Landsspítali

Fossar markaðir gáfu Rjóðri rúmar 11 milljónir króna

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, afhenti Guðrúnu Ragnars, barnahjúkrunarfræðingi og deildarstjóra Rjóðurs, 11.071.795 krónur 4. desember 2019 sem var afrakstur „Takk dagsins“ 28. nóvember. 

Takk dagur Fossa markaða var nú haldinn í fimmta sinn. Allar þóknanatekjur vegna viðskipta renna á þessum degi til góðs málefnis. Auk Fossa markaða taka Kauphöllin, Nasdaq Iceland og uppgjörsfyrirtækið T plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa, sem í staðinn renna til söfnunarinnar. Auglýsingastofan Tvist gaf vinnu sína sem tengdist þessum degi og skartgripahönnuðurinn Hildur Hafstein hannaði armbönd til styrktar átakinu.

Rjóður er hjúkrunar-, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og langveik fötluð börn.  Þangað koma börn að 18 ára aldri.
Þau þarfnast öll mikillar hjúkrunar og umönnunar auk afþreyingar og leiks.

Guðrún Ragnars: „Okkur hefur lengi dreymt um að geta gert betur við ungt fólk sem hefur dvalið í Rjóðri. Styrkurinn sem Fossar markaðir afhenda okkur í dag, og er afrakstur Takk dagsins í síðustu viku, verður til þess að við getum tekið það verkefni lengra og litið á þetta sem nokkurs konar stofnframlag. Vonandi mætum við svo góðum kröftum annars staðar í þjóðfélaginu sem aðstoðar okkur að vinna þetta enn lengra.“ 

Haraldur Þórðarson: „Þegar við kynntum okkur starfsemi Rjóðurs var ljóst að gríðarlega öflugt starf er unnið þar sem snýr að þörfum barna og fjölskyldna þeirra. Við vorum ákveðin í að tileinka daginn Rjóðri en fundum einnig vilja stjórnenda til að gera enn betur við eldri börn og ungmenni. Þörfin fyrir hjúkrun, endurhæfingu og afþreyingu ungmenna er enn til staðar þótt þau eldist og eigi ekki lengur rétt á þjónustu frá Rjóðri. Það eru erfið tímamót fyrir þessa einstaklinga og aðstandendur þeirra. Við vonum að framlag okkar í ár verði hvatning til þess að efla þjónustu Rjóðurs með því að opna nýja stuðningsdeild sem mætir betur þörfum eldri barna og ungmenna.“

Halda áfram að lesa

Heilsa

Forstjórapistill: COVID, hlaðvörp og þvottahús í yfirstærð

Kæra samstarfsfólk!

Nú hafa heilbrigðisyfirvöld aflétt nokkrum af þeim takmörkunum sem settar voru fyrir þremur vikum þegar líklegt þótti að stefndi í nýja bylgju COVID-19. Svo virðist sem tekist hafi að komast fyrir hana en áfram greinast þó smit utan sóttkvíar í samfélaginu sem kallar á að fólk sýni hér eftir sem hingað til sérstaka varkárni og viðhafi öflugar persónulegar sóttvarnir.

Farsóttanefnd Landspítala gaf í gær út leiðbeiningar vegna afléttinga hér á spítalanum sem ég hvet ykkur til að kynna ykkur vandlega.

Við leitum ýmissa leiða til að vera góðu sambandi við landsmenn og fylgjum þeim straumum sem helstir eru í því efni. Um allnokkra hríð hefur samskiptadeildin okkar haldið úti hlaðvarpi og nú eru hlaðvarpssyrpur vaxandi þáttur í upplýsingamiðlun Landspítala. Margir fylgjast með hlaðvörpunum „Brautryðjendur í hjúkrun“ og „Dagáll læknanema“ og nú bætist við „Geðvarp geðhjúkrunarfræðinga“. Í fyrsta þættinum ræða geðhjúkrunarfræðingar um samskipti í víðu samhengi. Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum en einnig í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes og í hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict.

Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem rúmlega 6.000 manns og 2.000 nemendur starfa og nema í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta í meira en 200 deildum. Starfsemin er flókin og ýmislegt sem þarf til svo hún gangi vel og greitt fyrir sig. Hluti starfseminnar er flestum hulin enda kemur hún ekki endilega upp í hugann þegar almenningur hugsar um þjónustu spítalans. Vöruhús Landspítala (áður birgðastöð) og þvottahús tilheyra vöruþjónustu Landspítala og fer meginstarfsemin fram á Tunguhálsi. Vöruhúsið hefur um 8000 vörunúmer og þjónustar Landspítala og aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu. Þvottahúsið okkar er mjög öflugt og þar eru þvegin heil 7 tonn af þvotti á dag og þótt tæknibúnaður sé öflugur þarf mannshöndin að koma að mörgum verkum. Sem dæmi brjótum við saman 2.000 starfsmannabuxur á degi hverjum. Í meðfylgjandi myndbandi er áhugverð innsýn í þessa miklu starfsemi á Tunguhálsi.

Góða helgi!
Páll Matthíasson

Halda áfram að lesa

Heilsa

Frá farsóttanefnd 15. apríl 2021

Frá farsóttanefnd:

Landspítali er á óvissustigi. 

Á Landspítala nú:

2 sjúklingar eru inniliggjandi vegna Covid-19 með virkt smit
– Annar sjúklinganna í gjörgæslu og öndunarvél
Ekkert andlát á Landspítala í 4. bylgju sem hófst 20. mars
79 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar, þar af 18 börn

Halda áfram að lesa

Heilsa

Fræðsluefni um lyf og leiðir til að trappa niður lyfjanotkun

„Þér kann að vera hætta búin“ nefnist fræðslubæklingur sem gefin hefur verið út um róandi lyf og svefnlyf sem ætlað er að fræða um lyfin og hjálpa fólki, í samvinnu við heilbrigðisstarfsmenn, til að meta hvort það geti stigið skref að betri heilsu og trappað lyfjanotkunina niður. 

Fræðslubæklingur þessi er afrakstur rannsóknarvinnu „The Canadian Deprescribing Network“ sem nefndist EMPOWER – Eliminating Medications Through Patient Ownership of End Results. Hann var prófaður í þeirri rannsóknarvinnu til að draga úr notkun róandi lyfja og svefnlyfja, þ.e. benzódíazepínum og svonefndra Z-lyfja.

Elín Ingibjörg Jacobsen lyfjafræðingur á Landspítala og Guðlaug Þórsdóttir lyf- og öldrunarlæknir á spítalanum þýddu og staðfærðu bæklinginn með leyfi þeirra sem gerðu hann upphaflega. Bæklingurinn er gefinn út í samvinnu við Embætti landlæknis með styrk fá Lyfjafræðingafélagi Íslands. 

Fræðslubæklinginn verður hægt að sækja í Fræðsluefni á vef Landspítala

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin