Innlent

COVID-19 Bólusetningardagatalið uppfært

Bóluefnadagatal heilbrigðisráðuneytisins og sóttvarnalæknis hefur verið uppfært í samræmi við nýjustu upplýsingar um afhendingu bóluefna gegn COVID-19. Gert er ráð fyrir að á öðrum ársfjórðungi, þ.e. í apríl, maí og júní berist bóluefni fyrir samtals rúmlega 193.000 einstaklinga. Gangi það eftir hefur Ísland þá fengið bóluefni fyrir samtals 240.000 einstaklinga frá því að bólusetningar hófust í lok desember. Til samanburðar var gert ráð fyrir bóluefni fyrir samtals 217.000 einstaklinga við síðustu uppfærslu dagatalsins þann 12. mars síðastliðinn. Þetta eru um 86% þeirra sem ráðgert er að bólusetja en alls telur sá hópur um 280.000 manns. Ekki er gert ráð fyrir að börn fædd 2006 og síðar verði bólusett, né þeir sem fengið hafa Covid-19.

Fjögur bóluefni eru með markaðsleyfi og þrjú þeirra eru nú þegar í notkun hér á landi. Þetta eru bóluefni Pfizer, AstraZeneca, Moderna og Janssen. Fyrir liggur staðfest áætlun um afhendingu þessara lyfja til loka apríl. Gert er ráð fyrir að bóluefni CureVac hljóti markaðsleyfi í byrjun maí en framleiðandi þess miðar nú við að hefja afhendingu í lok annars ársfjórðungs sem er nokkru seinna en áður var áætlað.

Í dag hófst á ný bólusetning með bóluefni frá AstraZeneca og er nú verið að bjóða eldri aldurshópnum í bólusetningu. Gert er ráð fyrir að í vikunni eftir páska hafi öllum 70 ára og eldri verið boðin bólusetning. 

Þá má búast við hraðari afhendingu bóluefna í Evrópu í ljósi frétta frá Lyfjastofnun Evrópu sem birt var í dag, sjá nánar hér.

Innlent

Ráðherra undirritar Bratislava yfirlýsingu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag s.kBratislava yfirlýsingu er hann tók þátt í fundi Forest Europe, en fjöldi ráðherra skógarmála í Evrópu sátu fundinn. Forest Europe er samstarf ráðherra á því sviði í álfunni sem hefur það markmið að efla og samhæfa, vernd, ræktun og nýtingu skóga í Evrópu.

Bratislava yfirlýsingin sem ráðherrarnir undirrituðu felur meðal annars í sér að stefnt er að því að stöðva eyðingu líffræðilegrar fjölbreytni í skógum, endurheimt skóga og að hlutverk skóga í jarðvegsvernd sé að fullu viðurkennt. Jafnframt felur hún í sér staðfestingu á  að skógar leiki stórt hlutverk við að sjálfbærni nái fram að ganga þ.á.m. í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Einnig er viðurkennt að hagaðilar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í leiðinni að sjálfbærni sem og mikilvægi rannsókna í skógrækt og kynning á vísindalegri þekkingu.

Með undirritun sinni staðfestu ráðherrarnir einnig áframhaldandi vinnu og samstarf um þætti skógræktar á borð við gerð landsáætlana fyrir skógrækt, aðlögun skóga að loftslagsmálum og stuðning við hringrásarhagkerfið.

„Með þessari yfirlýsingu erum við að efla samstarf í Evrópu á sviði skóga, skógverndar, endurheimtar skóga og nýskógræktar. Þetta er mikilvægur liður í að styðja við stefnu um náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum þar sem á sama tíma er horft til loftslagsmála, endurheimtar líffræðilegrar fjölbreytni og að sporna gegn landeyðingu með samhæfingu þessara stóru umhverfismála að leiðarljósi, en ég hef lagt ríka áherslu á þessa nálgun í ráðherratíð minni. Það var jafnframt ánægjulegt að heyra hversu víða hefur komið í ljós síðasta árið hvað skógar sem útivistarsvæði geta haft jákvæð áhrif á heilsu og lífsgæði fólks,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Halda áfram að lesa

Innlent

Öll þingmál heilbrigðisráðherra komin til nefndar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn