Stjórnarráðið

Aðild Íslands að norrænum samningskaupum á dýrum frumlyfjum lofar góðu

Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð hafa boðið BlueBird Bio, markaðsleyfishafa lyfsins Zynteglo, í sameiginleg norræn samningskaup. Þetta er fyrsta lyfið sem til greina kemur að semja um á þennan hátt í samstarfi þjóðanna. Vonast er til að með aðild að norrænum samningskaupum geti Ísland náð mun hagstæðari kjörum við kaup á dýrum frumlyfjum en hingað til, aukið möguleikana á innleiðingu nýrra lyfja og betur tryggt sjúklingum sambærilega meðferð og stendur til boða sjúklingum hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Fulltrúar allra landanna taka þátt í samningsviðræðunum sem hefjast væntanlega í júní. Markmiðið er að samningsskilmálar verði eins fyrir öll löndin. Hvort lyfjameðferðin verður tekin upp og greiðsluþátttaka samþykkt verður háð ákvörðun hvers lands fyrir sig. Forsenda þess að lyf sé samþykkt á Íslandi er að það hafi verið tekið í notkun hjá öðrum Norðurlandaþjóðum auk þess sem samþykki Lyfjanefndar Landspítala og staðfesting lyfjagreiðslunefndar um greiðsluþátttöku þarf að liggja fyrir.

Grannþjóðir fá um og yfir 40% afslátt í innkaupum

Ný og kostnaðarsöm lyf eru jafnan mun dýrari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Innkaupasambönd sjúkrahúsa í Noregi og Danmörku hafa á síðustu tólf mánuðum náð samningum um kaup á lyfjum með 40% – 46% afslætti af skráðu lyfjaverði. Óhagstætt innkaupsverð veldur því að innleiðing nýrra og dýrra lyfja hér á landi getur reynst mikil áskorun, eins og oft hefur komið fram í umræðu um þessi mál.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir einstaklega ánægjulegt að sjá nú norrænt samstarf í þessum efnum verða að veruleika: „Lyfið sem um ræðir er ekki stóra málið í þessu samhengi. Það sem skiptir máli og er í raun stórfrétt er að hafa náð þessum áfanga í norrænum samningkaupum lyfja. Lyfjakostnaður er hlutfallslega mjög stór og jafnframt ört vaxandi útgjaldaliður í heilbrigðiskerfinu og þar vegur innleiðing nýrra lyfja þyngst. Árangur á þessu sviði getur því skilað miklum fjárhagslegum ávinningi til viðbótar bættri meðferð fyrir sjúklinga.“

Innkaupadeild Landspítala sér um samningskaup og útboð vegna kaupa á lyfjum fyrir sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir hér á landi.

Halda áfram að lesa

Innlent

Guðrún Ágústa og Ólafur aðstoða félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, hefur ráðið Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur og Ólaf Elínarson sem aðstoðarmenn sína.

Guðrún Ágústa var framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands 2015-2020 og verkefnastjóri stefnumótunar hjá Strætó bs. 2014 – 2015. Hún var bæjarfulltrúi fyrir VG í Hafnarfirði 2006 – 2015, þar af bæjarstjóri 2012 – 2014. Guðrún Ágústa lauk BA prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og diplómanámi í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla árið 1993. Þá lauk hún námi í kennsluréttindum árið 2000 og diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands 2021. Guðrún Ágústa á þrjár dætur og sex barnabörn.

Ólafur starfaði sem sviðsstjóri markaðsrannsókna hjá Gallup frá 2017 og áður sem viðskiptastjóri hjá sama fyrirtæki frá 2007-2017. Þar áður var hann sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Ólafur hefur kennt við bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík frá árinu 2002. Ólafur er með BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands og situr í stjórn UN Women. Eiginkona Ólafs er séra Eva Björk Valdimarsdóttir prestur í Fossvogsprestakalli og eiga þau tvö börn. 

Guðrún Ágústa hefur þegar hafið störf í ráðuneytinu og Ólafur hefur störf síðar í mánuðinum.

Halda áfram að lesa

Innlent

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpaði málþing um jafnrétti á norðurslóðum

Mikilvægi kynjajafnréttis fyrir sjálfbæra þróun á norðurslóðum var helsta umfjöllunarefnið í ávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á málþingi um jafnréttismál á norðurslóðum. Málþingið er hluti af fyrirlestraröðinni Vísindi á norðurslóðum, sem er samstarfsverkefni sendiráðs Íslands í Ottawa, sendiráðs Kanada í Reykjavík, Polar Knowledge Canada og Norðurslóðanets Íslands. 

Þórdís Kolbrún lagði áherslu á mikilvægi jafnréttis á svæðinu þegar hún opnaði málþingið í dag. „Jafnrétti kynjanna er forsenda sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum og undirstaða samfélagslegrar velferðar og stöðugleika. Um er að ræða grundvallar mannréttindi sem leggja grunninn að eftirsóknarverðu og réttlátu samfélagi,“ sagði hún í ávarpinu.

Jafnrétti kynjanna er einn af megin þáttum í starfi Íslands á alþjóðavettvangi og hefur Ísland lengi lagt sérstaka áherslu á jafnréttismál á norðurslóðum. Málaflokkurinn var meðal áherslusviða í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu árin 2019-2021 og hefur Ísland einnig stutt við verkefnið Kynjajafnrétti á norðurslóðum (e. Gender Equality in the Arctic – GEA) allt frá því að það var sett á laggirnar árið 2013. 

Á málþinginu var rætt um alþjóðlega skýrslu GEA um stöðu kynjajafnréttis á norðurslóðum sem kom út síðasta vor. Að baki skýrslunni standa tíu aðalhöfundar auk um 80 meðhöfunda og var mikil áhersla lögð á samstarf og virka þátttöku samstarfs- og hagaðila við undirbúning og vinnslu skýrslunnar.

„Skýrslan sýnir meðal annars fram á mikilvægi þess safna þurfi kyngreindum gögnum í tengslum við sérstöðu norðurslóða. Gögn og tölfræði sem varpa ljósi á mismunandi sjónarmið fólks eða áhrif breytinga á líf þess, eru lykilatriði fyrir upplýsta stefnumótun.“ sagði Þórdís Kolbrún. 

Fyrirlestraröðin Vísindi á norðurslóðum er hluti af verkefnum tengdum 75 ára afmæli stjórnmálasamskipta Íslands og Kanada.

Skýrslur GEA má finna á heimasíðu verkefnisins.

Halda áfram að lesa

Innlent

Tvær umsóknir bárust um embætti ríkislögmanns

Forsætisráðuneytinu bárust tvær umsóknir um embætti ríkislögmanns en umsóknarfrestur rann út 15. janúar sl. Umsækjendur um embættið eru Fanney Rós Þorsteinsdóttir, lögmaður hjá embætti ríkislögmanns, og Þórhallur Haukur Þorvaldsson hæstaréttarlögmaður.

Ríkislögmaður fer með rekstur dómsmála fyrir ríkið og stofnanir þess. Embættið sinnir einnig málflutningi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og EFTA-dómstólnum. Þá geta ráðherrar óskað lögfræðilegs álits ríkislögmanns um einstök málefni.

Forsætisráðherra mun skipa í embættið til fimm ára frá 1. mars nk.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin