Veður

Ekkert hraunflæði í þrjá mánuði við Fagradalsfjall

Eldgosið í apríl 2021. (Ljósmynd: Veðurstofan/Bryndís Ýr Gísladóttir)


18.12.2021

Í dag eru liðnir þrír mánuðir frá því að síðast sást til hraunflæðis úr eldstöðinni við Fagradalsfjall. Áfram mælist þensla á svæðinu og unnið er að útreikningum og líkangerð svo hægt sé að túlka mælingarnar, en niðurstöður liggja ekki fyrir.

„Það er auðvitað alltaf snúið að segja nákvæmlega hvenær tilteknu eldgosi sé lokið, því eldvirkni getur verið mjög lotubundin“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. „Við höfum bent á það alveg frá því að jarðhræringarnar í Geldingadölum hófust að Reykjanesskaginn er virkur með tilliti til jarðskjálfa- og eldvirkni og sagan segir okkur að eldvirkni þar kemur í lotum“, segir Sara.

Þrír mánuðir eru liðnir frá því að hraun sást koma úr gígnum í Geldingadölum og því er ljóst að goshrinan sem hófst 19. mars stóð yfir í nákvæmlega 6 mánuði.  Aflögunarmælingar sýna að kvíkusöfnun er í gangi í jarðskorpunni við Fagradalsfjall og erfitt er að spá fyrir um hvert framhaldið verður. „Við munum því áfram fylgjast vel með virkninni á Reykjanesskaga, en við getum sagt að þessum tiltekna atburði sem hófst með eldgosi 19. mars við Fagradalsfjall er lokið, hver sem þróunin á svæðinu verður. Það eina sem vitað er með vissu er að náttúran fer sínu fram“, segir Sara.

Vakin er athygli á því að varhugavert getur verið að fara inn á hraunbreiðuna við Geldingadali og að gígum. Töluverðan tíma getur tekið fyrir hraun að kólna og ennþá er yfirborð og gígar óstöðugir, hrun getur orðið eða sprungur geta myndast.  Auk þess má búast við að afgösun hraunsins haldi áfram um einhvern tíma og hættulegar aðstæður myndast þar sem gas getur safnast saman.

Veður

Tíðarfar í desember 2021

Stutt yfirlit

4.1.2022

Desember var hægviðrasamur og tíð almennt góð. Að tiltölu var snjólétt á landinu, einkum um miðbik mánaðar. Undir lok mánaðar snjóaði töluvert á Norðausturlandi og var jafnfallinn snjór á Akureyri 47 cm á gamlársdag. Fyrri hluti mánaðar var þurr á Norðurlandi á meðan úrkomusamara var suðvestanlands. Síðari hluti mánaðarins var hins vegar þurr á Suðvesturlandi og kviknuðu víða gróðureldar um áramótin í tengslum við flugelda.

Hiti

Meðalhiti desembermánaðar var 1,5 stig í Reykjavík. Það er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,0 stigi yfir meðallagi undanfarinna tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,2 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi undanfarinna þriggja áratuga og 0,2 stigum undir meðallagi síðastliðins áratugar. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,9 stig og 1,2 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðvum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 1,5 0,8 28 151 1,0
Stykkishólmur 0,9 0,5 34 176 0,8
Bolungarvík 0,9 0,8 26 124 1,0
Grímsey 0,6 -0,1 43 148 -0,2
Akureyri -1,2 -0,5 63 141 -0,2
Egilsstaðir -1,9 -0,8 38 67 -0,8
Dalatangi 2,5 0,7 20 84 0,6
Teigarhorn 1,2 0,2 48 til 53 149 0,0
Höfn í Hornaf. 1,2 0,0
Stórhöfði 3,3 1,0 20 145 1,2
Hveravellir -4,3 0,7 14 57 1,0
Árnes 0,1 0,9 31 142 1,1

Meðalhiti og vik (°C) í desember 2021.

Að tiltölu var hlýjast á sunnan- og vestanverðu landinu þar sem hitavik miðað við síðustu tíu ár voru að mestu leyti jákvæð. Kaldara var að tiltölu á norðaustanverðu landinu þar sem hitavikin voru að mestu neikvæð.  Jákvætt hitavik var mest 1,5 stig í Mikladal á Vestfjörðum. Neikvætt hitavik var mest -1,5 stig á Brú á Jökuldal.  

Hitavik sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,4 stig. Lægstur mældist mánaðarmeðalhitinn -6,3 stig í Sandbúðum á Sprengisandi. Lægsti meðalhiti í byggð mældist -5,6 stig í Möðrudal.

Um miðjan mánuðinn var óvenju hlýtt á Austurlandi. Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,1 stig á Dalatanga þ. 17. Lægstur mældist hitinn -21,4 stig við Mývatn þ. 4. Það var jafnframt lægsti hiti mánaðarins í byggð.

Úrkoma

Heildarúrkoma mánaðarins í Reykjavík mældist 92,2 mm sem er 2,7 mm undir meðallagi desembermánaðar áranna 1991 til 2020 og 97% af meðalúrkomu þess tímabils. Á Akureyri var heildarúrkoma mánaðarins 46,8 mm sem eru um 64% af meðalúrkomu undanfarinna þriggja áratuga. Úrkoma mældist einnig undir meðallagi í Stykkishólmi, en þar mældust 45,0 mm sem eru um 53% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri 17 desemberdaga í Reykjavík, þremur fleiri en að meðallagi undanfarna þrjá áratugi. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 6 daga, sex færri en í meðalári.

Snjór

Desember var að tiltölu snjóléttur á landinu, sérstaklega um miðbik mánaðar.

Jörð var alauð 17 desembermorgna í Reykjavík og alhvít 6 morgna, sex færri en að meðallagi undanfarinna þriggja áratuga. Á Akureyri voru alauðir morgnar 10 og alhvítir morgnar 15, þremur færri en í meðalári. Þar var snjólétt langt fram eftir mánuðinum en svo kyngdi niður snjó þann 27. og 28., samtals 39 cm jafnfallið. Jafnfallinn snjór var 47 cm á gamlársdag á Akureyri.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir mánaðarins mældust 10,3 í Reykjavík sem er 2,3 klukkustundum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 0,8 sólskinsstundir í desember, en það er hálfri klukkustund yfir meðallagi sama tímabils.

Vindur

Desember var hægviðrasamur. Meðalvindhraði á landsvísu var 1,3 m/s lægri en í meðaldesember 1991 til 2020.  Hvassast var þ. 5. (suðaustanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1001,4 hPa sem er 2,2 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1039,7 hPa þ. 19. á Fonti og á Kollaleiru í Reyðarfirði. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 962,3 hPa í Grindavík þ. 11.

Skjöl fyrir desember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2021

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu

Halda áfram að lesa

Veður

Hefur sinnt veðurmælingum í 58 ár samfellt

Myri-27.9.90

Mynd frá Mýri í Bárðdal.


Guðrún Sveinbjörnsdóttir á Mýri lætur af störfum

21.12.2021

Guðrún Sveinbjörnsdóttir lætur nú af störfum eftir 58 ára samfellda þjónustu við Veðurstofu Íslands. Guðrún eGudrunTryggvadottirr fædd í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1942 og ólst þar upp við sveitastörf og að læra að nýta öll hlunnindi sem sjórinn gaf. Eftir nám við Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði og í Reykjavík fór Guðrún í Bændaskólann á Hólum sem þá var afar fátítt um stúlkur. Þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Tryggva Höskuldssyni frá Bólstað í Bárðardal, sem þar stundaði einnig nám.  Guðrún og Tryggvi hófu búskap á Mýri í Bárðardal vorið 1963, en þar hafði fyrri ábúandi, Karl móðurbróðir Tryggva, séð um að annast úrkomumælingar fyrir Veðurstofuna, en var um þetta leyti að bregða búi.

Við flutninginn í Mýri tók Guðrún að sér að gera þessar mælingar, einungis 21 árs gömul, þótt hún hafi ekki formlega verið skráð fyrir þeim fyrr en 1971. Á Mýri eignuðust Guðrún og Tryggvi fjóra syni sem allir hafa erft dugnað og myndarskap foreldranna og sækja gjarnan þangað heim í fríum frá sínu daglega amstri enda Guðrún og Tryggvi gestrisin með afbrigðum; ekki bara við að taka á móti eigin afkomendum heldur stórum frændgarði, sveitungum og alls kyns ferðalöngum. Þá dvöldu mörg ungmenni hjá þeim sumarlangt við leik og störf auk fjölda barnabarna sem dvalið hafa langdvölum hjá ömmu og afa á Mýri á sumrin þar sem þau hafa lært að vinna og létta undir með eldri kynslóðinni. Oft var glatt á hjalla í Mýrareldhúsinu þar sem Guðrún bar fram veitingar, nær allar útbúnar með eigin höndum, og Tryggvi spilaði á harmonikkuna.

Guðrún og Tryggvi hafa verið einstaklega lagin við að lifa af landsins gæðum; hvort sem um er að ræða sauðkindina, fugl eða silung og eru sérfræðingar í því að reykja kjöt og silung sem og að skapa sér gott og innihaldsríkt líf í annars fremur hrjóstrugu landi.

Myri

Mynd frá Mýri í Bárðardal. (Ljósmyndari: Elvar Ástráðsson)

Lengst af eftir 1969 var Mýri veðurfarsstöð sem fól í sér mælingar á hita og athuganir á vindi, skýjafari og fleiri veðurþáttum. Einu mælitækin voru hitamælar og úrkomumælir þótt einnig hafi alltaf verið spáð í vindátt og vindhraða á Mýri sem þar sem glöggskyggni Guðrúnar kom sér vel. Á árunum 2001–2013 var Mýri veðurskeytastöð, og fengust þaðan mikilvægar upplýsingar um veður við hálendismörk Norðausturlands.

Guðrún hefur sinnt starfi sínu af alúð og vandvirkni alla tíð en hún er af þeirri kynslóð veðurathugunarfólks sem lagði Veðurstofunni mikilsvert lið um langa hríð. Margir þeirra hafa verið að láta af störfum á síðustu árum. Starf veðurathugnarmannsins einkennist fyrst og fremst af mikilli bindingu því að veðurskeytin þurfa að berast á réttum tíma alla daga vikunnar, allan ársins hring, og því hefur gjarnan valist til þessara starfa fólk í sveitum landsins sem fyrir var bundið við búskap.

Veðurstofa Íslands þakkar Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur langt, farsælt og óeigingjarnt starf óskar henni velfarnaðar á komandi árum.

Halda áfram að lesa

Veður

Minnkandi líkur á gosi í Grímsvötnum

Uppfært 7.12. kl. 11:00

Veðurstofan hefur fært fluglitakóða fyrir
Grímsvötn niður á gult. Í kjölfar aukinnar skjálftavirkni í gærmorgun, þar sem
m.a. mældist skjálfti af stærð 3,6 sem er óvenjustór fyrir Grímsvötn, var
fluglitakóðinn settur á appelsínugult. Samkvæmt skilgreiningu er uppfærsla á
fluglitakóðanum í appelsínugult þegar að eldstöð sýnir aukna virkni og vaxandi
líkur eru á eldgosi.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin