Innlent

Bætt aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu

Unnið er að því að bæta aðgengi framhaldsskólanema að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu og í því skyni hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti samið við nýsköpunarfyrirtækið Kara Connect um að veita alls 7 framhaldsskólum aðgang að stafrænni lausn sem tengir nemendur við sérfræðinga í gegnum öruggt vefsvæði.

Fjölmargir sérfræðingar í heilbrigðis-, félags- og menntakerfinu notast við kerfi Köru Connect til þess að eiga í samskiptum við skjólstæðinga sína í gegnum spjall- og myndfundi á netinu. Kerfið hefur reynst vel og nú þegar hafa margir skólanna nýtt sér hugbúnaðinn með ýmsum hætti.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Með þessum samningi viljum við auka og bæta aðgengi framhaldsskólanemenda að geðheilbrigðisþjónustu, bæði innan eða utan skóla. Það hefur marga kosti að veita þessa þjónustu með stafrænni tækni, ekki síst í núverandi árferði. Við höfum heyrt skýrt ákall um mikilvægi þessa og við því er mikilvægt að bregðast. Þá munum við nýta þessar upplýsingar til þess að móta framtíðarsýn fyrir nánari uppbyggingu á stoðkerfi fyrir framhaldsskólanna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri og stofandi Kara Connect:
„Framhaldsskólanemum finnst sjálfsagt og eðlilegt að hafa gott aðgengi að upplýsingum og þjónustu á við geðheilbrigðisþjónustu í gegnum internetið. Eins og við höfum orðið vitni að síðustu misserin eru væntingar þeirra ekki einungis réttmætar heldur er beinlínis áríðandi að við uppfyllum þær. Að uppfylla þessa kröfu er tiltölulega einfalt, en það er ekki auðvelt. Við þurfum samtímis að gerbreyta vinnuferlum þeirra sérfræðinga sem veita geðheilbrigðisþjónustu og styðja þá og verja á meðan á breytingunum stendur. Þetta er verkefni til framtíðar, verkefni sem varðar okkur öll, verkefni á heimsmælikvarða. Við stöndum á þröskuldi stafrænnar umbyltingar sem færir ungu fólki betra, öruggara og einfaldara aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.“

Auður Aþena Einarsdóttir framhaldsskólanemi og margmiðlunarstjóri Sambands íslenskra framhaldsskólanema: 

„Það er mjög einfalt og þægilegt að nota Kara Connect heimanfrá og ég hef ekkert nema góða reynslu af því að nota forritið. Það er mikilvæg viðbót við stoðþjónustu í framhaldsskólum, sérstaklega á þessum skrýtnu tímum. Staðviðtöl eru mjög mikilvæg en Kara Connect er góður og hentugur valkostur fyrir fjöldann allan af framhaldsskólanemum.“

Í gegnum hugbúnað Kara Connect munu nemendur m.a. hafa rafrænan aðgang að þjónustu frá sérfræðingum í stoðkerfum skólanna, s.s. sálfræðingum, náms- og starfsráðgjöfum, félagsráðgjöfum o.fl. – og samtímis gefur þetta viðkomandi sérfræðingum færi á nánara samstarfi og samhæfingu í stoðkerfi við nemendur í viðkomandi skóla.

Búnaðurinn uppfyllir allar kröfur um persónuvernd og eru öll gögn dulkóðuð og geymd á öruggan máta til að vernda persónugreinanlegar upplýsingar skjólstæðinga.

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 13. – 14. júní 2022

01. júlí 2022

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála, áhættu fjármálafyrirtækja og fjármálakerfis, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðuna á fasteignamarkaði og eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka og um gerð opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika sem Fjármálastöðugleikaráð vinnur að.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% en að halda hlutfallinu fyrir aðra kaupendur óbreyttu í 80%. Nefndin ákvað jafnframt að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið er að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað jafnframt að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Fjármálastöðugleikanefnd ákvað við ársfjórðungslegt endurmat á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi hans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í september sl. mun hann hækka úr 0% í 2% í lok september 2022.

Þá áréttaði nefndin mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.

Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 13. -14. júní 2022 (13.fundur). Birt 1. júlí 2022.

Sjá hér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar

Halda áfram að lesa

Innlent

Tiltekinn fjöldi tapaðra tanna ekki eina forsenda þátttöku sjúkratrygginga vegna slyss

 

Í lögum um sjúkratryggingar er ekki kveðið með tæmandi hætti á um hvaða rétt fólk hefur til fjárhagslegrar aðstoðar vegna tannréttinga. Sama gegndi um reglugerðarákvæði þar að lútandi. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Utanríkisráðherra ávarpar sérstaka umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan

Mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í sérstakri umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan í dag. Ráðherra tók þátt í gegnum fjarfundabúnað. 

„Síversnandi staða mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan er gífurlegt áhyggjuefni. Ekkert ríki í alþjóðasamfélaginu neitar stúlkum um grunnskólamenntun með aðeins einni undantekningu, Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá lagði hún áherslu á að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við afgönsku þjóðina og hvatti til stofnsetningu réttmæts kjörins stjórnvalds sem fulltrúi þjóðarinnar sem virðir jafnframt mannréttindi allra, þar með talið kvenna og stúlkna. 

Ávarp sem utanríkisráðherra flutti á fundinum í dag má lesa í heild sinni hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin