Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Einn mánuður í setningu ÓL í Tókýó – Útgáfa smáforrits

23.06.2021

Ólympíuleikarnir í Tókýó verða settir föstudaginn 23. júlí nk. og í dag er því einn mánuður í að leikanir hefjist formlega með setningarhátíð á Ólympíuleikvanginum.

Í Tókýó er allt tilbúið fyrir leikana. Keppnismannvirki eru glæsileg og Ólympíuþorpið ekki síðra en það er staðsett í fallegu umhverfi við flóann (Tokyo Bay).

Skipuleggjendur í Tókýó settu í loftið í dag nýtt smáforrit sem tilvalið er að niðurhala í símann sinn. Smáforritið er hugsað fyrir alla áhugasama um Ólympíuleikana og Paralympics í Tókýó. Þar er að finna allar helstu upplýsingar um leikana, keppnisdagskrá, birting úrslita þegar þar að kemur, upplýsingar um mannvirki og fréttir. Með ákveðnum stillingum getur hver og einn getur fengið valdar upplýsingar um sínar uppáhalds keppnisgreinar og fengið sérsniðnar tilkynningar og áminningar því tengdu. Einnig er hægt að fylgjast með kyndilhlaupinu sem fer um marga af þekktustu stöðum Japans. Þar sem leikarnir verða ekki opnir fyrir áhorfendur utan Japans þá hafa skipuleggjendur lagt mikið í smáforritið og vonast til að það hjálpi til við að færa leikana nær áhorfendum og aðdáendum um allan heim. Í forritinu eru einnig nokkrir leikir sem tengjast leikunum, svo sem Trivia, Magic Moments, Fantasy og Bracket Challenge.

Hér er hægt að nálgast forritið til niðurhals.

„Þessi leikar verða óvenjulegir á margan hátt“, segir Andri Stefánsson, sem verður aðalfararstjóri íslenska hópsins. „Heimsfaraldurinn hefur mikil áhrif á undirbúning og þátttöku og er að mörgu að hyggja í lokaundirbúningnum. Þessir leikar eru með þeim flóknari sem við höfum komið að og óvissan gagnvart mörgum þátttum er meiri en oft áður. Þeir aðilar sem vinna sér inn þátttökurétt munu án efa standa sig vel á leikunum og við hlökkum til að sjá hvernig endanlegur keppendahópur lítur út í byrjun næsta mánaðar“.

Ekki liggur enn fyrir hversu margir íslenskir keppendur verða á leikunum, en það stefnir í að þeir verði færri en oft áður. Fjölmargir þættir hafa áhrif á úthlutun sæta á leikana og eru reglur íþróttagreina mismunandi. Þannig er hægt að ná lágmörkum í sumum greinum, í öðrum gildir árangur á ákveðnum mótum og þá eru einnig heimslistar ráðandi í fjölmörgum íþróttagreinum. Auk þessa eru til ýmsar útfærslur þar sem allir þessir þættir hafa áhrif á úthlutun sæta.

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Tókýó 2020 – Snæfríður Sól keppti í dag

28.07.2021

Snæfríður Sól keppti í 100 metra skriðsundi í undanrásum á Ólympíuleikunum í dag. Hún synti sundið af miklum krafti, sérstaklega seinustu 50 metrana, þar sem hún vann sig upp í 4. sætið upp úr því seinasta. Það nægði samt ekki til að koma henni áfram. Þrátt fyrir það þá bætti hún sitt persónulega met í dag, náði 56,15 sek. en fyrra persónulega met hennar var 56,32, þannig að bætingin var 17/100 úr sekúndu. Snæfríður Sól endaði í 34. Sæti af 52 keppendum. Til að komast upp úr riðlinum og vera þá á meðal 16 vestu hefði hún þurft að synda á 53,70 sek.

Íslenska sundfólkið okkar hefur þá lokið keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó og munu öll halda heim á leið á föstudaginn.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Tókýó 2020 – Anton Sveinn Mckee keppti í dag

27.07.2021

Anton Sveinn McKee synti í undanrásum 200 metra bringusunds á Ólympíuleikunum í dag.

Þrátt fyrir að vera annar í mark í sínum riðli, á 2:11,64 eftir æsispennandi sund, þá var það ekki nóg til að komast áfram í undanúrslit. Hann hafnaði í 24. sæti af 40, en 16 efstu komust áfram. Anton Sveinn hefði þurft að ná tímanum 2:09,95 til að komast áfram. Íslandsmet Antons frá 2015 er 2:10,21, þannig að hann var nokkuð frá sínum besta tíma, þó að vissulega hafi sundið gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig.

Anton Sveinn er skiljanlega vonsvikinn með niðurstöðuna en lætur engan bilbug á sér finna og sagði meðal annars í viðtali við RÚV, aðspurður um framhaldið:

„Þetta er alla veganna það skemmtilegasta sem ég geri, þótt það sé hundleiðinlegt að ganga illa.”

Það verður áhugavert að sjá hvað hann gerir næst, við fylgjumst spennt með.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Snæfríður Sól bætti eigið met í Tókýó

26.07.2021

Snæfríður Sól Jór­unn­ar­dótt­ir sló sitt eigið Íslands­met í 200 metra skriðsundi í morgun með frumraun sinni á Ólympíuleikum. Hún synti á 2:00,20 mín­út­um en fyrra Íslands­met henn­ar í grein­inni var 2:00,50 mín­út­ur. Það nægði samt ekki til að tryggja henni sæti í undanúrslitum en hún endaði í 22. sæti af 30 keppendum í undanrásum, 16 efstu komust áfram. Snæfríður Sól hefði þurft að ná 1:58,33 til að komast í undanúrslitin.

Engu að síður er þetta stórglæsilegur árangur hjá henni og magnað að ná að bæta sitt eigið met á svona stóru móti.

Næst keppir Snæfríður Sól í undanrásum 100 metra skriðsunds á miðvikudag.  Bein útsending hefst klukkan 10 á RÚV.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin