Innlent

Beinn stuðningur ríkisfjármála vegna Covid-19 töluvert meiri en í samanburði AGS

Vegna fréttaflutnings um samanburð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á umfangi stuðningsaðgerða ólíkra ríkja telur fjármála- og efnahagsráðuneytið rétt að vekja athygli á því að beinn stuðningur ríkisins vegna heimsfaraldurs COVID-19 er umtalsvert meiri en haldið er fram í gagnagrunni sjóðsins um umfang stuðningsaðgerða sem birtur var á dögunum. Þar segir að umfang beinna aðgerða hér á landi vegna COVID-19 á sviði ríkisútgjalda og ríkistekna sé 2,1% af vergri landsframleiðslu. Raunin er sú að beinn stuðningur stjórnvalda nemur 9% af VLF þegar teknar eru inn allar beinar aðgerðir vegna efnahagslegra áhrifa faraldursins.

Gagnagrunnurinn á að ná til allra stuðningsaðgerða tengdum faraldrinum sem koma til framkvæmda 2020, 2021 og síðar. Fyrir Ísland er matið skekkt. Leiðir sú skekkja af því að aðeins er horft til nokkurra aðgerða, einkum hlutabóta, greiðslu launa á uppsagnarfresti og útgjalda innan heilbrigðiskerfisins í tilfelli Íslands. Þá nær það aðeins til ársins 2020 en ekki til ársins í ár og þeirra næstu ólíkt því sem almennt gildir um önnur lönd í gagnagrunninum. Margar aðgerðir eru því ýmist ekki taldar með í mati AGS fyrir Ísland eða aðeins taldar með að hluta. Þá er í matinu stuðst við nýtingu úrræða hér á landi, en áætlanir um aðgerðir notaðar vegna aðgerða ýmissa annarra ríkja.

Af þessum annmörkum leiðir að veigamiklar stuðningsaðgerðir, svo sem fjárfestinga- og uppbyggingarátak, tekjufallsstyrkir, viðspyrnustyrkir og framlenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta eru ekki taldar með í mati sjóðsins. Aukin framlög til ýmissa félagslegra málefna eru ekki talin með og ekki aukinn stuðningur við rannsóknir og þróun. Þá er ekki tekið tillit til lækkunar ýmissa skatta og gjalda sem eru hluti af stuðningsaðgerðum stjórnvalda, þ.m.t. lækkun bankaskatts og lækkun og niðurfelling tiltekinna gjalda í ferðaþjónustu. Þessu til viðbótar hefur ríkissjóður ábyrgst lán til fyrirtækja, sem gagnagrunnur AGS nær ekki til.

Heilt yfir er því beinn stuðningur stjórnvalda hér á landi umtalsvert meiri en lesa má úr samanburði AGS. Ábendingu um þetta hefur verið komið á framfæri við sjóðinn

Beinn stuðningur ríkisfjármálanna vegna COVID-19 faraldursins nemur hátt í 300 milljörðum króna á árunum 2020-2026 eða um 9% af landsframleiðslu ársins 2020 samkvæmt fjármálaáætlun 2022-26 sem var lögð fram á dögunum. Mestur hluti stuðningsins, um 200 milljarðar króna, kemur til framkvæmda árin 2020 og 2021.

 

Auk þessara aðgerða hafa sjálfvirkir sveiflujafnarar ríkisfjármálanna og aðrar hagstjórnaraðgerðir varið lífskjör hér á landi. Sterkt viðbragð á sviði ríkisfjármálanna á sinn þátt í því að ráðstöfunartekjur heimilanna eru taldar hafa aukist árið 2020 þrátt fyrir faraldurinn og innlend eftirspurn dróst aðeins saman um 1,9% sem er með því minnsta meðal Evrópuríkja.

Samdráttur landsframleiðslu var nokkru meiri, eða 6,6%, en sterkur stuðningur hagstjórnar með fjölbreyttum úrræðum stjórnvalda á ríkan þátt í því hversu vel tókst að standa vörð um einkaneyslu og fjárfestingar einkageirans þrátt fyrir miklar búsifjar í stærstu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustu.

Stjórnvöld hafa í stefnumörkun sinni ekki síst lagt áherslu á sköpun nýrra starf og aukna verðmætasköpun með fjárfestingum í innviðum ásamt ríkulegum stuðningi við nýsköpun í gegnum samkeppnissjóði og endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar.

Tafla af bls 78 úr fjármálaáætlun 2022-2026

Yfirlit yfir COVID-19 ráðstafanir 2020 og 2021, ma.kr.

2020

2021

Tekjur

-0,9

-22,0

Aukin endurgreiðsla VSK, v/framkvæmda

-4,7

-11,9

Afturfæranlegt tap tekjuskatts lögaðila

-1,0

Niðurfelling gistináttaskatts

-0,3

-0,8

Niðurfelling tollafgreiðslugjalds

-0,2

-0,4

Heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar

5,3

0,8

Lækkun bankaskatts, flýting

-5,7

Lækkun tryggingagjalds skv. yfirlýs. 29. sept.

-4,0

Gjöld

88,0

82,0

Atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli

23,4

6,0

Fjárfestingarátak 2021-2023

15,1

30,0

Greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti

12,1

Annar kostnaður vegna COVID-19

10,6

5,8

Ýmis félags- og heilbrigðismál

5,7

3,6

Ráðgjöf og Náms- og starfsúrræði

5,0

6,2

Barnabótaauki

3,1

Markaðsátak innanlands og erlendis

3,0

Mótvægisaðgerðir til sveitarfélaga skv. yfirlýsingu

2,1

Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar

2,1

Framlenging á tekjutengdan atvinnuleysisbótarétt

2,1

1,5

Stuðningur við nýsköpun og þróun

1,4

2,5

Styrkur vegna lokunar

1,0

0,6

Framlag vegna bóluefnis gegn COVID-19

0,9

1,4

Greiðslur launa í sóttkví

0,4

0,2

Tekjufallsstyrkir/ Viðspyrnustyrkir

0,0

19,8

Ýmsar tillögur/ aðgerðir 2021

2,4

Sérstök hækkun atvinnuleysisbóta 2021

2,0

Samtals

88,9

104,0

% af VLF

3,0%

3,3%

Almannavarnir

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi Vestra

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjórana á Norðurlandi Vestra hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði. Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/ og einnig inn á https://www.grodureldar.is/

Halda áfram að lesa

Alþingi

Forsætisnefnd afgreiðir erindi um siðareglumál

12.5.2021

Forsætisnefnd afgreiddi á fundi sínum 10. maí erindi sem henni barst 18. apríl sl. frá Birni Leví Gunnarssyni alþingismanni þar sem hann óskaði álits forsætisnefndar á því hvort ummæli hans í grein í Morgunblaðinu 3. apríl sl. stæðist siðareglur alþingismanna. Niðurstaða forsætisnefndar er birt í meðfylgjandi bréfi til Björn Levís Gunnarssonar

Var niðurstaðan sú að skilyrði brysti til þess að nefndin tæki erindið til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. 1. málslið 1. mgr. 18. gr. siðareglnanna.

Halda áfram að lesa

Innlent

Landlæknir spurður út í bólusetningar vegna COVID-19

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir að landlæknir veiti upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að leiðbeiningum og upplýsingagjöf vegna COVID-19 bólusetningar. Einkum með tilliti til þeirra sem, af heilsufarslegum ástæðum, telja ekki öruggt að þiggja tiltekið bóluefni.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin