Heilsa

Bólusetningar starfsmanna og verktaka haustið 2022 – spurt og svarað

Farsóttanefnd, sýkingavarnadeild og bólusetningarteymi Landspítala hyggjast bjóða öllum starfsmönnum og verktökum bólusetningu gegn inflúensu og fjórða skammt af bóluefni gegn COVID. Starfsmenn fá sms-skilaboð í þessa bólusetningu og gildir boðið í báðar bólusetningarnar.  Tilkynnt verður síðar um nákvæma tímasetningu.

Hverjir eru boðaðir núna í bólusetningu?

– Allir starfsmenn og verktakar eru boðaðir í inflúensubólusetningu og fjórðu bólusetningu gegn COVID óháð bólusetningastöðu þeirra eða hvort þeir hafi nýlega fengið COVID.

Hverjir ættu að þiggja bólusetningu gegn COVID á Landspítala núna?

– Þeir sem hafa fengið tvær eða þrjár bólusetningar og meira en 4 mánuðir eru liðnir frá síðustu bólusetningu.
– Þeir sem hafa fengið tvær eða þrjár bólusetningar, meira en 4 mánuðir frá síðustu bólusetningu og meira en 6 vikur frá síðustu COVID sýkingu.

Hverjir ættu ekki að þiggja bólusetningu á Landspítala núna?  

– Þeir sem eru óbólusettir verða að panta tíma á sinni heilsugæslustöð og hefja grunnbólusetningu sem er gerð með öðru bóluefni.
– Þeir sem hafa fengið eina sprautu af einhverju bóluefnanna verða að panta tíma á sinni heilsugæslustöð og ljúka grunnbólusetningu sem er gerð með öðru bóluefni.
– Þeir sem hafa nýlega fengið COVID ættu að bíða þar til meira en 6 vikur hafa liðið frá smiti.
– Þeir sem eru lasnir með kvefeinkenni og/eða hita ættu að bíða.
– Þeir sem hafa ofnæmi fyrir innihaldsefnum í inflúensubóluefninu – sjá upplýsingar um bóluefni.

Hvað ef ég vil ekki bæði bólusetningu gegn COVID og inflúensu?

– Þá mætirðu á boðuðum tíma og segir bólusetjara að þú viljir aðeins eina bólusetningu.
– Ef þú ætlar að fá báðar, en ekki á sama tíma, þá er mælt með að byrja á COVID bólusetningu og bíða í tvær vikur með að fá inflúensubólusetningu.
– Ef þú ætlar aðeins að fá inflúensubólusetningu þá er það í góðu lagi og þú færð bara COVID bólusetninguna síðar.

Hvað ef ég get ekki mætt á boðuðum tíma?

– Þú mátt mæta hvenær sem þér hentar innan auglýsts þjónustutíma og þarft ekki að láta vita.

Verður hægt að fá þessar bólusetningar síðar?

– Já, það verða opnir tímar í inflúensubólusetningu fram á haust meðan birgðir endast. Það verður auglýst á innri miðlum spítalans.
– Mælt er með að leita til heilsugæslunnar um COVID bólusetningu utan þess tímabils sem nú er bólusett er á Landspítala.

Er meiri hætta á að verða lasinn ef maður tekur bæði bóluefnin í einu?

– Nei, rannsóknir hafa sýnt að svo er ekki en svæðisbundin viðbrögð geta komið fram á báðum handleggjum.

Skiptir máli hversu oft og hvenær ég hef fengið COVID?

-Nei, það skiptir ekki máli hversu oft en mælt er með að láta 6 vikur líða frá sýkingu að bólusetningu.

Er COVID bóluefnið öðruvísi en það sem hefur verið boðið upp á áður?

– Já, þetta er ný útgáfa af COVID bóluefni sem er blanda af fyrra bóluefni og bóluefni sem virkar sérstaklega gegn ómíkron BA.1.

Má ég fá bólusetningu á meðgöngu eða ef ég er með barn á brjósti?

– Meðganga og brjóstagjöf eru ekki frábending sbr. fylgiseðil og texta á síðu Lyfjastofnunar / Lyfjastofnunar Evrópu.

Hvað ef ég hef fengið bólusetningar gegn COVID erlendis og þær eru ekki skráðar í íslenska bólusetningakerfið?

– Þá skaltu hafa samband við [email protected] eða netspjall Heilsuveru og óska eftir að bólusetning þín sé skráð í kerfið. Nauðsynlegt er að hafa upplýsingar um dagsetningar og tegund bóluefnis. Mynd af bólusetningavottorði er til bóta.

Nánari upplýsingar

Ef spurningar vakna sem ekki er svarað hér þá skaltu endilega senda þær á [email protected] sem fyrst.

Heilsa

Anna Sigrún til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar – Þórunn Oddný tekur við rekstri skrifstofu forstjóra

Anna Sigrún Baldursdóttir lætur þann 1. október 2022 af störfum á skrifstofu forstjóra og heldur til starfa á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Eins og kunnugt er stendur yfir vinna við skipulagsbreytingar á Landspítala og verða því við þetta tilefni tímabundnar breytingar á verkefnum og starfsemi skrifstofunnar.

Þórunn Oddný Steinsdóttir lögfræðingur tekur nú við rekstri skrifstofunnar sem skrifstofustjóri og mun heyra undir forstjóra. Þórunn er starfsemi Landspítala vel kunn enda starfað undanfarin 8 ár sem sérfræðingur, staðgengill skrifstofustjóra og settur skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Síðustu mánuði hefur hún unnið að stefnumótun og endurskoðun á löggjöf á sviði stjórnar fiskveiða í matvælaráðuneytinu.

Meðal helstu verkefna Þórunnar má nefna störf vegna nýrrar stjórnar Landspítala sem og framkvæmdastjórnar en að öðru leyti einkum stjórnsýsluleg verkefni skrifstofunnar, nýsköpunarmál, alþjóðlegt samstarf og endurskoðun skjalavistunarmála sem nú stendur yfir. Klínísk verkefni sem Anna Sigrún sinnti færast eftir atvikum til framkvæmdastjóra.

Þórunn Oddný er boðin innilega velkomin og Önnu Sigrúnu þökkuð farsæl störf á spítalanum undanfarin ár.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Kristján Óskarsson endurráðinn yfirlæknir barnaskurðlækninga

Kristján Óskarsson hefur verið endurráðinn yfirlæknir barnaskurðlækninga á Landspítala.

Kristján lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1990 og sérnámi í barnaskurðlækningum á barnaskurðdeild Rigshospitalet í Danmörku.  Hann hlaut sérfræðingsréttindi á Íslandi árið 2001. Kristján hefur starfað á Landspítala frá árinu 2001, fyrst sem sérfræðingur í barnaskurðlækningum en síðan í október 2017 sem yfirlæknir barnaskurðlækninga. Hann hefur stundað kennslu heilbrigðisstarfsfólks, sinnt vísindastörfum samhliða starfi og verið aðjúnkt við Háskóla Íslands frá 2017.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Hulda Hjartardóttir endurráðin í stöðu yfirlæknis fæðingarteymis

Hulda Hjartardóttir hefur verið endurráðin í stöðu yfirlæknis fæðingarteymis í kvenna- og barnaþjónustu aðgerðasviðs Landspítala.

Hulda lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1988 og stundaði sérnám í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp á kvennadeild Landspítala 1989-1991 og við sjúkrahús í Leeds og Bradford á árunum 1991-1998. Hún lauk MRCOG prófi árið 1994 og fékk sérfræðiréttindi á Íslandi 1997 og í Bretlandi 1998. Frá því ári hefur hún starfað sem sérfræðilæknir á kvennadeild Landspítala með aðaláherslu á fósturgreiningu og áhættumæðravernd auk fæðingarhjálpar. Hún var settur yfirlæknir á meðgöngu- og fæðingadeildum 2007-2009 og hefur verið yfirlæknir fæðingateymis frá því í maí 2017.

Hulda hefur sinnt kennslu og vísindastörfum samhliða starfi og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í maí 2021. Ritgerðin fjallaði um ómskoðanir í fæðingum. Gæðastörf deildarinnar eru ávallt í fyrirrúmi og hefur Hulda lagt áherslu á áframhaldandi þróun í þeim efnum. Að auki er sífellt reynt að auka samstarf við heilsugæslu, önnur sjúkrahús og stofnanir á Norðurlöndunum í því augnamiði að tryggja sem besta meðferð í meðgöngu og fæðingu.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin