Heilsa

Forstjórapistill: Skipulagsbreytingar og viðbrögð við manneklu

Um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar

Er ég tók við stöðu forstjóra Landspítala fyrir liðlega 6 mánuðum síðan boðaði ég breytingar á stjórnskipulagi spítalans. Þessi vinna gengur vel og styttist í að afrakstur hennar verði kynntur fyrir ykkur öllum. Eftir að undirbúningsvinnu lauk hefur nýskipuð stjórn spítalans verið höfð með í ráðum og hefur það reynst gagnlegt. Auk þess njótum við liðsinnis alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey sem meðal annars aðstoðar okkur við að kanna hvernig fremstu spítalar heims hafa þróað og útfært skipulag sitt og skipurit.
Þegar horft er til framtíðar er markmið mitt einkum að einfalda miðlæga stjórnsýslu ásamt því að færa ábyrgð og áhrif nær klínísku starfseminni og munu breytingar á skipuriti spítalans endurspegla þessa nálgun. Tilgangurinn er fyrst og fremst að efla þjónustu við sjúklinga. Verkefnið er umfangsmikið og því er nauðsynlegt að áfangaskipta því. Þessa dagana er unnið að útfærslu breytts stjórnskipulags í samstarfi við McKinsey og er það fyrsti áfanginn í þessari vegferð. Hafa meðal annars verið tekin viðtöl við starfsfólk til að kanna sýn þess á skipulag og starfsemi Landspítala. Ég stefni að því að leggja drög að nýju skipuriti fyrir stjórn Landspítala síðar í þessum mánuði. Ég bind því vonir við að geta kynnt breytingar á skipulagi og nýtt skipurit fyrir stjórnendum og starfsfólki spítalans innan fárra vikna.

Viðbrögð við manneklu

Það er kunnara en frá þurfi að segja að mannekla er stærsta áskorunin á Landspítala um þessar mundir. Mest áberandi er skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum en sömuleiðis er mannekla í röðum lækna, einkum innan tiltekinna sérgreina, sem og meðal annarra heilbrigðisstétta. Sem stendur er vandinn mestur á bráðamóttökunni í Fossvogi þar sem langvarandi álag við erfiðar aðstæður hefur leitt til uppsagna fjölda hjúkrunarfræðinga. Við höfum á undanförnum mánuðum gripið til ýmissa úrræða til að minnka álagið á starfsfólk bráðamóttökunnar, meðal annars með stofnun nýrrar dagdeildar lyflækninga, yfirlögnum á legudeildir spítalans og með aukinni stoðþjónustu. En betur má ef duga skal. Ljóst er að við verðum að bæta vinnuumhverfi víða á Landspítala og tryggja að launakjör séu sambærileg við það sem býðst hjá samkeppnisaðilum okkar svo að við getum haldið í okkar færa starfsfólk. Við þurfum líka að laða til okkar öflugt starfsfólk og í því skyni er mikilvægt að styrkja stöðu vísinda og kennslu á spítalanum. Á komandi mánuðum og árum munum við leggja allt kapp á að gera Landspítala að eftirsóknarverðum vinnustað.
En þótt við á Landspítala finnum rækilega fyrir manneklu þá snertir skortur á heilbrigðisstarfsfólki samfélagið allt. Hið sama er uppi á teningnum í öðrum löndum. Vissulega hefur kórónuveirufaraldurinn haft mikil áhrif en skorts á heilbrigðisstarfsfólki var raunar farið að gæta áður en hann skall á og ljóst er að þörfin fyrir starfsfólk mun aukast jafnt og þétt á komandi árum. Það er því löngu tímabært að bregðast við vaxandi mönnunarþörf heilbrigðsþjónustunnar. Mikilvægt er að við stígum mjög ákveðið fram í allri umræðu um þetta mikilvæga mál, bæði hvað varðar leiðir til að bæta mönnun og fjölga nemendum í heilbrigðisgreinum. Því hef ég sérstaklega hvatt til víðtæks samstarfs um framtíðarmönnun með aðkomu heilbrigðisstofnana, háskólasamfélagsins, hlutaðeigandi ráðuneyta og stéttarfélaga. Þetta er krefjandi verkefni og er að mínu mati óhjákvæmilegt að leita nýstárlegra lausna. Skilgreina þarf eða endurskoða mönnunarviðmið með hliðsjón af faglegum sjónarmiðum, mannafla og þörfum samfélagsins.
Að síðustu má ekki gleyma að okkar frábæra starfsfólk þarf stuðning við endurheimt eftir tveggja ára viðureign við kórónuveirufaraldurinn. Það er forgangsverkefni

Góða helgi!

Runólfur Pálsson

Heilsa

Anna Sigrún til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar – Þórunn Oddný tekur við rekstri skrifstofu forstjóra

Anna Sigrún Baldursdóttir lætur þann 1. október 2022 af störfum á skrifstofu forstjóra og heldur til starfa á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Eins og kunnugt er stendur yfir vinna við skipulagsbreytingar á Landspítala og verða því við þetta tilefni tímabundnar breytingar á verkefnum og starfsemi skrifstofunnar.

Þórunn Oddný Steinsdóttir lögfræðingur tekur nú við rekstri skrifstofunnar sem skrifstofustjóri og mun heyra undir forstjóra. Þórunn er starfsemi Landspítala vel kunn enda starfað undanfarin 8 ár sem sérfræðingur, staðgengill skrifstofustjóra og settur skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Síðustu mánuði hefur hún unnið að stefnumótun og endurskoðun á löggjöf á sviði stjórnar fiskveiða í matvælaráðuneytinu.

Meðal helstu verkefna Þórunnar má nefna störf vegna nýrrar stjórnar Landspítala sem og framkvæmdastjórnar en að öðru leyti einkum stjórnsýsluleg verkefni skrifstofunnar, nýsköpunarmál, alþjóðlegt samstarf og endurskoðun skjalavistunarmála sem nú stendur yfir. Klínísk verkefni sem Anna Sigrún sinnti færast eftir atvikum til framkvæmdastjóra.

Þórunn Oddný er boðin innilega velkomin og Önnu Sigrúnu þökkuð farsæl störf á spítalanum undanfarin ár.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Kristján Óskarsson endurráðinn yfirlæknir barnaskurðlækninga

Kristján Óskarsson hefur verið endurráðinn yfirlæknir barnaskurðlækninga á Landspítala.

Kristján lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1990 og sérnámi í barnaskurðlækningum á barnaskurðdeild Rigshospitalet í Danmörku.  Hann hlaut sérfræðingsréttindi á Íslandi árið 2001. Kristján hefur starfað á Landspítala frá árinu 2001, fyrst sem sérfræðingur í barnaskurðlækningum en síðan í október 2017 sem yfirlæknir barnaskurðlækninga. Hann hefur stundað kennslu heilbrigðisstarfsfólks, sinnt vísindastörfum samhliða starfi og verið aðjúnkt við Háskóla Íslands frá 2017.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Hulda Hjartardóttir endurráðin í stöðu yfirlæknis fæðingarteymis

Hulda Hjartardóttir hefur verið endurráðin í stöðu yfirlæknis fæðingarteymis í kvenna- og barnaþjónustu aðgerðasviðs Landspítala.

Hulda lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1988 og stundaði sérnám í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp á kvennadeild Landspítala 1989-1991 og við sjúkrahús í Leeds og Bradford á árunum 1991-1998. Hún lauk MRCOG prófi árið 1994 og fékk sérfræðiréttindi á Íslandi 1997 og í Bretlandi 1998. Frá því ári hefur hún starfað sem sérfræðilæknir á kvennadeild Landspítala með aðaláherslu á fósturgreiningu og áhættumæðravernd auk fæðingarhjálpar. Hún var settur yfirlæknir á meðgöngu- og fæðingadeildum 2007-2009 og hefur verið yfirlæknir fæðingateymis frá því í maí 2017.

Hulda hefur sinnt kennslu og vísindastörfum samhliða starfi og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í maí 2021. Ritgerðin fjallaði um ómskoðanir í fæðingum. Gæðastörf deildarinnar eru ávallt í fyrirrúmi og hefur Hulda lagt áherslu á áframhaldandi þróun í þeim efnum. Að auki er sífellt reynt að auka samstarf við heilsugæslu, önnur sjúkrahús og stofnanir á Norðurlöndunum í því augnamiði að tryggja sem besta meðferð í meðgöngu og fæðingu.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin