Félag atvinnurekenda

Fimm af stærstu sveitarfélögunum lækka hlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði

4. desember 2021

Fimm af tólf stærstu sveitarfélögum landsins munu lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði á næsta ári, samkvæmt frumvörpum til fjárhagsáætlana, sem eru nú alls staðar komin fram, eða samþykktri áætlun. Víðast hvar hækka þó tekjur sveitarfélaganna af atvinnueignum drjúgt umfram verðbólgu. Tvö sveitarfélög lækka álagningarprósentu á íbúðarhúsnæði en sjá ekki ástæðu til að gera það fyrir atvinnuhúsnæði. Sérstaða Reykjavíkurborgar meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eykst ef eitthvað er, en borgin innheimtir umtalsvert hærra hlutfall af fasteignamati atvinnuhúsnæðis í fasteignaskatt en nágrannasveitarfélögin. Þetta er á meðal niðurstaðna úttektar Félags atvinnurekenda á fjárhagsáætlunum stærstu sveitarfélaganna, sem sjá má í töflunni hér að neðan (smellið til að stækka töfluna).

Sjá má að Kópavogur, Garðabær, Mosfellsbær, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði til að mæta verulegum hækkunum á fasteignamati fyrir árið 2022. Mest er lækkunin í Vestmannaeyjum, eða 0,1 prósentustig, sem veldur því að Vestmannaeyjar eru eina sveitarfélagið sem lækkar tekjur sínar af atvinnueignum milli ára.

Þrátt fyrir lækkanir hjá sumum sveitarstjórnum má sjá að mörg sveitarfélög auka tekjur sínar af atvinnuhúsnæði drjúgt umfram verðbólgu (sem er 4,7% undanfarna sex mánuði). Mest er þó hækkunin hjá sveitarfélögum sem ekki hreyfa skattprósentuna; tæp 11% í Árborg, 8,7% á Akranesi og 8% í Fjarðabyggð og á Seltjarnarnesi. Síðastnefnda sveitarfélagið nýtur þó þeirrar sérstöðu að hafa um árabil haft langlægsta fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði meðal fjölmennari sveitarfélaga.

Sérstaða Reykjavíkurborgar fer vaxandi
Ef horft er til höfuðborgarsvæðisins sérstaklega, vex sérstaða Reykjavíkurborgar meðal sveitarfélaga þar, en borgin innheimtir umtalsvert hærra hlutfall fasteignamats í fasteignaskatt en nágrannasveitarfélögin, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Allt þar til í ár innheimti Reykjavík hæsta lögleyfða skatthlutfallið, eða 1,65%.

Þokast í rétta átt
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að það séu vissulega vonbrigði að fleiri sveitarfélög hafi ekki lækkað álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði. Það eigi ekki síst við um Reykjavíkurborg, sem leggi skatt á meirihluta verðmætis atvinnuhúsnæðis í landinu. „Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum, með hækkandi fasteignamati, fengið gífurlegar fjárhæðir í formi hærri skatta á atvinnuhúsnæði. Á árunum 2015-2020 hækkuðu skattgreiðslur fyrirtækjanna í landinu til sveitarfélaga vegna fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði um 68%, eða 11,5 milljarða. Nú þegar atvinnulífið er að reyna að ná sér á strik eftir eina dýpstu kreppu síðustu ára er alveg fráleitt að skattbyrði fyrirtækjanna þyngist enn. Einkum og sér í lagi í ferðaþjónustu eru mörg dæmi um að atvinnurekendur hafi litlar eða einfaldlega engar tekjur af fasteignum sínum, en þeim er samt gert að borga af þeim síhækkandi skatt,“ segir Ólafur.

Hann bendir þó á að víða þokist í rétta átt. „FA hóf baráttu fyrir lækkun fasteignaskatta á fyrirtæki árið 2016, enda var skattbyrði fyrirtækja þá byrjuð að þyngjast verulega vegna hækkana á fasteigamarkaði. Félagið hefur sent sveitarfélögum ítrekuð erindi og áskoranir, síðast í júní, og hvatt þau til að mæta hækkunum fasteignamats með því að lækka álagningarprósentu. Þegar við hófum þessa vegferð innheimtu flest sveitarfélög lögleyfðan hámarksskatt, 1,65%, en síðan hafa tíu af tólf stærstu sveitarfélögunum lækkað álagningarhlutfallið.“

Eins og sjá má í töflunni hér til hliðar er Fjarðabyggð það eina af stærri sveitarfélögunum sem enn innheimtir hæsta leyfilegan skatt. Á Seltjarnarnesi hefur skattprósentan ekki breyst, en hún var og er sú langlægsta hjá stærri sveitarfélögum. Mesta hlutfallslega lækkunin frá 2016 er í Hafnarfirði og á Akranesi, en hvorugt sveitarfélagið lækkar þó skattinn fyrir árið 2022.

Þyngri skattbyrði dregur úr getu til að standa undir launum
Í áskorun, sem FA sendi sveitarfélögunum í júní, segir að áframhaldandi þynging á skattbyrði fyrirtækjanna vegna húsnæðis dragi mátt úr atvinnulífinu, seinki efnahagsbatanum eftir heimsfaraldurinn og skerði getu fyrirtækjanna til að standa undir launagreiðslum sem um var samið í lífskjarasamningunum og eru grundvöllur útsvarstekna sveitarfélaganna.

„Stjórn FA telur að hér verði hvert og eitt sveitarfélag að sýna ábyrgð og gera breytingar á sinni álagningarprósentu þannig að hækkanir á fasteignasköttum skaði ekki atvinnulífið í landinu meira en orðið er. FA skorar jafnframt á sveitarfélögin að taka upp viðræður hið fyrsta við ríkisvaldið um breytingar á þessu fráleita kerfi þar sem skattgreiðslur af húsnæði eru beintengdar við þróun fasteignamats og taka þannig sjálfkrafa hækkunum, án nokkurs tillits til gengis atvinnulífsins að öðru leyti,“ sagði í áskorun stjórnar FA.

Fasteignaskattar 2022 – talnaefni í excel

Félag atvinnurekenda

FA hvetur til umræðu um fleiri kosti til að halda faraldrinum í skefjum

18. janúar 2022

Félag atvinnurekenda hefur sent Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra erindi þar sem settar eru fram sex spurningar til ráðherra um hvaða valkostir hafi verið til skoðunar áður en tekin var ákvörðun um að herða sóttvarnaaðgerðir stórlega í lok síðustu viku. FA hvetur til þess að fram fari opinská umræða um fleiri valkosti en þá sem stillt var upp í minnisblaði sóttvarnalæknis og telur ekki vænlegt að útiloka aðgerðir sem gripið hefur verið til í nágrannalöndum okkar, svo sem að gera bólusetningu að skyldu eða gera bólusetningarvottorð að skilyrði fyrir aðgangi að ýmsum opinberum stöðum og þjónustu.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis, sem lá ákvörðun stjórnvalda um hertar aðgerðir til grundvallar, voru settir fram þrír valkostir; um óbreytt ástand, herðingu á þeim nótum sem síðan var ákveðin eða mjög harðar takmarkanir og lokanir í skamman tíma. Markmið sóttvarnalæknis er að koma í veg fyrir of mikið álag á heilbrigðiskerfið með mögulegu neyðarástandi.

Sex spurningar
Í erindi FA, sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri undirritar, segir: „Félag atvinnurekenda telur ástæðu til að spyrja hvort fleiri valkostir hefðu átt að koma til skoðunar er ráðherra tók ákvörðun um hertar sóttvarnaaðgerðir, m.a. ýmsar aðgerðir sem gripið hefur verið til í öðrum Vestur-Evrópulöndum. Félagið beinir því eftirfarandi spurningum til ráðherra:

  1. Var lagt mat á kostnað atvinnulífsins og eftir atvikum ríkissjóðs af þeim sóttvarnaaðgerðum sem ákveðið var að ráðast í? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  2. Ýmis vestræn ríki hafa gengið mun lengra í viðbúnaði heilbrigðiskerfisins við faraldrinum en hér hefur verið gert, m.a. með mikilli fjölgun gjörgæzlurýma. Var sá kostur tekinn til skoðunar að ráðast í mun stærra átak til að efla Landspítalann og aðrar heilbrigðisstofnanir en lýst er í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 14. janúar síðastliðnum? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  3. Var kostnaður af slíku átaki borinn saman við þann kostnað, sem atvinnulífið og ríkissjóður bera af hertum sóttvarnaráðstöfunum? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  4. Ítrekað hefur komið fram að óbólusettir einstaklingar valdi hlutfallslega miklu stærri hluta af álagi á heilbrigðiskerfið vegna kórónuveirusmita en bólusettir. Var lagt mat á þann kost að fara t.d. svipaða leið og gert hefur verið í Austurríki; að heimila óbólusettum eingöngu að yfirgefa heimili sitt til að sækja vinnu og kaupa inn nauðsynjar? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  5. Var lagt mat á þann kost að gera bólusetningu að skyldu nema læknisfræðilegar ástæður mæli á móti því, t.d. fyrir einstaklinga sem náð hafa tilteknum aldri, sbr. lagasetningu um slíkar aðgerðir í t.d. Austurríki og á Ítalíu? Ef ekki, hvers vegna ekki?
  6. Var lagt mat á þann valkost að gera framvísun bólusetningarvottorðs að skilyrði fyrir inngöngu í t.d. skóla, veitingastaði og menningarstofnanir, almenningssamgöngur og til að nota þjónustu þar sem veitt er þjónusta sem krefst nándar við viðskiptavini, líkt og gert hefur verið í Danmörku? Ef ekki, hvers vegna ekki?“

Félagið segir mikilvægt að stjórnvöld horfi til allra þeirra valkosta í baráttunni við faraldurinn sem dregið geti eins og hægt er úr líkum á því að neyðarástand skapist í heilbrigðiskerfinu, um leið og leitast sé við að lágmarka hinn efnahagslega skaða af sóttvarnaraðigerðum og halda atvinnulífinu gangandi eins og framast sé kostur.

Aðgerðir beinist fremur að smærri hópum
„Að mati FA hlýtur að koma til skoðunar að beita aðgerðum sem snerta fremur smærri hópa en allan þorra almennings og fyrirtækja, að því gefnu að þær geti skilað sama eða betri árangri í glímunni við faraldurinn,“ segir í erindi FA „Þegar takmarkandi ráðstöfunum er beitt til að ná lögmætu markmiði er það í samræmi við skilyrði meðalhófsreglu að beita slíkum ráðstöfunum aðeins að því marki sem þær mæta þeim markmiðum sem að er stefnt. Sé það t.a.m. svo að verið sé að vinna gegn innlögnum tiltekins hóps einstaklinga er það andstætt sjónarmiðum meðalhófsreglunnar að beina takmarkandi ráðstöfunum að hinum breiða fjölda, en ekki fyrst og fremst einstaklingum sem falla innan þess hóps. Eftir því sem sóttvarnaaðgerðir verða meira íþyngjandi fyrir einstaklinga og atvinnulíf verður að gera strangari kröfu um gagnsemi þeirra og að þær nái því markmiði sem stefnt er að. Þannig verður að gera þá skilyrðislausu kröfu að beint orsakasamband sé á milli þeirra aðgerða sem gripið er til og þess markmiðs sem stefnt er að. Stjórnvöld hljóta ævinlega að taka þann kost sem nær markmiðinu án ónauðsynlegs kostnaðar fyrir samfélagið í heild.“

Erindi FA til heilbrigðisráðherra

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Bann við blóðmerahaldi utan marka meðalhófs

17. janúar 2022

Félag atvinnurekenda telur að bann við blóðmerahaldi, sem viðbrögð við myndböndum sem sýna brot á dýravelferð, væri utan marka alls meðalhófs. Félagið leggst því eindregið gegn samþykkt frumvarps Ingu Sæland og fleiri þingmanna, þar sem lagt er til að banna töku blóðs úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vörur til sölu.

Í umsögn FA til atvinnuveganefndar Alþingis er farið yfir þann ramma regluverks og eftirlits sem er í gildi varðandi blóðtöku úr hryssum og er mun strangari en varðandi flesta aðra hagnýtingu dýra í landbúnaði. Jafnframt er fjallað um viðbrögð Ísteka ehf., sem vinnur lyfjaefni úr hrossablóði, við brotum sem sýnd voru á myndskeiðum í heimildarmynd dýraverndunarsamtakanna AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich). Fyrirtækið hefur m.a. sagt upp samningum við hrossabændur sem uppvísir urðu að brotum og sett af stað viðamikla umbótaáætlun til að bæta fræðslu meðal hrossabænda og eftirlit með starfseminni. Þá er vikið að rannsókn Matvælastofnunar á málinu og vinnu starfshóps, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur sett á fót til að fjalla um blóðtöku úr fylfullum hryssum, regluverk og eftirlit í kringum starfsemina.

Dýravelferð og hagnýting vel samræmanleg
FA ítrekar í umsögninni þá afstöðu sína að mikilvægt er að hugað sé vel að dýravelferð í öllum landbúnaði. „Hagnýting afurða lifandi dýra er vel samræmanleg dýravelferð ef rétt er á haldið. Skýrar reglur og skilvirkt eftirlit eru að sjálfsögðu lykilatriði í slíkri starfsemi. Það væri hins vegar jafnfráleitt að ætla að banna blóðmerahald eins og það leggur sig vegna þeirra tveggja tilvika, sem sýnd eru í áðurnefndri heimildarmynd, og að ætla að banna kúa- eða sauðfjárbúskap, eggjabúskap eða svínarækt, vegna afmarkaðra tilvika á einstökum bæjum, þar sem farið er illa með skepnur. Eftirlit kemur ekki í veg fyrir slík tilvik, en hindrar hins vegar að þau séu látin óátalin eða endurtaki sig án afleiðinga,“ segir í umsögn FA.

Atvinnuréttindi stjórnarskrárvarin
Í umsögninni segir ennfremur: „Það er því óbreytt mat FA að næði frumvarpið fram að ganga væri verið að ganga af mikilvægri búgrein dauðri og hindra arðbæra útflutningsstarfsemi, sem skilar verulegum verðmætum til þjóðarbúsins. Slík framganga löggjafans væri langt utan marka alls meðalhófs, enda atvinnuréttindi manna stjórnarskrárvarin. Fráleitt væri að Alþingi samþykkti frumvarpið áður en fyrir liggur hvaða tillögur áðurnefndur starfshópur ráðherra kann að gera um breytingar á regluverki um og eftirliti með blóðtöku úr hryssum. FA leggst því eindregið gegn samþykkt frumvarpsins.“

Umsögn FA um frumvarpið

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Niðurgreidd samkeppni í skjóli brots á þrískiptingu ríkisvaldsins

14. janúar 2022

Félag atvinnurekenda hefur sent umboðsmanni Alþingis beiðni um að embættið hefji frumkvæðisrannsókn á stjórnsýslu eftirlitsstofnana vegna pakkagjaldskrár Íslandspósts, sem var í gildi frá ársbyrjun 2020 til 1. nóvember síðastliðins. Að mati félagsins var gjaldskráin ólögmæt, enda gekk hún gegn skýru ákvæði póstlaganna um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli miða við raunkostnað við að veita þjónustu, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Gjaldskrá Póstins var hins vegar gróflega undirverðlögð.

Póst- og fjarskiptastofnun úrskurðaði fyrirtækinu á annað hundrað milljóna króna í styrk frá skattgreiðendum vegna undirverðlagningarinnar og lýsti því að sögn yfir við samgönguráðuneytið að lagaákvæðið um raunkostnað væri ekki að fullu virkt. Byggðastofnun, sem tók við eftirliti með póstmálum í nóvember síðastliðnum, tekur undir þessa túlkun PFS. Að mati FA eru stjórnsýslustofnanir ekki þess umkomnar að lýsa lög óvirk og grafa yfirlýsingar sem þessar með ósvífnum hætti undan grundvallarreglu stjórnskipunarréttarins um þrískiptingu ríkisvaldsins.

Undirverðlagning gróf undan rekstri keppinauta
Hin undirverðlagða gjaldskrá Póstsins gróf undan samkeppnisstöðu póst- og vörudreifingarfyrirtækja, sem rekin eru víða um land. Hún var tekin upp eftir að Alþingi bætti í póstlögin ákvæði um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skyldi vera sú sama um allt land. Pósturinn lækkaði þá verð fyrir pakkadreifingu á öllum svæðum niður í það verð sem gilti fyrir sendingar innan höfuðborgarsvæðisins. Í því felst skýr undirverðlagning. FA hefur áður kvartað undan stjórnsýslu Póst- og fjarskiptastofnunar, sem úrskurðaði ríkisfyrirtækinu hálfan milljarð af fé skattgreiðenda vegna ársins 2020, þar af 126 milljónir vegna hinnar ólögmætu gjaldskrár, og nefndi í ákvörðun sinni aldrei ákvæðið um raunkostnað.

Ráðuneytið vísar á PFS…
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lýsti því yfir í skriflegu svari, sem birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2021, að ráðuneytið teldi áðurnefnt lagaákvæði um að gjaldskrár taki mið af raunkostnaði „ekki að öllu leyti virkt“. FA gerði í erindi til ráðuneytisins athugasemdir við þessa afstöðu og benti á að það væri ekki á valdi ráðuneytisins að úrskurða lög virk eða óvirk. Í svarbréfi, sem FA barst í lok mars, sagði: „Þegar ráðuneytinu barst fyrirspurn frá Morgunblaðinu á dögunum, óskaði ráðuneytið eftir efnivið frá stofnuninni [PFS] til að geta svarað spurningum blaðsins. Ef svar ráðuneytisins til Morgunblaðsins er lesið í heild og samhengi kemur í ljós að ekki er um að ræða afstöðu ráðuneytisins til þess hvort 3. mgr. sé að öllu leyti virkt.“ Ráðuneytið gaf þannig til kynna að það væri afstaða PFS að lagaákvæðið væri óvirkt.

… og Byggðastofnun vísar á ráðuneytið
Í desember síðastliðnum birtist svo frétt í Morgunblaðinu þar sem haft var eftir Hjalta Árnasyni, yfirlögfræðingi Byggðastofnunar, að stofnunin hefði í undirbúningi að úrskurða Íslandspósti sambærilegt framlag úr sjóðum skattgreiðenda fyrir árið 2021 og fyrirtækið fékk 2020. Hjalti sagði að Byggðastofnun tæki undir túlkun PFS og ráðuneytisins varðandi óvirkni lagaákvæðisins um raunkostnað: „Þessu ákvæði [um sama verð um allt land] var breytt með lögum nr. 76/2021 en varð þess valdandi á meðan það var í gildi að ákvæði 3. mgr. sömu greinar var ekki fyllilega virkt eins og kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn ykkar [á Morgunblaðinu] í mars á þessu ári […] Byggðastofnun og Póst- og fjarskiptastofnun taka undir þetta sjónarmið ráðuneytisins,“ segir Hjalti.

Engin mótsögn í lögunum
FA bendir í erindi sínu til umboðsmanns á að engin mótsögn sé á milli ákvæðisins um sama verð um allt land og ákvæðisins um að gjaldskrár taki mið af raunkostnaði, sem geti valdið því að síðarnefna ákvæðið sé ekki virkt. „Í þessu sambandi er vert að taka fram að ákvæði þágildandi 2. og 3. mgr. 17. póstlaga eru ekki ósamræmanleg. Gjaldskrá fyrir bréfapóst innan alþjónustu er til að mynda sú sama um allt land og Íslandspóstur hefur ekki séð vandkvæði á að miða hana við raunkostnað,“ segir í erindi FA.

„Stjórnvöldum er ekki heimilt að ákveða upp á sitt einsdæmi að gildandi lagaákvæði sé óvirkt,“ segir í niðurlagi erindis FA til umboðsmanns. „Opinberar yfirlýsingar stjórnvalda um að þau telji lög óvirk grafa með ósvífnum hætti undan grundvallarreglu stjórnskipunarréttarins um þrískiptingu ríkisvaldsins. Ákvarðanir, byggðar á slíkum rangtúlkunum, brjóta gegn formreglu lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem felur í sér að ákvarðanir stjórnvalda megi ekki vera í bága við lög.“

FA gætir hagsmuna fyrirtækja sem eru í beinni samkeppni við Íslandspóst og hefur umkvörtunarefnið því mikil áhrif á hagsmuni þeirra. Félagið fer því þess á leit við umboðsmann að hefja frumkvæðisathugun á framangreindri ákvörðun PFS nr. 1/2021 sem og yfirlýsingum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Byggðastofnunar.

Erindi FA til umboðsmanns

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin