Innlent

Áhersla á loftslag, landslag og lýðheilsu í þingsályktunartillögu ráðherra

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir þingsályktunartillögu um endurskoðaða landsskipulagsstefnu 2015-2026.

Þingsályktunartillagan snýr að viðauka við núverandi landsskipulagsstefnu og er þar lögð áhersla á þrennt: loftslagsmál, landslagsvernd og lýðheilsu í skipulagsmálum. Þar sé horft til kolefnishlutleysis, eflingu viðnámsþróttar byggðar og samfélags gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga, gæði landslags og sérkenni náttúru og heilsu og vellíðan almennings.

Í tillögunni er lagt til að hafin verði vinna við gerð strandsvæðisskipulags í Eyjafirði og á Skjálfanda, m.a. sökum fjölbreyttrar starfsemi og nýtingar og verndar á þessum svæðum og áhuga og áformum um frekari nýtingu.

Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsgerð sveitarfélaga og er því ýmsum tilmælum beint til sveitarfélaga í stefnunni og gert ráð fyrir aðgerðum af þeirra hálfu. Meðal annars er gert ráð fyrir að sveitarfélög marki sér stefnu um loftslagsmál í skipulagi, að ráðstöfun lands til uppbyggingar og ræktunar taki mið af gæðum sem felast í landslagi og að við skipulagsgerð verði leitast við að skapa heilnæmt umhverfi sem hvetur til hollra lífshátta. Einnig er gert ráð fyrir ýmsum verkefnum stjórnvalda sem vinna að útfærslu og framfylgd stefnunnar. Sem dæmi má nefna ýmsar leiðbeiningar Skipulagsstofnunar, svo sem um loftslagsmiðað skipulag og stefnumótun og skipulagssjónarmið um nýtingu vindorku.

Árið 2018 fól ráðherra Skipulagsstofnun að vinna að breytingum á stefnunni með ofangreindum áherslum og hefur afrakstur þeirrar vinnu nú litið dagsins ljós. Landsskipulagsstefnu, sem er samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál til 12 ára, er ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun sem og samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um þróun byggðar og landnýtingu.

„Skipulagsmál skipa mjög stóran sess í daglegu lífi okkar og hafa rík áhrif á samfélag og efnahag. Með því að beita skipulagsmálum með þessum hætti í þágu loftslagsmála, landslagsverndar og lýðheilsu þróum við og þroskum skipulagspólitík á Íslandi í góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Ég tel að verði viðbætur við Landsskipulagsstefnu samþykktar á Alþingi muni það hafa mjög jákvæð áhrif á framþróun íslensks samfélags,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Endurskoðuð landsskipulagsstefna

Almannavarnir

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi Vestra

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjórana á Norðurlandi Vestra hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði. Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/ og einnig inn á https://www.grodureldar.is/

Halda áfram að lesa

Alþingi

Forsætisnefnd afgreiðir erindi um siðareglumál

12.5.2021

Forsætisnefnd afgreiddi á fundi sínum 10. maí erindi sem henni barst 18. apríl sl. frá Birni Leví Gunnarssyni alþingismanni þar sem hann óskaði álits forsætisnefndar á því hvort ummæli hans í grein í Morgunblaðinu 3. apríl sl. stæðist siðareglur alþingismanna. Niðurstaða forsætisnefndar er birt í meðfylgjandi bréfi til Björn Levís Gunnarssonar

Var niðurstaðan sú að skilyrði brysti til þess að nefndin tæki erindið til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. 1. málslið 1. mgr. 18. gr. siðareglnanna.

Halda áfram að lesa

Innlent

Landlæknir spurður út í bólusetningar vegna COVID-19

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir að landlæknir veiti upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að leiðbeiningum og upplýsingagjöf vegna COVID-19 bólusetningar. Einkum með tilliti til þeirra sem, af heilsufarslegum ástæðum, telja ekki öruggt að þiggja tiltekið bóluefni.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin