Heilsa

Forstjórapistill: Landspítali á hættustigi, brjóstamiðstöðin á Eiríksstöðum og 20 þúsund kransæðavíkkanir

Kæra samstarfsfólk!

Í vikunni færði viðbragsstjórn Landspítala viðbúnaðarstig spítalans á hættustig vegna farsóttar COVID-19. Umtalsverðar breytingar eru gerðar á starfseminni, annars vegar vegna samkomutakmarkana sem sóttvarnaryfirvöld hafa sett, hins vegar tengt undirbúningi spítalans vegna mögulega aukins álags. Við gerum ekki ráð fyrir að draga úr þjónustu við sjúklinga en hún verður í vissum tilvikum veitt með öðrum hætti, m.a. á dag- og göngudeildum.

Það eru vissulega vonbrigði að faraldurinn sé í uppsveiflu á ný en við erum þó í nokkuð annarri stöðu nú en í fyrri bylgjum. Við erum tilbúin með viðbragðið og erum fljót að breyta starfsemi eftir þörfum. Ríflega helmingur starfsfólks hefur hafið eða lokið bólusetningu og einmitt þessa dagana er að hefjast bólusetning annarra starfsmanna og að henni lokinni munu yfir 90% starfsmanna hafa hafið eða lokið bólusetningarferli. Áfram gilda strangar sýkingavarnareglur innan spítalans fyrir alla starfsmenn, sjúklinga og gesti og gildir þá einu hvort fólk er bólusett eða ekki. Nú er páskaleyfi framundan hjá mörgum og það er ástæða til að brýna fyrir fólki að gæta sérstaklega að sér í ljósi stöðunnar.

Frá áramótum hefur Landspítali séð um skimanir fyrir krabbameini í brjóstum í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri. Í Reykjavík hefur skimunin farið fram í húsnæði Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð og hefur gengið vel. Nú í apríl verða hins vegar ánægjuleg tímamót í þjónustu við þennan hóp þegar öll starfsemi (að segulómun undanskilinni) verður sameinuð í nýrri og glæsilegri Brjóstamiðstöð Landspítala að Eiríksstöðum, Eiríksgötu 5. Miðstöðin er í raun göngudeild þar sem sameinast á einn stað bæði skimun fyrir krabbameini í brjóstum og þjónusta sem áður var veitt á deildum 10E og 11B af skurðlæknum, krabbameinslæknum og hjúkrunarfræðingum. Þetta er mikið framfaraskref sem ástæða er til að fagna.

Fleiri tímamótum má fagna núna snemma vors. Nýlega var á hjarta- og æðaþræðingastofu Landspítala 20 þúsundasta kransæðavíkkunin! Á deildinni er unnið mikið starf alla daga og hefur verið gert nánast sleitulaust frá 14. maí 1987. Á deildinni eru þrjú fullkomin þræðingartæki sem nýtast til flókinna inngripa auk kransæðaþræðinga og kransæðavíkkana svo sem ísetninga ósæðaloka, brennsluaðgerða vegna hjartsláttaróreglu og við ísetningu gangráða og bjargráða. Í þessari starfsemi sem og víða annars staðar eigum við trausta bakhjarla. Það er Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur heitinnar sem hefur í liðlega tvo áratugi verið helsta stoðin í fjármögnun á kaupum tækja til hjartalækninga og hjartaþræðinga á Landspítala. Jónína var eiginkona Pálma Jónssonar í Hagkaupi og allt frá stofnun sjóðsins hafa synir þeirra verið í sjóðsstjórninni og látið sig málefnið miklu skipta. Þetta er spítalanum og landsmönnum ómetanlegt.

Gleðilega páska!
Páll Matthíasson

Ljósmynd: Starfsfólk á hjarta- og æðaþræðingarstofu: Marina Ilyinskaya lífeindafræðingur, Guðný Björk Guðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur, Hjalti Guðmundsson hjartalæknir og Friðrika Alda Sigvaldadóttir hjúkrunarfræðingur.

Heilsa

Frá farsóttanefnd 15. apríl 2021

Frá farsóttanefnd:

Landspítali er á óvissustigi. 

Á Landspítala nú:

2 sjúklingar eru inniliggjandi vegna Covid-19 með virkt smit
– Annar sjúklinganna í gjörgæslu og öndunarvél
Ekkert andlát á Landspítala í 4. bylgju sem hófst 20. mars
79 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar, þar af 18 börn

Halda áfram að lesa

Heilsa

Síðasti greiðsludagur hreindýraveiðileyfa er í dag – fimmtudaginn 15. apríl.

15. apríl.2021 | 11:05

Síðasti greiðsludagur hreindýraveiðileyfa er í dag – fimmtudaginn 15. apríl.


Eindagi greiðslu úthlutaðs hreindýraveiðileyfis er í dag 15. apríl. Greiða þarf kröfu í heimabanka fyrir kl. 21.00 fimmtudaginn 15. apríl. Þeir sem ekki greiða kröfuna fyrir tilskilinn tíma hafna þar með úthlutuðu leyfi. 

Krafa frá Ríkissjóðsinnheimtu er í heimabanka þeirra sem hafa fengið úthlutun, ekki voru sendir út greiðsluseðlar. Ef menn finna ekki kröfuna þá er hægt að millifæra eftir neðangreindum upplýsingum en það þarf þá að gerast áður en greiðslufrestur rennur út.

Tryggast er samt að viðkomandi borgi útsenda kröfu, en ef er millifært þarf að senda bankakvittun á netfangið [email protected].

Reikningsnúmer:  0001-26-25335  
Kennitala móttakanda:  5402696459
Upphæð greiðslu:   86.000 fyrir kýr, 150.000 fyrir tarf.
Skýring greiðslu:  Kennitala þess sem er með úthlutað leyfi.

Mikilvægt er að greiða ekki á síðustu stundu og fylgjast með því að greiðslur sem hafa verið settar í sjálfvirkar greiðslur á eindaga greiðist.

Fljótlega eftir að greiðslufrestur er útrunnin er farið í að endurúthuta þeim leyfum sem ekki verða greidd, til næstu manna á biðlistum  

Halda áfram að lesa

Heilsa

Kynning á vatnaáætlun

Tillaga að fyrstu vatnaáætlun Íslands eru nú til kynningar og við viljum bjóða þér á kynningarfund 27. apríl n.k. kl. 13:00 – 14:30. Fundurinn verður haldinn á Teams.
Takið endilega tímann frá!

Við segjum oft að á Íslandi sé eitt hreinasta vatn í heimi en er það í raun svo? Hluti af vinnunni við vatnaáætlun er einmitt að geta staðfest gæði vatns, draga úr álagi þar sem þess er þörf og vakta vatn til framtíðar. 

Vatnaáætlun felur í sér stefnumörkun um vatnsvernd. Hluti af henni er aðgerðaáætlun þar sem settar eru fram aðgerðir til að tryggja gott ástand vatns og vöktunaráætlun þar sem markmiðið er m.a. að samræma vöktun vatns um allt land. Lög um stjórn vatnamála innleiða nýja nálgun í vatnsvernd hér á landi. Lögunum er ætlað að vernda vatn og vistkerfi þess, stuðla að sjálfbærri nýtingu þess og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Vatnaáætlun ásamt aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun munu gilda til sex ára í senn.

Mikið samráð og samtal  hefur farið fram við gerð vatnaáætlunar og er þessi kynningarfundur hluti af því mikilvæga ferli. Á kynningarfundinum fer verkefnishópur Umhverfisstofnunar yfir tillögu að fyrstu vatnaáætlun Íslands ásamt fylgiáætlunum hennar; aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun. Farið verður yfir áhrif og þýðingu áætlunarinnar.

Frekari upplýsingar um vatnaáætlun eru inni á vefsíðunni vatn.is og er frestur til að gera athugasemdir til og með 15. júní 2021.

Kynningin fer fram í gegnum forritið Teams. Ekki er nauðsynlegt að stofna aðgang til að komast inn á fundinn. Ekki þarf að hlaða niður forriti ef fylgst er með í gegnum vafra, en ef ætlunin er að fylgjast með fundinum í gegnum síma þarf að hlaða niður Teams smáforritinu. Ekki er mælt með því að nota Safari vafrann en aðrir vafrar virka vel. 

Fundurinn verður tekinn upp svo hægt er að nálgast hann seinna á vatn.is 
Hlekkur á fundinn: http://ust.is/fundur20210427

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin