Innlent

COVID-19: Upplýsingar um bólusetningar í viku hverri

Um 8.900 einstaklingar verða bólusettir á landsvísu í þessari viku, þ.e. dagana 1. – 7. mars. Þetta kemur fram í tilkynningu sóttvarnalæknis í dag sem birtir áætlun um bólusetningar hverrar viku á vef embættis landlæknis. Eins og fram kemur í tilkynningunni verða einstaklingar í aldurshópnum 80 ára og eldri bólusettir með 4.600 skömmtum af bóluefni Pfizer og 4.300 starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila verða bólusettir með bóluefni Astra Zeneca. Allt bóluefni sem fer í dreifingu í vikunni verður notað til að bólusetja fyrri bólusetningu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) annast bólusetningar í sínu heilbrigðisumdæmi. Eins og fram kemur í tilkynningu HH í dag verður öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins sem eru fæddir 1939 eða fyrr boðin bólusetning sem fram fer í Laugardagshöllinni þriðjudaginn 2. mars og miðvikudaginn 3. mars. Nánari upplýsingar um framkvæmdina eru á vef HH.

Alþingi

Nefndadagar 12. og 14. maí

11.5.2021

Miðvikudaginn 12. maí og föstudaginn 14. maí eru nefndadagar samkvæmt starfsáætlun Alþingis. Þá gildir sérstök fundatafla um fundi fastanefnda og venja er að nefndir fundi fyrir og eftir hádegi. Við ákvörðun fundartíma á nefndadögum er reynt að gæta samræmis og tekið mið af stöðu mála í nefndum og fundaþörf nefnda.

Fundatafla fyrir framangreinda nefndadaga er eftirfarandi:

Miðvikudagur 12. maí

  • Kl. 9-11: Fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd
  • Kl. 13-16: Allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd

Föstudagur 14. maí 

  • Kl. 9-12: Allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd
  • Kl. 13-16: Fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd

Endanlegir fundartímar og dagskrár funda birtast venju samkvæmt á vef Alþingis.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ráðist í heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðast í heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Jafnframt verða skoðaðir möguleikar á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, einkum með tilliti til endurhæfingar, búsetuúrræða og stuðningsmeðferðar fyrir einstaklinga í bataferli. Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir mun annast úttektina.

Embætti landlæknis gaf á liðnu ári út samantekt um aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna notkunar áfengis og vímuefna. Samantektin, sem byggir á gögnum frá heilbrigðisstofnunum, undirstrikar fyrst og fremst mikilvægi samræmingar í skráningu, viðmiða og verklagi þegar kemur að meðferð við áfengis- og vímuefnavanda. Eins og fram kemur í skýrslu embættisins hafa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Sameinuðu þjóðirnar gefið út viðmið um meðferð vegna vímuefnaneyslu. Þar er m.a. lögð áhersla á að meðferð þurfi að fela í sér þjónustu sem er í boði úti í samfélaginu og nær til jaðarsettra hópa. Er þar sérstaklega bent á skimun, stutt inngrip göngudeilda, dagdeilda og innlagna, læknisfræðileg og sálfélagsleg úrræði, langtímabúsetuúrræði, endurhæfingu og stuðningsmeðferð fyrir einstaklinga í bataferli. Ein af tillögum embættis landlæknis er að stefna í áfengis- og vímuvörnum verði endurskoðuð og gildi til ársins 2030 og að stefnunni fylgi tímasett aðgerðaáætlun sem taki meðal annars til heildstæðra viðmiða og alþjóðlegra staðla um þjónustu og meðferð á sviði áfengis- og vímunefnameðferðar.

Þjónustan hér á landi

Hér á landi er áfengis- og vímuefnameðferð að stórum hluta veitt af frjálsum félagasamtökum en þjónustan fjármögnuð að stærstum hluta af hinu opinbera. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda (SÁÁ) hafa verið leiðandi í þróun hugmyndafræði og meðferðar á þessu sviði en aðkoma opinberra heilbrigðisstofnana hefur verið takmörkuð hvað þetta varðar. Hluti þjónustu við þennan hóp er veittur af stofnunum og meðferðarúrræðum sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Ekki hefur tekist að stíga nauðsynleg skref í samþættingu heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu sem myndi byggjast á þeirri hugmyndafræði fíknifræða að vímuefnavandi hafi lífsálfélagslegar orsakir og því árangursríkast að samþætta og veita heildræna velferðarþjónustu og eftirfylgd fyrir fólk með vímuefnasjúkdóm.

Úttektin forsenda stefnumótunar til framtíðar

Brýnt er að móta nýja stefnu til framtíðar í þessum málaflokki með heildstæðum tillögum um samþættingu og samvinnu fyrsta-, annars- og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu þar sem jafnframt yrði skoðaður fýsileiki þess að samþætta heilbrigðis- og félagslega þjónustu gagnvart notendum. Forsenda nýrrar stefnumótunar er heildarúttekt á núverandi þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við fólk með vímuefnasjúkdóm. Einnig þarf að skoða hvar núverandi heilbrigðisþjónusta byggir á gagnreyndri þekkingu/klínískum leiðbeiningum og hvar eru brotalamir hvað þetta varðar. Við úttektina verða rýndar fjórar meginvíddir, þ.e. 1) árangur þjónustuveitenda, 2) þjónustuferli innan stofnana og á milli stofnana, 3) hugmyndafræði að baki þjónustu viðkomandi stofnana og 4) innihald veittar þjónustu. Að auki verður skoðað hvort og hvernig tilteknir hópar hafa ákveðnar sértækar þarfir m.t.t. þessarar þjónustu, t.d. karlar og konur eða ólíkir aldurshópar.

Beitt verður aðferðafræði Benchmarking best practice sem nýtist vel til að greina hvaða eiginleikar stofnana/þjónustuveitenda leiða til hámarksárangurs og einnig til að greina kosti og ókosti núverandi þjónustukerfis og meta hvaða atriði þarf að færa til betri vegar.

Halda áfram að lesa

Innlent

Árangursrík þátttaka í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna

Ísland tók þátt í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna 2005-2015 og hefur innri rýni ráðuneytisins á þeirri þátttöku nú verið gefin út, auk samantektar. Markmiðið var m.a. að afla lærdóms sem hægt væri að leggja til grundvallar þátttöku Íslands á nýjan leik.

Rýnin byggði á viðtölum við íslenska þátttakendur, gögnum úr málaskrá ráðuneytisins og úttektum nágrannalandanna. Leitast var við að varpa ljósi á og draga lærdóm af þeim árangri sem hlaust af stuðningi Íslands, virðisauka þátttöku fyrir íslenska ungliða sem og stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Tíu ungir sérfræðingar voru á sínum tíma ráðnir til starfa hjá þremur stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Tveir fyrrum ungliðar starfa enn innan kerfis Sameinuðu þjóðanna, tveir hjá utanríkisráðuneytinu og þrír innan háskólasamfélags með áherslu á alþjóðleg málefni. Loks starfa þrír fyrrverandi ungliðar að alþjóðlegum verkefnum fyrir frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu.

Niðurstöður benda til að þátttaka Íslands í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna hafi skilað margvíslegum árangri. Til marks um það er að allir þessir fyrrum ungliðar starfa enn á vettvangi alþjóðamála og þróunarsamvinnu. Meginniðurstöður rýninnar eru þær að þátttaka í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna sé fýsilegur kostur fyrir Ísland, svo fremi sem fjármagn sé til staðar og þátttakan fari ekki umfram skynsamleg mörk, að verkefnið byggi á heildrænni sýn á uppbyggingu mannauðs innan alþjóða- og þróunarsamvinnu, og að vinnulag og útfærsla verkefnisins sé með faglegum hætti.

Ellefu tillögur eru settar fram í rýninni og er þar lögð áhersla á að hámarka þann ábata sem af hlýst vegna þátttöku í verkefninu og mikilvægi þess að utanríkisráðuneytið skapi vandaða og faglega umgjörð um starfið. Það felur m.a. í sér að ráðuneytið setji sér skýr markmið og leitist við að læra af þátttöku nágrannalandanna í ungliðaáætluninni, auk þess að meta árangurinn af þátttöku þegar fram líða stundir.

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að taka þátt í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna á nýjan leik. Verður byggt á niðurstöðum rýninnar fyrir umgjörð verkefnisins. Ætlunin er að gefa ungum íslenskum sérfræðingum tækifæri til að starfa innan ólíkra stofnana Sameinuðu þjóðanna. Þannig gefist þeim kost á að byggja upp starfsframa sem tengist alþjóðamálum og þróunarsamvinnu og leggja sitt af mörkum til að heimsmarkmiðunum verði náð.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin