Innlent

Ávörpuðu ungmennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, flutti í dag ávarp á ungmennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, (ECOSOC Youth Forum) sem í ár er haldin í tíunda sinn.  Ráðherra deildi ræðutíma sínum með Jökli Inga Þorvaldssyni, fulltrúa Landsambands ungmennafélaga gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Ungmennaráðstefnan er í umsjá Efnahags- og félagsmálaráðs SÞ og leikur lykilhlutverk í að lyfta fram sjónarmiðum, lausnum og reynslu ungs fólks  á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Í ár var sérstök áhersla lögð á umræður áhrif COVID-19 faraldursins á börn og ungmenni og innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Í ávarpi sínu fjallaði félags- og barnamálaráðherra um mikilvægi þess að börn og ungmenni taki virkan þátt í stefnumótun og uppbyggingu samfélaga um allan heim í kjölfar COVID- 19 faraldursins. Hann lagði áherslur á að börn ættu ekki eingöngu að vera hjartað í aðgerðum stjórnvalda, þau ættu einnig að vera þátttakendur í samtalinu um hvernig bregðast skuli við áhrifum faraldursins. Ráðherrann notaði einnig tækifærið til að þakka börnum og ungmennum út um allan heim fyrir framlag þeirra og þær fórnir sem þau hafa fært með því að virða samkomutakmarkanir til að hefta útbreiðslu COVID faraldursins.

Jökull Ingi Þorvaldsson tileinkaði erindi sitt réttindum LGBTQI+ ungmenna á alþjóðlegum sem innlendum vettvangi. En í erindi sínu fjallaði hann um mikilvægi þess að stjórnvöld ræði réttindi þessa hóps á alþjóðlegum vettvangi m.a. á ráðstefnum sem þessari. Jökull lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að unnið sé með markvissum hætti að því að koma í veg fyrir ofbeldi og hatursglæpi gagnvart LGBTQI+ ungmennum, m.a. með því að safna tölfræðigögnum um tíðni ofbeldisins og þróun þess yfir tíma. Að lokum lagði Jökull áherslu á að stjórnvöld tryggi að fullnægjandi löggjöf og aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé lykilatriði til að uppfylla réttindi LGBTQI+ ungmenna og vernda þau fyrir ofbeldi.

Ráðstefnan fer fram dagana 7-8. apríl og er hægt að fylgjast með fundinum hér

Innlent

COVID-19: Aðgerðir á landamærum hertar tímabundið

Stjórnvöld kynna í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands þrátt fyrir mikla útbreiðslu faraldursins erlendis. Bólusetningu hér á landi miðar vel og eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.

Heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi sóttvarnalögum sem felur í sér forsendur fyrir þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Meginefni þeirra eru:

Dvöl í sóttkvíarhúsi: Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit/100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði. Kveðið verður á um forsendur fyrir dvöl í sóttvarnahúsi í reglugerð heilbrigðisráðherra.

Auknar ferðatakmarkanir: Dómsmálaráðherra fái að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum til og frá hááhættusvæðum (nýgengi yfir 1000/100.000) samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.

Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní

Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar a.mk. til 1. júní. Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. júní munu vægari kröfur gilda um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.

Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Kynningarglærur frá blaðamannafundi – uppfærð útgáfa

Halda áfram að lesa

Innlent

Meta ber hæfi sem fyrst eftir að brigður eru bornar á það

Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort starfsmaður sé vanhæfur svo fljótt sem unnt er eftir að athygli er vakin á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi. Ef í ljós kemur á lokastigum máls að starfsmaður er vanhæfur getur það tafið meðferð þess óhæfilega.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ísland aðili að samstarfsvettvangi um öryggis- og varnarmál

Ísland gerðist í dag aðili að samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar (e. Joint Expeditionary Force, JEF). Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London undirritaði samkomulag þessa efnis í dag ásamt Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands. 

Aðild Íslands að samstarfinu byggist á sameiginlegum öryggis- og varnarhagsmunum þátttökuríkjanna  og mun bæta yfirsýn um stöðu og þróun öryggismála í nærumhverfi þeirra. Horft er til þess að samstarfið geti nýst til neyðarviðbragða, vegna almannavarna og mannúðaraðstoðar. Framlag Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál sem Ísland á aðild að. Ekki er gert ráð að kostnaður fylgi þátttöku Íslands í samstarfinu að öðru leyti en fyrirhugað er að borgaralegur sérfræðingur starfi á vettvangi JEF þegar fram í sækir.

„Það er fagnaðarefni að Ísland taki nú þátt í þessu öryggis- og varnarmálasamstarfi nokkurra af okkar helstu vinaríkjum. Ísland getur lagt sitt af mörkum til samstarfsins en um leið njótum við góðs af aukinni samvinnu við þessi líkt þenkjandi ríki um öryggismál í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Sameiginlega viðbragðssveitin var sett á fót árið 2018 og eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð aðilar að samstarfinu ásamt Eistlandi, Lettlandi, Litáen, Hollandi og Bretlandi. Ísland verður því tíunda ríkið sem tekur þátt í þessu samstarfi. 

Á fundinum ræddu þeir Sturla og Wallace m.a. ástand og horfur í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands í öryggis- og varnarmálum. Rúm tvö ár eru síðan Guðlaugur Þór og Jeremy Hunt, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, undirrituðu samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin