Veður

Afkoma íslensku jöklanna var lítillega neikvæð árið 2020

Breytingar á jaðri Breiðamerkurjökuls frá lokum 19. aldar.


6.7.2021

Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing og skýr­asti vitnis­burð­ur um hlýn­andi loftslag hérlendis. Á árinu 2020 hopuðu jökul­sporðar víða um tugi metra en nokkrir brattir skriðjöklar gengu svolítið fram. Af þeim jöklum sem mældir eru af sjálf­boða­lið­um Jöklarannsóknafélags Íslands hop­aði Breiða­merkurjökull mest þar sem kelfir af hon­um í Jökulsárlón, milli 100 og 250 m árið 2020. Einnig brotnaði af Heinabergsjökli í lón við jaðarinn og styttist sporðurinn við það um rúmlega 100 m. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi á vegum verkefnisins „Hörfandi jöklar“. Verkefnið er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs, fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og unnið í samvinnu við Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans og Náttúrustofu Suðausturlands.

KB-LMI_Flaajokull_2020_LabeledKB-LMI_Flaajokull_1989_Labeled

Flugsýn af tungu Fláajökuls 1989 og 2020. Myndirnar byggja á ljósmyndum sem teknar voru úr flugvél 1989 og flygildi 2020 og landlíkönum sem reiknuð voru á grundvelli myndanna og sýna vel lækkun yfirborðs jökulsins á rúmlega 30 ára tímabili.  (Myndvinnsla: Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee).

Afkoma ársins 2020

Afkoma stærstu íslensku jöklanna hefur verið nei­kvæð síðan 1995 með einni undantekningu, afkoma ársins 2015 var jákvæð í fyrsta sinn í 20 ár. Árið 2016 mældist afkoman aftur neikvæð eins og flest undan­farin ár og einnig fyrir Langjökul og Hofsjökul árið 2017 en Vatnajökull var þá nærri því að vera í jafnvægi. Allir þrír jöklarnir voru nærri jafnvægi 2018. Sumarið 2019 var mjög hlýtt og mældist afkoma allra þriggja jöklanna þá neikvæð en sumarið 2020 var nokkru kaldara. Afkoma allra jöklanna þriggja var neikvæð 2020 en ekki eins mikið og árið áður. Jökl­arnir hafa alls tapað um 250 km3 íss síðan 1995 sem er um 7% af heildarrúmmáli þeirra.

Lhv-mb-til-2020-rb

Árleg og uppsöfnuð afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá upphafi mælinga á hverjum jökli samkvæmt gögnum Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Þessir jöklar geyma yfir 95% af rúmmáli íss í jöklum landsins. Taflan sýnir vatnsgildið, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn sem hann tapar/græðir á ári hverju.

Íslensku jöklarnir hafa rýrnað um u.þ.b. 600 km3 síðan undir lok 19. aldar

Gögn um útbreiðslu jöklanna á mismunandi tímum og afkomumælingar síðustu áratuga má nota til þess að greina breytingar á rúmmáli jöklanna síðan þeir voru nærri sögulegu hámarki á síðari hluta 19. aldar. Jöklarnir eru nú um 3400 km3 að rúmmáli og hafa tapað um 600 km3 á þessu tímabili. Rýrnunin var hröðust á árunum 1930–1950 og eftir 1995. Kortið af Langjökli hér til hliðar með jökuljöðrum á mismunandi tímum, sýnir dæmi um gögn sem liggja þessu mati til grundvallar.

Langjokull-kort-fyrir-frettabref

Jaðar Langjökuls um 1890, 1945-1946, um 1973, 2000, 2007 og 2019.

Nálgast má fréttabréfið í heild sinni hér.

Veður

Lítið jökulhlaup úr Hafrafellslóni við Langjökul

13.7.2021

Jaðarlón hefur myndast eftir aldamótin síðustu við vestanverðan Langjökul, undir Hafrafelli. Í lónið safnast leysingarvatn úr jöklinum að sumarlagi og þar áttu jökulhlaup upptök sín árin 2014, 2017 og 2020. Hlaupin bárust í farveg Svartár, sem síðan fellur í Geitá og Hvítá, norðaustan Húsafellsskógar.

Heimamenn urðu varir við hlaup í Svartá mánudaginn 12. júlí og litur kom á Hvítá samdægurs. Vatnshæðarmælir við Kljáfoss sýndi að rennsli jókst úr 75 m3/s kl. 9 að morgni í 100 m3/s kl. 03:30 að morgni 13. júlí. Eftir það hefur rennslið farið minnkandi á ný.

Hlaupvatnið hefur að öllum líkindum komið úr Hafrafellslóninu, sem síðast hljóp 17.-18. ágúst 2020. Í því hlaupi mældist rennsli öllu meira, um 260 m3/s við hámarkið. Hlaupið sem nú er í rénun virðist hins vegar dragast meira á langinn auk þess sem það reis hægar.

Hiti mældist 24°C á Húsafelli sl. laugardag (10.7.) og hafa þau hlýindi eflaust leitt til umtalsverðrar leysingar á jöklinum og afrennslis í lónið. Búast má við að myndun ísganganna í hlaupinu í fyrra hafi minnkað fyrirstöðu gagnvart útrennsli úr lóninu.

Aðstæður á vettvangi verða kannaðar í dag (13.7.). Hér er um minni háttar hlaup að ræða og skemmdir engar svo vitað sé. Hafrafellslónið verður áfram vaktað með reglubundinni skoðun gervitunglamynda og viðvaranir gefnar út ef ástæða er til.

  SENTINEL-2-tunglmynd-af-Langjokli-2021

SENTINEL-2 tunglmynd af Langjökli, tekin 3. júlí 2021. Leysing er hafin á jöklinum og blágrænn jökulís kemur í ljós þar sem vetrarsnjór hefur bráðnað. Hafrafellslónið er tekið að safna í sig leysingarvatni.

Rennsli-Hvitar-i-Borgarfirdi

Rennsli Hvítár í Borgarfirði við Kljáfoss 10.-13. júlí 2021. Hlaupvatn nær mælinum um kl. 9 að morgni 12. júlí og hlaupið nær hámarki kl. 03:30 að morgni 13. júlí.

Halda áfram að lesa

Veður

Leysingaflóð á Norðurlandi í rénun

Bægisá í gær mældis 27 m3/s nálægt hámarki. Ljósmynd: Njáll Fannar Reynisson


2.7.2021

Mikil hlýindi hafa verið á norðanverðu landinu undanfarna viku með tilheyrandi leysingu og þar af leiðandi flóðum í ám og lækjum. Vorið var kalt á svæðinu og t.d. var meðalhiti maímánaðar á Akureyri um 1,5°C undir meðallagi í samanburði við undanfarna áratugi og hélst þessi kuldatíð fram yfir miðjan júnímánuð. Af þessum sökum hefur snjó til fjalla ekki leyst fyrr en með miklum hita og vindi undir lok júnímánaðar. Taka má sem dæmi að síðastliðna viku hefur hiti á Akureyri ekki farið niður fyrir 10°C um nætur og farið allt upp í 25°C yfir daginn. Miklir vatnavextir og staðbundið tjón hefur verið á svæðinu og er um að ræða stærstu flóð sem mælst hafa í Bægisá og Hörgá en flóðið í Fnjóská er á pari við flóð sem varð þar í júní 1995. Tjón hefur orðið á vegum og við brýr og ræsi víða á svæðinu og flætt hefur inn á tjaldsvæðið í Vaglaskógi.

Frumniðurstöður benda til að flóð af þessari stærð í Fnjóská, Hörgá og Bægisá hafi u.þ.b. 50 ára endurkomutíma, sem þýðir að slík flóð verði að jafnaði einu sinni yfir 50 ára tímabil.

Eyjafjarðará hefur einnig verið eins og haf yfir að líta og flætt úr farvegi sínum yfir tún og valdið skemmdum á vegum. Slík flóð í Eyjafjarðará eru þekkt og árið 2006 varð þar t.a.m. mikið flóð sem olli tjóni á brúm og vegum á vatnasviði árinnar.

Flóðin náðu hámarki í flestum vatnsföllum aðfaranótt fimmtudagsins 1. júlí. Nú er vatnsborð víðast hvar farið að lækka og gera spár ráð fyrir að dragi úr leysingu næstu daga. Þó ber að hafa í huga að áfram verður mikið í ám lækjum og ástæða til að fara varlega í nágrenni þeirra.

Halda áfram að lesa

Veður

Hraunflæðilíkön hafa sannað sig í eldgosinu við Fagradalsfjall

Hraun streymir úr Geldingadölum niður í Nátthaga 13. júní.


Samstarfsverkefni Veðurstofunnar og Háskólans um frekari þróun hraunflæðilíkana

22.6.2021

Eldgosið sem hófst í Geldingadölum 19. mars hefur nú staðið viðstöðulaust í nær þrjá mánuði. Á þeim tíma hefur gosið skipt um takt nokkrum sinnum.  Nýir gígar opnast og lokast, hraunrennslið aukist og samsetningu þess breyst. Eldgosið hefur verið talsverð áskorun fyrir vísindamenn ekki síst þegar kemur að því að spá fyrir um farveg og hegðun hraunflæðis frá eldstöðvunum.

Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa verið í samstarfi um notkun og þróun hraunflæðilíkana í verkefni sem styrkt er af Rannsóknarsjóði á vegum RANNÍS. Hraunflæðilíkön voru fyrst notuð í gosinu í Holuhrauni fyrir um sex árum síðan, en það er fyrst núna í eldgosinu við Fagradalsfjall sem veruleg þróun hefur átt sér stað í notkun þeirra hér á landi.

“Við teljum að í eldgosinu við Fagradalsfjall hafi hraunflæðilíkön virkilega náð að sanna sig”, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. “Líkönin hafa nýst viðbragðsaðilum við að meta hvaða innviðir eru mögulega í hættu vegna hraunflæðis sem og að stýra umferð og bæta öryggi fólks við eldstöðvarnar. Þannig að við teljum að þessi líkön hafi komið að góðum”, segir Sara.

Það er óljóst hversu lengi eldgosið mun standa, en mikilvægt að reyna að spá fyrir um mögulegar hættur og tjón á innviðum eftir því hver framvindan verður. Nú beinist athyglin að Nátthaga suður af gosstöðvunum og áhrif hraunflæðis þaðan á Suðurstrandarveg og svæðið niður að sjó.

Unnið að frekari þróun hraunflæðilíkana

„Þegar kemur að því að spá fyrir um hvernig náttúruöflin haga sér þá er alltaf talsverð óvissa í spilunum og það er eins með hraunflæðilíkönum“ segir Dr. Gro Birkefeldt Möller Pedersen, rannsóknasérfræðingur hjá Háskóla Íslands, en hún hefur leitt þetta samvinnuverkefni milli háskólans og Veðurstofunnar. „Jafnvel þó svo að hraunflæði mælist stöðugt frá eldstöðinni þarf að taka tilliti til óreglulegs flæðis og sífeldra breytinga á farvegum hraunsins sem sumir eru liggja nú undir hraunhellunni á nokkrum stöðujm. Allt þetta skapar ákveðna óvissu í niðurstöðunni“, segir Gro. Þegar reyna á að spá fyrir um hvort og þá hvenær hraun geti mögulega flætt yfir Suðurstrandaveg og síðan niður að sjó, bætist við óvissa um hversu lengi það tekur fyrir svæðið í Nátthaga að fyllast áður en hraun fer að flæða niður úr dalnum. „Við höfum sett upp tvær sviðsmyndir, „minni“ og „stærri“, fyrir mögulegt hraunflæði úr Nátthaga, þar sem gert er ráð fyrir mismiklu magni af hrauni“, segir Gro. „Stærri sviðsmyndin sýnir mögulega stöðu á hraunbreiðunni í sumar eða byrjun hausts, að öllu óbreyttu en síðan er alltaf þessi óvissa um hvenær hraun byrjar að flæða suður úr Nátthaga“, segir Gro.

Nattahaga_lava_model_22062021

(Smelltu á myndina til að sjá hana stærri). Líkanið sýnir tvær sviðsmyndir af mögulegu hraunflæði suður úr Nátthaga. Sviðsmyndirnar gera ráð fyrir hraunflæði upp á 3.1 km3 annars vegar og 29 km3 hinsvegar. Talsverð óvissa ríkir um hversu lengi það tekur fyrir svæðið í Nátthaga að fyllast áður en hraun fer að flæða niður úr dalnum. (Líkan: Veðurstofan/Háskóli Íslands/Gro Birkefeldt Möller Pedersen)

„Þegar kemur að hraunflæði er ef til vill ekki eins mikilvægt að svara spurningunni um hvenær hraun nái ákveðinni útbreiðslu eins og hver mögulegur farvegur hraunsins verði“ segir Sara. „Í því samhengi teljum við að hraunflæðilíkön geti áfram nýst okkur vel við gerð viðbragðsáætlanna“.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin