Samtök Atvinnulífsins

Flokkarnir hafa talað – fyrsti hluti

Flokkarnir hafa talað – fyrsti hluti

Efnahagsmál, vinnumarkaðurinn og atvinnulífið  

SA hafa birt áherslur sínar undir yfirskriftinni Höldum áfram þar sem farið er yfir áskoranir og lausnir í íslensku samfélagi. Skoðað var hversu vel áherslur stjórnmálaflokkanna fara saman við áherslur atvinnulífsins í helstu málaflokkum. Til skoðunar voru stefnur þeirra stjórnmálaflokka sem mælast með meira en 1% fylgi í nýlegum skoðanakönnunum. Þetta eru Flokkur fólksins, Framsóknarflokkur, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn og Vinstri græn. Stuðst var við efni sem var aðgengilegt á heimasíðum stjórnmálaflokkanna. Hér verða tekin fyrir efnahagsmál, vinnumarkaður og atvinnulíf. 

Efnahagsmál – Skattar 

Gagnsæ og hófleg skattastefna er lykilþáttur í átt að markmiði um eftirsóknarvert rekstrarumhverfi. Nær hvergi meðal OECD ríkja eru skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu meiri en hér. Að auki er Ísland með skattkerfi sem stenst illa alþjóðlega samkeppni að mati óháðra aðila. Áherslur atvinnulífsins í efnahagsmálum miða meðal annars að því að lækka skatta og einfalda skattkerfið. 

Hvar standa stjórnmálaflokkar í þessum efnum? Tillögum til skattkerfisbreytinga fylgir sjaldnast tölulegt mat á áhrifum á ríkissjóð og því hægara sagt en gert að meta efnahagsleg áhrif af tillögum flokkanna til skattabreytinga. Samtök atvinnulífsins brugðu á það ráð að telja fjölda tillagna flokkanna til skattabreytinga og meta hvort þær leiddu til hærri eða lægri skatta og hvort breytingarnar væru til þess fallnar að flækja eða einfalda skattkerfið.  

Alls voru 28 tillögur til skattalækkana og 25 tillögur til skattahækkana. Sumir flokkar leggja meiri áherslu á skattahækkanir á meðan aðrir hneigjast fremur að skattalækkunum. Talningin segir aðeins lítinn hluta sögunnar um áhrif þessara tillagna á ríkissjóð, efnahagslífið og þar af leiðandi lífskjör almennings.  

Fæstar af þeim skattahugmyndum sem má finna hjá flokkunum eru nýjar af nálinni, þó einhverjar séu allt að því frumlegar og aðrar fengnar að láni úr löngu liðinni fortíð.  

Þegar kemur að skattahækkunum hafa meðal annars verið bornar fram tillögur um; að hækka skatta á sjávarútveg, endurvekja bankaskattinn, nýjan auðlegðarskatt, hækka skatta á stór og/eða mengandi fyrirtæki, skattleggja sjálfvirknivæðingu, skattleggja sérstaklega húsnæði án fastrar búsetu, skattleggja þjónustugreiðslur til lágskattasvæða og hækkun hátekjuskatts. 

Tillögur til skattalækkana felast einkum í; hækkun skattleysismarka, hækkun persónuafsláttar, lækkun skatta á lægri laun, lækkun skatta á minni fyrirtæki og sprota, lækkun tryggingagjalds, ívilnunum vegna grænna fjárfestinga og lækkun virðisaukaskatts á nauðsynjavörur.  

Þá hafa verið viðraðar hugmyndir um þrepaskipt tryggingagjald eftir stærð fyrirtækja eða ólíkt tryggingagjald eftir byggðarlögum. 

Mikilvægt er að skattabreytingar sem ráðist er í séu vel ígrundaðar, skekki ekki hvata og séu til þess fallnar að hvetja til atvinnusköpunar og bættra lífskjara almennings. Ítarlegri tillögur SA um efnahagsmál má lesa hér

Vinnumarkaðurinn – nýtt kjarasamningslíkan 

Á íslenskum vinnumarkaði er samningagerð mun óskilvirkari en á hinum Norðurlöndunum og er að auki til þess fallin að valda höfrungahlaupi launa og verðbólgu. Þessi vítahringur er ekki til þess fallinn að auka kaupmátt almennings. Endurbætur þurfa að eiga sér stað á kjarasamningslíkaninu sem stuðla að launaþróun í takt við verðmætasköpun og þar af leiðandi þjóðhagslegum stöðugleika og lægra vaxtastigi. 

Stefnumál stjórnmálaflokkanna varðandi vinnumarkaðinn eru misfyrirferðarmikil í áherslum þeirra. Þrír flokkanna nefna vinnumarkaðinn ekki með beinum hætti í kosningaáherslum sínum og ekki heldur á heimasíðum sínum. Aðrir flokkar nefna vinnumarkaðinn með einum eða öðrum hætti en aðeins einn flokkur, Sjálfstæðisflokkur, hefur það sem skýran hluta af stefnu sinni að stuðla að endurbótum á kjarasamningalíkaninu í takt við áherslur SA. Þar að auki er ákveðna áherslu að finna í stefnumálum Samfylkingar og Vinstri grænna sem virðast eiga að skjóta traustari fótum undir kjarasamningagerð á vinnumarkaði. Þó eru önnur atriði í stefnu þeirra sem eru að mati SA í andstöðu við þetta markmið, svo sem þau atriði er snúa beint að stuðningi við ákveðnar kröfur stéttarfélaga sem haldið hefur verið á lofti án tillits til efnahagslegra aðstæðna.

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að stuðst sé við norrænar fyrirmyndir þegar kemur að kjarasamningagerð, þar sem mikilvægar umbætur á undanförnum áratugum hafa leitt til þess að launaþróun endurspeglar verðmætasköpun mun betur en hér á landi. Þar hefur enda verðbólga mælst minni og vaxtastig lægra. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að betri lífskjör hvíli á traustum efnahagslegum stoðum. Nýtt vinnumarkaðslíkan er leið í átt að því markmiði. Ítarlegri tillögur SA má lesa hér

Atvinnulífið – aðgengileg stjórnsýsla 

Óþarflega flókið og íþyngjandi regluverk, þunglamaleg stjórnsýsla og óskilvirkt eftirlit hamlar rekstri fyrirtækja og dregur úr hvata til fjárfestinga. Það eru hins vegar fjárfestingar í atvinnulífi og innviðum sem skapa þau verðmæti og störf sem standa fyrir skatttekjum ríkis og sveitarfélaga og grunnþjónustunni sem þau veita. Afnema ætti þær hindranir í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sem eru umfram þær sem þekkjast hjá nágrannaþjóðum. Þá er löngu tímabært að nútímavæða þjónustu hins opinbera við einstaklinga og fyrirtæki. 

Þrátt fyrir að alþjóðlegur samanburður gefi til kynna að Ísland geti gert mun betur þegar kemur að skilvirkni í regluverki og þjónustu hins opinbera eru ekki margir stjórnmálaflokkar sem leggja sérstaklega til umbætur á þeim sviðum. Einungis fjórir flokkar tilgreindu sérstaklega nauðsyn umbóta þegar kemur að regluverki og/eða stafrænni þjónustu; Miðflokkurinn, Píratar, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn. 

Greining OECD gefur til kynna að með umbótum á regluverki eingöngu í ferðaþjónustu og byggingariðnaði gætum við sótt um 1% af landsframleiðslu eða um 30 milljarða í aukna verðmætasköpun. Því er til mikils að vinna og ýmis tækifæri fyrir stjórnmálamenn að leggja fram gagnlegar tillögur í þessum efnum. Ítarlegri tillögur SA um áskoranir og lausnir í íslensku atvinnulífi má lesa hér

Styrkar stoðir efla verðmætasköpun 

Til að atvinnulíf þrífist sem best þurfa ákveðnir grunnþættir að vera til staðar. Skattheimta á að vera einföld og skiljanleg og henni þarf að vera stillt í hóf. Launahækkanir í takt við verðmætasköpun stuðla að verðbólgu nálægt markmiði og ásættanlegu vaxtastigi. Þá þarf opinber stjórnsýsla að vera aðgengileg og ávinningur af regluverki þarf að vera meiri en kostnaðurinn. Styrkar stoðir í efnahagslífinu leiða til aukinnar verðmætasköpunar og þar af leiðandi betri stöðu ríkissjóðs og heimila. Lesa má nánar um 21 áskorun og lausn á heimasíðu SA, undir yfirskriftinni Höldum áfram.  

Samtök Atvinnulífsins

Orkuskipti í landflutningum – Þáttur hefst kl. 10:00

Orkuskipti í landflutningum – Þáttur hefst kl. 10:00

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu ræðir við Gísla Arnarson, framkvæmdastjóra innanlandssviðs Samskipa um orkuskipti í landflutningum í snörpum 15 mínútna þætti.

Í þættinum er m.a. rætt um áhuga flutningafyrirtækja á orkuskiptum, óvissu sem þeim tengist, þær áskoranir sem fylgja áformum stjórnvalda um hröð orkuskipti og hverskonar skilaboð gætu e.t.v. liðkað fyrir.

Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og málefnum orkuskipta í fróðlegum 20 mínútna umræðuþáttum. Þættirnir eru sýndir á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 10:00 í Sjónvarpi atvinnulífsins og í Samtölum atvinnulífsins á helstu hlaðvarpsveitum.

Hér má sjá nánari dagskrá mánaðarins

 Samtöl atvinnulífsins  

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Á eignaverð að stýra vaxtastefnu Seðlabankans?

Á eignaverð að stýra vaxtastefnu Seðlabankans?

Hér á landi hefur kostnaður vegna eigin húsnæðis um það bil fimmtungs vægi í vísitölu neysluverðs. Eðli máls samkvæmt hefur þróun húsnæðisverðs því mikil áhrif á íslenskt vaxtastig og heldur meira að jafnaði en gengur og gerist víða erlendis. Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,4 prósent en vísitala neysluverðs án húsnæðis er við verðbólgumarkmið.

Með öðrum orðum, það sem hefur helst drifið áfram verðbólgu síðustu misseri er hækkun húsnæðisverðs.Sú staða sem nú er uppi hefur áður sést og var nokkuð fyrirséð. Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað að meðaltali um ríflega 16 prósent á síðastliðnu ári og virðist fátt benda til annars en að það muni áfram hækka.

Verðhækkanir á eignamarkaði eru ekki óeðlilegar þegar vextir lækka og laun hækka líkt og verið hefur. Það sem hins vegar vegur þyngra nú er framboðsskortur á húsnæði sem hefur þrýst verðinu enn hraðar upp samhliða því að íbúðum til sölu hefur farið hratt fækkandi.

Seðlabankastjóri gagnrýndi vandræðaganginn við skipulagsmál á Íslandi í viðtali nýverið. Hér er einfaldlega of lítið byggt og of fáum lóðum úthlutað. Einkum er það stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, sem virðist enn á ný hafa sofið á verðinum. Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins hafa ekki verið færri íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu síðan í febrúar 2017 og mælist samdrátturinn á síðustu tólf mánuðum mestur í Reykjavík.

Dýrkeypt fórnarskipti eignaverðs og stöðugleika

Þó það hljómi undarlega má segja að framboðsskortur á húsnæði í Reykjavík hafi bein áhrif á það hvort verðbólgumarkmið Seðlabankans haldi eða ekki. Almennt er viðtekið að vextir séu fremur máttlaust stjórntæki gegn miklum eignaverðshækkunum og reyndar er Ísland skólabókardæmi um slíkt. Á árunum 2004-2007 var reynt að draga úr verðhækkun fasteigna með miklum stýrivaxtahækkunum með þeim afleiðingum að krónan styrktist, eftirspurn jókst, viðskiptahalli náði stærð sem ekki hafði sést áður og fasteignaverð hélt áfram að hækka.

Fórnarskipti þess að beita stýrivöxtum á eignaverð annars vegar og hagvaxtar og efnahagslegs stöðugleika hins vegar, geta því orðið talsverð. Staðreyndin er sú að verð á eignamörkuðum er almennt mjög sveiflukennt. Þetta á ekki síður við fasteignaverð enda framboð fremur seint að bregðast við breyttri eftirspurn.

Þá er fasteignamarkaðurinn á Íslandi ekki stór í alþjóðlegum samanburði, fremur eins og lítið úthverfi í samanburði við breska, sænska eða þýska húsnæðismarkaðinn, svo dæmi séu tekin. Sveiflurnar geta því orðið enn meiri.

Á sveiflukenndur húsnæðisliður að ráða för?

Ólíkt því sem áður var hefur stjórntækjum Seðlabankans fjölgað, en flest eru þau á forræði fjármálastöðugleikanefndar. Takmarkanir á veðsetningarhlutföllum og greiðslubyrði fasteignalána eru dæmi um slík stjórntæki. Meginstjórntæki peningastefnunefndar er hins vegar stýrivextir og hennar helsta hlutverk að tryggja stöðugt verðlag. Eignaverðshækkanir stýrðu áður fyrr vaxtastefnu Seðlabankans, sú tilraun mistókst og má ekki endurtaka sig.

Eftir stendur sú spurning hvort húsnæðisliður sem sveiflast upp og niður eftir því hvernig skipulagsmálum er háttað í Reykjavík eigi yfirhöfuð heima í verðbólgumarkmiði Seðlabankans? Aðrir eignamarkaðir heyra alfarið undir fjármálastöðugleika, af hverju gildir hið sama ekki um fasteignamarkaðinn?

Halda áfram að lesa

Samtök Atvinnulífsins

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2021 í beinu streymi 09:00

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2021 í beinu streymi 09:00

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2021 fer fram í Hörpu í dag kl. 09:00.

Fullbókað er á viðburðinn í Hörpu en áhugafólk um umhverfismál og orkuskipti þarf ekki að örvænta þar sem streymt er beint af fundinum hér neðar.

Dagurinn er árviss viðburður og að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Í tengslum við daginn er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og þá sér í lagi málefnum orkuskipta. Nánari dagskrá umhverfismánaðarins má sjá hér.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins í ár verða veitt fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel í umhverfismálum. Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verðlaun fyrir umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins. Venju samkvæmt afhendir forseti Íslands Umhverfisverðlaun atvinnulífsins.

Fundarstjóri er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

Setning

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA

Orkuskipti – Leiðin fram á við

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri

Orkuskipti Bílaleigu Akureyrar

Jón Gestur Ólafsson, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri Hölds ehf.

Orkuskipti í sjávarútvegi

Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum SFS

Vistvænni mannvirkjagerð

Sigrún Melax, gæðastjóri Jáverk ehf.

Fjármögnun orkuskipta – tækifærin og áskoranir frá sjónarhóli banka

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni Íslandsbanka

Í pallborðsumræðum taka þátt:

Bjarni Herrera, forstöðumaður sjálfbærni KPMG
Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur Ph.D. VSÓ og dósent við Háskóla Íslands
Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins:

Forseti Íslands afhendir viðurkenningu
fyrir umhverfisframtak ársins og til umhverfisfyrirtækis ársins.

Kaffi og tengslamyndun

Hér má sjá Framtak ársins 2020 – Netparta:

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin