Innlent

Aukin þekking á borgaraþjónustu og jákvæðni í garð alþjóðasamvinnu

Tvöfalt fleiri segjast þekkja vel til borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar nú en á fyrstu stigum heimsfaraldursins og allur þorri fólks segist mundu leita til hennar ef það lenti í vanda erlendis. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri viðhorfskönnun um utanríkismál og alþjóðasamstarf sem Maskína vann fyrir utanríkisráðuneytið. Íslendingar eru almennt jákvæðir fyrir alþjóðlegri samvinnu, ekki síst á vettvangi Norðurlanda, og þrír af hverjum fjórum telja að hagsæld Íslands byggist á alþjóðlegum viðskiptum. Könnunin var gerð dagana 10. til 26. maí síðastliðinn og eru niðurstöður hennar að mestu í samræmi við sambærilegar kannanir sem gerðar voru 2020 og 2019.

Alls segjast 16,8 prósent Íslendinga nú þekkja vel til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, samanborið við 8,6 prósent árið 2020. Þá segjast 33,5 prósent þekkja í meðallagi til þjónustunnar, samanborið við 23,1 prósent árið 2020. Með borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins er átt við þá þjónustu sem utanríkisráðuneytið, sendiskrifstofur Íslands og ræðismenn veita íslenskum ríkisborgurum sem búa eða eru á ferðalagi erlendis, en undanfarin misseri hefur starfsemi borgaraþjónustunnar markast verulega af heimsfaraldri kórónuveirunnar. Þess má geta að utanríkisþjónustan aðstoðaði hátt í tólf þúsund Íslendinga erlendis vegna faraldursins á síðasta ári.

Spurt var um bæði þekkingu svarenda á hinum ýmsu alþjóðastofnunum sem og viðhorf til þátttöku Íslands í starfsemi þessara stofnana. Niðurstöðurnar sýna að eftir því sem þekking er meiri reynast viðhorfin almennt jákvæðari.

Þátttaka Íslands í alþjóðlegu samstarfi nýtur áfram afgerandi stuðnings meirihluta þjóðarinnar og þá telur mikill meirihluti Íslendinga að hagsæld Íslands byggist að miklu leyti á alþjóðlegri samvinnu (72,5%) og alþjóðlegum viðskiptum (74,6%).

Sem fyrr eru Íslendingar sérstaklega jákvæðir í garð norræns samstarfs, en 89,8 prósent landsmanna eru jákvæð gagnvart virkri þátttöku Íslands í Norðurlandasamstarfi. Þá segjast 75,6 prósent vera jákvæð gagnvart aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum, 72,3 prósent eru jákvæð gagnvart því að Ísland taki virkan þátt í störfum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og 70,1 prósent eru jákvæð gagnvart þátttöku Íslands í Norðurskautsráðinu.

Þegar kemur að öryggis- og varnarmálum þá segjast 51,4 prósent jákvæð gagnvart aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, NATO, en 15,9 prósent neikvæð. Alls segjast 43,1 prósent eru jákvæð gagnvart varnarsamstarfi Íslands við Bandaríkin, en 21,4 prósent neikvæð, og þá eru 50,4 prósent jákvæð gagnvart norrænu varnarsamstarfi en einungis 5,2 prósent neikvæð.

Sérstaklega var spurt um Evrópusamstarf og segjast 42,7 prósent vera jákvæð gagnvart Evrópusambandinu og 26,1 prósent neikvæð. Þá mælist stuðningur við EES samninginn nú 54,9 prósent, en 12,4 prósent segjast neikvæð gagnvart aðild Íslands að samningnum. Þegar spurt er um ástæður þess að fólk er jákvætt gagnvart EES samningnum nefna flestir möguleika til náms og vinnu, frelsi í viðskiptum og vöruverð. Þau sem eru neikvæð gagnvart EES samningnum nefna helst óþarfa tilskipanir/reglugerðir og yfirráð yfir auðlindum.

Markmið könnunarinnar er að bæta upplýsingamiðlun til almennings um störf og stefnu utanríkisþjónustunnar.

Hér má nálgast helstu niðurstöður könnunarinnar.

Innlent

Um grímuskyldu

Nokkurrar óvissu hefur gætt um framkvæmd reglugerðar nr. 587/2021frá 25. júlí s.l. um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Óvissan hefur einkum beinst að því hversu langt skyldan til að bera andlitsgrímur nær.

SVÞ finnst því ástæða til að skýra þessi atriði frekar.

Samkvæmt skýru ákvæði reglugerðarinnar er einungis um að ræða skyldu til að bera andlitsgrímu inni í verslunum og öðrum sambærilegum stöðum, þegar ekki er hægt að tryggja a.m.k eins metra fjarlægð milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Ákvæði sem upphaflega var í reglugerðinni þess efnis að einnig bæri að bera anliltsgímur þegar loftræsting væri ófullnægjandi, hefur verið felld út.

Eftir þessu er það lagt í hendur hvers fyrirtækis fyrir sig að meta hvenær ekki er hægt að tryggja nálægðartakmörkun með fullnægjandi hætti.

Halda áfram að lesa

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 28. – 29. júní

27. júlí 2021

Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar
Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands 28. – 29. júní 2021 hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndarmenn ræddu meðal annars um stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika, stöðu efnahagsmála, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, stöðu og áhættu í fjármálakerfinu og í rekstri einstakra fjármálafyrirtækja, vanskil, fasteignamarkaðinn, álagspróf, kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, fjármálasveifluna, ný heildarlög um gjaldeyrismál, sveiflujöfnunaraukann og takmörkun á fasteignalánum.

Sjá hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 28. – 29. júní 2021 (8.fundur). Birt 27. júlí 2021.

Sjá nánari upplýsingar um nefndina hér.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ungir Íslendingar geti búið og starfað í Bretlandi

Samkomulag er í höfn milli Íslands og Bretlands sem gerir ungu fólki frá Íslandi, á aldrinum 18 til 30 ára, mögulegt að búa og starfa í Bretlandi í allt að tvö ár. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í dag en það gerir ungum Bretum að sama skapi mögulegt að búa og starfa á Íslandi. 

Viðræður um framtíðarsamband Íslands og Bretlands hafa verið afar umfangsmiklar. Í byrjun júlí undirritaði ráðherra nýjan fríverslunarsamning við Bretland og þá hefur einnig verið skrifað undir samkomulag við bresk stjórnvöld um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda

Guðlaugur Þór fagnar samkomulaginu sem hann segir afar mikilvægt. „Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að tryggja tækifæri ungs fólks til þess að búa, starfa og mennta sig í Bretlandi, sem sést meðal annars í þeirri staðreynd að Ísland er fyrsta ríkið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu til að gera samning við Bretland um vinnudvöl ungs fólks frá því landið gekk úr Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að sterk tengsl ríkjanna muni styrkjast enn frekar með þessum samningi,“ segir Guðlaugur Þór. 

Eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu þurfa allir sem vilja flytja til Bretlands að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi Bretlands, en nýja samkomulagið mun auðvelda ungu fólki frá Íslandi ferlið til muna. 

Áætlað er að nýja fyrirkomulagið taki gildi í byrjun árs 2022 að undangengnum nauðsynlegum lagabreytingum. 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin