Samherji

Engin skattrannsókn í Færeyjum

Engin skattrannsókn í Færeyjum

Engin skattrannsókn er hafin á hendur Samherja í Færeyjum. Samherji fékk það staðfest hjá Eyðun Mørkør yfirmanni færeyska skattsins, TAKS. Fréttir Ríkisútvarpsins í gær um skattrannsókn í Færeyjum eru því rangar og byggja á rangtúlkun og útúrsnúningi á ummælum Mørkør í viðtali við Kringvarp Føroya. Hefur Samherji þegar sent fréttastofu Ríkisútvarpsins beiðni um að fréttirnar verði leiðréttar.

Ríkisútvarpið birti frétt á vef sínum laust eftir hádegi í gær þar sem fullyrt er að færeysk skattyfirvöld hefðu formlega hafið rannsókn á mögulegum skattalagabrotum Samherja í Færeyjum. Þá var þessi sama frétt endursögð í sjónvarpsfréttum um kvöldið. Samherji lét kanna málið sérstaklega hjá TAKS. Í skriflegu svari frá Eyðun Mørkør kemur fram að endursögn Ríkisútvarpsins á ummælum hans sé röng. Þá fékk Samherji staðfest að engin skattrannsókn væri í gangi í Færeyjum á hendur félaginu. Í kjölfarið var Ríkisútvarpinu send beiðni um leiðréttingu.

Þess skal getið að fréttastofa Ríkisútvarpsins leitaði ekki eftir sjónarmiðum eða afstöðu Samherja áður en umræddar fréttir voru birtar. Þetta var heldur ekki gert síðastliðinn þriðjudag þegar Ríkisútvarpið birti frétt um skip Samherja sem skráð eru í Færeyjum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins braut gegn eigin vinnureglum með því að gefa Samherja ekki möguleika á andsvörum áður en þessar fréttir voru birtar.

Þessi vinnubrögð eru í takti við annað þegar umfjöllun fréttastofunnar um Samherja er annars vegar. Ítrekaðar aðfinnslur við vinnubrögð fréttastofunnar hafa engu skilað og virðist henni ómögulegt að fjalla á hlutlægan og heiðarlegan hátt um málefni Samherja eins og fjölmörg dæmi sanna.

Samherji

Stækkun Silfurstjörnunnar í fullum gangi

Nýju kerin eru stór, enda tvöfaldast framleiðslan / myndir samherji.is

Nýju kerin eru stór, enda tvöfaldast framleiðslan / myndir samherji.is

Verklegar framkvæmdir við stækkun landeldisstöðvar Fiskeldis Samherja í Öxarfirði eru í fullum gangi. Tvöfalda á eldisrými og framleiðslu, þannig að framleiðslan verði um þrjú þúsund tonn á ári. Þegar er farið að móta fyrir fyrstu kerjunum en þau verða fimm talsins og um helmingi stærri en þau sem fyrir eru.

Góður undirbúningur skiptir sköpum

„Við stefnum á taka fyrsta kerið í notkun í lok ársins, eins og staðan er í dag getum við sagt að allt gangi samkvæmt áætlun. Hin kerin verða svo virkjuð á eins til tveggja mánaða millibili. Hérna á svæðinu eru starfsmenn nokkurra verktakafyrirtækja og stórvirkar vinnuvélar eru áberandi á svæðinu. Undirbúningurinn tók náttúrulega nokkurn tíma, svo sem vinna við skipulagsmál, leyfisumsóknir og fleira. Góður undirbúningur skiptir sköpum og þá verður sjálf uppbyggingin hnitmiðaðri en ella,“ segir Arnar Freyr Jónsson rekstrarstjóri Fiskeldis Samherja í Öxarfirði.

Hagkvæmari rekstur

Eins og fyrr segir tvöfaldast framleiðslan og segja má að stækkunin sé nokkurs konar undanfari stórrar landeldisstöðvar Samherja Fiskeldis á Reykjanesi.

„Já, við ætlum að nýta okkur þá reynslu sem við öðlumst hérna fyrir norðan þegar uppbyggingin hefst fyrir alvöru fyrir sunnan. Auk þess var kominn tími á ýmsar uppfærslur í starfseminni, enda Silfurstjarnan á margan hátt komin nokkuð til ára sinna. Eftir stækkun verður reksturinn hagkvæmari.“

Líflegt í matsalnum

„Þessar framkvæmdir lífga sannarlega upp á allt saman hérna og stækkunin mun klárlega efla samfélagið í Norðurþingi, enda er Silfurstjarnan stærsti vinnuveitandinn á svæðinu á eftir sjálfu sveitarfélaginu. Það er gaman og spennandi að sjá þetta verða að veruleika. Núna er sem sagt farið að móta fyrir kerjunum og það er viss áfangi. Ég giska á að starfsmenn hérna séu um það bil helmingi fleiri en venjulega, þannig að það er líf og fjör þegar allir koma saman í matsalnum,“ segir Arnar Freyr Jónsson.

Halda áfram að lesa

Samherji

Hákon Þ. Guðmundsson í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Hákon Þ. Guðmundsson/myndir samherji.is

Hákon Þ. Guðmundsson/myndir samherji.is

Hákon Þ. Guðmundsson útgerðarstjóri Samherja var kjörinn í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á ársfundi samtakanna, sem haldinn var föstudaginn 6. maí sl. Hann þekkir vel til SFS, var í stjórn 2019-2020 og hefur tekið þátt í málefnavinnu og stefnumótun á vegum samtakanna, meðal annars á sviði umhverfismála.

Hákon er menntaður skipstjórnarmaður og var í liðlega tvo áratugi skipstjóri á skipum Samherja. Síðustu fimmtán árin hefur hann starfað á útgerðarsviði Samherja.

Frumkvöðlastarf áberandi í sjávarútvegi

„Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að kjósa mig í stjórn SFS. Sjávarútvegur er á margan hátt burðarás efnahagslífs þjóðarinnar, sérstaklega úti á landi, svo sem hérna á Eyjafjarðarsvæðinu. Greinin er frumkvöðull í innleiðingu margra tækninýjunga og hefur skapað ný störf á sviði hátækni. Ágæt dæmi um þetta eru fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík og skipafloti Samherja. Íslenskur sjávarútvegur er mjög framarlega á heimsvísu á mörgum sviðum og ef rétt er á spilunum haldið, höfum við alla burði til að halda þeirri stöðu.

Fram undan hjá SFS eru verkefni tengd og stuðningur við uppbyggingu fiskeldisgreinarinnar s.s. betri skilvirkni í reglugerðum og raunréttri vísindalegri nálgun. Í þeirri grein er klárlega vöxtur til framtíðar, sem styrkt getur betur dreifðari byggðir ef rétt er haldið á spöðunum.“

Ábyrg og góð umgengni um auðlindina

Hákon hefur mjög látið að sér kveða á sviði umhverfismála í störfum sínum, bæði fyrir Samherja og einnig á vettvangi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem undirrituð var í 3. júlí 2020 er stefnt að því að draga úr losun frá sjávarútvegi og auka eftirspurn eftir heilnæmum íslenskum fiski með samstarfi stjórnvalda og atvinnugreinarinnar.

Alltaf nokkur verkefni í gangi á sviði umhverfismála

„Það er engum blöðum um það að fletta að ábyrg og góð umgengni um sjávarauðlindina er skilyrði fyrir því að áfram verði hægt að nýta fiskistofnana með sjálfbærum hætti. Einn þátturinn er til dæmis að reka skilakerfi fyrir veiðarfæraúrgang með þann tilgang að koma honum til endurvinnanlegrar úrvinnslu. Samherji stendur mjög framarlega í þessum efnum og ég held að sjávarútvegsfyrirtækin almennt séu meðvituð um að þau verða að vera ábyrgur hluti af hringrásarhagkerfinu. Það hafa sannarlega verið stigin stór skref í umhverfismálum og við verðum að halda áfram á þeirri braut. Hérna hjá Samherja eru alltaf nokkur verkefni í gangi á sviði umhverfismála, enda er markmiðið alltaf hið sama, starfa í sem bestri sátt í umhverfið. Þannig er Samherji með sérstaka umhverfisstefnu og fyrirtækið hefur fengið viðurkenningar frá mörgum viðurkenndum vottunaraðilum.“

Greinin á allt sitt undir skilyrðum í hafinu

„Sjávarútvegurinn á í raun og veru allt sitt undir skilyrðum í hafinu og þar með íslenskt atvinnulíf að stórum hluta. Góð og skynsamleg umgengni um hafið og fiskveiðar í sátt og samlyndi við náttúruna eru forsenda þess að stofnarnir hér við land verði áfram nýttir til framtíðar. Þessar áherslur koma berlega í ljós í öllum stefnumálum SFS,“ segir Hákon Þ. Guðmundsson.

Halda áfram að lesa

Samherji

Hlutafjáraukning hjá Samherja fiskeldi ehf. upp á 3,5 milljarða króna og Alf-Helge Aarskog tekur sæti í stjórn

Stefnt er að framleiðslu 40 þúsund tonna af laxi á ári á Reykjanesi. Eldisgarðurinn verður við Reykj…

Stefnt er að framleiðslu 40 þúsund tonna af laxi á ári á Reykjanesi. Eldisgarðurinn verður við Reykjanesvirkjun

Hlutafé Samherja fiskeldis ehf. hefur verið aukið um 3.500 milljónir króna. Fjármagnið verður nýtt til uppbyggingar tilraunaverkefnis í Öxarfirði auk hönnunar og framkvæmda við 40 þúsund tonna eldisgarð í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun.

Þetta er fyrsti fasi hlutafjáraukningar upp á 7,5 milljarða króna sem þegar hefur verið samþykkt. Í kjölfar þessa verður ný stjórn kjörin í Samherja fiskeldi ehf. á aðalfundi félagsins. Norðmaðurinn Alf-Helge Aarskog, fyrrverandi forstjóri Mowi og einn af reynslumestu sérfræðingum heims á sviði fiskeldis, hefur fjárfest í Samherja fiskeldi ehf. og mun taka sæti í stjórn félagsins.

Stjórnarþátttaka Aarskog er mikil traustsyfirlýsing fyrir Samherja fiskeldi ehf. og metnaðarfull framtíðaráform félagsins um uppbyggingu á sviði landeldis. Aarskog er afar farsæll stjórnandi en nú síðast var hann forstjóri Mowi sem er stærsta fiskeldisfyrirtæki veraldar og framleiðir 20 prósent af öllum laxi sem er seldur er á heimsvísu.

Mikil viðurkenning

„Það eru fáir aðilar í heiminum sem hafa meiri reynslu af fiskeldi en Alf-Helge Aarskog. Við erum að fá mann inn í stjórnina með gríðarlega þekkingu og reynslu í alþjóðlegu fiskeldi með mikið tengslanet til að færa þekkingu okkar á upp á næsta stig. Í þessu felst mikil viðurkenning á uppbyggingu okkar á landeldi undanfarna tvo áratugi,“ segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis ehf.

Silfurstjarnan í Öxarfirði tvöfölduð

Rekstur Samherja fiskeldis kemur að öllum stigum eldis og vinnslu, allt frá hrognum til neytenda. Fyrirtækið rekur í dag fimm eldisstöðvar og tvær vinnslur. Fyrirtækið er sérhæft í landeldi á bleikju og laxi. Hingað til hefur bleikja verið meirihluti framleiðslunnar en nú stendur yfir mikil uppbygging í framleiðslu á laxi. Framkvæmdir eru hafnar við stækkun landeldis í Silfurstjörnunni í Öxarfirði. Þar eru í dag framleidd 1.500 tonn af laxi en framleiðslan mun aukast í 3.000 tonn að framkvæmdunum loknum. Áætlanir gera ráð fyrir að fiskur fari í ný ker á staðnum um næstu áramót. Silfurstjarnan hefur um árabil verið einn stærsti framleiðandi í heimi á laxi sem alinn er á landi.

Fjárfest fyrir 45 milljarða á Reykjanesi

Samherji fiskeldi hefur einnig áætlanir um uppbyggingu landeldis á Reykjanesi þar sem stefnt er að framleiðslu 40.000 tonna af laxi á ársgrundvelli. Eldisgarðurinn verður staðsettur við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum. Heildarfjárfesting er áætluð ríflega 45 milljarðar króna. Vinna við umhverfismat og deiliskipulag vegna stöðvarinnar stendur nú yfir. Landeldisstöðin verður byggð á reynslu nýrra eininga í Silfurstjörnunni og meira en tuttugu ára þróunar og reynslu starfsmanna Samherja fiskeldis í landeldi á laxi og bleikju.

Virkilega áhugaverð áform um uppbyggingu fiskeldis á landi

„Það er heiður fyrir mig að vera boðið að taka þátt í þessu verkefni. Hæfni starfsfólks Samherja á sviði sjávarútvegs og fiskeldis á landi er frábær grunnur til að byggja á. Sú staðreynd að Samherji hefur um mjög langt skeið framleitt lax og bleikju á landi gerir það að verkum að þetta er fyrsta verkefnið sem ég hef skoðað á sviði landeldis sem ég hef raunverulega trú á. Staðsetningin sem varð fyrir valinu, þar sem er gnægð vatns og orku, gerir þetta virkilega áhugavert. Það eru afar spennandi tímar framundan hjá Samherja fiskeldi en fyrirtækið hefur metnaðarfull áform, getu til að ná þeim og verða þannig leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í landeldi á laxi. Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni og hlakka til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er framundan,“ segir Alf-Helge Aarskog.

Stærsta fjárfesting í sögu Samherja

„Fjárfesting og stjórnarþátttaka Alf-Helge Aarskog er ekki aðeins fengur fyrir Samherja fiskeldi heldur einnig fyrir íslenskt atvinnulíf í heild sinni. Aðkoma hans er auðvitað mikil traustsyfirlýsing fyrir starfsfólk Samherja. Sú uppbygging sem er hafin hjá Samherja fiskeldi markar ákveðin tímamót því um er að ræða stærsta fjárfestingarverkefni sem Samherji og tengd félög hafa ráðist í í 39 ára sögu Samherja,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin