Connect with us

Heilsa

Forstjórapistill: Landspítali fær loftslagsverðlaun, Evrópudagur sjúkraliða, starfsþróunarár hjúkrunarfræðinga og áskorun starfsfólks á lungnadeild A6

Birt

þann

Kæra samstarfsfólk!

Neyðarástand í loftslagsmálum ógnar okkar helsta forgangsmáli, heilbrigðinni. Vísindin segja okkur að bregðast þurfi strax við. Heilbrigðiskerfið er talið bera ábyrgð á um 5% af losun kolefnis á heimsvísu og í því ljósi er afar mikilvægt að við á Landspítala öxlum ábyrgð. Til viðbótar, þá skiptir miklu máli fyrir samfélagið að stórar stofnanir með stór kolefnisspor geri sitt. Við settum okkur því metnaðarfull loftslagsmarkmið árið 2016; 40% samdrátt í kolefnisspori frá árinu 2015 fyrir lok ársins 2020. Það er ánægjulegt að segja frá því að bráðabirgðatölur benda til þess að það muni nást! Þetta höfum við gert með ýmsum hætti og þannig náð að draga úr losun um 1900 tonna CO2-ígilda sem jafngildir árs akstri um 800 bíla. Þessi öfluga vinna okkar hefur vakið athygli og í dag fékk Landspítali Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar. Þessi mikilvæga viðurkenning er árlega veitt fyrir eftirtektarverðan árangur í loftlagsmálum. Til hamingju öll, þessu getum við verið stolt af!

Evrópudagur sjúkraliða var í gær, 26. nóvember. Sjúkraliðar eru ein burðarstétta heilbrigðiskerfisins og ef einhver var í vafa um það þá sýndi það sig með ýmsum hætti nú í ár, þar sem 230 sjúkraliðar skráðu sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar og fóru víða til starfa. Sjúkraliðar starfa mjög nálægt sjúklingum okkar og gegna lykilhlutverki í þjónustu við þá. Störf sjúkraliða eru spennandi og mikilvæg í flóknu gangverki Landspítala (myndskeið).

Landspítali er stærsti vettvangur náms í heilbrigðisvísindum á Íslandi. Hjá okkur eru um 1600-1800 nemar í starfstengdu námi á ári hverju. Við reynum að mæta þeim nemum þannig að þeir geti hugsað sér starfa hjá okkur áfram enda slá fyrstu skrefin á starfsævinni tóninn. Á menntadeild spítalans bjóðum við öllum heilbrigðisstéttum starfsþróun m.a. með herminámi sem fram fer í glæsilegu hermisetri spítalans. Þar læra þátttakendur teymisvinnu við aðstæður sem eru nærri því sem gerst getur í raunveruleikanum. Fjölmennasta stétt Landspítala er hjúkrunarfræðingar og við höfum í nokkur ár boðið nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum starfsþróunarár (myndskeið) sem notið hefur mikilla vinsælda. Þar er áhersla á hæfni og þekkingu þar sem árangursrík hjúkrun og öryggi sjúklinga eru í öndvegi.

Það hefur verið mikið álag á spítalanum vegna COVID-19 faraldursins og þarf ekki að tíunda það fyrir ykkur. Í vikunni sáum við okkur fært að færa spítalann af hættustigi niður á óvissustig, þar sem samfélagslegum smitum fór fækkandi og dró úr álaginu á spítalanum. Við vonum svo sannarlega að sú staða haldist inn í aðventuna og að samtakamáttur landsmanna tryggi úthald þar til bóluefni getur hjálpað okkur í baráttunni við veiruna. Það eru þó alvarlegar blikur á lofti og ég vil eindregið hvetja alla til að huga sérstaklega vel að sóttvörnum í sínu nærumhverfi og ganga löturhægt um gleðinnar dyr. Ég deili hér með ykkur myndskeiði af starfsfólki á A6, lungnadeild, sem var umbreytt í COVID deild en sinnir nú á ný sínu reglulega hlutverki. Hér slær starfsfólk á létta strengi og sýnir aðdáunarverða takta í því eins og öðru. Eins og sést hérna fyrir neðan er þetta er áskorun á aðrar deildir og vinnustaði í heilbrigðisþjónustu!

Nú ríður á að þetta sé nú ekki bara stund milli stríða!

Góða helgi – ferðist innanhúss!

Páll Matthíasson

Ljósmynd: Sigurjón Ragnar ljósmyndari


Heilsa

Þjónustukönnun sjúklinga 2020 – niðurstöður

Birt

þann

Eftir

Niðurstöður úr þjónustukönnun sjúklinga 2020 hafa verið birtar á vef Landspítala. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar síðan árið 2012. Þær benda til þess að ýmis umbótastarfsemi á síðastliðnum árum sé að skila betri þjónustu og vaxandi ánægju skjólstæðinga spítalans.

Tilgangur þjónustukönnunar er að fá fram viðhorf sjúklinga til þjónustu spítalans og nota til umbótaverkefna þar sem þeirra er þörf.

Boð um þátttöku í könnuninni var sent á úrtak sjúklinga sem legið höfðu inni á Landspítala a.m.k. í sólarhring á tímabilinu febrúar til apríl 2020.
Svarhlutfall var 47%. Spítalinn kann þátttakendum bestu þakkir fyrir þeirra framlag.

Þjónustukönnun Landspítala 2020 – niðurstöður

Lesa meira

Heilsa

Áform um stækkun og endurskoðun friðlýsingar Garðahrauns í Garðabæ

Birt

þann

Eftir

19. janúar.2021 | 12:24

Áform um stækkun og endurskoðun friðlýsingar Garðahrauns í Garðabæ

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ og Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowa, kynnir áform um stækkun og endurskoðun friðlýsingar fólkvangsins í Garðahrauni í Garðabæ, í samræmi við 52. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Áformin eru kynnt í samræmi við ákvæði 36. og 38. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. 
Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 25. mars 2021.

Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið [email protected] eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Nánari upplýsingar um áformin má sjá hér: Garðahraun í Garðabæ

Lesa meira

Heilsa

Dag- og göngudeild auglækninga lokuð í viku frá 18. janúar vegna flutnings

Birt

þann

Eftir

Dag- og göngudeild augnlækninga á Landspítala, við Þorfinnsgötu, verður lokuð frá mánudegi 18. janúar til mánudags 25. janúar 2021 vegna flutninga. Að báðum dögum meðtöldum.

Verið er að breyta Eiríksstöðum, þar sem áður voru skrifstofur Landspítala, í göngudeildahús. Þangað flyst dag- og göngudeild auglækninga og verður deildin opnuð á nýja staðnum þriðjudaginn 26. janúar.

Eiríksstaðir eru við Eiríksgötu, rétt neðan við Hallgrímskirkju, skáhalt þar sem Blóðbankinn var lengi.

Lesa meira

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2020 Tíðin