Samtök Atvinnulífsins

Eyjólfur Árni endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins í dag

Eyjólfur Árni endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins í dag

Eyjólfur Árni Rafnsson, var í dag endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins. Tilkynnt var um kjörið á aðalfundi SA fyrr í dag og hlaut Eyjólfur Árni 99,50% greiddra atkvæða. Þátttaka í kosningunni var góð. Eyjólfur Árni ávarpaði fundinn og fjallaði m.a. um efnahagsaðstæður og horfur sem hafa breyst eftir kórónakreppuna. Aðstæðurnar geri mörgum fyrirtækjum erfitt að standa undir þeim launahækkunum sem fólust í Lífskjarasamningnum. 

„Það urðu okkur mikil vonbrigði að ekki reyndist síðastliðið haust unnt að fá verkalýðsfélögin í landinu til að fallast á lágmarksbreytingar til að koma til móts við breyttar aðstæður í atvinnulífinu. Vilji til samtals, gagnkvæms skilnings og geta til að leita lausna sem gagnast gætu bæði fólki og fyrirtækjum var því miður ekki til staðar hjá forystufólki verkalýðshreyfingarinnar. Engin leið er til skynsamlegra kjarasamninga ef vilji til sameiginlegs mats á efnahagsaðstæðum er ekki til staðar,” sagði Eyjólfur Árni.

Ekki svigrúm til launahækkana

Eyjólfur Árni sagði enn fremur að gert væri ráð fyrir að landsframleiðslan verði orðin svipuð á árinu 2022 og hún var 2019 og að umsvif í hagkerfinu verði nær 700 milljörðum krónum minni á árunum 2020 til 2022 en gert var ráð fyrir við gerð kjarasamninga.

Með þá staðreynd í farteskinu blasir við að ekki verður mikið svigrúm til að semja um launahækkanir á næsta ári. Til viðbótar þessu er það áhygguefni að ríki og sveitarfélög leiði launaþróun og breytingar á vinnumarkaði.  Launahækkanir hljóta að byggja á framleiðni og verðmætasköpun í atvinnulífinu og ef ekki næst samstaða um þá staðreynd er ekki von að vel fari. Þá verður erfitt að vinna bug á atvinnuleysi sem bæði er samfélagsmein og böl fyrir þau sem ekki hafa vinnu og fjölskyldur þeirra. Samstaða fyrirtækjanna og virk þátttaka ykkar félagsmannanna í starfi samtaka okkar er nauðsynleg til að unnt sé að finna skynsamlegar leiðir þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga á næsta ári,” sagði hann.

Fjölgun opinberra starfa er ekki svarið

Eyjólfur Árni segir að verðmætasköpun þurfi að efla. „Hún verður til í atvinnulífinu með frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja sem sækja fram á mörkuðum og leitast við að styrkja sína stöðu í harðri alþjóðlegri samkeppni. Það gerist ekki, með fullri virðingu fyrir því góða starfi sem unnið er á opinberum vettvangi, með því að fjölga opinberum störfum.”

Hann segir þó fulla ástæðu til að líta framtíðina björtum augum. „Til staðar er styrkur grunnur í fyrirtækjunum, öflugt fólk og mikil þekking. Nýsköpun blómstrar sem aldrei fyrr og sókn á markaði innan lands og utan mun taka kipp þegar hömlunum léttir sem við Íslendingar eins og aðrir höfum búið við nú vel á annað ár.”

Ný stjórn Samtaka atvinnulífsins kosin

Á aðalfundinum var ný stjórn Samtaka atvinnulífsins fyrir næsta starfsár einnig kosin:

Fulltrúi Samorku er:

Gestur Pétursson, Veitur ohf.

Fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar eru:

Bjarnheiður Hallsdóttir, Katla DMI ehf.

Bogi Nils Bogason, Icelandair ehf.

Helga Árnadóttir, Bláa lónið hf.

Fulltrúar Samtaka verslunar og þjónustu eru:

Eggert Þór Kristófersson, Festi hf.

Guðrún Jóhannesdóttir, Kokka ehf.

Jón Ólafur Halldórsson, Olíuverzlun Íslands hf.

Tinna Jóhannsdóttir, Reginn hf.

Fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru:

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Ólafur Marteinsson, Rammi hf.

Ægir Páll Friðbertsson, Brim hf.

Fulltrúar Samtaka fjármálafyrirtækja eru:

Helgi Bjarnason, Vátryggingafélag Íslands hf.

Lilja Björk Einarsdóttir, Landsbankinn hf.

Fulltrúar Samtaka iðnaðarins eru:

Arna Arnardóttir, Samtök iðnaðarins

Árni Sigurjónsson, Marel hf.

Hjörleifur Stefánsson, Nesraf ehf.

Magnús Hilmar Helgason, Launafl ehf.

Rannveig Rist, Rio Tinto á Íslandi hf.

Sigurður R. Ragnarsson, Íslenskir aðalverktakar hf.

Valgerður Hrund Skúladóttir, Sensa ehf.                

Framkvæmdastjórn samtakanna verður svo kjörin á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund, líkt og segir í samþykktum SA. Framkvæmdastjórn SA skipa formaður og varaformaður samtakanna og sex menn sem stjórnin kýs úr hópi stjórnarmanna.

Samtök Atvinnulífsins

Ryðjum heimatilbúnum hindrunum úr vegi

Ryðjum heimatilbúnum hindrunum úr vegi

Öflugt atvinnulíf eykur velsæld – þetta vitum við. Við vitum einnig að óstöðugleiki, íþyngjandi skattbyrði, flókið regluverk og aðrar kvaðir hamla blómlegu atvinnulífi og koma niður á lífskjörum okkar. Þetta er hins vegar það umhverfi sem íslenskt atvinnulíf býr við í dag og við verðum að bregðast við.

Hið opinbera hefur safnað miklum skuldum í kórónukreppunni og samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum í ríkisfjármálum er engin stórkostleg breyting í sjónmáli. Nær hvergi innan OECD dregur hið opinbera meira af verðmætasköpun hagkerfisins til sín í formi skatttekna. Í ljósi þess að háir skattar hamla fjölgun starfa er ekki vænlegt að hækka skatta, né stofna til nýrra, til að fjármagna fjárlagahallann. Leita þarf annarra leiða. Í alþjóðlegum úttektum hefur margoft verið sýnt fram á að mun fleiri hindranir eru til staðar í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja en á Norðurlöndunum. Þetta er óásættanleg staða sem þarf að breyta.

Íslenskt efnahagslíf varð fyrir þungu höggi í kórónukreppunni og til að endurheimta fyrri lífskjör er brýnt að auka fjölbreytni í atvinnulífinu með því að styðja við frumkvöðla og aðra fjárfesta sem þora að taka áhættu og veðja á íslenskt efnahagslíf. Við þurfum að framleiða hraðar og meira með hugviti og þeim sjálfbæru leiðum sem Íslendingum hefur borið gæfa til að þróa. Síðast en ekki síst þurfum við að fjárfesta. Fjárfestingastigið á Íslandi er hins vegar lágt í alþjóðlegum samanburði sem er áhyggjuefni og óneitanlega hefur íþyngjandi skattheimta meðal annars haldið aftur af nauðsynlegri fjárfestingu í hagkerfinu undanfarin ár. Meiri áhersla ætti að vera á að nýta skatttekjur hins opinbera betur svo unnt sé að draga úr skattbyrðinni. Aukin opinber útgjöld og síhækkandi skattar eru hvorki ávísun á bætta þjónustu við neytendur né bætt lífskjör. Við þurfum að fá meira fyrir peninginn og tengja betur opinbert fjármagn við árangur, auka gagnsæi og hagkvæmni í opinberum rekstri. Víða erlendis er það sjálfsögð krafa, hið sama ætti að gilda hér.

Á sama tíma og tugþúsundir starfa hafa glatast á almennum vinnumarkaði heyrast raddir þess efnis að fjölga þurfi störfum hjá hinu opinbera. Samt eru opinber umsvif næstum hvergi meiri meðal OECD ríkja. Til þess að fjölga varanlega störfum þarf að tryggja fyrirtækjum umhverfi sem stenst alþjóðlega samkeppni. Afnema þarf hindranir í rekstrarumhverfi svo sem þær sem snúa að stofnun fyrirtækja, leyfisveitingum og erlendri fjárfestingu, eins og OECD hefur gert ítarlega úttekt á í tilfelli ferðaþjónustu og byggingariðnaðar. Einföld og samkeppnishæf skattastefna er annað lykilskref í átt að markmiði um eftirsóknarvert rekstrarumhverfi.

Samtök atvinnulífsins hafa greint megináskoranir íslensks efnahags- og atvinnulífs og hvernig megi mæta þeim með samhentu átaki. Viðbrögð okkar nú skipta sköpum. Ryðjum hindrunum úr vegi. Höldum áfram.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA

Greinin birtist fyrst á Vísi 24. júní 2021

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Stjórnendur 400 stærstu í maí 2021: Stökkbreyttar væntingar

Stjórnendur 400 stærstu í maí 2021: Stökkbreyttar væntingar

Ársfjórðungsleg könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í efnahagslífinu fór fram í maí og júníbyrjun 2021. Um miðjan maí var slakað á sóttvarnaraðgerðum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og 25. maí voru gerðar enn frekari tilslakanir. Takmörkunum gagnvart atvinnulífinu innanlands var þá að mestu aflétt og tilslakanir á landamærunum fólu í sér möguleika á margföldun ferðamanna. Könnunin ber þess glöggt vitni að tilslakanirnar hafa verið áhrifamiklar og afdrifaríkar fyrir efnahagslífið.

Óvenju mikill viðsnúningur í mati á aðstæðum

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, tekur sitt hæsta stökk frá upphafi þessara mælinga. Gildið hækkar um rúmlega 100 stig, úr 40 í 145, en áður var hæsta stökkið 70 stig í mars 2014. Rúm 40% stjórnenda töldu aðstæður góðar, svipað hlutfall hvorki góðar né slæmar en aðeins 16% að þær væru slæmar. Í öllum atvinnugreinunum töldu fleiri stjórnendur að staðan væri góð en slæm, en jákvæðast mat á aðstæðum var í þjónustugreinum og verslun.

Næstum allir stjórnendur vænta bata eftir 6 mánuði

Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði sýnir bjarta mynd og fær sitt hæsta gildi frá upphafi þessara mælinga, eða 191 þar sem 200 er hæsta gildi. Niðurstaðan sýnir að 84% stjórnenda telja að aðstæður verði betri eftir sex mánuði, 4% að þær verði verri en 12% að þær verði óbreyttar.

Víða skortur á starfsfólki

Skortur á starfsfólki minnkaði meira milli kannana en áður hefur gerst og tvöfaldaðist fjöldi fyrirtækja sem búa við skort. Nú telja 23% fyrirtækjanna skort fyrirliggjandi samanborið við 11% fyrir þremur mánuðum. Mestur skortur er í byggingarstarfsemi (60% fyrirtækja), þjónustu (32%) og ferðaþjónustu (28%).

Starfsmönnum á almennum markaði gæti fjölgað um 2.200 á næstu 6 mánuðum

Væntingar um betri tíð skila sér í áformum um mikla fjölgun starfsfólks á árinu.

26 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 38% stjórnenda búast við fjölgun starfsmanna, 9% við fækkun og rúmlega helmingur við óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki könnunarfyrirtækjanna fjölgi um 1,8%. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fjölgað um rúmlega 2.200 á næstu sex mánuðum, þ.e. til ársloka. Fjölgunin er 2.800 hjá fyrirtækjum sem sjá fram á fjölgun starfsfólks en fækkunin 600 hjá þeim sem búast við fækkun.

Stjórnendur í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi sjá fram á mesta fjölgun starfsfólks en þar á eftir koma stjórnendur í þjónustu og verslun.

Vænta verðbólgu yfir markmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3,5% og hækka úr 3,0% sem þær hafa verið undanfarið ár, en þar á undan höfðu legið við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru 3% eins og undanfarin ár.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan

Stjórnendur búast við verulegri aukningu innlendrar eftirspurnar á næstu 6 mánuðum. 55% þeirra búast við aukningu, 42% að hún standi í stað og 3% að hún minnki. Enn betri horfur eru á erlendum mörkuðum þar sem 69% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn, 28% óbreyttri stöðu en 3% við samdrætti.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er ársfjórðungsleg og framkvæmd hennar í höndum Gallup. Annað hvort skipti er könnunin ítarleg með 20 spurningum en hin skiptin er hún minni með 9 spurningum. Að þessu sinni var minni könnunin gerð á tímabilinu 12. maí til 4. júní 2021.

Í úrtaki voru 430 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 214, þannig að svarhlutfall var 50%. Niðurstöður eru flokkaðar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort það starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Ryðjum heimatilbúnum hindrunum úr vegi: 21 áskorun og lausn

Ryðjum heimatilbúnum hindrunum úr vegi: 21 áskorun og lausn

Höldum áfram er yfirskrift átaksverkefnis Samtaka atvinnulífsins sem miðar að því að koma fólki og fyrirtækjum landsins í gegnum kreppuna. Á vefsíðunni holdumafram.is má finna 21 áskorun og lausn, viðtöl við atvinnurekendur úti í feltinu, fróðlega tölfræði upp úr könnunum sem samtökin hafa gert í gegnum heimsfaraldurinn og svokallaða velferðarreiknivél. Þar er sýnt fram á í tölum hvað starfsfólk og fyrirtæki þeirra leggja til samfélagsins í formi skattgreiðslna.

Í tengslum við átaksverkefnið sýna SA nú einnig þætti á Hringbraut sem fjalla um tækifæri eftir landsfjórðungum. Eins hafa forsvarsmenn SA lagt land undir fót og hitt félagsmenn hringinn í kringum landið á súpufundum síðustu vikur.

Hringrás atvinnulífs og samfélags mynda órjúfanlega heild. Við byggjum velferð okkar á því að allt gangi vel. Ef fyrirtækjum og starfsfólki gengur vel gengur okkur öllum betur.

21 áskorun og lausn

Forsenda almennrar velmegunar er blómlegt atvinnulíf. Skapa þarf umhverfi til þess að fyrirtækin geti vaxið og skapað aukin verðmæti. Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman 21 áskorun og lausn í sex efnisflokkum sem horfa til þessara þátta. Tillögurnar snúa að opinberum rekstri, skattastefnu, rekstrarumhverfi atvinnulífsins, sjálfbærri þróun, vinnumarkaðnum, menntamálum og heilbrigðismálum. Ryðjum heimatilbúnum hindrunum úr vegi.

Sjá lausnir

Sögur úr atvinnulífinu

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, segir að samhliða breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar ríði á að gera nauðsynlegar breytingar í heilbrigðisþjónustu. Í því muni nýsköpun og einkaframtakið gegna lykilhlutverki.

Lesa fleiri sögur úr atvinnulífinu

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin