Almannavarnir

Engin leið er að segja til um það nú hve lengi gosið stendur

Vísindaráð almannavarna fundaði í gær vegna eldgossins í Geldingadölum.  Frá því að gosið hófst hefur mikil gagnasöfnun átt sér stað, mælingar gerðar og líkön um framvindu keyrð.  Um helgina verður gerð ítarleg samantekt um stöðu mála og tillögur um reglulegt eftirlit og vöktun lagt fram.  Hér að neðan er stutt samantekt um gosið, en Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun birta reglulega niðurstöður mælinga og er fólk hvatt til þess að fylgjast með vefsíðum þeirra.

Eldgosið í Geldingadölum hefur nú staðið í tæpa sex daga.  Gosið er hraungos með lítilli sprengivirkni og kvikan sem kemur upp er þunnfljótandi basalt.  Gosið er fremur afllítið.  Hraunrennslið virðist stöðugt og hefur haldist svipað frá upphafi, um 5-7 m3/s. Eins og er þá er hraunið er allt innan Geldingadala en haldi gosið áfram með svipuðum hætti mun það byrja að renna út úr dölunum til austurs og í átt að Meradölum eftir eina til tvær vikur. Ef framleiðnin helst í sama horfinu getur gosið þróast yfir í dyngjugos, sem oft eru langvin og mynda hraunbreiður sem ná kílómetra upp í nokkra tugi kílómetra frá upptökum. Kvikan er rík í MgO (8.5%) og kemur af um 17-20 km dýpi. Gasmengun er viðvarandi við gosstöðvarnar og getur orðið veruleg við ákveðin skilyrði.  Ekki hafa komið fram merki um umtalsverðar jarðskorpuhreyfingar eftir að gosið hófst. 

Athuganir á gervitunglagögnum benda til þess að kvikugangurinn, sem myndaðist vikurnar fyrir gosið, og opnaðist í Geldingadölum, sé ekki að fara að mynda nýjar gosstöðvar annarstaðar yfir ganginum.  Engin leið er að segja til um það nú hve lengi gosið stendur.  

Gosið í Geldingadölum kallar á sérstakt, reglubundið eftirlit, þar sem fylgst er náið með þróun gossins og mengun frá gosinu og áhrifum þess á loftgæði og gróður á svæðinu.

Almannavarnir

Kort af hættusvæðinu við gosstöðvarnar

Veðurstofa Íslands hefur gefið út kort sem afmarkar það svæði sem er lokað á gosstöðvunum. Á þessu svæði er fólk í bráðri hættu vegna skyndilegra atburða sem geta orðið á gosstöðvum. Innan hættusvæðisins er allra mesta hættan á opnun fleiri gossprungna án fyrirvara og því getur fylgt skyndilegt og hratt hraunflæði sem erfitt er að forðast. Utan þessa svæðis eru einnig aðrar hættur sem fylgja framrás hrauns og uppsöfnunar gass.

Halda áfram að lesa

Almannavarnir

Opnun nýrrar gossprungu án sýnilegra undanfara gæti valdið bráðri hættu

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi í dag 8. apríl 2021. Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar á aflögun auk framgang gossins, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og þeirri mengun sem fylgir eldgosinu.

Þá voru ræddar þær hættur sem snúa að fólki sem sækir gosstöðvarnar heim og hvaða svæði væru hættulegust með tilliti til mögulegrar opnunar á nýjum sprungum, hraunflæðis og gasmengunar.

Mesta skjálftavirknin á þeim tíma sem liðinn er frá síðasta fundi er norðarlega í kvikuganginum og nær að Keili. Við Litla Hrút mælast grunnir skjálftar og er fylgst vel með þeirri virkni. Lítil aflögun mælist á Reykjanesskaganum en merki um breytingar komu fram við nýjar gossprungur sem opnuðust annan í páskum og aðfaranótt þriðjudags.

Breytingarnar eru mjög litlar og fyrirboðar áður en sprungurnar opnast ekki greinanlegir. Vísbendingar eru um að á svæðinu frá sunnanverðum Geldingadölum og NA fyrir gossprungurnar liggi kvika grunnt og ekki hægt að útiloka að fleiri gossprungur geti opnast á næstu dögum eða vikum.

Bráðabirgðamælingar benda til þess að hraunflæði hafi frekar aukist við opnun síðustu gossprungna, en nákvæmari mælinga er að vænta fyrir morgundaginn. Hraun rennur frá öllum sprungunum þremur og fer það niður í Meradali og Geldingadali. Við opnun á fleiri sprungum og auknu hraunflæði má leiða líkur að því að magn gass frá gosstöðvunum gæti hafi aukist miðað við það sem áður var þegar einungis gaus í Geldingadölum. Mesta afgösunin kemur frá gígunum en mun minna frá hraunrennslinu sjálfu. Mikil mengun mælist í kringum gosstöðvarnar, en utan hennar dvínar hún hratt. Veðurstofan hefur sett upp tvo síritandi gasmæla, annan við gönguleið A og hinn í Meradölum.

Veðurstofan mun vinna heildarhættumat fyrir svæðið þar sem tekið er á hættu vegna hraunrennslis, gasmengunar og möguleika á myndun nýrra gossprungna. Opnun nýrrar gossprungu án sjáanlegra undanfara gæti valdið bráðri hættu fyrir fólk. Svæðið sem þessi hætta nær til er talið vera þar sem kvikan náði næst yfirborði eða frá SV hluta Geldingadala NA að Litlahrúti.

Mynd: Almannavarnir

Halda áfram að lesa

Almannavarnir

Íbúar Voga á Vatnsleysuströnd beðnir um að loka gluggum vegna gasmengunnar.

Veðurstofa Íslands sendi frá sér tilkynningu rétt í þessu. Hún er aðallega ætluð íbúum Voga á Vatnsleysuströnd:
Gasspáin sýnir mökkinn fara yfir Voga á Vatnsleysuströnd í kvöld og þar mælist nú mengun: https://www.vedur.is/eldfjoll/eldgos-a-reykjanesi/gasmengun/

Spáð er að vindinn lægi um miðnætti og verður breytilega átt í fyrramálið, ný gasspá er væntaleg um kl. 22:30.

Íbúar eru hvattir til að loka gluggum og kynda húsin sín. Sjá mæld gildi og frekari leiðbeiningar á vef Umhverfisstofnunar www.loftgaedi.is

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin