Heilsa

Forstjórapistill: Síðasti pistillinn sem forstjóri

Kæra samstarfsfólk!

Þetta er síðasti pistill minn sem forstjóri.

Eftir talsverða umhugsun hef ég tekið þá ákvörðun að nú, þegar ég hef verið 8 ár í embætti forstjóra, sé tímabært að stíga til hliðar og afhenda nýjum aðila keflið. Að baki þessari ákvörðun liggur annars vegar sú sterka tilfinning mín að ég vildi skipta um gír, snúa mér að öðru, eins og að sinna fjölskyldunni betur og nýjum verkefnum. Það er stundum sagt að því stærra pláss sem starfið taki því minna svigrúm sé til að sinna einkalífi og þetta starf er sannarlega annasamt. Þetta er megin ástæða þess að ég hætti nú. Hins vegar þá er ég sannfærður um að nú séu spennandi tímamót, sem krefjist nýs leiðtoga. Í stofnun sem varðar svo marga í samfélaginu svo miklu er mjög mikilvægt og í rauninni heilbrigðismerki að þar sitji ekki sami forstjóri svo áratugum skipti. Því er rétt að stíga til hliðar og þegar ákvörðun er komin er ekki eftir neinu að bíða enda nauðsynlegt að öruggur aðili með fullt umboð sé alltaf við stýrið. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs og einstakur samstarfsmaður til margra ára, tekur nú við til áramóta og treysti ég engum betur fyrir því verkefni. Það er síðan verkefni ráðherra að auglýsa og skipa í starfið til lengri tíma.

Vegferðin síðustu átta ár

Þegar ég horfi til baka þá hefur mikið áunnist frá því ég tók við embættinu haustið 2013. Árin á undan höfðu reynt á og gríðarlegt aðhald og sparnaður í kjölfar hrunsins. Fyrsta verkefni okkar í framkvæmdastjórn eftir að ég tók við var að huga að mannauð spítalans, aðbúnaði, mat, viðmóti og áfram mætti telja. Síðan hófst mikil barátta fyrir því að ná eyrum stjórnvalda um mikilvægi hins þríþætta hlutverks spítalans. Aðkallandi þörf var á auknu fé til rekstar, húsnæðis og tækjakaupa sem og vísinda og mennta. Á sama tíma þurfti að halda áfram að tryggja Hringbrautarverkefninu brautargengi.

Í dag megum við ekki gleyma því að við erum á betri stað. Spítalinn er miklu stærri, öflugri og meira spennandi vinnustaður nú en þegar ég tók við og sinnir flestum sjúklingum betur. Fjölmargar nýjar tegundir meðferða hafa verið teknar upp. Þar má nefna heilaþræðingar, aðgerðir með skurðþjarka, jáeindaskanni hefur verið tekinn í notkun og byggt utan um hann, teymisvinna hefur aukist mjög og dagdeildaraðgerðir vaxið ár frá ári.
Í mannauðsmálum hefur þrekvirki verið unnið þótt auðvitað sé alltaf verk að vinna. Bættur matur, bættur vinnutími, átak í betri vinnumenningu með meðal annars samskiptasáttmála, jafnlaunavottun og áfram mætti telja. Skipulögð móttaka nýrra starfsmanna og bætt utanumhald óreyndara starfsfólks, jafnt almenns starfsfólks sem fagfólks (sérstaklega lækna og hjúkrunarfræðinga í starfsþjálfun) er bæði mannauðsmál og öryggismál.
Tækjabúnaður er allur annar og himinn og haf á milli þess ástands sem er í þeim málum á spítalanum 2013 og nú. Upplýsingatækni hefur eflst mjög með Heilsugátt sem miðpunkt og oft hefur starfsfólk sem starfað hefur á sjúkrahúsum erlendis látið mig vita hversu langt Landspítali sé kominn í klínískum sjúkraskrárkerfum.
Mikil áhersla hefur verið á að bæta húsnæði spítalans (þótt margt sé enn í ólagi þar). Til að skapa svigrúm fyrir nýjar göngudeildir voru Eiríksstaðir teknir undir slíka starfsemi auk þess sem ný augndeild var sett upp. Mikil notendavinna hefur einnig farið í Hringbrautarverkefnið og stefnir í að við munum búa við framúrskarandi húsnæði sem hentar þörfum næstu áratuga þegar því verki lýkur.
Öryggisvegferð spítalans og áhersla á umbótastarf hefur verið þungamiðja í okkar starfi og eru umbótatöflur og stöðumat deilda og spítalans alls (sem hefur verið við lýði frá 28.12.2015) meðal dæma þar um auk sístækkandi hermiseturs og markvissrar öryggisþjálfunar starfsfólks.
Vaxandi áhersla hefur verið á að draga úr úrgangi, sóun og að minnka kolefnisfótspor spítalans og það umhverfisátak skilaði spítalanum meðal annars tilnefningu 2017 til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Ég vil líka nefna bætta stoðþjónustu og breytingar á lyfjaþjónustu. Verkefni til að útrýma lifrarbólgu C var síðan gríðarlega mikilvægt lýðheilsuverkefni sem kom til vegna frumkvæðis starfsfólks spítalans.
Allt þetta og margt fleira kemur upp í hugann en að öðru ólöstuðu þá er það samt frammistaða spítalans í COVID-19 faraldrinum sem sýndi hvers hann er megnugur þegar á reynir. Þar lagði starfsfólk nótt við dag, endurskipulagði spítalann frá grunni, fluttist á milli deilda, setti upp sérstaka göngudeild til að halda utan um alla COVID-veika og tók að sér utanumhald og innkaup birgða fyrir allt landið. Þvílík frammistaða, sem verður ekki fullþökkuð.

Ég nefni þessa upptalningu eins og þetta sé allt mitt verk. Svo er auðvitað ekki. Ég er bara svo heppinn að hafa verið forstjóri á miklum framfaratímum með öflugu samstarfsfólki. Á bak við öll þessi framfaraskref er frumkvæði og kraftur ykkar starfsfólksins, velvild og samstarfsvilji annars heilbrigðisstarfsfólks, akademísks starfsfólks í háskólastofnunum, Embættis landlæknis og svo auðvitað heilbrigðisráðuneytisins og heilbrigðisráðherra sem með nýrri heilbrigðisstefnu og margvíslegum stuðningi við spítalann skipti miklu. Ráðgjafarnefnd spítalans sem hefur verið virk síðustu árin hefur síðan reynst mikilvægur bakhjarl þegar á reynir í samtali við framkvæmdavaldið.
Ég tel hér upp nokkra af þeim fjölmörgu hlutum sem hafa áunnist síðustu átta árin til að minna á að það er full ástæða fyrir starfsfólk spítalans að bera höfuðið hátt. Ég er þakklátur og ánægður fyrir að hafa kynnst og unnið með ykkur og tek með mér stóra ferðatösku af minningum um einstakt starfsfólk með magnaðan metnað. Þið eruð hornsteinn heilbrigðisþjónustu í þessu landi og starfrækið sjúkrahús á heimsmælikvarða.

Framtíðin

Framundan eru hins vegar áskoranir og engin þeirra ný. Sú fyrsta er að tryggja að uppbyggingin sem er í gangi við Hringbraut verði sú lyftistöng öryggis og þjónustu við sjúklinga sem vonir standa til. Önnur áskorun er að tryggja fullnægjandi mönnun fagfólks. Það er kannski flóknasta verkefnið sem bíður okkar en þar megum við engan tíma missa. Þriðja áskorunin sem ég vil nefna er sú að efla vísindi og rannsóknir á spítalanum en það snýst öðru fremur um að skilgreina skýrt miklu meira fé til rannsókna (m.a. í gegnum samkeppnissjóði) á spítalanum. Að lokum er það svo verkefnið eilífa, að tryggja Landspítala fullnægjandi rekstrarfé. Ég hef svo oft fjallað um þá staðreynd að verulega skortir á þar, í ræðu og riti á undanförnum árum, að það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara út í þá sálma hér. Ég vil aðeins segja að um spítalann gildir hið fornkveðna að barnið vex en brókin ekki. Það er um ákveðinn kerfisvanda að ræða sem einn maður eða ein stofnun leysir ekki en ef allir legðust á eitt að finna leiðir til að bæta til muna fjármögnun heilbrigðiskerfisins myndu margir hnútar leysast.

Síðasta heimsóknin

Vigdís Hallgrímsdóttir forstöðumaður krabbameinsþjónustu, Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir, Páll Matthíasson, Vaka Ýr Sævarsdóttir krabbameinslæknir, Hanna Björg Henrysdóttir deildarstjóri, Jakob Jóhannsson yfirlæknir..

Stækka mynd

Að vera forstjóri svona einstaks vinnustaðar er mikill heiður – og tækifæri til að kynnast hinni gríðarvíðtæku starfsemi spítalans náið. Ég hef kappkostað að fara um markvisst og kynna mér nýjungar, meðal annars með svokölluðum „gemba“ heimsóknum þar sem ég vikulega fer á spennandi einingu og heyri af umbótastarfi. Nú í vikunni heimsótti ég geislameðferðardeild spítalans og kynntist þar umbótavinnu í beiðna-, skráningar- og bókunarkerfi sem hefur það að markmiði að koma þeim alfarið frá pappírseyðublöðum í stafrænt form með sjálfkrafa tengingu milli sjúkraskrárkerfa og geislameðferðarkerfa. Á döfinni er síðan að koma á fót bættri upplýsingagjöf um geislameðferð og fyrirmæli tengd henni með öruggum rafrænum samskiptum við sjúklinga. Jafnframt hefur deildin lengi sóst eftir því að geta veitt svokallaða hnitmiðaða geislameðferð við meinvörpum í höfði sem auka meðferðarmöguleika og bæta lífsgæði fjölda krabbameinssjúkra og verður vonandi hægt að koma þeirri þjónustu á fyrr en síðar.

Þakkir

Ég vil þakka heilbrigðisyfirvöldum; ráðherra, ráðuneytisstjóra, landlækni, sóttvarnalækni og öllu þeirra starfsfólki kærlega farsælt og vaxandi samstarf.
Einnig er ég fullur þakklætis til starfsfólks á öðrum heilbrigðisstofnunum og sérstaklega forstöðumanna þeirra stofnana sem ég hef átt aukið samstarf við á undanförnum árum. Það sannast þar að ber er hver að baki nema sér bróður eigi, eins og sást vel í nýlegum heimsfaraldri þar sem samvinna var lykill að árangri. Samstarfið við háskólana er síðan einstakt og vaxandi og ég vil sérstaklega þakka starfsfólki Háskóla Íslands, þar er sannkölluð systurstofnun.
Jafnframt vil ég þakka öllum þeim hundruðum sjúklinga og aðstandenda sem hafa skrifað mér bréf og þakkað veitta þjónustu á undanförnum árum. Sá stríði straumur þakkarbréfa fer hljótt en snertir okkur öll mikið en ég kem þökkunum alltaf áleiðis til viðkomandi starfsmanna. Óendanlegt örlæti fjölmargra vildarvina spítalans er síðan einstakt og birtist í vel þegnum gjöfum.
Það er samt samstarfið og samvinnan við ykkur, starfsfólk spítalans, sem ber hæst. Á hverjum degi þegar ég geng um ganga spítalans þá fyllist ég stolti yfir því að vera hluti af þeirri ótrúlegu heild sem spítalinn er. Heild sem samanstendur af öflugu starfsfólki, já, besta fólki þessarar þjóðar í mínum huga, sem leggur bókstaflega nótt við dag að efla heilsu og sinna samborgurum í veikindum og eftir slys.
Eitt mikilvægasta hlutverk forstjóra er að velja fólk í lykilhlutverk stofnunarinnar. Þar hef ég verið svo lánsamur að hafa valið sem samstarfsfólk einstakar manneskjur og vini í framkvæmdastjórum og forstöðumönnum og vil ég sérstaklega þakka þeim eljuna, frumkvæðið og kjarkinn.

Ég hef starfað á Landspítala með hléum frá því í júní 1989 og samfellt frá ágúst 2007. Ég er Landspítalamaður í hjarta mínu, trúi algerlega á þjóðarsjúkrahúsið sem gríðarmikilvæga almannaheill og mun alltaf gera það sem ég get til að sjúkrahúsið sinni sínu mikilvæga hlutverki sem best. Því mun ég halda áfram störfum á öðrum vettvangi innan spítalans og hlakka til að hitta ykkur á göngum og deildum hans.

Takk fyrir mig!
Páll Matthíasson

Heilsa

Forstjórapistill: Umhverfis spítalann á 80 dögum

Kæra samstarfsfólk!

Skjótt skipast veður í lofti. Eins og ykkur er kunnugt ákvað Páll Matthíasson að láta af störfum sem forstjóri Landspítala eftir átta farsæl ár. Það verður ekki auðvelt fyrir nýjan forstjóra að fylla það skarð. Fyrir hönd starfsfólks Landspítala færi ég Páli innilegar þakkir fyrir hans góðu störf á krefjandi tímum.
Þessar breytingar bar brátt að og í kjölfarið var ég beðin um að gegna starfi forstjóra til áramóta. Í dag, föstudag, var staðan auglýst laus til umsóknar og veitist hún frá 1. mars 2022.
Frá því ég tók við forstjórastarfinu og til áramóta eru um 80 dagar. Þetta tímabil mætti kalla ferð umhverfis spítalann á 80 dögum sem er tilvísun í fræga bók Jules Verne um ferðalag Phileasar Fogg og félaga umhverfis jörðina á 80 dögum.

Þetta eru mikil tímamót og viðkvæmur tími í ýmsum skilningi. Þar vega nokkrir þættir hvað þyngst; má þar fyrst nefna mönnun spítalans, nýtingu legurýma, biðlista eftir þjónustu, stöðuna í heimsfaraldrinum, útskriftarvanda og birtingarmynd hans á bráðamóttökunni. Í ytra umhverfi má nefna að það hefur ekki verið mynduð ríkisstjórn og því óljóst hver verður næsti heilbrigðisráðherra og hvaða áherslur sá ráðherra kemur til með að hafa hvað varðar spítalann. Þá er óvíst hvernig fjárheimildir til spítalans koma til með að vera á næsta ári. Allt þetta kallar á athygli, ákvarðanir og eftirfylgni.

Framkvæmdastjórn og forstöðumenn héldu sameiginlegan fund s.l. þriðjudag með það markmið að leita allra leiða til að draga úr álagi og því ástandi sem orðið er viðvarandi á bráðamóttökunni.  Þau atriði sem ég lagði sérstaka áherslu á á fundinum voru eftirfarandi:

  • Ákvarðanir sem við tökum eru fyrst og fremst út frá hagsmunum sjúklinga
  • Nýta skipurit stofnunarinnar til hins ítrasta, þar með framlínustjórnendur
  • Mikilvægi þess að horfa inn á við, á starfsemina og starfsfólkið
  • Styðja eins og kostur er við starfsfólk sem hefur starfað undir álagi mánuðum saman
  • Tryggja fjármagn til rekstrar og fullnægjandi mönnun

Á fundinum voru teknar nokkrar ákvarðanir og má þar nefna fjölgun legurýma fyrir áramót, vinna við að endurskoða læknisfræðilega ábyrgð eða tilfærslu ábyrgðar, fyrirkomulag endurkoma til bæklunarlækna, aðgengi að myndgreiningarþjónustu að nóttu og skipulag blóðtöku á legudeildum. Við munum fara betur yfir þessi verkefni sem og fleiri á fundi með stjórnendum í byrjun nóvember sem verður auglýstur síðar.

Við þurfum eins og Phileas Fogg að veðja á og trúa því staðfastlega að okkur takist ætlunarverkið. Til þess þurfum við að nota öll verkfærin og bjargráðin sem við eigum í sameiningu. Keðjan er aðeins eins sterk og veikasti hlekkurinn og því þurfum við öll að standa saman fyrir skjólstæðinga okkar, samstarfsfólk, nemendur og fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu.

Með góðri kveðju,
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir

Halda áfram að lesa

Heilsa

COVID-19 – 18. október: Staðan

Landspítali er á óvissustigi, sem er fyrsta af þremur viðbragðsstigum Landspítala. Ástæðan er faraldur COVID-19. Skilgreining óvissustigs samkvæmt viðbragðsáætlun Landspítala er eftirfarandi: Viðbúnaður vegna yfirvofandi eða orðins atburðar. Ef dagleg starfsemi ræður við atburðinn, upplýsingar um atburð eru óljósar eða ekki nægar til að virkja áætlun til fulls (grænn litur í gátlistum). 
Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta er virk og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd eftir þörfum.

Staðan kl. 9:00

3 sjúklingar liggja á Landspítala vegna COVID-19, allir fullorðnir. Enginn á gjörgæslu.  Meðalaldur inniliggjandi er 57 ár.

Nú er 501 sjúklingur, þar af 200 börn, í COVID göngudeild spítalans.

Frá upphafi fjórðu bylgju, 30. júní 2021, hafa verið 123 innlagnir vegna COVID-19 á Landspítala.

Tölur verða næst uppfærðar mánudaginn 18. október.

Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Goðafoss í 6 vikna kynningarferli

14. október.2021 | 15:37

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Goðafoss í 6 vikna kynningarferli

Unnið hefur verið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Goðafoss í Skjálfandafljóti. Goðafoss var friðlýstur sem náttúruvætti þann 11. júní 2020.

Gerð áætlunarinnar var í höndum fulltrúa Umhverfisstofnunar, Þingeyjarsveitar og landeigenda.

Tillaga að áætluninni og aðgerðaáætlun í tengslum við hana hefur nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Goðafoss er einn af vatnsmestu fossum landsins. Hann greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri. Ásýnd fossins er fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Fossinn er 9-17 m hár og um 30 m breiður.

Eins og áður segir liggja drög að áætluninni nú frammi til kynningar og er öllum frjálst að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum vegna hennar.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 29. nóvember 2021

 

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin