Frá farsóttanefnd Landspítala:

Frá og með 15.september 2020 gefst einstaklingum sem settir eru í sóttkví vegna nándar við smitaðan einstakling (þekkt útsetning) kostur á að stytta sóttkví úr 14 dögum í sjö með ákveðnum skilyrðum. Þetta á ekki við um þá sem eru í sóttkví á sama heimili og sýktur einstaklingur með COVID-19 og ekki um þá sem eru í einangrun með staðfesta COVID-19 sýkingu.

Þessi sýnataka er aðeins samvkæmt boðun yfirvalda og er framkvæmd af heilsugæslunni.
Nánar um það hér.

Starfsmenn Landspítala sem skipað er í sóttkví af rakningarteymi og fá boð um sýnatöku á sjöunda degi losna úr sóttkví í samfélaginu þegar neikvætt svar hefur borist í Heilsuveru eða sem SMS skilaboð. Eftir það er best ef starfsmaður getur unnið heima þar til samtals 14 dagar eru liðnir frá útsetningu. Ef það er ekki mögulegt þá getur yfirmaður sótt um vinnusóttkví C til farsóttanefndar og gildir hún þar til 14 dagar eru liðnir frá útsetningu.

Sjúklingar sem fá þjónustu á Landspítala og eru í sóttkví hvort sem það er vegna ferðar erlendis eða útsetningar og eru lausir úr sóttkví í samfélaginu eru alltaf í 14 daga sóttkví á spítalanum burtséð frá neikvæðum sýnum.

Gestir sem hafa verið á ferðalagi erlendis undanfarna 14 daga eru beðnir um að koma ekki á spítalann fyrr en 14 dagar eru liðnir frá upphafi sóttkvíar nema tvö neikvæð landamærasýni, með 5 daga millibili, liggi fyrir. Gestir sem eru lausir úr sóttkví eftir sjö daga með neikvæðu sýni geta einnig komið. Allir gestir eiga að nota grímu inni á spítalanum og hreinsa hendur við komu og brottför af spítalanum.

Vinnusóttkví B-2: Þeir sem koma til landsins og hafa skilað einu neikvæðu sýni á landamærum geta komið til starfa með sérstökum skilyrðum.

Vinnusóttkví C:

A. Þeir sem koma til landsins og hafa skilað tveimur neikvæðum sýnum og verið í heimasóttkví á milli geta komið til starfa með sérstökum skilyrðum
B. Þeir sem lokið hafa sjö daga sóttkví og fengið svar um neikvætt sýni geta komið til starfa með sérstökum skilyrðum.

Að gefnu tilefni vill farsóttanefnd árétta mikilvægi þess að starfsmenn noti grímur skv. leiðbeiningum. Rétt grímunotkun getur komið í veg fyrir að starfsmenn lendi í sóttkví vegna nándar við smitaðan einstakling.