Innlent

Áhersla á loftslag, landslag og lýðheilsu í nýrri tillögu Skipulagsstofnunar

Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, afhenti í dag Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, tillögu stofnunarinnar að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015–2026.

Skipulagsstofnun var falið árið 2018 að vinna að breytingum á Landskipulagsstefnu á grundvelli áherslna sem ráðherra setti um meginviðfangsefni hennar. Tillagan sem afhent var í dag, byggir á framangreindum áherslum og að afloknu umfangsmiklu samráðs- og kynningaferli.

20 mínútna bærinn og grænir innviðir

Í tillögu Skipulagsstofnunnar er áhersla lögð á kolefnishlutleysi, eflingu viðnámsþróttar byggðar og samfélags gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga, gæði landslags og sérkenni náttúru og heilsu og vellíðan almennings. Tilmælum er beint til sveitarfélaga í stefnunni og gert ráð fyrir aðgerðum af þeirra hálfu. Í tillögunni er gert ráð fyrir að sveitarfélög marki sér stefnu um loftslagsmál í skipulagi, að ráðstöfun lands til uppbyggingar og ræktunar taki mið af gæðum sem felast í landslagi og að við skipulagsgerð verði leitast við að skapa heilnæmt umhverfi  sem hvetur til hollra lífshátta.

Dæmi um slíkt er hugmyndin um 20 mínútna bæinn, sem getur í senn stuðlað að loftslagsvænum samgöngum, fjölbreyttum og lifandi bæjarrýmum og aukinni hreyfingu í daglegu lífi. Einnig má nefna áherslu á græna innviði, sem auk þess að stuðla að bindingu kolefnis og viðnámsþrótti gegn loftslagsáhrifum geta fegrað og bætt umhverfið og hvatt til útivistar og hreyfingar. Í tillögunni hefur stefna um haf- og strandsvæði jafnframt verið uppfærð með hliðsjón af nýjum lögum um skipulag haf- og strandsvæða.

Víðtækt samráð

Mótun tillögunnar hefur farið fram í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og félagasamtök. Jafnframt hefur verið leitast við að tryggja almenningi möguleika á að fylgjast með mótun stefnunnar og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum. Starfræktur hefur verið samráðsvettvangur um mótun stefnunnar auk þess sem sérstök ráðgjafarnefnd skipuð fulltrúum ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið Skipulagsstofnun til ráðgjafar við mótun tillögunnar.

Samræmd stefnumótun ríkis og sveitarfélaga

Landsskipulagsstefna er samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál til 12 ára og var hún samþykkt á Alþingi 2016. Í henni er er sett fram stefna um skipulagsmál í dreifbýli og þéttbýli, á miðhálendinu og haf- og strandsvæðum

Landsskipulagsstefnu er ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun sem og samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um þróun byggðar og landnýtingu.

Umhverfis- og auðlindaráðherra tekur nú tillögu Skipulagsstofnunar til skoðunar og  gert er ráð fyrir að stefnan verði  lögð fram sem  þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu á Alþingi á yfirstandandi þingi.

„Það er spennandi að fá afraksturinn af þessari vinnu í hendurnar“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Með þessum viðaukum hefur fókusinn verið settur á hlutverk skipulags í að ná árangri í loftslagsmálum, hvort sem horft er til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða efla aðlögun að loftslagsbreytingum. Ég er líka mjög ánægður að sjá útfærslu á áherslum um lýðheilsu sem ég tel að muni skipta stórauknu máli á komandi áratugum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Í heildina á sú stefna sem hér er lögð fram að geta aukið lífsgæði okkar til framtíðar litið.“

Innlent

COVID-19: Aðgerðir á landamærum hertar tímabundið

Stjórnvöld kynna í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands þrátt fyrir mikla útbreiðslu faraldursins erlendis. Bólusetningu hér á landi miðar vel og eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.

Heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi sóttvarnalögum sem felur í sér forsendur fyrir þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Meginefni þeirra eru:

Dvöl í sóttkvíarhúsi: Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit/100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði. Kveðið verður á um forsendur fyrir dvöl í sóttvarnahúsi í reglugerð heilbrigðisráðherra.

Auknar ferðatakmarkanir: Dómsmálaráðherra fái að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum til og frá hááhættusvæðum (nýgengi yfir 1000/100.000) samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.

Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní

Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar a.mk. til 1. júní. Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. júní munu vægari kröfur gilda um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.

Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Kynningarglærur frá blaðamannafundi – uppfærð útgáfa

Halda áfram að lesa

Innlent

Meta ber hæfi sem fyrst eftir að brigður eru bornar á það

Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort starfsmaður sé vanhæfur svo fljótt sem unnt er eftir að athygli er vakin á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi. Ef í ljós kemur á lokastigum máls að starfsmaður er vanhæfur getur það tafið meðferð þess óhæfilega.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland aðili að samstarfsvettvangi um öryggis- og varnarmál

Ísland gerðist í dag aðili að samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar (e. Joint Expeditionary Force, JEF). Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London undirritaði samkomulag þessa efnis í dag ásamt Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands. 

Aðild Íslands að samstarfinu byggist á sameiginlegum öryggis- og varnarhagsmunum þátttökuríkjanna  og mun bæta yfirsýn um stöðu og þróun öryggismála í nærumhverfi þeirra. Horft er til þess að samstarfið geti nýst til neyðarviðbragða, vegna almannavarna og mannúðaraðstoðar. Framlag Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að. Ekki er gert ráð að kostnaður fylgi þátttöku Íslands í samstarfinu að öðru leyti en fyrirhugað er að borgaralegur sérfræðingur starfi á vettvangi JEF þegar fram í sækir.

„Það er fagnaðarefni að Ísland taki nú þátt í þessu öryggis- og varnarmálasamstarfi nokkurra af okkar helstu vinaríkjum. Ísland getur lagt sitt af mörkum til samstarfsins en um leið njótum við góðs af aukinni samvinnu við þessi líkt þenkjandi ríki um öryggismál í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Sameiginlega viðbragðssveitin var sett á fót árið 2018 og eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð aðilar að samstarfinu ásamt Eistlandi, Lettlandi, Litáen, Hollandi og Bretlandi. Ísland verður því tíunda ríkið sem tekur þátt í þessu samstarfi. 

Á fundinum ræddu þeir Sturla og Wallace m.a. ástand og horfur í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum. Rúm tvö ár eru síðan Guðlaugur Þór og Jeremy Hunt, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, undirrituðu samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin