Innlent

Ánægja með aðgerðir stjórnvalda og batnandi fjárhagsstaða fyrirtækja

Mikil ánægja mælist með efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna Covid-19 og meirihluti fyrirtækja telur sig standa fjárhagslega vel til að takast á við tímabundin áföll næstu mánuði. Mun fleiri fyrirtæki sjá fram á fjölgun starfsfólks heldur en fækkun. 

Þetta kemur fram í könnun Gallup fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið um viðhorf fyrirtækja til efnahagsaðgerða stjórnvalda. Þetta er í fjórða sinn sem könnunin er framkvæmd á handahófsvöldu úrtaki fyrirtækja með fjóra starfsmenn eða fleiri. Aukin þreyta á takmörkunum innanlands mælist hjá forsvarsmönnum fyrirtækjanna en fleiri eru sáttir við fyrirkomulag á landamærum. Ánægja með efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 jókst frá því í haust og fleiri fyrirtæki telja sig nú standa fjárhagslega vel til að takast á við áföll á næstu mánuðum í kjölfar COVID-19.

Fjárhagsstaða fyrirtækja batnar og helmingur þeirra sem standa illa hafa hvorki nýtt sér greiðslufresti né stuðningslán

Meirihluti fyrirtækja telur sig standa fjárhagslega vel til að takast á við tímabundin áföll á næstu mánuðum í kjölfar COVID-19. Hlutfallið hefur aldrei mælst hærra í könnun Gallup. Rétt yfir 20% fyrirtækja telja sig standa illa til að takast á við áföll, en þar var hlutfallið hæst hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu þó það mældist einnig nokkuð hátt hjá fyrirtækjum í iðnaði. Minni fyrirtækin töldu sig frekar í vondri fjárhagsstöðu en þau stærri. Það sama gildir um fyrirtæki með fáa eða enga starfsmenn á skrifstofu, litla ársveltu og þau sem hafa þurft að fækka starfsfólki í kjölfar COVID-19. Aðeins um helmingur þessara fyrirtækja hefur nýtt sér úrræði hjá aðalviðskiptabanka, s.s. greiðslufrest eða stuðningslán.

Ánægja með aðgerðir stjórnvalda eykst

Ánægja með efnahagsaðgerðirnar jókst í byrjun árs 2021 í samanburði við haustmánuði 2020. Nú voru 60% svarenda ánægðir með aðgerðirnar en 15% óánægðir og um fjórðungur hvorki né (sjá niðurstöður á mynd ofar). Mest óánægja mældist hjá fyrirtækjum í útgerð/fiskvinnslu, ferðaþjónustu og í iðnaði, þó meirihluti fyrirtækjanna í þeim atvinnugreinum mælist ánægður með efnahagsaðgerðir stjórnvalda.

Margir telja stuðning stjórnvalda skilvirkan og kröftugan, að stjórnvöld hafi sýnt ábyrgð og dregið úr óvissu með góðu upplýsingaflæði. Helsta gagnrýni innan ferðaþjónustunnar snýr að seinagangi í framkvæmd úrræðanna, en þegar könnunin var gerð höfðu orðið tafir á umsóknarferli fyrir viðspyrnu- og tekjufallsstyrki hjá Skattinum. Fyrirtæki í iðnaði gagnrýna skort á úrræðum fyrir fyrirtæki utan ferðaþjónustu og innan annarra greina ber á áhyggjum af miklum halla ríkissjóðs og kostnaði skattgreiðenda í framtíðinni.

Óánægja með efnahagsaðgerðir stjórnvalda fór gjarnan saman við kröfu um tilslakanir á takmörkunum innanlands og óánægja var mest hjá fyrirtækjum í slæmri fjárhagslegri stöðu. Aðeins tæpur helmingur fyrirtækjanna sem sögðu sig óánægð með aðgerðir stjórnvalda höfðu sótt um úrræði hjá aðalviðskiptabanka vegna COVID-19.

Í heildina þótti helmingi fyrirtækjanna hlutabótaleiðin og greiðsla launa á uppsagnarfresti gagnlegustu úrræðin. Þetta átti sérstaklega við meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þá höfðu 10% af fyrirtækjunum sótt um úrræði hjá viðskiptabanka vegna COVID-19, en algengast var þar að fyrirtæki nýttu sér greiðslufrest. Ríflega helmingur fyrirtækja í ferðaþjónustu fékk greiðslufrest en hlutfallið var talsvert lægra í öðrum atvinnugreinum. Afar fá fyrirtæki höfðu sótt um úrræði en ekki fengið, eða 0,7% af heildinni.

Fleiri fyrirtæki sjá fram á fjölgun starfsfólks en fækkun

Fjórðungur fyrirtækja í könnuninni hefur þurft að fækka starfsfólki sökum heimsfaraldurs COVID-19, sem er álíka hátt hlutfall og í fyrri könnunum Gallup. Uppsagnir áttu sér stað hjá nánast öllum ferðaþjónustufyrirtækjunum í könnuninni, nær 30% fyrirtækja starfandi í iðnaði og 20% fyrirtækja í verslun og þjónustu.

Mun fleiri forsvarsmenn telja nú að starfsfólki í fyrirtækinu fjölgi á næstu 3 mánuðum en að þeim fækki. Um 27% töldu að starfsfólki myndi fjölga nokkuð en hlutfallið var aðeins 12% þegar könnunin var framkvæmd í okt-nóv 2020. Fjölgun starfsfólks er vænst í hluta fyrirtækja í öllum atvinnugreinum en þó hlutfallslega mest í iðnaði og veitustarfsemi. Aðeins tæp 5% fyrirtækja töldu að starfsfólki muni fækka nokkuð á næstu 3 mánuðum. Helst yrði það hjá fyrirtækjum í framleiðslu, flutningum, upplýsinga- og fjarskiptastarfsemi.

Innlent

COVID-19: Aðgerðir á landamærum hertar tímabundið

Stjórnvöld kynna í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands þrátt fyrir mikla útbreiðslu faraldursins erlendis. Bólusetningu hér á landi miðar vel og eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.

Heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi sóttvarnalögum sem felur í sér forsendur fyrir þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Meginefni þeirra eru:

Dvöl í sóttkvíarhúsi: Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit/100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði. Kveðið verður á um forsendur fyrir dvöl í sóttvarnahúsi í reglugerð heilbrigðisráðherra.

Auknar ferðatakmarkanir: Dómsmálaráðherra fái að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum til og frá hááhættusvæðum (nýgengi yfir 1000/100.000) samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.

Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní

Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar a.mk. til 1. júní. Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. júní munu vægari kröfur gilda um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.

Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Kynningarglærur frá blaðamannafundi – uppfærð útgáfa

Halda áfram að lesa

Innlent

Meta ber hæfi sem fyrst eftir að brigður eru bornar á það

Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort starfsmaður sé vanhæfur svo fljótt sem unnt er eftir að athygli er vakin á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi. Ef í ljós kemur á lokastigum máls að starfsmaður er vanhæfur getur það tafið meðferð þess óhæfilega.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland aðili að samstarfsvettvangi um öryggis- og varnarmál

Ísland gerðist í dag aðili að samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar (e. Joint Expeditionary Force, JEF). Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London undirritaði samkomulag þessa efnis í dag ásamt Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands. 

Aðild Íslands að samstarfinu byggist á sameiginlegum öryggis- og varnarhagsmunum þátttökuríkjanna  og mun bæta yfirsýn um stöðu og þróun öryggismála í nærumhverfi þeirra. Horft er til þess að samstarfið geti nýst til neyðarviðbragða, vegna almannavarna og mannúðaraðstoðar. Framlag Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að. Ekki er gert ráð að kostnaður fylgi þátttöku Íslands í samstarfinu að öðru leyti en fyrirhugað er að borgaralegur sérfræðingur starfi á vettvangi JEF þegar fram í sækir.

„Það er fagnaðarefni að Ísland taki nú þátt í þessu öryggis- og varnarmálasamstarfi nokkurra af okkar helstu vinaríkjum. Ísland getur lagt sitt af mörkum til samstarfsins en um leið njótum við góðs af aukinni samvinnu við þessi líkt þenkjandi ríki um öryggismál í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Sameiginlega viðbragðssveitin var sett á fót árið 2018 og eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð aðilar að samstarfinu ásamt Eistlandi, Lettlandi, Litáen, Hollandi og Bretlandi. Ísland verður því tíunda ríkið sem tekur þátt í þessu samstarfi. 

Á fundinum ræddu þeir Sturla og Wallace m.a. ástand og horfur í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum. Rúm tvö ár eru síðan Guðlaugur Þór og Jeremy Hunt, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, undirrituðu samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin