Innlent

Aukið alþjóðlegt samstarf gegn tölvuglæpum

Ísland hefur ásamt 21 öðru ríki undirritað aðra viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot um aukið samstarf og upplýsingagjöf fyrir rafræn sönnunargögn. Bókunin er til komin í ljósi aukinnar útbreiðslu netglæpa samhliða vaxandi notkun upplýsinga- og samskiptatækni. Yfirvöld á Íslandi hafa ekki farið varhluta af þessari þróun og því aukna flækjustigi sem öflun sönnunargagna yfir landamæri getur haft í för með sér fyrir meðferð sakamála, hvort sem þau eru til meðferðar í refsilögsögu Íslands eða annarra ríkja.

Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu undirritaði samninginn fyrir hönd ráðherra í þinghöll Evrópuráðsins í Strassborg. Dómsmálaráðuneytið fer með málefni samningsins fyrir hönd Íslands og á fulltrúa í nefnd Evrópuráðsins sem sér um samninginn.

Bókuninni er ætlað að mæta þörfinni fyrir skjótar og skilvirkar boðleiðir milli ríkja við meðferð sakamála og milli opinberra aðila og einkaaðila. Helstu nýmælin varða ákvæði um samvinnu yfirvalda og þjónustuveitenda, óháð landamærum. Bókuninni er ætlað að undirbyggja lagagrundvöll fyrir slíkt samstarf, með innleiðingu í landsrétt aðildarríkja. Markmiðið er að koma á skjótvirkara og skilvirkara samstarfi vegna upplýsingaöflunar löggæsluyfirvalda um notendur, áskrifendur og fjarskiptaumferð í þágu rannsóknar sakamála. Þá er mælt fyrir um fyrirkomulag við slíka upplýsingaöflun í neyðartilvikum.

Á döfinni er að endurskoða lagaumgjörð á Íslandi í tengslum við innleiðingu viðbótarbókunarinnar sem gefa mun yfirvöldum víða um heim skilvirkari verkfæri í baráttunni við hvers konar brotastarfsemi þar sem tölvur eru hagnýttar til afbrota.

Formennska Íslands í Evrópuráðinu

Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember á þessu ári. Í aðdraganda þess hefur fastafulltrúi Íslands tekið sæti í yfirstjórn Evrópuráðsins og gegnir formennsku á mannréttindafundum ráðherranefndar Evrópuráðsins hálfu ári áður en Ísland tekur við formennskunni. Á meðan á formennskunni stendur leiðir Ísland starf ráðsins, ásamt öðrum leiðtogum þess, hefur málefnalegt frumkvæði í starfseminni og er í fyrirsvari fyrir Evrópuráðið gagnvart öðrum alþjóðastofnunum. Ísland hefur einu sinni áður, árið 1999, gegnt formennsku í Evrópuráðinu.

Evrópuráðið (e. Council of Europe) var stofnað 5. maí 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 7. mars 1950. Aðildarríki þess eru 47. Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins er því ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa.

Nánar um Evrópuráðið

Alþingi

Nefndadagar miðvikudaginn 25. maí og föstudaginn 27. maí

23.5.2022

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru nefndadagar miðvikudaginn 25. maí og föstudaginn 27. maí. Samkvæmt venju verður fundað bæði fyrir og eftir hádegi í nefndum. Við ákvörðun um fundartíma er reynt að gæta samræmis og mið tekið af stöðu mála í nefndum og fundaþörf nefnda.

Miðvikudagur 25. maí

  • Kl. 9–12: Fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd
  • Kl. 13–14: Þingflokksfundir
  • Kl. 14–16: Allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd

Föstudagur 27. maí

  • Kl. 9–12: Fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd
  • Kl. 13–16: Allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd

Endanlegir fundartímar og dagskrár birtast á vef Alþingis.

Halda áfram að lesa

Innlent

Fréttir frá félagsfólki SVÞ | Waldorfsskólinn hlaut foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Mbl.is birtir í dag frétt um foreldraverðlaun Heimilis og skóla sem Waldorfsskólinn hlaut frá samtökum.

For­eldra­verðlaun Heim­il­is og skóla voru af­hent í 27. sinn í Safna­hús­inu við Hverf­is­götu. Waldorf­skól­inn í Lækj­ar­botn­um hlaut verðlaun­in í ár fyr­ir verk­efnið „Vinnu­dag­ar Lækj­ar­botna og gróður­setn­ing plantna á skóla­setn­ingu“.

Fram fór hátíðleg at­höfn í Safna­hús­inu við Hverf­is­götu og mættu þau Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, og El­iza Reid for­setafrú til að ávarpa sam­kom­una og af­henda verðlaun­in.

SMELLIÐ HÉR FYRIR FRÉTT Á MBL.IS

Ljósmynd: Stjórnarráðið

Halda áfram að lesa

Innlent

Tuttugu og þrír nemendur útskrifast frá Jafnréttisskóla GRÓ

Jafnréttisskóli GRÓ (GRÓ-GEST) útskrifaði 23 sérfræðinga frá 15 löndum á föstudag, en þá var útskrift fjórtánda nemendahóps skólans frá upphafi fagnað í hátíðarsal Háskóla Íslands. Alls hafa nú 195 nemendur, frá 34 löndum útskrifast frá Jafnréttisskólanum með diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Í ár voru í fyrsta sinn nemendur við skólann frá Moldóvu, Pakistan og Simbabve.

Í útskriftinni fengu tveir nemendur verðlaun fyrir lokaverkefni sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur verndara Jafnréttisskólans. Að þessu sinni féllu verðlaun fyrir rannsóknarverkefni í skaut Nicole Wasuna. Verkefni hennar fjallar um morð á konum í heimalandi hennar Kenía og hún setti þar fram tillögur að stefnumótun sem snúa meðal annars að þjálfun starfsmanna lögreglu, dómsstóla og fjölmiðla. Verðlaun fyrir lokaverkefni hlaut Sandani N. Yapa Abeywardena, en hún fjallaði um meðferð kynferðisbrotamála fyrir dómstólum í Sri Lanka. Hún skoðaði dóma í nauðgunarmálum, alvarlegum kynferðisafbrota- og áreitnimálum og hvernig dómarar líta á kynferði við túlkun laga um kynbundið ofbeldi og trúverðugleika fórnarlamba.

Ávörp fluttu Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sem færði nemendum hamingjuóskir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, en Jafnréttisskólinn er hýstur af hugvísindasviði Háskólans, og Dr. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ. Diana Motsi, nemandi frá Zimbabwe flutti áhrifamikið ljóð, sem hún samdi sjálf og Maame Adwoa Amoa-Marfo frá Gana flutti ávarp fyrir hönd nemenda. Nemendur tóku við skírteinum sínum frá Ólöfu Garðarsdóttur, forseta Hugvísindasviðs HÍ, og Nínu Björk Jónsdóttir, forstöðumanni GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu.

Jafnréttisskólinn er einn fjögurra skóla sem GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfrækir á Íslandi undir merkjum UNESCO. Hinir skólarnir eru Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn, en GRÓ er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Samtals hafa nú 1.536 nemendur, frá rúmlega 100 löndum, lokið námi við skólana fjóra. Að auki hafa fjölmörg styttri námskeið verið haldin á vettvangi. Einnig veitir GRÓ skólastyrki til útskrifaðra nemenda til meistara- og doktorsnáms við íslenska háskóla.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin