Stjórnarráðið

Ársskýrslur ráðherra birtar

Ársskýrslur ráðherra eru komnar út. Aukið gagnsæi um ráðstöfun og nýtingu fjármuna er markmiðið með skýrslunum sem er einnig ætlað að vera grundvöllur fyrir umræðu um stefnumörkun og forgangsröðun hins opinbera.

Ársskýrslur ráðherra eru birtar samkvæmt lögum um opinber fjármál. Í lögunum er kveðið á um að hver ráðherra skuli birta slíka skýrslu þar sem gera skal grein fyrir útgjöldum málefnasviða og málaflokka og bera saman við fjárheimildir fjárlaga. Þá skal í ársskýrslum gera grein fyrir fjárveitingum til einstakra ríkisaðila og verkefna og leggja mat á ávinning af þeim með tilliti til aðgerða, markmiða og mælikvarða sem settir hafa verið fram í fjármálaáætlun.

Ársskýrslur ráðherra veita heildstæða samantekt um þróun útgjalda og mat á árangri. Samanburður er gerður við sett markmið í því skyni að skýra samhengi fjármuna og stefnumótunar. Þannig er tryggð yfirsýn og eftirfylgni með framgangi settra markmiða í fjármálaáætlun á einstökum málefnasviðum sem ráðherrar bera ábyrgð á.

Halda áfram að lesa

Innlent

Sameiginleg yfirlýsing varnarmálaráðherra Norðurlandanna um eflingu norræna varnarsamstarfsins

Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna hafa gefið frá sér sameiginlega yfirlýsingu um mikilvægi norræns samstarfs í öryggis- og varnarmálum.

Í yfirlýsingunni fagna Danmörk, Ísland og Noregur ákvörðunum Finnlands og Svíþjóðar um að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu og leggja áherslu á að fullgilding aðildar gangi hratt fyrir sig. Einnig er vísað til sameiginlegrar yfirlýsingar forsætisráðherra ríkjanna þriggja frá 16. maí sl. um að þau muni aðstoða Finnland og Svíþjóð með öllum ráðum verði öryggi þeirra ógnað áður en aðild að Atlantshafsbandalaginu gengur í gildi.

Í yfirlýsingu varnarmálaráðherranna, sem gefin var út frá Borgundarhólmi, kemur meðal annars fram að aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu verði til þess að efla öryggi og stöðugleika á Norðurlöndunum og sameiginlegar varnir Atlantshafsbandalagsins. Samstarf Norðurlandanna undir merkjum norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO) verði jafnframt aukið til að mæta þeim vaxandi áskorunum sem ríkin standi nú frammi fyrir.

Yfirlýsinguna er að finna hér.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland styrkir loftslagstengd verkefni í Afríku

Ísland hefur gerst aðili að sjóðnum EEP Africa (The Energy and Environment Partnership Trust Fund) með 200 milljóna króna framlagi á árunum 2022 til 2025. Starfsemi EEP Africa er í höndum Norræna þróunarsjóðsins (NDF) í Helsinki og eru önnur aðildarríki sjóðsins Austurríki, Finnland og Sviss, auk NDF. Leggur sjóðurinn áherslu á að veita styrki til loftslagstengdra verkefna í austur- og suðausturhluta Afríku, styðja við starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og veita þeim ráðgjöf. Það gerir sjóðurinn með því að veita styrki til að hefja framkvæmdir og með því að styðja við viðskiptaáætlanir fyrirtækja á staðnum og miðla af þekkingu sinni til þeirra. Á árunum 2018-2020 samþykkti sjóðurinn styrki til ríflega sjötíu verkefna í þrettán ríkjum. Meirihluti fyrirtækja sem sjóðurinn styrkir er undir stjórn heimamanna, einkum kvenna.

Aðild Íslands að EEP Africa styður við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka stuðning við loftslagstengd verkefni í þróunarsamvinnu og samræmist stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem samþykkt var á Alþingi 2019.

Halda áfram að lesa

Innlent

Fyrsti fundur starfshóps um endurskoðun refsiábyrgðar heilbrigðisstarfsfólks

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra hefur skipað til að meta möguleika þess að afnema refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks vegna atvika í heilbrigðisþjónustu sem rakin eru til einfalds gáleysis hélt sinn fyrsta fund í dag. Hópnum er falið að leggja til útfærslu á lagabreytingu þessa efnis og enn fremur að meta hvort setja eigi í sérlög ákvæði um cumulativa hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana (ábyrgð án sakar). Starfshópurinn skal við vinnu sína hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila, s.s. félög heilbrigðisstarfsfólks, auk félaga, samtaka og annarra sem geta talað máli notenda heilbrigðisþjónustu. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. september næstkomandi.

Formaður starfshópsins er Sigurður Kári Árnason, yfirlögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu. Aðrir sem sæti eiga í starfshópnum eru:

  • Alma Dagbjört Möller landlæknir
  • Anna María Káradóttir lögfræðingur hjá embætti landlæknis,
  • María Káradóttir aðstoðarsaksóknari hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu,
  • Theódór Skúli Sigurðsson sérfræðingur í barnasvæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala,
  • Jón H.B. Snorrason saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara
  • Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu.

Starfsmaður hópsins er Anna Birgit Ómarsdóttir lögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin