Félag atvinnurekenda

Ætlar ekki að verja tollakerfi sem veldur vöruskorti

15. september 2021

Ólafur Stephensen og Bjarni Benediktsson ræða saman í Kaffikróknum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, segist ekki ætla að verja kerfi sem valdi vöruskorti, eins og gerst hefur undanfarið vegna hárra tolla á grænmeti. Hann telur að netverslun með áfengi sé lögleg, svo lengi sem um raunveruleg milliríkjaviðskipti sé að ræða og vill afnema bann við áfengisauglýsingum og leyfa þær með skilyrðum. Bjarni var gestur Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Kaffikróknum í dag. Hægt er að horfa á samtal þeirra í spilaranum hér að neðan.

Hvar er hægt að færa okkur úr gömlu regluverki tollverndar?
Ólafur spurði Bjarna meðal annars út í háa blómatolla, sem leggjast þungt á blómaverslun og neytendur og sagðist Bjarni þeirrar skoðunar að jafna þyrfti aðstöðu innlendra búvöruframleiðenda gagnvart samkeppni við innflutta vöru, sem væri jafnvel framleidd með ríkisstyrkjum. Í Noregi hefðu afleiðingar af fríverslunarsamningum við Afríkuríki verið ófyrirséðar; norsk blómarækt hefði nánast lagst af. Hann ræddi drög að nýrri landbúnaðarstefnu, sem rædd voru í ríkisstjórninni í vikunni og sagði að spyrja þyrfti hvar sóknarfæri íslensks landbúnaðar lægju. „Hvar gætum við fært okkur úr gömlu regluverki tollverndar fyrir einstaka vörur, sem eru ekki endilega að fara að skapa mörg störf á Íslandi og hvar gætum við sótt fram, jafnvel þannig að við færum að flytja út,“ sagði Bjarni. Hann sagði að hægt væri að flytja út t.d. ákveðnar grænmetistegundir ef stuðningnum væri beint í réttar áttir. Þá þyrfti að beina styrkjum í auknum mæli í t.d. landvörslu, ræktun lands og þátttöku í kolefnisbindingu og hverfa í leiðinni frá vernd vegna framleiðslu sem ætti sér litla framtíð eða þar sem Ísland hefði ekki samkeppnislega yfirburði.

Ólafur ræddi það sem FA vakti athygli á í síðustu viku, að vegna hárra tolla er skortur á selleríi í landinu. Í svipað ástand gæti stefnt varðandi t.d. blómkál, spergilkál og hvítkál. Grænmetisbændur hefðu sjálfir farið fram á að tollar yrðu felldir niður en þeir fengju á móti beingreiðslur eins og gerðist þegar tollar af ylræktuðu grænmeti voru felldir niður á sínum tíma. Ríkið hefði hins vegar ekki verið til viðræðu um það. „Þýða þá ekki þessi nýju stefnudrög að menn ætli einmitt frekar að fara slíkar leiðir?“ spurði Ólafur.

„Mér finnst það og ég ætla auðvitað aldrei að verja að við komum upp kerfi sem leiðir til vöruskorts í einstökum tegundum,“ svaraði Bjarni. „Við viljum upplifa að við búum í opnu, frjálsu markaðshagkerfi þar sem það er ekki óeðlilegt að vara fari á milli landa og að neytandinn hafi raunverulegt val. Ég trúi því að íslenskir bændur geti sinnt markaðnum með framúrskarandi góðri vöru og þeir geti líka notið nálægðar við markaðinn og það sé eftirspurn eftir innlendri framleiðslu. En í sumu borgar sig ekki fyrir okkur að reyna að keppa.“

Sér ekki lögbrotið í netverslun með áfengi ef um milliríkjaverslun er að ræða
Bjarni var spurður út í fyrirspurnir FA til ráðuneyta um lögmæti netverslunar með áfengi, en undirstofnun fjármálaráðuneytisins, ÁTVR, hefur farið fram með kærum á hendur netverslunum. Bjarni var sömuleiðis spurður út í ummæli Finns Oddssonar, forstjóra Haga, í Viðskiptamogganum í dag, um að Hagar séu í startholunum með vefverslun með áfengi en lagaramminn um áfengissölu sé það óskýr að fjöldi fyrirtækja sé að velta fyrir sér á degi hverjum hvað má og hvað má ekki. Slíkur óskýrleiki valdi sóun af versta tagi.

Bjarni svaraði því til að sjálfstæðismenn hefðu viljað höggva á hnútinn með frumvarpi sem tæki af vafa um að innlend vefverslun væri leyfileg, en ekki hefði verið samhljómur innan ríkisstjórnarinnar um það mál og hann efaðist um að þingmeirihluti hefði verið fyrir því. Bjarni sagði að tímarnir væru breyttir og auðvelt að kaupa áfengi frá öðrum löndum. „Það getur varla verið vafa undirorpið samkvæmt mínum skilningi á lögunum og umhverfinu sem við störfum í, að þrátt fyrir ákvæði laganna um að ÁTVR megi ein afhenda áfengi á Íslandi, tryggi EES-samningurinn frjálst vöruflæði, líka fyrir þessa vöru, á Evrópska efnahagssvæðinu. Að því marki sem íslenskir aðilar með einum eða öðrum hætti eru að stunda milliríkjaviðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu, þá sé ég ekki í hverju lögbrotið á að felast. Það sem ég held að ÁTVR sé að segja er: „Þetta eru ekki eiginleg milliríkjaviðskipti heldur einhvers konar gervimilliríkjaviðskipti. Eiginlega er verið að fara gegn ákvæðinu um einkarétt ÁTVR á afhendingu áfengis á Íslandi.“ Til þess að taka á þessu máli væri langbest að löggjafinn veitti skýrari svör. Mín skoðun er að við eigum að heimila slíka netverslun innanlands og hún ætti ekki að vera bundin við að vera milli ríkja.“

Bjarni sagði að það væri þannig best að Alþingi hyggi á hnútinn, kæmi inn í nútímann og viðurkenndi að netverslun með áfengi væri sjálfsagt mál.

Best að leyfa áfengisauglýsingar innan skynsamlegs ramma
Ólafur spurði út í bann við áfengisauglýsingum, sem gildir í orði kveðnu, en áfengisauglýsingar eru engu að síður víða, í erlendum miðlum sem Íslendingar hafa greiðan aðgang að, og á samfélagsmiðlum. Bjarni var spurður hvort ekki væri ástæða til að setja reglur um áfengisauglýsingar, í stað þess að láta eins og þær væru ekki til. „Mér finnst það. Ég ætla ekki að gerast talsmaður þess að auglýsingar séu alfarið frjálsar, ég held að það séu gild rök fyrir að það sé ákveðinn rammi utan um slíkar auglýsingar og sérstakt tillit þurfi að taka til barna. Að öðru leyti er þetta löngu tapað stríð, þótt ekki sé nema vegna þess að við höfum aðgengi að svo mörgum alþjóðlegum miðlum,“ sagði fjármálaráðherra.

Bjarni sagði að Íslendingar væru neytendur að áfengisauglýsingum hvað sem liði innlendu löggjöfinni. „Mín skoðun er sú að það væri langbest að koma þarna líka inn í nútímann, setja þessu eitthvert gott regluverk og leyfa þessu að gerast innan einhvers skynsamlegs ramma, frekar en að horfa í hina áttina þegar allar 0,0% auglýsingarnar eru birtar.“

Félag atvinnurekenda

Tækifæri til að koma viti í áfengismarkaðinn

13. október 2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á Vísi 13. október 2021.

Félag atvinnurekenda hefur að undanförnu ítrekað vakið athygli á furðulegri stöðu, óvissu og þversögnum, sem uppi eru á áfengismarkaðnum á Íslandi. Nú þegar stjórnarflokkarnir sitja og ræða áframhaldandi samstarf er frábært tækifæri til að leggja drög að því að koma viti í þennan markað. Löggjöf um áfengisviðskipti þarf að endurspegla nútímalega viðskiptahætti, tryggja jafnræði og eyða óvissu. Til þess þarf heildarendurskoðun á henni, eins og FA hefur ítrekað hvatt til og í fyrsta sinn virðast stjórnvöld til viðtals um slíka endurskoðun.

Einkaréttur – en samt ekki
Fyrsta þversögnin sem blasir við er að ríkið (eða Ríkið) hefur einkarétt á smásölu áfengis í orði kveðnu, en engu að síður eru nú orðnar til ýmsar leiðir framhjá þeim einkarétti og margir hafa orðið til að nýta sér þær. Sú leið sem er mest áberandi þessa dagana er netsala á áfengi, sem 3-4 fyrirtæki stunda. Það er líka opinbert leyndarmál að sum minni brugghús, einkum á landsbyggðinni, selja gestum sínum áfengi til að hafa með sér að heimsókn lokinni. Þá kaupa býsna margir vín til eigin nota í gegnum svokallaða smakkklúbba eða svipað fyrirkomulag – áfengi sem hefur enga viðkomu í Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins (ÁTVR). Loks getur hver sem er pantað sér áfengi frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og fengið sent heim til sín.

Hvað netsöluna varðar, er mikil óvissa uppi. ÁTVR hefur tekið sér einhvers konar eftirlitsvald, sem stofnuninni er ekki fengið með lögum, og kært netverzlanir til ýmissa stofnana; lögreglu, sýslumanna og skattayfirvalda. Ekkert þeirra embætta hefur aðhafzt í málinu, mögulega vegna þeirrar lagalegu óvissu sem ríkir um málið eins og vikið er að hér að neðan – dómsmálaráðuneytið treystir sér ekki til að svara því skýrt hvað megi og hvað megi ekki varðandi netverzlun með áfengi. ÁTVR lætur hins vegar ekki þar við sitja, heldur hefur höfðað einkamál gegn netverzlunum fyrir dómstólum og krefst þess að þær hætti starfsemi að viðlögðum dagsektum og greiði ríkisbúðinni bætur.

ÁTVR heyrir beint undir fjármálaráðuneytið, sem virðist ekki hafa gripið inn í þessa vegferð stofnunarinnar. Á sama tíma segir fjármálaráðherrann þó að hann sjái ekkert athugavert við netverzlun með áfengi. Óhætt er að segja að það sé skrýtin staða.

Óvissuástand en óskýr svör frá stjórnvöldum
Í Félagi atvinnurekenda eru bæði fyrirtæki sem hafa hug á að koma ný inn í netverzlun með áfengi og önnur, sem hafa lengi flutt inn og/eða framleitt áfengi og sjá sér varla annað fært en að bregðast við þessari nýju samkeppni. Fyrirtækin eru þó skiljanlega hikandi við að stíga skref, sem kalla á að opinber stofnun veitist að þeim með kærum og málshöfðunum. FA hefur því í þrígang sent stjórnarráðinu erindi og farið fram á að spurningum um lögmæti netverzlunar með áfengi verði svarað. Rúmum átta vikum eftir að fyrsta erindið var sent kom loks svar frá dómsmálaráðuneytinu, sem má skilja þannig að innlend netverzlun sé óheimil, en ráðuneytið lætur ósvarað t.d. spurningu um hvort netverzlun í öðru EES-landi, sem afhendir áfengi beint úr vöruhúsi á Íslandi, sé lögleg. Óvissan er því áfram til staðar.

Óvissa í viðskiptum er alltaf slæm, enda er hún bæði kostnaðarsöm og skaðleg. Lagaleg óvissa um heila atvinnugrein er óréttlætanleg, þar sem hún getur auk þess búið til fjárhagslegan ávinning fyrir þá sem er tilbúnir að brjóta lög og/eða þola refsingu fyrir þá háttsemi sem óvissan snýr að. Þeir aðilar á markaði sem ekki vilja taka (eða telja sig ekki geta tekið) slíka áhættu, verða þá (í það minnsta á meðan óvissan varir) undir í samkeppni og tapa markaðshlutdeild. Þannig umbunar aðgerðaleysi stjórnvalda þeim sem láta lagalega óvissu ekki stöðva sig og skaðar þá sem setja löghlýðni framar fjárhagslegum ábata.

Þrátt fyrir hina lagalegu óvissu má ljóst vera að hengiflug ólögmætisins er þarna einhvers staðar enda eru öllum viðskiptum sett ákveðin mörk. Þegar um áfengisverzlun er að ræða er hins vegar ljóst að fyrirtækin ganga að þeirri brún með bundið fyrir augun. Sá sem lengst er tilbúinn til að ganga fær við þessar aðstæður mesta umbun, eða allt þar til hann fer fram af. Þetta getur ekki verið það rekstrarumhverfi sem við viljum búa við.

Auglýsingabann – en samt ekki
Önnur mjög sýnileg þversögn er þessi: Áfengisauglýsingar eru í orði kveðnu bannaðar en blasa engu að síður við okkur daglega. Þær eru í erlendum miðlum, sem Íslendingar hafa aðgang að. Þær eru í íslenzkum miðlum, til dæmis þegar þeir sýna frá íþróttaviðburðum erlendis. Þær eru á alþjóðlegum samfélagsmiðlum, þótt jafnvel sé verið að auglýsa íslenzkar vörur og íslenzk fyrirtæki, ekki sízt áðurnefndar netverzlanir. Síðast en ekki sízt eru í íslenzkum miðlum svokallaðar léttölsauglýsingar, sem eru áhugaverður hliðarveruleiki; þar eru auglýst þekkt áfengisvörumerki og það er í lagi ef orðið „léttöl“ er að finna í auglýsingunni. Bann áfengislaganna við áfengisauglýsingum bitnar fyrst og fremst á innlendum áfengisframleiðendum, sem eru meiri skorður settar en stórum alþjóðlegum vörumerkjum og innlendum fjölmiðlum, sem verða af tekjum af áfengisauglýsingum.

Látið eins og starfsemin sé ekki til
Þriðja þversögnin er sú að vegna þess að íslenzk lög gera ráð fyrir að ákveðin starfsemi sé bönnuð, gilda ekki um hana neinar reglur þótt hún fari fram fyrir allra augum og án þess að yfirvöld grípi inn í hana. Þetta á við um netverzlun með áfengi, sölu á framleiðslustað og áfengisauglýsingar á samfélagsmiðlum, svo dæmi séu tekin. Það er bara látið eins og þetta sé ekki til.

Það er löngu kominn tími til að hætta þeirri hræsni og tvískinnungi sem lýst hefur verið hér að framan og setja áfengismarkaðnum lagaramma sem tryggir að þar fari fram frjáls viðskipti og eðlileg markaðssetning eins og í öðrum geirum vöruviðskipta, en með regluverki sem tekur mið af því að áfengi er ekki eins og hver önnur neyzluvara. Þar má nefna sem dæmi hvenær má afhenda vörur frá netverzlun, hvernig áfengisauglýsingar eru úr garði gerðar, að hvaða aldurshópum þær beinast o.s.frv. Slík nálgun er mun líklegri til að þjóna t.d. lýðheilsu- og forvarnamarkmiðum en að stinga höfðinu í sandinn og láta eins og ofangreind starfsemi sé ekki til.

Heildarendurskoðun er eina leiðin
Það jákvæða við áðurnefnt svar dómsmálaráðuneytisins til FA er að þar kemur fram sú afstaða ráðuneytisins að áfengislögin séu úrelt, m.a. vegna tækniþróunar og grózkunnar í innlendri áfengisframleiðslu, og þurfi heildarendurskoðunar með. Það er rétt – eina leiðin út úr því óvissuástandi og rugli sem þessi markaður er kominn í, er nefnilega að fram fari endurskoðun á öllum lagarammanum, eins og FA hefur ítrekað hvatt til. Aðrir en ríkið fái skýra heimild til smásölu áfengis og ÁTVR verði lögð niður, enda verður þá engin þörf fyrir hana. Áfengisauglýsingar verði heimilaðar með skýrum takmörkunum. Loks er nauðsynlegt að breyta um leið lögum um innheimtu áfengisgjalds, enda taka þau mið af gamla einokunarfyrirkomulaginu.

Áfengið á að vera á stjórnarmyndunarborðinu
Þetta ætti að vera eitt af umræðuefnunum við borðið þar sem nú er rætt um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Áfengisframleiðsla á Íslandi er til dæmis einn af líflegustu og áhugaverðustu vaxtarbroddunum í íslenzkum matvælaiðnaði og ferðaþjónustu, sem stjórnarflokkarnir segjast vilja styðja. Það er ekki hægt að búa þeirri grein jafnóskýrt og -þversagnakennt rekstrarumhverfi og hér hefur verið lýst.

Grein Ólafs á Vísi

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Ráðuneytið lætur lykilspurningum ósvarað – en vill heildarendurskoðun á áfengislögum

12. október 2021

Dómsmálaráðuneytið hefur svarað fyrirspurn Félags atvinnurekenda, sem upphaflega var beint til fjármálaráðuneytisins 9. ágúst, um lögmæti netverslunar með áfengi. Af svari ráðuneytisins má ráða að það telji innlenda netverslun með áfengi óheimila án lagabreytingar. Spurningum FA um önnur form netverslunar, til að mynda þegar netverslun er skráð í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðsins en afhendir vörur beint úr vöruhúsi á Íslandi, er ekki svarað í bréfi ráðuneytisins.

FA ítrekar beiðni um svör
FA beindi þremur spurningum til stjórnvalda:

  1. Er netverslun áfengisframleiðanda með staðfestu á Íslandi í samræmi við lög?
  2. Er netversun fyrirtækis með staðfestu í öðru EES-ríki, sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?
  3. Er netverslun fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (t.d. Bretlandi) sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?

Í bréfi dómsmálaráðuneytisins kemur fram að smásala sé nú eingöngu heimil Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem hafi einkaleyfi til slíkrar starfsemi. Þá er rifjað upp að frumvarp dómsmálaráðherra um heimild til reksturs innlendra netverslana með áfengi í smásölu til neytenda hafi verið lagt fyrir ríkisstjórn en ekki náð fram að ganga. „Það var mat dómsmálaráðherra að þörf væri á breytingum á áfengislögum til að heimila innlenda netverslun að ákveðnum skilyrðum uppfylltum,“ segir í bréfi ráðuneytisins.

Svör við spurningum 2 og 3 er ekki að finna í bréfi ráðuneytisins og segir það leiðbeiningaskyldu sína ekki ná til „lögskýringa í tengslum við öll þau lagalegu álitaefni sem kunna að rísa á grundvelli laga sem undir ráðuneytið heyrir.“

FA hefur sent ráðuneytinu svarbréf, þar sem ósk um svör við seinni spurningunum tveimur er ítrekuð og bent á mikilvægi fyrirsjáanleika og öryggis í viðskiptum. „Dæmi þess að stjórnvöld gefi út leiðbeiningar um gildi laga og hvernig borgararnir geti hagað sér innan ramma þeirra eru fjölmörg enda er slíkt í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti. Að láta stórar atvinnugreinar vaða í reyk og svælu í lagalegri óvissu án þess að vísa þeim leið er hins vegar dæmi um hið gagnstæða,“ segir í bréfi FA.

Mikilvægt að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum
Í bréfi ráðuneytisins er rakið að áfengislög hafi ekki tekið efnislegum breytingum í langan tíma og byggi að mestu leyti á lögum frá 1969. „Færa má rök fyrir því að lögin hafi ekki þróast í takt við þá samfélagslegu þróun sem orðið hefur á undanförnum árum og á það einnig við um breytt mynstur verslunar, þá sérstaklega hvað varðar netverslun, innlenda sem erlenda. Þá hefur orðið mikil gróska í innlendri framleiðslu sem vart þekktist við gildistöku laganna. Á undanförnum árum hafa komið upp ýmis álitaefni sem hafa bent til þess að mikilvægt sé að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum til að þau endurspegli breytta þróun á sviði verslunar og framleiðslu áfengis hér á landi,“ segir í erindi ráðuneytisins.

Undir þetta er tekið í svarbréfi FA, en félagið hefur ítrekað hvatt til heildarendurskoðunar á áfengislöggjöfinni. FA hefur lagt áherslu á að samhliða breyttu sölufyrirkomulagi, þar sem einkaaðilum er leyft að selja áfengi í smásölu, verði bannið við áfengisauglýsingum afnumið, enda er það orðið orðin tóm og nær engan veginn tilgangi sínum. Um leið yrðu settar reglur um hvernig áfengisauglýsingar yrðu úr garði gerðar. FA hefur ennfremur lagt áherslu á að samhliða þessum breytingum yrði ákvæðum laga um innheimtu áfengisgjalds breytt.

„FA og félagsmenn þess lýsa sig reiðubúin að taka þátt í slíkri heildarendurskoðun á lagarammanum um sölu, markaðssetningu og gjaldtöku af áfengi ásamt ráðuneytinu og öðrum hagsmunaaðilum. Félagið telur sig hafa þar mikilvægri þekkingu, sjónarmiðum og gögnum að miðla. Í ljósi hinnar óvissu stöðu á áfengismarkaðnum telur félagið brýnt að þessi vinna hefjist sem allra fyrst,“ segir í svari FA til dómsmálaráðuneytisins

Bréf ráðuneytisins til FA 8. október 2021
Svar FA til ráðuneytisins 12. október 2021

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Blómkál nánast ófáanlegt og lítið til af spergilkáli

8. október 2021

Neytendur taka íslenskt grænmeti oftast fram yfir innflutt. En þegar það íslenska er ekki til, ættu ekki að vera ofurtollar á því innflutta.

Blómkál er nánast ófáanlegt og lítið er til af spergilkáli í matvöruverslunum þessa dagana. Ástæðan er að á sama tíma og mjög lítið framboð er af innlendri uppskeru eru lagðir svo háir tollar á innflutta vöru að innflutningsfyrirtæki hafa ekki treyst sér til að flytja hana inn nema í litlum mæli. Skortur á þessum vörum bætist við skort á selleríi, sem hefur verið viðvarandi frá því í ágúst. Félag atvinnurekenda telur brýnt að breyta lagaákvæðum sem leggja háa tolla á innflutning á tíma þegar lítið er til af innlendri framleiðslu.

Innlendir dreifingaraðilar hafa undanfarna viku fengið innan við 10% upp í pantanir sínar af blómkáli og spergilkáli og ekkert sellerí. Fram til 15. október leggjast háir tollar á þessar vörur. Á allt þetta grænmeti er lagður 30% verðtollur en að auki fastur magntollur á kíló sem er  176 krónur fyrir blómkál og spergilkál og 276 krónur fyrir sellerí. Þetta getur valdið tvö- til þreföldun á innkaupsverði varanna.

Alþingi setti tollana inn
Árið 2019 flutti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frumvarp sem fól í sér ýmar breytingar á tollaumhverfi innflutnings búvara. Felld voru niður úr búvörulögum ákvæði sem heimiluðu ráðherra að gefa út svokallaðan skortkvóta ef innlenda framleiðslu vantar á markaðinn en þess í stað skilgreind fastákveðin tímabil, sem flytja má inn viðkomandi vöru, aðallega grænmeti, á lægri eða engum tolli. Í frumvarpi ráðherra var gert ráð fyrir að blómkál, spergilkál og sellerí yrði flutt inn án tolla allt árið. Atvinnuveganefnd Alþingis breytti hins vegar frumvarpinu á þann veg að tollar leggjast á þessar vörur hluta ársins; frá 1. júlí til 15 október á spergilkál og frá 15. ágúst til 15 október á blómkál og sellerí. Nefndin þrengdi einnig tímabil tollfrjáls innflutnings á ýmsum öðrum grænmetistegundum verulega frá frumvarpi ráðherra.

FA varaði þá þegar við afleiðingunum og benti á að reglulega myndi koma upp skortur á tilteknum grænmetistegundum. Niðurstaðan yrði annaðhvort að þær yrðu ófáanlegar eða innflutningur yrði á miklu hærra verði en þyrfti að vera, þótt engin innlend vara væri til. Það hefur síðan komið á daginn varðandi t.d. kartöflur, gulrætur, sellerí, blómkál og spergilkál. Dreifingaraðilar hafa áhyggjur af að næst verði skortur á innlendu hvítkáli, en tollar leggjast á hvítkál frá byrjun ágúst og út árið.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem FA hefur aflað sér er líklegt að eitthvað verði flutt inn í næstu viku af blómkáli og spergilkáli til að bæta úr brýnum skorti, en ljóst er að varan verður að minnsta kosti tvöfalt dýrari en hún yrfti að vera vegna hinna háu tolla.

FA hvetur ráðuneyti og þing til að flýta endurskoðun
Samkvæmt þeim breytingum, sem gerðar voru á búvörulögunum 2019 ber sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurmeta tollverndartímabilin á tveggja ára fresti og er nú komið að fyrstu endurskoðuninni. FA hefur hvatt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til að hraða þeirri vinnu.

„Þetta ástand er augljóslega óviðunandi og bitnar hart á neytendum. Varan er ýmist ekki til eða kostar alltof mikið,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdatjóri FA. „Eitt af markmiðum búvörulaga er að nægjanlegt vöruframboð sé ávallt tryggt við breytilegar aðstæður í landinu. Það markmið næst augljóslega ekki eins og lögin eru nú úr garði gerð og blasir við að Alþingi þurfi að breyta þeim. Best væri að það gerðist sem allra fyrst eftir að þing kemur saman í haust.“

Ólafur bendir á að tollvernd sé í raun ónauðsynleg fyrir þessar vörur, blómkál, spergilkál og sellerí. „Innlenda uppskeran selst alltaf upp. Neytendur eru reiðubúnir að greiða fyrir hana talsvert hærra verð en fyrir innflutt grænmeti. Það er einfaldlega engin þörf á verndartollum í þessu tilviki.“

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin