Innlent

Banaslys í Fljótsdal á Austurlandi

21 Júlí 2021 18:39

Um klukkan 14 í dag barst tilkynning til lögreglu um slys í suðurdal Fljótsdals á Austurlandi.

Kona í fjallgöngu hafði slasast og lést af völdum áverka sem hún varð fyrir.

Unnið er að rannsókn málsins og ekki verða frekari upplýsingar veittar að svo stöddu.

Innlent

Heilbrigðisráðherra heimsækir heilbrigðisstofnanir

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra heimsótti í vikunni Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU), fundaði með framkvæmdastjórninni, kynnti sér starfsemi stofnunarinnar og skoðaði nýja hjúkrunarheimilið Móberg sem verður tekið í notkun innan skamms. Heimsóknin markar upphafið að hringferð ráðherra um landið sem mun á næstunni heimsækja heilbrigðisstofnanir í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Á fundi ráðherra með framkvæmdastjórn kynnti Díana Óskarsdóttir forstjóri HSU helstu stærðir í rekstri stofnunarinnar, þróun starfseminnar og starfsáætlun þessa árs, áherslur í mannauðsmálum og ýmsar nýjungar sem unnið er að meðal annars á sviði heilbrigðistækni og fjarheilbrigðisþjónustu. Markvisst hefur verið unnið að því að styrkja þjónustu sérgreinalækna við stofnunina undanfarið með áherslu á aukna þjónustu við íbúa í heimabyggð og verður áfram haldið á þeirri braut.

Víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) í núverandi mynd varð til við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja árið 2015 og er þetta víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins. Íbúar á þjónustusvæði HSU eru rúmlega 32.000 en í umdæminu eru einnig fjölmennar sumarhúsabyggðir og fjölsóttir ferðamannastaðir sem setur mark sitt á starfsemi stofnunarinnar, einkum yfir sumartímann. Starfsmenn HSU eru um 650 í 420 stöðugildum.

HSU starfrækir níu heilsugæslustöðvar í umdæminu, sjúkrahús á Selfossi og í Vestmannaeyjum og á Selfossi er opin bráðamóttaka allan sólarhringinn árið um kring. Á Selfossi er ljósmæðrastýrð fæðingarþjónusta og voru fæðingar 70 á síðasta ári. Þar er einnig miðstöð meðgönguverndar og göngudeildarþjónustu við barnshafandi fjölskyldur. Á heilsugæslustöðvunum er veitt grunnþjónusta með áherslu á forvarnir og fræðslu. Þar er móttaka sjúklinga, bráða- og slysaþjónusta, skólaheilsugæsla, heimahjúkrun, meðgöngu- og ungbarnavernd og sálfræðiþjónusta. Á öllum heilsugæslustöðvunum er bráðavakt læknis vegna neyðartilfella og stofnunin annast jafnframt alla sjúkraflutninga á starfssvæði sínu. Geðheilsuteymi HSU tók til starfa árið 2019 og sinnir það einstaklingum 18 ára og eldri sem þurfa á sérhæfðri og þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu að halda.

Hjúkrunarheimilið Móberg

Við HSU á Selfossi eru rekin 42 hjúkrunarrými fyrir aldraða og stofnunin rekur einnig hjúkrunarheimilið Hraunbúðir í Vestmannaeyjum með 32 íbúa. Í lok árs 2019 var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili í Árborg á bökkum Ölfusár við hlið HSU á Selfossi. Heimilið sem er fyrir 60 íbúa er nánast tilbúið til notkunar og munu fyrstu íbúarnir flytja þangað inn á næstunni. Hjúkrunarheimilið hefur fengið nafnið Móberg og mun HSU annast rekstur þess.

Halda áfram að lesa

Innlent

Önnur og þriðja vaktin rannsakaðar

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að tillögu forsætisráðherra að hefja undirbúning að rannsókn á ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum, sem stundum nefnast önnur og þriðja vaktin. Í nýrri, árlegri stöðuskýrslu um kortlagningu kynjasjónarmiða kemur fram að slík rannsókn gæti fangað kynjaðan raunveruleika og nýst við stefnumótunarvinnu, líkt og raunin hefur verið í nágrannalöndunum.

Skýrsla um kortlagningu kynjasjónarmiða kemur nú út í þriðja sinn, en hún er unnin af öllum ráðuneytum undir forystu forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Kynjasjónarmið eiga við á flestum þeim málefnasviðum sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar tekur til og greinir skýrslan frá helstu niðurstöðum kortlagningar þeirra auk þess sem kynntar eru tillögur um næstu skref.

Í skýrslunni kemur fram að þótt rannsóknir bendi til að ólaunuðum störfum sé sinnt með ólíkum hætti af kynjunum skorti áreiðanlegar mælingar á því. Í nágrannalöndunum hafa verið gerðar tímanotkunarrannsóknir sem nýst hafa við stefnumótun og gæti íslensk rannsókn á þessu efni gefið skýrar og auðskiljanlegar niðurstöður og náð að fanga kynjaðan raunveruleika á annan hátt en gert hefur verið. Ákvað ríkisstjórnin að forsætisráðuneytið hefji undirbúning slíkrar rannsóknar í samstarfi við Hagstofu Íslands.

Í skýrslunni eru dregnar fram fjölmargar áskoranir í jafnréttis¬málum og má skipta þeim í fjögur þemu:

  • Kynskiptur vinnumarkaður
  • Launamunur kynjanna
  • Ólaunuð heimilis- og umönnunarstörf
  •  Kynjamunur á heilsu og líðan

Þessir þættir hafa allir áhrif hver á annan og birtingarmyndirnar eru ólíkar eftir málefnasviðum.

Dæmi um niðurstöður úr skýrslunni:

Konur eru í miklum meiri hluta vaktavinnufólks hjá ríkinu. Þær eru mun líklegri en aðrar konur sem starfa hjá ríkinu til að vera í hlutastarfi. Starfshlutfall kvenna í vaktavinnu hefur þó aukist við innleiðingu betri vinnutíma.

Geðraskanir eru nú algengasta orsök þess að konur eru metnar til örorku. Dregið hefur úr vægi stoðkerfissjúkdóma meðal kvenna og karla og er talið að aukin áhersla á endurhæfingu skýri það. Konur eru þó áfram í mun meira mæli metnar til örorku vegna stoðkerfissjúkdóma

Um fjórðungur feðra en aðeins um tíunda hver móðir fékk hámarksgreiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Nýting feðra á rétti sínum til fæðingarorlofs hefur aukist hægt í takt við hækkun hámarksgreiðslna

Þá samþykkti ríkisstjórnin að hvert ráðuneyti skilgreini að lágmarki eitt sértækt jafnréttismarkmið í fjármálaáætlun 2024-2028 og vinnu markvisst að framgangi þess, m.a. með skilgreindum aðgerðum í fjárlagafrumvarpi ársins 2024.

Halda áfram að lesa

Innlent

Traust til opinberra aðila almennt gott en bæta þarf samráð

Almennt ríkir traust gagnvart opinberum aðilum hér á landi en almenningur telur jafnframt að stjórnvöld taki ekki nægilegt tillit til ábendinga sem þeim berast. Þetta eru meðal niðurstaðna nýrrar könnunar OECD um traust sem var til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Settur verður á fót starfshópur um aukið lýðræðislegt samráð við almenning.

Samkvæmt könnuninni sem var framkvæmd í 22 aðildarríkjum OECD í nóvember og desember á síðasta ári segist rúmur helmingur svarenda á Íslandi treysta stjórnvöldum á landsvísu en um þriðjungur treystir þeim ekki. Sé horft til meðaltals allra ríkjanna reynast hóparnir sem treysta stjórnvöldum og treysta þeim ekki jafnstórir, eða um 41%. Traust almennings á Íslandi til opinberra aðila mælist yfir meðaltali OECD í öllum tilvikum nema þegar kemur að dómskerfinu.

Samkvæmt könnuninni hafa ýmsir þættir áhrif á traust almennings til stjórnvalda. Þannig er yngra fólk, þeir sem hafa fjárhagslegar áhyggjur, þeir sem eru minna menntaðir og þeir sem kusu ekki ríkjandi valdhafa líklegri til að bera minna traust til stjórnvalda. Er það í samræmi við niðurstöður könnunarinnar í heild.

Í könnuninni var líka spurt um hversu vel fólk teldi stjórnvöld reiðubúin til að takast á við nýjan heimsfaraldur. Um 57% svarenda á Íslandi telur stjórnvöld vel undirbúin fyrir heimsfaraldur en rúm 27% ekki. Að meðaltali í OECD-ríkjunum telur rétt tæpur helmingur að stjórnvöld séu vel undirbúin fyrir heimsfaraldur en tæpur þriðjungur að stjórnvöld séu illa undirbúin.

Í könnun OECD er einnig dregið fram að almennt geti stjórnvöld gert betur í að bregðast við ábendingum borgara. Þannig telur aðeins um 20% svarenda á Íslandi að hann geti haft áhrif á ákvarðanir stjórnvalda sem er undir meðaltali OECD. Þá telur um þriðjungur svarenda á Íslandi að opinber þjónusta verði bætt þegar kvartað er undan henni. Það hlutfall er einnig undir meðaltali OECD.

Sem viðbrögð við niðurstöðum könnunarinnar og framhald tillagna starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu verður skipaður starfshópur um aukið lýðræðislegt samráð við almenning. Hlutverk hópsins verður að fylgja eftir aðgerðum í skýrslu um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og móta frekari tillögur að aðgerðum. 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin