Samtök Atvinnulífsins

Einkareknar stöðvar í efstu sætum í þjónustukönnun

Ný könnun Maskínu sem gerð var fyrir Sjúkratryggingar Íslands bendir til þess að almennt beri fólk traust til heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Það vekur þó athygli að einkareknar heilsugæslustöðvar raða sér í efstu sætin þegar kemur að ánægju með þjónustuna. Þá njóta þær einnig meira trausts. Það vekur einnig athygli að í könnuninni kemur bersýnilega fram að tímabókanir fara í meiri mæli fram í gegnum Heilsuveru hjá einkareknu stöðvunum þó að símabókanir séu enn alls ráðandi. Á Heilsugæslunni Höfða fara fæstar tímabókanir í gegnum síma en rúmlega 35% tímabókana stöðvarinnar fara fram á netinu. Meðaltal allra stöðva er að um 17% tímabókana fara fram á netinu en tæp 50% í gegnum síma.

Einkareknar heilsugæslustöðvar komu til fyrir örfáum árum en lagaumgjörð um þær er ströng. Þannig verða eigendur að starfa á stöðvunum upp að vissu marki og arðgreiðslur úr rekstrinum eru óheimilar. Þá búa þær við ákveðnar takmarkanir umfram ríkisrekna heilsugæslu, þær þurfa að kaupa tryggingar fyrir reksturinn og greiða eigin ábyrgð, lúta annarri verðskrá á rannsóknum hjá Landspítala og fá ekki endurgreiðslu á virðisaukaskatti í samræmi við ríkisreknar stofnanir. Eitt helsta vandamál heilsugæslunnar samkvæmt niðurstöðum Maskínu er biðtími sjúklinga eftir þjónustunni, þó þeir telji þjónustuna góða í flestum tilfellum. Þannig telja um 75% svarenda að brýnast sé að bæta biðtíma eftir þjónustu og um 50% telja að auðveldara þurfi að vera að fá símatíma hjá lækni.

Misjafnt gefið

Gunnlaugur Sigurjónsson er læknir og einn eiganda Heilsugæslunnar Höfða, sem er einkarekin stöð. Að mati Gunnlaugs er ýmislegt sem betur mætti fara þegar kemur að heilsugæslunni í heild. Stærsti vandi hennar óháð rekstrarformi sé vanfjármögnun og undirmönnun. Verkefnum sé stöðugt bætt á heilsugæsluna án þess að auknum verkefnum fylgi aukið fjármagn. Síðustu tvö ár hafi í raun verið niðurskurður í heilsugæslunni. Ofan á það bætist stytting vinnuvikunnar. Þá hafi það fjármagn sem raunverulega sett hefur verið í heilsugæsluna ekki farið í grunnrekstur hennar heldur sértæk verkefni, t.d. geðheilbrigðisteymi sem raunar er tilflutningur á verkefnum frá Landspítala.

Þá hafi hallað á einkareknu heilsugæslurnar síðustu ár og ekki tekið tillit til þeirra við breytingar á fjármögnunarlíkani heilsugæslunnar. Við afnám komugjalda var fjármagni sem átti að koma til móts við tekjutap vegna þess ekki dreift á heilsugæslustöðvar í samhengi við fjölda koma heldur jafnt á milli þeirra. Þannig hafi fé verið fært frá þeim stöðvum sem afkasta miklu til þeirra sem afkasta litlu. Þá hafi einkareknar heilsugæslustöðvar ekki fengið neitt fjármagn í tengslum við Covid faraldurinn þar sem stöðvarnar útveguðu þó starfsfólk í sýnatökur og bólusetningar í sama mæli og hinar opinberu stöðvar.

Mun taka áratug að lagfæra mönnun

Gunnlaugur segir að vandinn með biðtíma eftir þjónustu snúist fyrst og fremst um mönnun. Læknar einkarekinna heilsugæslustöðva vinni raunar langt umfram eðlilega vinnuviku til að komast yfir verkefnin. Bæði snýst það um fjármagn en einnig skort á fagmenntuðu fólki. Þannig séu aðrar lausnir sem þurfi að koma til, s.s. einföldun á vinnulagi, skriffinnsku og fleiri þáttum sem taki of mikinn tíma frá fagmenntuðum sem færi betur á að nýttist í að sinna skjólstæðingum beint.

Stafræna þjónusta er annar flöskuháls að mati Gunnlaugs, þar sé þeim refsað sem leggi áherslu á að sinna þeim þætti starfseminnar vel. Þannig eru greiðslur fyrir rafræn samskipti við skjólstæðinga ekki greidd að sama marki og beinar komur á heilsugæslustöð, þrátt fyrir að almenningur vilji oft frekar nýta rafræn samskipti við heilbrigðisstarfsfólk í þeim tilgangi að fá skjóta lausn á sínum erindum og spara tíma. Þannig taki það í raun 2-3 klukkustundir af hverjum vinnudegi starfsfólks á Höfða að svara rafrænum erindum en eins og staðan er sé það viðbót við venjulegan vinnudag, ekki alltaf hluti hans, segir Gunnlaugur.

Að hefja rekstur á einkarekinni heilsugæslu er erfitt. Bæði þarf að koma upp húsnæði og öllum tækjabúnaði frá grunni en jafnframt þarf að fjármagna upphafskostnaðinn út úr rekstrinum í framhaldinu. Fyrstu árin, meðan fáir eru skráðir á stöðvarnar, eru fjárframlög í takti við það og tekjur því langt undir almennum rekstrarkostnaði. Að hefja eigin rekstur heilsugæslu er því ekki raunhæfur kostur fyrir unga nýútskrifaða lækna heldur eru það frekar læknar með langa sögu og tryggan hóp skjólstæðinga sem mögulega hafa kost á því að fara þessa leið.

Meira þarf til

Það vekur athygli að tilgangurinn með einkarekinni heilsugæslu var að skapa samkeppnisumhverfi þar sem þjónusta og afköst eru sett í fyrsta sæti. Þetta sést vel á þeim árangri sem einkareknar heilsugæslur hafa náð, þrátt fyrir mikinn aðstöðumun í fjármögnun og rekstri stöðvanna. Rekstraraðilar heilsugæslustöðva hafa því kallað eftir því að jafnræði sé til staðar og að eftirliti og fjármögnun heilsugæslunnar sé eins, sama hvort litið sé til einkarekinna stöðva eða ríkisrekinna.

Það rímar einnig við tillögur SA og SVÞ sem í tillögum sínum haustið 2021 bentu á nauðsyn þess að koma á þjónustutryggingu þar sem skjólstæðingurinn er í fyrsta sæti en rekstrarform þjónustuveitenda er ekki meginatriðið. Þannig séu þarfir notanda og styttri biðtími eftir þjónustu sett í forgang og einkarekstur og opinber rekstur í heilbrigðisþjónustu látinn styðja hvor við annan. Skýrslu SA og SVÞ má nálgast hér.

Samningar einkarekinna heilsugæslustöðva renna út í lok ágúst 2022. Enn sem komið er hafa stöðvarnar ekki treyst sér í áframhaldandi samningagerð en nefnd er að störfum til að yfirfara fjármögnunarlíkan stöðvanna. Nú þegar hefur niðurstöðu nefndarinnar verið seinkað, en niðurstöður áttu að liggja fyrir í maí. Það er háð þessari úttekt og því að samningar náist hvort einkareknar heilsugæslustöðvar verði yfir höfuð opnar á Íslandi þann 1. september næstkomandi.

Samtök Atvinnulífsins

Kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist mest hjá tekjulágum

Samkvæmt nýrri greiningu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafa heildartekjur allra tekjutíunda hækkað undanfarin ár og kaupmáttur aukist. Að auki greiða allar tíundir nú minni tekjuskatt en áður nema þeir allra tekjuhæstu.

Frá árinu 2021 hefur kaupmáttur heildartekna einstaklinga aukist um 4,4% og kaupmáttur ráðstöfunartekna um 5,1% að jafnaði, þ.e. heildartekjur auk bóta að frádregnum opinberum gjöldum leiðrétt fyrir hækkandi verðlagi. Í þessum tölum birtist bæði mikill ávinningur Lífskjarasamningsins frá 2019 og skilvirkar breytingar á skattkerfinu á undanförnum árum sem hafa skilað sér í vasa heimila. Mest hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist hjá þeim tekjulægstu.

Engin breyting er á skattbyrði tekjulægstu tíundarinnar þar sem tekjur þeirra falla undir skattleysismörk. Kaupmáttur ráðstöfunartekna þessa hóps hefur þó aukist talsvert umfram aðra.

Skattbyrði tekjuhæstu tíundarinnar hefur aftur á móti aukist frá árinu 2019.

Samtals námu skattgreiðslur efstu tekjutíundar 36% af heildartekjum hins opinbera af tekjusköttum einstaklinga (þ.e. tekjuskattur einstaklinga, útsvar og fjármagnstekjuskattur) árið 2021. Til samanburðar stóð tekjulægri helmingur skattgreiðenda, þ.e. neðstu fimm tekjutíundir, undir samtals 17% af tekjuskatti einstaklinga, þar af aðeins 4% af greiddum tekjuskatti til ríkissjóðs og 13% af heildarútsvari. Efri helmingur tekjudreifingarinnar stendur því undir afganginum, eða 83% af tekjum hins opinbera af tekjusköttum einstaklinga.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

400 stærstu: versnandi horfur

Versnandi stöðumat stjórnenda

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, versnar nokkuð frá síðustu könnun. Tvöfalt fleiri stjórnendur töldu aðstæður góðar en slæmar, en í síðustu könnun voru þeir fjórfalt fleiri.

Álíka margir telja aðstæður batna og versna

Hlutfall stjórnenda sem telja aðstæður fara batnandi hefur einnig lækkað á undanförnum mánuðum. Þriðjungur stjórnenda bjóst við að aðstæður bötnuðu á næstu sex mánuðum en álíka margir að þær versnuðu.

Spurn eftir starfsfólki slær met

Skortur á starfsfólki hefur vaxið mikið undanfarið ár. Yfir helmingur fyrirtækja býr við skort á starfsfólki en aðeins tíunda hvert gerði það fyrir rúmu ári síðan. Þessi niðurstaða markar tímamót því það hefur ekki gerst síðan þensluárið mikla 2007, að meirihluti fyrirtækja búi við skort á starfsfólki. Skortur á starfsfólki er sem fyrr langmestur í byggingariðnaði.

Starfsmönnum gæti fjölgað um 2.000 til ársloka

Fyrirtæki áforma umtalsverða fjölgun starfsfólks á næstunni. 25 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og búast 37% þeirra við fjölgun starfsmanna, 6% við fækkun en 57% við óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki fyrirtækjanna í heild fjölgi um 1,6% á næstu sex mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fjölgað um 2.000 á næstu sex mánuðum, þ.e. á síðari hluta ársins 2022.

Verðbólguvæntingar aukast enn

Verðbólguvæntingar stjórnenda hafa tekið stakkaskiptum undanfarið ár. Væntingar til eins árs eru nú 6% og hækka úr 5% í síðustu könnun. Væntingar um verðbólgu eftir tvö ár eru 5,5%.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni og stærri kannanir skiptast á með 9 og 20 spurningum.

Þessi könnun var gerð á tímabilinu 6. maí til 10. júní 2022 og voru spurningar 9.

Í úrtaki voru 418 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 199, þannig að svarhlutfall var 48%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

SA og ASÍ hvetja til að frumvarp varðandi lífeyrissjóði verði að lögum

Fyrir Alþingi liggur nú stjórnarfrumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og aukins sveigjanleika við lífeyristöku.

Verði frumvarpið lögfest mun ákvæðum sem um var samið í kjarasamningum ASÍ og SA í febrúar árið 2016 verða veitt lagastoð. Um er að ræða hækkun lágmarksiðgjalds úr 12% í 15,5% og heimild til ráðstöfunar hluta skyldutryggingar-iðgjalds til séreignarsparnaðar. Því síðarnefnda, sem kallað er tilgreind séreign, er ætlað að auka sveigjanleika við lífeyristöku. Annars vegar möguleikum til að hefja snemmtöku lífeyris eða hafa hærri lífeyri á fyrri hluta lífeyristímabils.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands fagna fram komnu frumvarpi og hvetja Alþingi eindregið til að frumvarpið verði að lögum.

Umsögnina í heild má lesa hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin