Heilsa

Ágrip veggspjaldanna sem voru verðlaunuð á Vísindum á vordögum 2022

Þrjú bestu veggspjöldin á Vísindum á vordögum á Landspítala 4. maí 2022 voru verðlaunuð sérstaklega.  Verðlaunahafarnir voru Sylvía Ingibergsdóttir, Jenny Lorena Molina Estupian og Maríanna Garðarsdóttir.  Hér að neðan eru ágrip veggspjalda þeirra.

Öll veggspjöldin á Vísindum á vordögum 2022

Jenny Lorena Molina Estupian: mmCT and dmLT confer vaccine dose sparing effects on protective antibody response in neonatal mice

Jenny Lorena Molina Estupiñan er doktorsnemi í líf- og læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands og vinnur að doktorsverkefni sínu hjá rannsóknateymi um bólusetningar á ónæmisfræðideild Landspítala undir stjórn Ingileifar Jónsdóttur prófessors og Stefaníu P. Bjarnarson dósents. Aðrir doktorsnemar hópsins eru Poorya Foroutan Pajoohian og Auður Anna Aradóttir Pind, sem mun verja doktorsritgerð sína í maí 2022. Aðalrannsóknarefni hópsins eru takmarkanir í ónæmiskerfi nýbura og hvernig hægt er að yfirvinna þær við bólusetningu, meðal annars með notkun ónæmisglæða og bólusetningum um slímhúð. Hópurinn notast við nýburamúsamódel til rannsókna á ónæmissvörum gegn veirum og bakteríum og hefur meðal annars rannsakað ónæmissvör gegn pneumókokkum með próteintengdu fjölsykrubóluefni (Pn1-CRM197) sem notað var í rannsókn Jennyjar. Veggspjald Jennyjar snýr að skammtasparandi áhrifum ónæmisglæðanna dmLT og mmCT, þar sem ónæmisglæðar geta aukið ónæmissvör og mögulega minnkað magn bóluefnis sem þarf til þess að ná fram ónæmisvernd sem minnkar kostnað og nýtir tiltækt magn bóluefna betur. Í rannsókninni voru nýburamýs bólusettar með hlutaskömmtum af Pn1-CRM197 blönduðu ónæmisglæðunum dmLT eða mmCT eða með fullum skammti af Pn1-CRM197 án ónæmisglæða til samanburðar. Niðurstöðurnar sýndu að með notkun ónæmisglæðanna dmLT og mmCT var hægt að minnka bóluefnaskammt Pn1-CRM197 fimm- til áttfalt og eru þeir því efnilegir til skammtaspörunar og minnkunar kostnaðar, sérstaklega þegar framboð bóluefna er takmarkað. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og Vísindasjóði Landspítala.

Maríanna Garðarsdóttir: Kerfislæg æðakölkun veldur skerðingu á blóðflæði til heila

Maríanna Garðarsdóttir er röntgenlæknir að mennt frá Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg og hefur rannsakað blóðflæði til heila sl. ár meðfram starfi hennar sem röntgenlæknir og nú forstöðumaður rannsóknarþjónustu. Maríanna hefur birt um efnið tvær greinar, fjölda ágripa og kynnt verkefnið á vísindaþingum. Verkefnið hófst með rannsókn á blóðflæði til heila í einstaklingum með gáttatif þar sem í ljós kom að einstaklingar með gáttatif höfðu marktækt lægra blóðflæði til heila mælt með segulómun samanborið við þá sem voru í sínus takti og einnig lægra áætlað gegnumstreymi um heila. Einnig var heilarúmmál minna hjá þeim einstaklingum sem höfðu gáttatif samanborið við þá sem ekki höfðu gáttatif og vitræn skerðing sást hjá sama hópi. Áhrifin voru meiri þegar um langvinnt gáttatif var að ræða og voru áhrifin óháð heilaáföllum. Til nánari skoðunar á áhrifum gáttatifs á heilablóðflæði var gerð önnur rannsókn þar sem blóðflæði til heila í hálsæðum var mælt og nú einnig til samanburðar beint í háræðaneti heilans fyrir og eftir rafvendingu í sínus takt. Blóðflæðið jókst marktækt við árangursfulla rafvendingu með báðum aðferðum en var óbreytt hjá þeim sem voru áfram í gáttatifi. Núverandi rannsókn fólst í að bera saman áhrif gáttatifs og kerfislægrar æðakölkunar á heilablóðflæði og kom í ljós að áhrif æðakölkunar, sem er hjarta- og æðasjúkdómur sem eykst með hækkandi aldri og hægt er að meta með stífleika í ósæð, eru sambærileg við áhrif gáttatifs. Aukinn stífleiki í ósæð veldur auknum þrýstingi í hálsslagæðum og óhóflegri þrýstingsbylgju sem getur valdið skemmdum á háræðaneti heilans og heilavef og skertri heilastarfsemi að auki. Áhrif aukins stífleika í ósæð sem merki um kerfislæga æðakölkun tengdist marktækt lægra blóðflæði til heila og eru áhrifin sambærileg þeim sem sjást hjá einstaklingum með gáttatif bæði á formgerð heilans og starfsemi.
Rannsóknarhópurinn samanstendur af Davíð O. Arnar yfirlækni og prófessor sem er leiðbeinandi Maríönnu í doktorsnámi hennar við læknadeild Háskóla Íslands; Sigurði Sigurðssyni geislafræðingi sem er meðleiðbeinandi; Vilmundi Guðnasyni, prófessor við HÍ, og Thor Aspelund, prófessor við HÍ, sem eru allir reyndir vísindamenn og kennarar sem hafa samtals birt á annað þúsund vísindagreinar. Rannsóknarhópurinn hefur í þessu verkefni rannsakað einstaklinga í AGES RS rannsókninni sem er framhald af Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar og skjólstæðinga Landspítala sem komu til rafvendingar.

Sylvía Ingibergsdóttir: Árangur hugrænnar atferlismeðferðar fyrir háskólanemendur sem greindir hafa verið með ADHD

Fyrstu niðurstöður doktorsverkefnis Sylvíu Ingibergsdóttur voru birtar á veggspjaldi á Vísindum á vordögum á Landspítala. Markmið með verkefninu er að kanna árangur af hugrænni atferlismeðferð fyrir háskólanemendur með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD). Röskunin getur haft hamlandi áhrif á bæði nám og starf. Skort hefur önnur úrræði en lyfjameðferð fyrir þennan hóp og rannsóknir á árangri viðtalsmeðferðar eru fátíðar. Úrtakið var nemendur Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík sem greinst höfðu með ADHD og var þeim raðað með slembiúrtaki í tvo hópa. Annar hópurinn fékk inngrip en hinn hópurinn fór á biðlista og var boðin meðferð síðar.
Höfundar að þessum hluta rannsóknarinnar:
Sylvía Ingibergsdóttir, MSc, doktorsnemi og deildarstjóri á bráðamóttöku geðdeildar
Eiríkur Örn Arnarsson, PhD, prófessor emeritus við Háskóla Íslands
Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir, PhD, dósent við heilbrigðisvísindasvið innan Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og gestadósent við Háskólann á Akureyri
Erla Kolbrún Svavarsdóttir, PhD, prófessor við heilbrigðisvísindasvið innan hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands
Aðrir í doktorsnefndinni:
Jóhanna Bernharðsdóttir, PhD, lektor við heilbrigðisvísindasvið innan hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands
Merrie Jean Kaas, PhD, lektor við University of Minnesota
Marta Kristín Lárudóttir, PhD, dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík

Heilsa

Eftirlit með sólarvörnum

23. maí.2022 | 11:49

Eftirlit með sólarvörnum

Umhverfisstofnun fór í eftirlit með sólarvörnum í 19 verslanir. Engin bönnuð innihaldsefni fundust en merkingum um innihaldsefni var ábótavant. 

Framkvæmd eftirlitsins

Í hverri verslun voru tvær vörur valdar að handahófi í mismunandi sólarvarnarstyrk (SPF). 

Skoðað var hvort sólarvarnirnar væru löglegar á markaði með því að skoða merkingar þeirra og tilkynningar í snyrtivöruvefgátt ESB (CPNP). 

Einnig var kannað hvort vörurnar innihaldi efni sem eru ekki lengur leyfileg í sólarvörnum með því að skoða innihaldslýsingu þeirra. Sérstök áhersla var á innihaldsefni sem eru ekki lengur leyfileg í sólarvörnum (frá 2016). 

Sólarvarnir sem eru markaðssettar fyrir börn þurfa að uppfylla strangari kröfur varðandi leyfileg innihaldsefni, styrk innihaldsefna og notkun þeirra samkvæmt reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur. 

Eftirlitsskýrslan í heild.

Engin bönnuð innihaldsefni

Allar vörurnar, 33 talsins, voru skráðar í snyrtivöruvefgátt ESB.  Engin frávik fundust varðandi innihaldsefni sólarvarnanna

Merkingum ábótavant

Frávik varðandi merkingar fundust hjá 4 vörum. Einn birgir tók vöruna af markaði en flest fyrirtækjanna brugðust við frávikum með því að gera úrbætur varðandi merkingar varanna. Af þeim sólarvörnum sem voru markaðssettar fyrir börn fannst ein vara með frávik varðandi merkingar.

   Fjöldi vara skoðaður   Fjöldi vara með frávik    Fjöldi vara án frávika  
 Sólarvarnir (í heild)  33  3 (9,1%)  30 (90,9%)
 Sólarvarnir fyrir börn  9  1 (11%)  8 (89%)

Almennt var lítið um frávik frá gildandi reglugerðum.  Viðbrögð fyrirtækja voru í öllum tilfellum jákvæð og samskipti og samvinna við Umhverfisstofnun góð.

Tengt efni:

Halda áfram að lesa

Heilsa

Opið fyrir umsóknir um styrki í Doktorsnemasjóð

20. maí.2022 | 14:50

Opið fyrir umsóknir um styrki í Doktorsnemasjóð

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Doktorsnemasjóð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Sjóðurinn styrkir rannsóknir á samspili landnýtingar og loftslags.

„Loftslagsmálin eru ein stærsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir. Landnotkun og skógrækt eru stærsti einstaki losunarflokkurinn, en mikil óvissa ríkir í dag um mat og mælingar vegna þeirra. Nauðsynlegt er að geta metið og talið áhrif aðgerða vegna landnotkunar á sama hátt og aðra losun og bindingu og þess vegna er mikilvægt að styðja við grunnrannsóknir á þessu sviði. Bætt landnýting í þágu loftslagsmála þarf að gegna lykilhlutverki í að ná markmiðum okkar um kolefnishlutleysi árið 2040 ,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Frestur til að skila inn umsóknum er til 15. júní 2022, kl 15:00.

Auglýsing á vef Stjórnarráðsins 
Á vef Rannís má nálgast allar nánari upplýsingar og aðgang að rafrænu umsóknarkerfi

Halda áfram að lesa

Heilsa

Fyrsta skóflustunga að nýju bílastæða- og tæknihúsi

Fyrsta skóflustunga að nýju bílastæða- og tæknihúsi við Hringbraut var tekin 19. maí 2022 og er liður í uppbyggingu Landspítala þar.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tók fyrstu skóflustunguna ásamt Pétri Guðmundssyni stjórnarformanni Eyktar og Runólfi Pálssyni forstjóra Landspítala. Þá tóku fulltrúar starfsmanna, þær Rannveig Rúnarsdóttir frá Landspítala og Þóranna Elín Dietz frá Háskóla Íslands einnig skóflustungu að húsinu.

Nýtt bílastæða- og tæknihús verður um 19.000 fermetrar að stærð með um 500 bílastæði. Auk þess eru um 200 hjólastæði í húsinu en einnig eru 200 bílastæði í bílakjallara við meðferðarkjarnann fyrir sjúklinga og aðstandendur.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Það er ánægjulegt að enn bætast við byggingar sem eru á framkvæmdastigi í þessari mikilvægu uppbyggingu við nýjan Landspítala. Vel hefur tekist til við framkvæmdir á svæðinu og bílastæða- og tæknihúsið er áfangi á þessari vegferð að nýjar byggingar á svæðinu myndi eina heild,“

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala: „Jarðvinnu vegna rannsóknahússins er lokið og nú strax hefst nýr áfangi við jarðvinnu á bílastæða- og tæknihúsinu. Eftir alútboð var samið við Eykt um bæði hönnun og verkframkvæmd og markar því dagurinn eitt af mörgum mikilvægum skrefum í hraðri uppbyggingu við Hringbraut.“

Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala: „Það er ánægjulegt að sjá hversu góður skriður hefur verið á verkefninu um nýjan Landspítala. Við fögnum hverjum áfanga, stórum sem smáum, á þessari vegferð því takmarkið færist nær. Bílastæða- og tæknihúsið er mikilvægur hlekkur í þessu stóra verkefni.“

Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Eyktar ehf: „Við hjá Eykt þekkjum vel til Hringbrautarverkefnisins því við erum núna að steypa upp meðferðarkjarnann, þar er allt á fullri ferð. Samstarfið gengur vel við Nýjan Landspítala og húsið sem nú fer í byggingu er enn ein ný áskorun.“

Um bílastæða- og tæknihúsið

Bílastæða- og tæknihúsið verður um 19.000 fermetrar að stærð og er átta hæðir, fimm ofanjarðar og þrjár neðanjarðar. Bílastæða og tæknihús (BT húsið) mun rúma stæði fyrir 510 bíla. Í húsinu verður hjólageymsla fyrir 200 hjól. Bíla- og hjólastæði svæðisins verða til framtíðar nægjanleg miðað við allar framtíðarspár. Einnig er verið að byggja bílakjallara undir Sóleyjartorgi, sambærilegan bílakjallara Hörpu, sem verður á tveimur hæðum með 200 bílastæðum ætluð sjúklingum og gestum.  Þar verður gott aðgengi beint inn í spítalann. Úr bílastæða- og tæknihúsinu verður einnig hægt að fara milli húsa eftir göngum. Tæknihluti hússins er afar mikilvægur, þar verður tæknirými fyrir varaaflsvélar Landspítala þannig að tryggt sé að rafmagn verði til staðar á öllu spítalasvæðinu ef truflanir verða á afhendingu rafmagns og það sama gildir um búnað fyrir varakyndingu ef skortur verður á heitu vatni. Þá verður í húsinu kælikerfi, loftinntök og loftræstibúnaður vegna spítalastarfseminnar.

Rauða örin á myndinni fyrir neðan vísar á hvar nýja bílastæða- og tæknihúsið á að rísa.

Vefur Nýs Landspítala ohf

Fyrsta skóflustunga að nýju bílastæða- og tæknihúsi

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin