Samherji

Andlát: Finnbogi Jónsson

Finnbogi Jónsson var mikill áhugamaður um nýsköpun og kynnti sér nýjustu tækni um borð í Oddeyrinni …

Finnbogi Jónsson var mikill áhugamaður um nýsköpun og kynnti sér nýjustu tækni um borð í Oddeyrinni EA í júlí sl.

Finnbogi Jónsson verkfræðingur og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja lést þann níunda september síðastliðinn í Vancouver í Kanada. Finnbogi lét mjög að sér kveða í íslensku atvinnulífi og sat í stjórn fjölmargra félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana.

Finnbogi var framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað frá 1986 til 1999, forstjóri Íslenskra sjávarafurða hf. 1999, aðstoðarframkvæmdastjóri SÍF, starfandi stjórnarformaður Samherja hf. 2000 til 2005 og framkvæmdastjóri SR-mjöls h/f frá 2003 til 2006. Finnbogi var framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá 2006 til 2010 og sat auk þess í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og stofnana, svo sem háskólaráði Háskólans á Akureyri.

Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja:

“Áhrifa starfa Finnboga gætir víða í íslensku atvinnulífi og við sem förum fyrir Samherja stöndum í mikilli þakkarskuld við hann. Ákvarðanir sem Finnbogi tók eða lagði til, voru vel ígrundaðar og byggðar á þekkingu og glöggu innsæi. Finnbogi hafði einstakt lag á að leiða saman fólk til samstarfs og viðskipta sem skilað hefur atvinnulífinu ávinningi og þar með þjóðarbúinu. Hans er sárt saknað með djúpri virðingu.”

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja:

“Finnbogi var drengur góður, mikill Akureyringur og bar ávallt hag bæjarins fyrir brjósti. Jákvæðni og framsýni var áberandi í fari Finnboga enda hafði hann einstakt lag á að fá fólk til liðs við metnaðarfull og framsækin verkefni. Þátttaka Finnboga Jónssonar í íslensku atvinnulífi hefur verið áhrifarík, sérstaklega í sjávarútvegi og nýsköpun. Við hjá Samherja kveðjum góðan vin og samstarfsmann með einlægu þakklæti.”

Finnboga Jónssonar er minnst í fjölmiðlum í dag og þar er greint frá æviferlinum. Stjórn Samherja og starfsfólk félagsins senda fjölskyldu Finnboga Jónssonar innilegar samúðarkveðjur.

Samherji

Gæðaeftirlitið fylgist með frá A til Ö

Sólveig Hallgrímsdóttir/myndir samherji.is

Sólveig Hallgrímsdóttir/myndir samherji.is

Til þess að framleiða heilnæmar gæðaafurðir þarf gæðaeftirlitið að vera virkt og stöðugt. Í fiskvinnsluhúsum ÚA á Akureyri og Samherja á Dalvík er mikil áhersla lögð á gæðaeftirlit, enda markmiðið að framleiða afurðir sem uppfylla ýtrustu væntingar og kröfur viðskiptavina. “Í raun og veru er okkur fátt óviðkomandi þegar gæðamál eru annars vegar,” segir Sólveig Hallgrímsdóttir í gæðaeftirlitinu á Dalvík.

Fylgja hráefninu alla leið

“Þær eru ansi margar prufurnar sem við tökum á hverjum degi.  Í raun og veru fylgjumst við með hráefninu frá togara, þar til afurðirnar eru tilbúnar til útflutnings,” segir Sólveig.

Gæðaeftirlitinu fátt óviðkomandi

“Ef hitastigið er ekki rétt, til dæmis um borð í togaranum látum við strax vita og sömu sögu er að segja um alla staðina í sjálfri vinnslunni, flökunarvélarnar eru athugaðar á tveggja tíma fresti og sömuleiðis hausarar, svo dæmi sé tekið. Snyrtilínan er í stöðugu eftirliti, allt plast, gler og svona mætti lengi telja.”

Rekjanleikinn auðveldari

“Jú, allt eftirlitið er skráð samviskulega með rafrænum hætti, áður var þetta allt saman á pappír með tilheyrandi flækjustigi. Með rafrænni skráningu verður rekjanleiki vörunnar skýrari, kaupendur geta til dæmis kallað eftir upplýsingum og fengið svör og miklu fyrr. Kröfurnar hérna eru strangar, enda erum við að framleiða gæðaafurðir fyrir kröfuharða kaupendur.”

Löggurnar á svæðinu

“Já, kannski má segja að við séum löggurnar á svæðinu. Starfsfólkið tekur okkar ábendingum yfirleitt vel og kann að meta að vel sé fylgst með öllum þáttum vinnslunnar. Þetta er á margan hátt nákvæmnisvinna og öll hátæknin í húsinu er spennandi.”

Góði andinn flutti með starfsfólkinu

“Ég hef unnið hjá Samherja í átta ár og starfsandinn hérna er góður. Þegar við fluttum í nýja húsið var talað um að taka góða starfsandann með og ég held að það hafi tekist með miklum ágætum,” segir Sólveig Hallgrímsdóttir sem sinnir gæðamálum í fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík.

Halda áfram að lesa

Samherji

“Þetta reddast” leiðin sniðgengin á Dalvík

“Þetta reddast” leiðin sniðgengin á Dalvík

Heimsfaraldurinn hafði eðlilega umtalsverð áhrif á starfsemi hátækni fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík, sem formlega tók til starfa fyrir rúmu ári síðan. Með nýjum búnaði og gerbreyttri tækni komu engir utanaðkomandi sérfræðingar í húsið mánuðum saman. Áskoranir  starfsfólksins voru því margar en samt sem áður var slegið framleiðslumet á síðasta fiskveiðiári. Yfirverkstjórinn segir að góður undirbúningur hafi skipt sköpum.

Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri segir starfsfólki hússins hafi verið skipt upp í fimm aðskilda hópa vegna Covid-19. Með slíku fyrirkomulagi sé hægt að koma í veg fyrir að loka þurfi húsinu, greinist smit í húsinu.

Starfsfólkið fékk frið, þökk sé Covid-19

“Já, auðvitað gekk á ýmsu, það segir sig sjálft. Vegna ástandsins vorum við í stöðugum tölvusamskiptum við framleiðendur tækjanna og hönnuði búnaðarins. Vinnslan gekk vel frá fyrsta degi og við segjum að góður og hnitmiðaður undirbúningur á öllum sviðum hafi skipt sköpum. Annars hefði þetta ekki verið gerlegt, svo mikið er víst. Þegar maður lítur til baka er líka hægt að segja að með því að loka húsinu algjörlega hafi starfsfólkið fengið frið til þess að taka þetta fullkomnasta fiskvinnsluhús heimsins í hvítfiski í notkun. Það eru gríðarlega margir sem vilja skoða þetta magnaða hús.”

Framleiðslumet slegið í miðjum faraldri

Um 17 þúsund tonn voru unnin í húsinu á síðasta fiskveiðiári, sem er talsvert meira magn en í gamla fiskvinnsluhúsinu á Dalvík.

“Þetta gekk ótrúlega vel, miðað við að allt sé nýtt og um margt framandi. Sem betur fer fórum við ekki þessa klassísku íslensku leið, “þetta reddast.” Undirbúningurinn bjargaði okkur, það er alveg klárt. Auðvitað hefði maður viljað sjá ýmislegt ganga hraðar fyrir sig en við erum á góðum stað í dag og svo hefur reyndar verið frá upphafi, þrátt fyrir heimsfaraldurinn.”

Halda að veitingastaður sé í húsinu

Já, húsið vekur athygli erlendra ferðamanna. Sem dæmi get ég sagt frá því að fyrir hefur komið að sumir ferðamenn halda að matsalurinn sé veitingastaður og vilja fá að borða. Þeir verða undrandi þegar þeim er tjáð að þetta sé fiskvinnsluhús og hérna í glerbyggingunni sé mötuneyti starfsfólksins en ekki almennur veitingastaður. Þetta segir manni ákveðna sögu, sem er bara ánægjulegt og skemmtilegt,” segir Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri.

Halda áfram að lesa

Samherji

Baadermaðurinn sér um að vélarnar séu í toppstandi

Baadermaðurinn sér um að vélarnar séu í toppstandi

Af og til sjáum við auglýst eftir Baadermönnum en sjálfsagt eru ekki allir alveg með það á hreinu hvað Baadermaður gerir í raun og veru. Starfsfólk í fiskvinnsluhúsum landsins veit hins vegar upp á hár hvað Baadermaður gerir og víst er að í fiskvinnsluhúsi ÚA á Akureyri þekkja allir Axel Aðalsteinsson, sem einmitt er Baadermaðurinn þar.

“Þetta starfsheiti varð líklega til þegar þýskar Baaderfiskvinnsluvélar voru allsráðandi. Baadermaðurinn sér sem sagt um fiskvinnsluvélarnar, svo sem að brýna hnífana, sjá um að vélarnar séu í góðu lagi og skili sínu á hverjum degi,” segir Axel þegar hann er spurður um starfið.

Mætir fyrr til vinnu

Fiskvinnsluvélarnar eru nokkrar í ÚA. Fimm flökunarvélar, karfavél og tveir hausarar.

“Hérna hefst vinnsla klukkan átta á morgnana en ég mæti mun fyrr. Hnífarnir eru í kringum þrjátíu og þeir eru brýndir daglega, þannig tryggjum við að nýtingin verði sem best. Svo þarf líka að athuga hvort vélarnar séu örugglega rétt stilltar, þannig að það er eitt og annað sem þarf að fara yfir og fylgjast með frá degi til dags.”

Ný fiskvinnsluvél að klára reynslutímann

“Já, við höfum verið að prufukeyra nýja Curio vél. Í henni eru sex hnífar og segja má að reynslutíminn sé á enda og vélin tekin í fulla notkun. Annars eru vélarnar alltaf að þróast til betri vegar, svo sem í tengslum við þrif og alla umgengni. Þetta eru afskaplega nákvæmar vélar enda nauðsynlegt, þar sem verðmæti hráefnisins er mikið og þá er eins gott að nýtingin verði sem best.”

Launin ágæt og góður starfsandi

Axel hefur unnið hjá ÚA í sjö ár, þar af sem Baadermaður í tvö ár. Hann þekkir vel til fiskvinnslunnar, starfaði áður lengst af hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.

“Þetta er fjölbreytt starf og svo hleyp ég í annað smotterí, strekkja færiböndin og fleira sem til fellur. Hérna er mjög góður starfsandi, þannig að ég er mjög sáttur. Launin eru ágæt og starfsaldurinn hérna er nokkuð hár, sem segir sína sögu,” segir Axel Aðalsteinsson Baadermaður hjá ÚA.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin