekki gerðar breytingar á skattprósentunni fyrir næsta ár munu tæpir þrír milljarðar bætast við skattbyrði atvinnulífsins og hækkunin frá 2014 til 2022 nemur þá um 87%.

Heimild: Þjóðskrá, Árbók sveitarfélaga

Að mati FA verður ekki við þessa þróun unað. Mörg fyrirtæki eru að rétta úr kútnum eftir kórónuveirukreppuna. Gífurlegar hækkanir á aðföngum gera fjölda fyrirtækja erfitt fyrir og þau þurfa að leita allra leiða til að velta þeim ekki út í verðlag. Engu að síður er verðbólgan sú hæsta í mörg ár. Framundan eru afar erfiðar kjaraviðræður. Þriggja milljarða skattahækkun sveitarfélaganna er ekki það sem atvinnulífið þarf á að halda við þessar aðstæður. 

Stjórn FA telur að hér verði hvert og eitt sveitarfélag að sýna ábyrgð og gera breytingar á sinni álagningarprósentu þannig að hækkanir á fasteignasköttum skaði ekki atvinnulífið í landinu meira en orðið er. Sveitarstjórnarmenn geta ekki firrt sig ábyrgð og látið „sjálfkrafa“ hækkanir á sköttum renna umræðulaust í sjóði sveitarfélaganna.

FA skorar jafnframt á sveitarfélögin að taka upp viðræður hið fyrsta við ríkisvaldið um breytingar á þessu fráleita kerfi þar sem skattgreiðslur af atvinnuhúsnæði eru beintengdar við þróun fasteignamats og taka þannig sífelldum hækkunum, án nokkurs tillits til gengis atvinnulífsins að öðru leyti.“

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin