Heilsa

Blóð- og krabbameinslækningadeild opnuð á ný – hvorki Covid-19 smit hjá sjúklingum né starfsfólki

Niðurstöður úr Covid-19 skimun sjúklinga og starfsfólks blóð- og krabbameinslækningadeildar 11EG á Landspítala liggja fyrir og eru allar neikvæðar. Ekki er um útbreitt smit á deildinni að ræða. Af því tilefni hefur farsóttanefnd spítalans ákveðið að opna deildina fyrir innlögnum á nýjan leik og er starfsemi hennar með venjubundnum hætti.

Nýinnlagður sjúklingur á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala 11EG fékk jákvætt svar við Covid-19 skimun um kl. 20:00 í gærkvöldi, miðvikudaginn 13. janúar 2021. Þegar í stað var gripið til ítrustu sóttvarnaaðgerða og deildinni lokað fyrir innlögnum. Um 30 sjúklingar og 20 starfsmenn voru síðan skimaðir snemma í morgun, fimmtudaginn 14. janúar.

Enn liggur ekki fyrir hvernig sjúklingurinn smitaðist en þó þykir ljóst að hann hafi verið með smit þegar við innlögn.  Rakning stendur ennþá yfir. Sjúklingurinn var fluttur á smitsjúkdómadeild Landspítala A7 í Fossvogi strax í gærkvöldi og settur í einangrun, vegna veikinda sinna.

Smit, hvort heldur sjúklinga eða starfsfólks á deildum, eru alvarlegir atburðir í starfsemi Landspítala og viðbragðið alltaf umfangsmikið og útbreitt. Það viðbragð, öflugar sóttvarnir og umfangsmiklar öryggisráðstafanir til að vernda sjúklinga og starfsfólk hafa nú leitt af sér þessa góðu niðurstöðu.

Heilsa

Málþing um sérfræðiþekkingu í hjúkrun til framtíðar verður 17. mars

„Þróun sérfræðiþekkingar í hjúkrun til framtíðar“ er yfirskrift málþings hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og Landspítala sem haldið verður miðvikudaginn 17. mars 2021, kl. 13:00 til 15:15, í stofu 103-C í Eirbergi, Eiríksgötu 34 í Reykjavík.

Sérfræðingum í hjúkrun á Íslandi hefur fjölgað hratt á síðustu áratugum, einkum á Landspítala. Heilbrigðisáætlun til 2030, bygging nýs Landspítala og breytt samsetning íslensku þjóðarinnar gefa tilefni til að ígrunda nýjar þarfir fyrir þekkingu og færni sérfræðinga í hjúkrun.

Málþingið er öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu. Því verður streymt en allir þurfa að skrá sig.  Ef sóttvarnarreglur breytast verður einvörðungu streymi. 
Þetta málþing átti upphaflega að vera í mars 2020 en var frestað til hausts vegna Covid-19. Þá var ástandið engu betra og því var beðið með málþingið þar til nú.

Skráning hér  

Fundarstjóri: Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti hjúkrunarfræðideildar HÍ.

Dagskrá

13:00-13:10 Opnun málþings

13:10-13:25 Sérfræðiþjónusta hjúkrunarfræðinga á Landspítala – horft til framtíðar – Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala og prófessor við hjúkrunarfræðideild HÍ.

13:25-13:40 Hvers vegna sérfræðingar í hjúkrun á Íslandi? – Gísli Kort Kristófersson, dósent við Háskólann á Akureyri og formaður Deildar sérfræðinga í hjúkrun

13:40-14:00 Hressing

14:00-14:20 Sérfræðiþekking í hjúkrun – Helga Jónsdóttir, prófessor við hjúkrunarfræðideild HÍ 

14:20-14:40 Einkenni og árangur sérfræðistarfa í hjúkrun – Sigríður Zoëga, dósent við hjúkrunarfræðideild HÍ og sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala

14:40-15:15 Umræður

Halda áfram að lesa

Heilsa

Sigurður Einarsson ráðinn deildarstjóri fasteignaþjónustu

Sigurður Einarsson hefur verið ráðinn deildarstjóri fasteignaþjónustu Landspítala og hóf hann störf þann 1. febrúar 2021. Með ráðningu Sigurðar munu viðhaldsdeild og fasteignadeild sameinast í eina deild sem ber heitið fasteignaþjónusta.

Sigurður er með menntun á sviði tæknifræði (BS frá Tækniskóla Íslands) og verkfræði (MS frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn). Sigurður hefur um tuttugu ára reynslu af byggingar- og verktakaiðnaðinum á Íslandi og síðastliðinn áratug einnig í Noregi. Hann hefur starfað sem fulltrúi verkkaupa og verktaka á öllum stigum stórra og smárra framkvæmda við hönnunarstjórnun, verkefnastjórnun, samningagerð, byggingarstjórnun, eftirlit o.fl.

Sigurður hefur starfað hjá ýmsum fyrirtækjum svo sem Ístaki, Siglingastofnun, Hönnun, Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars, Rambøll, og WSP Norge. Hann hefur því víðtæka þekkingu og stjórnunarreynslu úr byggingargeiranum hérlendis og erlendis til að nýta í þeirri þróun og uppbyggingu sem framundan er í fasteignaþjónustu á Landspítala á næstu árum.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Forstjórapistill: Jarðskjálftar, annríkið á bráðamóttökunni og Bráðadagurinn í beinni útsendingu

Kæra samstarfsfólk!

Jarðhræringar síðustu daga hafa ekki farið fram hjá neinum. Á Landspítalanum fundum við rækilega fyrir jarðskjálftum fyrsta daginn í þessari hrinu en skemmdir urðu blessunarlega minni háttar. Segja má að þar hafi byggingar og kerfin okkar staðist álagspróf. Viðbragðsstjórn spítalans kom saman og yfirfór helstu viðbragðsáætlanir og mikilvægt er að allir starfsmenn séu áfram vakandi fyrir hættum, sérstaklega í umhverfi sjúklinganna. Við fylgjumst áfram náið með framvindu mála enda atburðirnir enn í fullum gangi.

Enn erum við í þeirri stöðu á spítalanum að mikið álag er hjá okkur og er birtingarmynd þess almenningi einna helst sýnilegt í annríki bráðamóttöku. Þar er mjög mikið að gera en það sama gildir um legudeildir spítalans þar sem mikið er um yfirlagnir. Ástæðan fyrir þessu er sem fyrr einkum sú að einstaklingar sem lokið hafa meðferð komast ekki frá okkur þar sem þjónustu við þá skortir utan spítalans. Svo háttar nú um tæplega hundrað einstaklinga hjá okkur en af þeim eru um helmingur í biðrýmum en aðrir á legudeildum spítalans. Þetta hefur auðvitað áhrif á starfsemi spítalans en mikilvægast er þó að þessir einstaklingar fái viðeigandi þjónustu. Er stöðugt unnið að því af hálfu heilbrigðisyfirvalda og heilbrigðisstofnana að laga kerfið og þjónustuna að breyttum þörfum. Okkar markmið er að veita öllum eins góða þjónustu og mögulegt er en þetta eru sannarlega krefjandi aðstæður fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Bráðadagurinn er í dag! Þetta er mikill hátíðisdagur hjá okkur á spítalanum en auðvitað sér í lagi hjá kempunum okkar í bráðaþjónustunni. Nú ber þó aldeilis vel í veiði fyrir alla áhugasama því að þessi árlega metnaðarfulla dagskrá verður nú öllum opin í beinni útsendingu á Facebook-síðu Landspítala kl. 13-17. Þema ráðstefnunnar er samskipti og samvinna og verða kynntar spennandi rannsóknir og verkefni sem unnin hafa verið í tengslum við bráðaþjónustu í landinu. Þetta er sannkölluð uppskeruhátíð og verða flutt bæði vísindaleg ávörp og innlegg af öðrum toga og eru framsögumenn bæði innlendir og erlendir. Þetta er auðvitað hluti af símenntun starfsfólks og ánægjulegt að sem flestir geti tekið þátt í þessari rafrænu ráðstefnu. Þess má geta að ráðstefnan verður aðgengileg í upptöku á samfélagsmiðlum spítalans að útsendingu lokinni.

Góða helgi!

Páll Matthíasson

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin