Innlent

Aðfanga- og orkuöryggi í brennidepli á fundi EES-ráðsins

Mikilvægi lýðræðislegra og stöðugra markaða og aðfanga- og orkuöryggi voru á meðal umræðuefna á fundi EES-ráðsins sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti í Brussel í gær. 

Ráðherra sat auk þess fundi um alþjóðamál þar sem rætt var um innrás Rússlands í Úkraínu og málefni Norðurslóða. Þá átti Þórdís Kolbrún vinnuhádegisverð með Maros Šefčovič, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB sem fer meðal annars með málefni EES-samningsins, ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein.

Samstarf Íslands og hinna EFTA-ríkjanna innan EES við ESB hefur verið sérstaklega náið síðustu mánuði vegna innrásarinnar í Úkraínu. „Afleiðingar tilhæfulausrar innrásar Rússa í Úkraínu hefur minnt okkur hressilega á hversu mikilvægir lýðræðislegir og stöðugir markaðir, ekki síst innri markaður EES, eru og mikilvægt að ríki sem deila gildum standi saman,“ sagði Þórdís Kolbrún á fundi EES-ráðsins er hún vék máli sínu að því hversu varasamt er að vera um of háð viðskiptum með hrávörur og orkugjafa við ríki sem geta verið háð duttlungum valdhafa. „Það er brýnt að við ræðum þessi mál og að við aukum fjölbreytni á framboðshliðinni og í viðskiptum með slíkar vörur. Það er ekkert áhlaupsverkefni en liður í því er að efla alþjóðaviðskiptakerfið og vinna að stöðugleika á mörkuðum,“ sagði utanríkisráðherra og bætti við að hröðun orkuskipta myndi efla orkuöryggi til lengri tíma litið þar sem Ísland hefði meðal annars miðlað reynslu sinni af nýtingu jarðhita.

Á fundinum var einnig til umræðu staða og framkvæmd EES-samningsins. Þar lagði Þórdís Kolbrún áherslu á mikilvægi samningsins og hversu vel hann hefði staðist tímans tönn og að áfram þyrfti að standa vörð um góða framkvæmd hans. Auk þess tók hún upp undirbúning viðræðna um nýtt samningstímabil Uppbyggingarsjóðs EES og áréttaði þar hve mikilvægt það væri fyrir Ísland að markaðsaðgangur til ESB fyrir sjávarafurðir yrði aukinn og að landbúnaðarsamningur Íslands og ESB yrði endurskoðaður. Hvort tveggja hefur utanríkisráðherra tekið upp á fundum sínum með framkvæmdastjórum ESB í Brussel að undanförnu. Einnig fór utanríkisráðherra yfir sjónarmið Íslands vegna tillagna á vettvangi ESB sem varða loftslagsmál og millilandaflug.

Í ferðinni átti Þórdís Kolbrún einnig tvíhliða fundi með Margrethe Vestager, varaforseta og framkvæmdastjóra samkeppnismála og stafrænnar umbreytingar ESB, og Adinu Vălean, framkvæmdastjóra samgöngumála í framkvæmdastjórn ESB. Þá tók utanríkisráðherra þátt í opnunarathöfn hins svokallaða EFTA-húss sem tekið var í notkun á síðasta ári og hýsir EFTA-skrifstofuna, Eftirlitsstofnun EFTA og skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES. Hélt ráðherra stutt ávarp þar.

EES-ráðið kemur saman til fundar tvisvar á ári og er hlutverk þess einkum að vera pólitískur aflvaki við framkvæmd EES-samningsins. EES-ráðið er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðs ESB. Ísland verður í formennsku í EES-samstarfinu seinni hluta árs 2022.

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 13. – 14. júní 2022

01. júlí 2022

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála, áhættu fjármálafyrirtækja og fjármálakerfis, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðuna á fasteignamarkaði og eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka og um gerð opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika sem Fjármálastöðugleikaráð vinnur að.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% en að halda hlutfallinu fyrir aðra kaupendur óbreyttu í 80%. Nefndin ákvað jafnframt að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið er að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað jafnframt að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Fjármálastöðugleikanefnd ákvað við ársfjórðungslegt endurmat á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi hans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í september sl. mun hann hækka úr 0% í 2% í lok september 2022.

Þá áréttaði nefndin mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.

Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 13. -14. júní 2022 (13.fundur). Birt 1. júlí 2022.

Sjá hér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar

Halda áfram að lesa

Innlent

Tiltekinn fjöldi tapaðra tanna ekki eina forsenda þátttöku sjúkratrygginga vegna slyss

 

Í lögum um sjúkratryggingar er ekki kveðið með tæmandi hætti á um hvaða rétt fólk hefur til fjárhagslegrar aðstoðar vegna tannréttinga. Sama gegndi um reglugerðarákvæði þar að lútandi. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Utanríkisráðherra ávarpar sérstaka umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan

Mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í sérstakri umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan í dag. Ráðherra tók þátt í gegnum fjarfundabúnað. 

„Síversnandi staða mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan er gífurlegt áhyggjuefni. Ekkert ríki í alþjóðasamfélaginu neitar stúlkum um grunnskólamenntun með aðeins einni undantekningu, Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá lagði hún áherslu á að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við afgönsku þjóðina og hvatti til stofnsetningu réttmæts kjörins stjórnvalds sem fulltrúi þjóðarinnar sem virðir jafnframt mannréttindi allra, þar með talið kvenna og stúlkna. 

Ávarp sem utanríkisráðherra flutti á fundinum í dag má lesa í heild sinni hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin