Samtök Atvinnulífsins

Eyjólfur Árni Rafnsson endurkjörinn formaður SA

Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins fór fram 24.maí í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf.

Eyjólfur Árni Rafnsson var endurkjörinn formaður samtakanna í rafrænu kjöri í aðdraganda aðalfundar með ríflega 97% greiddra atkvæða. Á fundinum lýsti formaður kjörstjórnar SA, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, einnig kjöri til stjórnar samtakanna. Talsverð endurnýjun varð á fulltrúum í stjórninni sem samanstendur af 9 konum og 11 körlum sem er sama hlutfall og á fyrra starfsári. Stjórn og fulltrúaráð samtakanna hefur verið uppfært hér á vefnum.

Við sama tækifæri var birt ársskýrsla Samtaka atvinnulífsins sem aðgengileg er hér. Í skýrslunni má finna yfirlit yfir starfsemi samtakanna á árinu sem leið og nálgast ársreikning þeirra.

Hér fyrir neðan má nálgast ávarp formanns samtakanna, Eyjólfs Árna Rafnssonar, á aðalfundinum:

Verið hjartanlega velkomin til aðalfundar Samtaka atvinnulífsins sem nú er haldinn án þess að ríkjandi séu hamlandi samkomutakmarkanir eins og undanfarin tvö ár.

Áhrif Covid á atvinnulífið voru mis mikil eftir atvinnugreinum en verst varð ferðaþjónustan úti og aðrar tengdar þjónustugreinar. Það eru hinsvegar teikn á lofti um gott ferðasumar og vonandi að sem flest fyrirtæki sem verulega þurftu að draga úr þjónustu sinni nái sem fyrst vopnum sínum. Í öðrum atvinnugreinum hefur staðan verið betri en allir hafa þurft að takast á við bein og óbein áhrif faraldursins.

Heilt yfir getum við fullyrt að atvinnulífið stendur á styrkum stoðum og það mun áfram leggja grunn að góðum lífskjörum í landinu. Lífskjörum sem reyndar hafa aldrei verið eins góð og nú um stundir þrátt fyrir Covid kreppu og verðbólgu sem lætur aftur á sér kræla eftir áratuga hlé.

Ég geri þó ekki lítið úr þeim áskorunum sem framundan eru.

Í byrjun komandi vetrar rennur út gildistími Lífskjarasamningsins sem gerður var fyrir réttum þremur árum. Enginn sá þá fyrir efnahagskreppuna sem skall á ári síðar og hafði áhrif á atvinnulífið allt eins og ég nefndi áðan og þar með getu fjölmargra fyrirtækja til að standa undir umsömdum launahækkunum enda var samið um þær hækkanir undir allt öðrum forsendum en nú ríkja.

Síðastliðið haust áttum við undirbúningsviðræður við verkalýðsfélögin þar sem fram kom gagnkvæmur vilji til að vinna að því að nýr samningur yrði tilbúinn þegar Lífskjarasamningurinn rennur út. Það hefur þó ekki gengið eftir m.a. vegna stöðunnar innan verkalýðshreyfingarinnar en þar innanbúðar ríkir ekki sátt og samlyndi eins og þekkt er. Fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu er það ekki góð staða. Aðstæður fyrirtækjanna og ólíkra atvinnugreina eru afar misjafnar og tillit verður að taka til þess þegar viðræður hefjast um markmið og leiðir við komandi samningsgerð. Markmið um launaþróun verða að byggja á getu fyrirtækjanna til að standa undir þeim. Þó hagvaxtaraukinn sem samið var um í síðustu samningum hafi orðið til eftir mikinn samdrátt í landsframleiðslunni tel ég samt rétt að halda í þessa hugmynd og þróa hana áfram og þá með hliðsjón af fenginni reynslu. Þá þarf að liggja fyrir hvernig brugðist verði við ófyrirséðum áföllum sem hafa áhrif á rekstur og horfur fyrirtækjanna.

Við horfum nú fram á vaxandi verðbólgu ásamt hækkandi vöxtum sem bæði kemur illa við fyrirtækin og starfsfólk þess. Meginmarkmið kjarasamninganna hlýtur því að vera að endurheimta verðstöðugleika og að ná verðbólgumarkmiðum Seðlabankans en um leið að reyna eins og kostur er að varðveita þann kaupmátt sem hefur áunnist. Þar þurfa að spila saman peningamálastefnan, aðhald í ríkisfjármálum og rekstri sveitarfélaga og svo ekki síst skynsamleg niðurstaða í komandi kjarasamningum. Seðlabankinn getur ekki valdið þessu verkefni einn og óstuddur ef ekki eru traust bönd á rekstri ríkissjóðs og sveitarfélaga og ef aðilar vinnumarkaðarins ná ekki saman innan þess svigrúm sem við höfum. Það má heldur ekki gerast aftur að loknum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði að ríki og sveitarfélög semji um launahækkanir umfram það sem felst í þeim kjarasamningum. Almennir kjarasamningar sem ekki byggja á raunverulegri verðmætasköpun atvinnulífsins eru einungis til þess fallnir að auka verðbólgu og leiða til meira atvinnuleysis en ella.

Atvinnuleysi er nú minna en um langa hríð og í könnunum meðal stærstu fyrirtækja landsins kemur fram aukin þörf á nýju fólki til starfa. Þó eru teikn á lofti um að viðvarandi atvinnuleysi fari vaxandi þrátt fyrir verulega þörf ferðaþjónustunnar og margra annarra atvinnugreina fyrir fólk um þessar mundir. Aukið viðvarandi atvinnuleysi vinnur gegn þeirri staðreynd að eftir því sem þjóðin eldist þurfum við fleiri hendur til að standa undir aukinni verðmætasköpun og væntingum um að lífskjör haldi áfram að batna. Þar dugar náttúruleg fjölgun ekki til heldur þurfum við fólk erlendis frá. Mikil þörf er á sérfræðingum og öðrum sem drífa áfram nýsköpun og þróun í starfandi fyrirtækjum. Það er einnig viðvarandi þörf fyrir dugmikla einstaklinga sem eru óhræddir við að stofna til eigin atvinnurekstrar og skapa með því ný störf og verðmæti.

Allt hefur þetta svo bein áhrif á íbúðamarkaðinn þar sem fyrir er verulegur framboðsskortur og mikil uppsöfnuð þörf á húsnæði um allt land en ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er ljóst að uppbygging á þéttingareitum dugar ekki til, hér þarf að fara bil beggja og þróa einnig ytri svæði. Ánægjuleg eru áform um uppbyggingu á Blikastaðalandinu og Keldnalandinu sem nýlega voru kynnt. Fleiri slík svæði þurfa að koma til.

En það eru fleiri áskoranir sem atvinnulífið stendur frammi fyrir. Nýverið birtu stjórnvöld skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum meðal annars með hliðsjón af opinberum loftslagsmarkmiðum. Fram kemur að verulega þurfi að auka orkuframleiðslu og bæta nýtingu orkunnar til að markmiðunum verði náð og að efla þurfi flutningskerfi orkunnar til að bæta orkuöryggi og tryggja þannig að unnt verði að skipta sem mest út innfluttri orku úr jarðefnaeldsneyti fyrir sjálfbæra og græna íslenska orku. Hér er pólitísk kyrrstaða í málaflokknum undanfarinn áratug að bíta okkur í hælana.

Fyrirtækin hafa lagt mikið fram til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við starfsemi sína og jafna hana með framlögum til skógræktar, landgræðslu og endurheimt votlendis. Afar ánægjulegt er að fylgjast með þróun íslenskrar tækni til að geyma koldíoxíð í jarðlögum þar sem möguleikarnir virðast gríðarlegir. Tækniþróun og framfarir á ýmsum sviðum munu hjálpa til við að markmiðin náist en til þess að fyrirtækin geti beitt sér af fullum þunga verður að tryggja þeim samkeppnishæf rekstrarskilyrði á við það sem best gerist í nálægum löndum en þar stöndum við þeim enn talsvert að baki. Sérstök ástæða er til að minnast á fiskiskipaflotann þar sem mikil endurnýjun hefur átt sér stað undanfarin ár og um leið verið dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mikil þróun á sér einnig stað í flutningum á landi og tæknilausnir að koma fram um flugsamgöngur.

Góðir fundarmenn

Ég þakka öllum fyrirtækjum í Samtökum atvinnulífsins og forsvarsmönnum þeirra fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf á starfsárinu. Við höfum að undanförnu átt fundi með mörgum ykkar vítt og breitt um landið. Vinnufundir í haust og vor með fulltrúaráði SA tókust vel og við sem erum í forystunni munum leita til ykkar áfram, saman náum við árangri. Fátt veitir meiri ánægju í starfinu en að heimsækja fyrirtækin og kynnast þróttinum sem í þeim býr, metnaði fólksins sem hjá þeim starfar og eindregnum vilja til að sækja fram á öllum sviðum. En samhliða gleðinni yfir því sem vel gengur megum við búast við að komandi starfsár og gerð nýrra kjarasamninga reyni mjög á atvinnulífið og fyrirtækin. Samstaða okkar er því mikilvægari en nokkru sinni.

Samtök Atvinnulífsins

Verðbólguvindar snúast?

Verðbólguskotið sem Ísland stendur frammi fyrir skýrist að miklu leyti af hækkun íbúðaverðs. Ný mæling Þjóðskrár á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu bendir til þess að mikill viðsnúningur sé að eiga sér stað og heilt yfir virðast verðbólguvindar teknir að snúast til hagstæðari áttar.

Hraður viðsnúningur á íbúðamarkaði 

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4% í ágúst sem er mesta lækkun vísitölunnar frá því snemma árs 2019 eftir miklar hækkanir undanfarna mánuði (mynd 1). Vísitala íbúðaverðs er byggð á þriggja mánaða meðaltali vegins fermetraverðs og því eru áhrif síðustu vaxtahækkana og hertra lánaskilyrða Seðlabankans ekki komin fram nema að hluta til.

Enn fremur sýna rannsóknir að vaxtabreytingar geti tekið langan tíma að hafa áhrif, t.d. á íbúðamarkað, en miklar vaxtahækkanir eru að óbreyttu til þess fallnar að lækka íbúðaverð. Almennt skal varast að lesa of mikið í einstaka mælingar enda sveiflur töluverðar frá mánuði til mánaðar, en með þeim fyrirvara má túlka nýjustu mælinguna sem hraðan viðsnúning íbúðaverðs.

Ný mæling íbúðaverðs lækkar verðbólguspár 

Eðli máls samkvæmt er mikil fylgni á milli húsnæðisverðs í verðbólgumælingum (reiknaðrar húsaleigu) og vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu (mynd 2). Greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir 0,55-0,6% hækkun reiknaðrar húsaleigu í september en allar líkur eru á að það sé talsvert ofmat. Ef gert er ráð fyrir að breyting reiknaðrar húsaleigu í september fylgi vísitölu íbúðaverðs má gera ráð fyrir að verðbólguspár Landsbankans og Íslandsbanka í september lækki úr 9,6% í 9,4%. Verðbólga er nú 9,7% og var 9,9% í júlí svo um væri að ræða mikla hjöðnun verðbólgu á skömmum tíma.

Stærstu liðirnir snúa við 

Um þrjá fjórðu verðbólgunnar nú má rekja til reiknaðrar húsaleigu, matarkörfunnar, flugfargjalda og eldsneytis (mynd 3).

 • Sem fyrr segir lítur út fyrir að hægja muni mjög á takti reiknaðrar húsaleigu 
 • Matvælaverð á heimsmarkaði hefur lækkað undanfarnar vikur sem mun hjálpa verðbólgunni hér á landi
 • Flugfargjöld hafa hækkað mikið eftir að fólk fór að ferðast á ný en leiða má líkur að því að það verði einskiptisáhrif þegar fluggeirinn nær jafnvægi 
 • Eldsneytisverð hefur undanfarið lækkað á heimsmarkaði og hér heima hefur bensín- og díselverð lækkað síðustu vikur

Heilt yfir má því segja að verðbólguhorfurnar hafi að mörgu leyti batnað á síðustu vikum. Eftir stendur þó að verðbólga er enn langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, einnig hvað varðar alla aðra liði en taldir voru upp hér að framan, sem hafa hækkað um 4% sl. 12 mánuði.

Tækifæri til að ná verðbólgunni í markmið 

Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér en jákvæð þróun síðustu vikna sýnir að aðilar vinnumarkaðsins, stjórnvöld og Seðlabankinn eru í góðri stöðu til að vinna bug á verðbólgunni hratt og örugglega. Það gerist ekki sjálfkrafa og án þess að allir rói í sömu átt. Takist það ekki er hætt við að tækifærið glatist og verðbólgan verði viðvarandi um ókomin ár líkt og sagan sýnir. Á því tapa allir.

1 Reiknuð húsaleiga eru samsett úr fasteignaverði fyrir landið allt og verðtryggðum vöxtum. Fasteignamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er langtum sá stærsti og því mikil fylgni milli vísitölu íbúðaverðs og reiknaðrar húsaleigu. Frávik síðustu mánuði skýrast töluvert af þróun verðtryggðra vaxta sem lækkuðu í vor svo að reiknuð húsaleiga hækkaði minna en vísitala íbúðaverðs. Aftur á móti hafa verðtryggðir vextir síðan farið lækkandi sem ætti að óbreyttu að þýða meiri hækkun reiknaðrar húsaleigu en sem nemur hækkun vísitölu íbúðaverðs.

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Framleiðni – miðjubarnið sem gleymist

Senn líður að endurnýjun kjarasamninga og samhliða því er líklegt að umræða um kaup og kjör landsmanna verði framarlega í fréttatímunum næstu mánuði. Mikil áhugi landsmanna á kjarasamningum er bæði ánægjulegur og skiljanlegur, enda fer nú í hönd tímabil sem mun miklu ráða um lífskjör fólks næstu árin.

Nú þegar má lesa beint, og á milli línanna, kröfur um að laun skuli hækka mikið, óháð efnahagslegu samhengi. En þegar upp er staðið er það aftur á móti framleiðni sem langmestu ræður um kjör fólks – hversu mikið verður til ræður eðlilega því hversu mikið er til skiptanna. Á þetta virðist aldrei nógu oft bent því staðreyndin er sú að í umræðu um kjaramál er framleiðni miðjubarnið sem oft gleymist.

Samsetning launanna okkar

Síðustu áratugi hafa lífskjör Íslendinga batnað til muna. Vitnisburður þess er víða en þó ekki í þeirri staðreynd að launakostnaður á vinnustund, sem er að megninu launin á launaseðlinum, hefur hækkað um 543% á 30 árum eða ríflega sexfaldast. Því miður hefur verðlag næstum fjórfaldast á sama tíma, þrátt fyrir að verðbólga síðustu 30 ár hafi verið mun minni en 30 árin þar á undan sem er önnur saga. Það sem skiptir máli fyrir lífskjörin er að framleiðni jókst „einungis“ um 1,8% árlega og 69% samtals á tímabilinu. Auk þess breyttist hlutur launa í verðmætasköpuninni fremur lítið – enda stærð sem er almennt frekar stöðug og raunar há í sögulegu samhengi um þessar mundir. Raunlaun, eða kaupmáttur, jókst litlu meira en framleiðni sem endurspeglar hækkun launahlutfallsins.

Þetta er í raun sáraeinfalt. Launahækkanir skila auknum kaupmætti launa í samspili verðlags, framleiðni og launahlutfalls. Eins og sést hafa verðlag og framleiðni haft mikil áhrif en launahlutfallið lítil sem engin til lengri tíma. Einhver fjárhæð á launaseðli segir í sjálfu sér ekkert – hvað fjárhæðin gerir okkur kleift að gera segir aftur á móti allt. Ef þetta orsakasamband milli framleiðni og kaupmáttar myndi ekki halda væri leikur einn að gera alla Íslendinga að 367.000 launahæstu einstaklingum heims.

Hátt launahlutfall og skýrt samband við verðlag

Eðlilega vekur framangreint upp spurningar um hvort launahlutfallið, þ.e. hver hlutur launafólks er í verðmætasköpuninni, geti ekki einfaldlega hækkað myndarlega til þess að bæta kjör. Til að svara því má í fyrsta lagi benda á að þetta hlutfall var ríflega 60% árið 2021 og yfir sögulegu meðaltali. Í einu skiptin sem hlutfallið hefur verið verulega hærra, hæst tæp 67% 2006 og 2007, hefur það verið á tímum ójafnvægis í þjóðarbúskapnum og í aðdraganda niðursveiflu. Í öðru lagi má benda á að þetta hlutfall er hærra en í nokkru öðru OECD ríki, en í þeim hópi ríkja eru okkar helstu viðskiptalönd sem íslensk fyrirtæki keppa hart við um bæði starfsfólk og viðskiptavini (mynd 2).

Það virðast líka oft vakna efasemdir um að launahækkanir kyndi undir verðbólgu. Nóg ætti að vera að rifja upp að heildarlaunakostnaður í hagkerfinu jókst að meðaltali um 40% árlega á verðbólguárunum 1973-1991. Ef það er ekki nóg er nærtækt að skoða samhengi launakostnaðar og verðlags í nokkrum samanburðaríkjum yfir lengri tímabil. Þar er niðurstaðan skýr – þau ríki þar sem laun hækka mikið umfram framleiðni búa við meiri verðbólgu. Orsakasambandið virðist ekki alltaf augljóst á yfirborðinu og áhrifin geta tekið nokkurn tíma að birtast, en niðurstaðan er óumflýjanleg eins og hér hefur verið rakið.

Framleiðni ræður ferðinni

Þessi skýra niðurstaða hefur ekkert breyst síðustu áratugi. Raunverulegar kjarabætur verða ekki nema fyrir tilstilli vaxandi framleiðni þar sem hæfni starfsfólks og fjárfestingar fyrirtækja koma saman í að skapa nýjungar eða gera það gamla betur og með ódýrari hætti.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa því sameiginlegan hag af því að horfa til lengri tíma og vinna saman að því hvernig auka megi framleiðni. Það er forsenda styttri vinnuviku, auk betri nýtingar auðlinda og fjármagns. Til dæmis er hægt að auka sveigjanleika í vinnutíma, auka vægi dagvinnu og skapa þannig hvata til aukinnar framleiðni. Aukin framleiðni í ferli íbúðabygginga (minni skriffinnska) er líka forsenda þess að vinna á íbúðaskorti á næstu árum. Fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfi fyrirtækja ýtir líka undir framleiðni þar sem þá gefst tími og svigrúm til þess að þjálfa starfsfólk og fjárfesta í nýjum búnaði. Fyrirsjáanleiki í launa- og verðlagsþróun getur í því samhengi haft mikil áhrif og þar skipta farsælir og samstilltir kjarasamningar sköpum. Áfram mætti lengi, lengi telja.

Það á ekki að gera upp á milli barnanna sinna, og sjálfur geri ég það ekki. Við Íslendingar ættum þó að gera upp á milli þeirra þátta sem launin okkar skiptast í og hampa framleiðninni sem stendur systkinum sínum, launahlutfalli og verðlagi, miklu framar. Í amstri dagsins er mjög auðvelt að gleyma því að framleiðni ræður ferðinni, en ef við viljum að kjör barnanna okkar verði betri en okkar höfum við ekki val um annað en að bæta framleiðni – í víðu samhengi.

Greinin birtist fyrst í Vísbendingu 16. september 2022

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins: frestur rennur út 8. september

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 8. september. Verðlaunin eru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 5. október í Hörpu.

Tekið er við tilnefningum með tölvupósti á [email protected] merktum „Tilnefning til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins“. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.

Dómnefnd velur úr tilnefningum* og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

Umhverfisfyrirtæki ársins

 • Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
 • Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
 • Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
 • Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
 • Innra umhverfi er öruggt
 • Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
 • Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið

Framtak ársins

 • Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
 • Hefur komið fram með nýjung – vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif

*Einungis er hægt að tilnefna skráða félagsmenn Samtaka atvinnulífsins til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Dagskrá verður birt er nær dregur.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin