Heilsa

Fræðsluvefur um ágengar tegundir

16. ágúst 2022 | 10:18

Fræðsluvefur um ágengar tegundir

Umhverfisstofnun hefur opnað fræðsluvef um ágengar tegundir á Íslandi. Opnun vefsins er hluti af Norrænu samstarfsverkefni um ágengar tegundir. 

agengar.is 

Ágengar framandi tegundir sem sleppa út í náttúruna geta dreift sér hratt yfir stór svæði. Þessar tegundir ógna líffræðilegum fjölbreytileika og breyta landslagi

Að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika er mikilvægur þáttur í að viðhalda lífsgæðum okkar á jörðinni. Auðlindir og náttúrulegir ferlar sem eru okkur lífsnauðsynlegir byggjast á því að líffræðileg fjölbreytni sé til staðar.

Ágengar tegundir breyta næringarframboði í jarðveginum. Innlendar plöntur sem fyrir eru eiga því erfitt uppdráttar. Tegundir eins og Bjarnarkló geta auk þess ógnað heilsu fólks og ýtt undir jarðvegseyðingu.

Fræðsluefni fyrir almenning og skólastarf

Markmið með fræðsluvefnum er að upplýsa almenning um ágengar tegundir og vekja athygli á þessum málaflokki. 

Á vefnum má finna leiðbeiningar fyrir kennara sem hafa áhuga á að koma fræðslu um ágengar tegundir að í skólastarfinu. Þar eru einnig tillögur að verkefnum. 

Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og er unnið í samstarfi Umhverfisstofnunar og garðyrkjufélaga á Norðurlöndunum.  

Mynd: Skógarkerfill er ágeng framandi plöntutegund. Skógarkerfill er mjög lífsseigur og þegar hann hefur myndað þykka breiðu er nánast ógerningur að uppræta hann / agengar.is

Heilsa

Anna Sigrún til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar – Þórunn Oddný tekur við rekstri skrifstofu forstjóra

Anna Sigrún Baldursdóttir lætur þann 1. október 2022 af störfum á skrifstofu forstjóra og heldur til starfa á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Eins og kunnugt er stendur yfir vinna við skipulagsbreytingar á Landspítala og verða því við þetta tilefni tímabundnar breytingar á verkefnum og starfsemi skrifstofunnar.

Þórunn Oddný Steinsdóttir lögfræðingur tekur nú við rekstri skrifstofunnar sem skrifstofustjóri og mun heyra undir forstjóra. Þórunn er starfsemi Landspítala vel kunn enda starfað undanfarin 8 ár sem sérfræðingur, staðgengill skrifstofustjóra og settur skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Síðustu mánuði hefur hún unnið að stefnumótun og endurskoðun á löggjöf á sviði stjórnar fiskveiða í matvælaráðuneytinu.

Meðal helstu verkefna Þórunnar má nefna störf vegna nýrrar stjórnar Landspítala sem og framkvæmdastjórnar en að öðru leyti einkum stjórnsýsluleg verkefni skrifstofunnar, nýsköpunarmál, alþjóðlegt samstarf og endurskoðun skjalavistunarmála sem nú stendur yfir. Klínísk verkefni sem Anna Sigrún sinnti færast eftir atvikum til framkvæmdastjóra.

Þórunn Oddný er boðin innilega velkomin og Önnu Sigrúnu þökkuð farsæl störf á spítalanum undanfarin ár.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Kristján Óskarsson endurráðinn yfirlæknir barnaskurðlækninga

Kristján Óskarsson hefur verið endurráðinn yfirlæknir barnaskurðlækninga á Landspítala.

Kristján lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1990 og sérnámi í barnaskurðlækningum á barnaskurðdeild Rigshospitalet í Danmörku.  Hann hlaut sérfræðingsréttindi á Íslandi árið 2001. Kristján hefur starfað á Landspítala frá árinu 2001, fyrst sem sérfræðingur í barnaskurðlækningum en síðan í október 2017 sem yfirlæknir barnaskurðlækninga. Hann hefur stundað kennslu heilbrigðisstarfsfólks, sinnt vísindastörfum samhliða starfi og verið aðjúnkt við Háskóla Íslands frá 2017.

Halda áfram að lesa

Heilsa

Hulda Hjartardóttir endurráðin í stöðu yfirlæknis fæðingarteymis

Hulda Hjartardóttir hefur verið endurráðin í stöðu yfirlæknis fæðingarteymis í kvenna- og barnaþjónustu aðgerðasviðs Landspítala.

Hulda lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1988 og stundaði sérnám í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp á kvennadeild Landspítala 1989-1991 og við sjúkrahús í Leeds og Bradford á árunum 1991-1998. Hún lauk MRCOG prófi árið 1994 og fékk sérfræðiréttindi á Íslandi 1997 og í Bretlandi 1998. Frá því ári hefur hún starfað sem sérfræðilæknir á kvennadeild Landspítala með aðaláherslu á fósturgreiningu og áhættumæðravernd auk fæðingarhjálpar. Hún var settur yfirlæknir á meðgöngu- og fæðingadeildum 2007-2009 og hefur verið yfirlæknir fæðingateymis frá því í maí 2017.

Hulda hefur sinnt kennslu og vísindastörfum samhliða starfi og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í maí 2021. Ritgerðin fjallaði um ómskoðanir í fæðingum. Gæðastörf deildarinnar eru ávallt í fyrirrúmi og hefur Hulda lagt áherslu á áframhaldandi þróun í þeim efnum. Að auki er sífellt reynt að auka samstarf við heilsugæslu, önnur sjúkrahús og stofnanir á Norðurlöndunum í því augnamiði að tryggja sem besta meðferð í meðgöngu og fæðingu.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin