Veður

Framfarir í veðurspám með nýrri ofurtölvu

Grunnur samstarfsins liggur í aukinni þörf fyrir áreiðanlegri veðurspár sem undirbyggja og styðja ákvarðanatöku þegar kemur að vályndu veðri og áhrifum loftslagsbreytinga.

Grunnur samstarfsins liggur í aukinni þörf fyrir áreiðanlegri veðurspár sem undirbyggja og styðja ákvarðanatöku þegar kemur að vályndu veðri og áhrifum loftslagsbreytinga.


Fjögur lönd sameina krafta sína

10.11.2021

Veðurstofur Íslands, Danmerkur, Írlands og Hollands hafa tekið höndum saman um rekstur reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna með nýrri ofurtölvu sem staðsett verður á Veðurstofu Íslands. Markmiðið með samstarfinu er að stuðla að framþróun í skammtíma veðurspám og auka áreiðanleika gagna.  

Grunnur samstarfsins liggur í aukinni þörf fyrir áreiðanlegri veðurspár sem undirbyggja og styðja ákvarðanatöku þegar kemur að vályndu veðri og áhrifum loftslagsbreytinga. Fyrr á þessu ári lýsti Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (the Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) að fordæmalausar loftslagsbreytingar þýddu að mannkynið væri á “rauðu viðbúnaðarstigi” . Við erum að upplifa meiri öfga í veður mynstri en helsta ástæðan er loftslagshlýnun en þar sem spáð er ennþá aukinni hlýnun næstu áratugina er viðbúið að við munum sjá ennþá ýktari veður og erfiðara verður að spá fyrir hverju sinni.  

Samstarf þessara fjögurra veðurstofa gengur undir heitinu United Weather Centres – West en með samstarfinu eykst geta þjóðanna til að gæta að öryggi sínu gagnvart áhrifum aukinna öfga í veðri sem afleiðingar loftslagsbreytinga.  

Auk þess að veita nákvæmari skammtíma veðurspár, mun nýja ofurtölvan sem framleidd er af Hewlett Packard Enterprise (HPE), stuðla að framþróun á rannsóknum í loftslagsvísindum. Sú framþróun og samstarfið í heild sinni mun styðja við áætlanir stjórnvalda og atvinnulífs þegar kemur að aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga.   

Ofurtölvan á að vera komin í gagnið snemma árs 2023 og mun þá veita aðgang að nákvæmari háupplausna veðurspám sem bæta veðurþjónustu til framtíðar með áreiðanlegri veðurviðvörunum.

Slide2

Nauðsynlegt og metnaðarfullt samstarf  

Samstarf Veðurstofu Íslandsdönsku veðurstofunnarVeðurstofu Hollands og Veðurstofu Írlands, er hluti af stærra samstarfi á milli 10 ríkja um að keyra saman veðurlíkön og tilheyrandi ofurtölvur frá árinu 2027.   

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, segir að samstarf þessara þjóða eigi sér nokkuð langa sögu og þá ekki síst samstarf milli Danmerkur og Íslands. “Þetta samstarf í gegnum United Weather Centres er mjög mikilvægt varðandi frekari þróun í gerð veðurlíkana fyrir Ísland og athafnasvæði landsins í Norður-Atlantshafi og víðfemt þjónustusvæði Veðurstofunnar fyrir alþjóðaflugið. Veðurstofan leitar stöðugt leiða til að bæta þjónustu sína við íbúa og atvinnuvegi landsins. Þetta samstarf og rekstur þessarar ofurtölvu er liður í því”, segir Árni.  

Við gerð veðurspáa með veðurlíkönum þarf mikið magn upplýsinga um ástand lofthjúpsins og má þar nefna gögn frá veðurathugunarstöðvum, veðursjám og  gervitunglum. Til að vinnu úr slíku magni gagna þarf afkastamikla ofurtölvu. Með því að leiða saman krafta þessara landa í rekstri á nýrri ofurtölvu, er tekið stórt skref til framtíðar í veðurspám hvers lands fyrir sig, þar sem veðurspár verða uppfærðar ítarlega á klukkustundar fresti, sem er sérlega brýnt þegar veðurvá ber að garði. 

“Við viljum vera í stakk búin til að svara auknum kröfum um nákvæmari og ítarlegri veðurspár, bæði til að auka öryggi landsmanna og þeirra ferðamanna sem landið sækja. Loftslagsbreytingar kalla einnig á öflugri reiknigetu og meiri samvinnu við gerð loftlagssviðsmynda til þess að sem best mynd fáist á þær breytingar á veðráttu og veðurfari sem samfélagið stendur frammi fyrir og þarf að aðlaga sig að”, segir Árni. „Framtíðarsýn þessa hóps er síðan sú að víkka þetta samstarf þannig að það nái yfir líkön af fleiri kerfum jarðar; vatnafarinu, haffarinu og freðhvolfinu. Það liggja miklar áskoranir í því að skilja betur keðjuverkun breytinga í freðhvolfinu á önnur kerfi jarðar, svo sem lífríkið og hringrás vatnsins. Þar skiptir miklu máli að geta byggt upp þekkingu á þessu flókna samspili í gegnum reiknilíkön“.

Slide1

Umhverfisvæn lausn   

Ofurtölvan verður staðsett á Veðurstofu Íslands og standar framkvæmdir í tölvusal nú yfir en uppsetning á tölvunni sjálfri hefst í byrjun næst árs.

“Allar veðurstofurnar innan þessa samstarfs vilja leggja sitt að mörkum í báráttunni við loftslagsbreytingar með því að lágmarka kolefnisfótspor þeirrar þjónustu sem þær veita. Það er meðal annars þess vegna sem ofurtölvan er staðsett hér á Veðurstofu Íslands því við höfum aðgang að 100% endurnýjanlegum orkugjöfum. Svalt loftslag á Íslandi gerir það einnig að verkum að ekki þarf að eyða jafnmikilli orku í að kæla búnaðinn, sem sparar orku”, segir Árni forstjóri Veðurstofunnar að lokum. 

Veður

Hlaupið í Gígjukvísl líklega náð hámarki

Hlaupvatn streymir undir brúna yfir Gígjukvísl í síðdegissólinni í gær, 4. desember. Rennslið mældist þá um 2.600 rúmmetrar á sekúndu. (Ljósmynd: Veðurstofan – Gunnar Sigurðsson)


Veður hamlar mælingum á rennsli. Hlaupórói fer minnkandi

5.12.2021

Uppfært 5.12. kl. 16:15

Nýjustu rennslismælingar í Gígjukvísl sem gerðar voru milli 10.30 -13 í dag gáfu rennsli upp á um 2.800 m3/s. Rennslið mældist um 2.600m3/ síðdegis í gær. Rafleiðni hefur haldist nánast óbreytt frá því í gær, laugardag.

Íshellan hefur sigið um alls um 75m klukkan 14 í dag og hægt hefur verulega á siginu. Mælingar sýna einnig að talsvert hefur dregið úr hlaupóróa undir jökli frá því að óróinn náði hámarki í nótt. Hvoru tveggja eru vísbendingar um að Grímsvötn hafi tæmt sig af hlaupvatni að mestu. Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporði Skeiðarárjökuls og út í Gígjukvísl. Því má vera að hlaupið í farvegi Gígjukvíslar hafi þegar náð hámarki. Það verður hinsvegar ekki ljóst fyrr en hægt verður að gera nýjar rennslismælingar. Vatnamælingamenn á vegum Veðurstofunnar eru að störfum við Gígjukvísl en aðstæður til mælinga eru mjög slæmar vegna veðurs og því er ekki víst að nýjar mælingar berist fyrr en á morgun, mánudag.

Hlaup_trem_202111

Graf sem sýnir hlaupóróa. Mælingar sýna að hlaupórói undir jökli náði hámarki í nótt. Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporðinum og út í Gígjukvísl. Vöttur(vot) er mælitæki staðsett nokkurn veginn mitt á milli Grímsfjalls og sporðsins á Skeiðarárjökli.

Enginn gosórói mælist

Náið hefur verið fylgst með skjálftavirkninni við Grímsvötn. Talsvert hefur verið um ísskjálfta sem mælast þegar íshellan brotnar vegna atgangsins í hlaupinu. Enginn gosórói mælist, en vísindamenn munu halda áfram að greina þá skjálfta sem mælst hafa.

Í útsýnisflugi í gær sást nýr sigketill suðaustan við Grímsfjall og er staðsettur á svipuðum slóðum og farvegur hlaupvatns liggur úr Grímsvötnum undir jöklinum. Vísindamenn munu rýna í mælingar og gögn sem geta gefið vísbendingar um hvernig og hvenær ketillinn myndaðist, en viðbúið er að breytingar geti orðið á jarðhitakerfinu við Grímsvötn eftir atburðarás síðustu daga. Veður hefur hamlað útsýnisflugi í dag, en áfram verður fylgst náið með framgangi mála við Grímsvötn og Gígjukvísl.

Grimsvotn3

Sigketillinn sem sást í útsýnisflugi í gær suðaustur af Grímsvötnum. Horft í átt að eystri hnjúknum við Grímsvötn sem baðaður er síðdegissól. (Ljósmynd: Veðurstofan – Njáll Fannar Reynisson)


Uppfært 5.12. kl.11.00

Vatnamælingamenn Veðurstofunnar eru við mælingar á rennsli í Gígjukvísl en ekki er búist við niðurstöðum úr þeim mælingum fyrr en eftir hádegi í dag. Síðdegis í gær var rennslið komið í um 2.600 rúmmetra á sekúndu sem var í takt við spár um framgang hlaupsins. Íshellan í Grímsvötnum hefur sigið um 70 metra á einni og hálfri viku.

Farið var í útsýnisflug í gær og sýna myndir teknar í því flugi að vatnið kemur aðallega frá austanverðum Skeiðarárjökli, en einnig úr einni rás við miðjan jökulsporðinn.

Grimsvotn4_Skeidararjokull

Mynd tekin í útsýnisflugi í gær og sýnir hlaupvatn streyma undan austanverðum Skeiðarárjökli (Ljósmynd: Veðurstofan – Njáll Fannar Reynisson)


Uppfært 4.12. kl 15:15

Samkvæmt nýjustu mælingum sem teknar voru á milli 09:40-12:30 er rennsli í Gígjukvísl 2220 m3/s og rafleiðni mælist nú um 550µS/cm. Þessar mælingar eru í takti við þær rennslisspár sem gerðar hafa verið og er ennþá gert ráð fyrir að flóðið nái hámarki á morgun, sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð. Hlaupórói er enn vaxandi á Grímsfjalli og nálægum stöðvum og nokkrir skjálftar hafa mælst á svæðinu, sumir þeirra eiga líkleg upptök í ísnum yfir vötnunum eða þar sem vatnið ryður sér leið. Fylgst er náið með svæðinu.

Uppfært 3.12. kl 15:15

Samkvæmt nýjastu mælingum er rennsli í Gígjukvísl 1600 m3/s  og rafleiðni mælist 464 µS/cm og fer hækkandi.

Nýjustu mælingar falla áfram nokkuð vel að þeim rennslisspám sem gerðar hafa verið og gera ráð fyrir að flóðið nái hámarki að öllum líkindum næstkomandi sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð. Nýjustu útreikningar áætla að hámarksrennsli geti verið í kringum 4000 m3/s.

Áfram verður fylgst grannt með skjálftavirkni í Grímsvötnum.

Uppfært 2.12. kl. 16:00

Um 9 dagar eru frá því að íshellan í Grímsvötnum byrjaði að síga og hlaupvatn byrjaði að brjóta sér leið undir jöklinum. Nýjustu mælingar sýna að íshellan í Grímsvötnum hefur frá þeim tíma sigið um rúma 17 m. Vatnamælingamenn Veðurstofunnar mældu rennsli í Gígjukvísl um kl. 11 í morgun sem var þá tæplega 930m3/s og hefur rennslið því nær þrefaldast á um þremur sólarhringum. Þetta rennsli er 10-falt rennsli árinnar miðað við árstíma. Rafleiðni, sem gefur til kynna magn hlaupvatns í ánni, hefur einnig aukist undanfarna daga og mældist um 272 uS/cm kl. 13 í dag og fer hækkandi. Gas mælist í litlu magni við jökulsporðinn og er vel innan hættumarka


Vatnamælingamenn Veðurstofunnar að störfum við Gígjukvísl í dag. Gunnar Sigurðsson tekur aurðburðarsýni á brúnni yfir Gígjukvísl á Þjóðvegi 1. (Ljósmynd: Veðurstofan/Njáll Fannar Reynisson)

Rennslispár að ganga eftir en atburðarásin getur breyst

Nýjustu mælingar falla nokkuð vel að þeim rennslisspám sem gerðar hafa verið og gera ráð fyrir að flóðið nái hámarki að öllum líkindum næstkomandi sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð.

Eins og áður hefur komið fram, eru dæmi um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. Engir slíkir skjálftar hafa þó mælst nú.

Síðast gaus í Grímsvötnum 2011, en í það skiptið hafði hlaupið úr Grímsvötnum rúmum sex mánuðum áður. Síðan 2011 hefur svo hlaupið alls 6 sinnum úr Grímsvötnum án þess að eldgos verði.

Gosið hefur á fimm til tíu ára fresti úr Grímsvötnum og kemur vísindamönnum saman um að mælingar sýna að aðstæður eru með þeim hætti að Grímsvötn eru tilbúin að gjósa. Ekkert er þó hægt að fullyrða um að eldgos verði samfara þessu hlaupi og fylgjast þarf grannt með skjálftavirkni í Grímsvötnum sem gætu gefið vísbendingar um að gos sé yfirvofandi.

Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og munu birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður.


Uppfært 01.12 kl 12:10

GPS mælir Veðurstofunnar í Grímsvötnum sýnir að íshellan haldur áfram að síga og hefur hún sigið tæpa 10 metra frá því að hún mældist hæst.

Haedarbreyting-i-grimsvotnum

Hlaupvatn er nú komið fram í Gígjukvísl og hefur vatnshæð þar hækkað smátt og smátt í gærdag og nótt. Vatnamælingamenn frá Veðurstofunni eru á leið á vettvang og munu þeir fylgjast með þróun hlaupsins og mæla rennsli í ánni.

Gigjukvisl1

Gigjukvisl2

mynd : Gígjukvísl. Myndir teknar til suðurs með vefmyndavél Veðurstofu Íslands. Mynd frá 28. nóvember (A) og mynd tekin í morgun 1. desember (B).

Búast má við því að vatnshæð og rennsli haldi áfram að aukast í Gígjukvísl næstu daga. Jöklafræðingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hafa birt spálíkan sem gerir ráð fyrir því  að hámarksrennsli í þessum atburði verði náð kringum næstu helgi eða byrjun næstu viku. Rennsli úr Grímsvötnum hefur vaxið hægar í þessu hlaupi en í Grímsvatnahlaup 2010, og miðaðvið nýjustu gögn er búist við að hámarksrennsli i Gígjukvísl verði um 4000 m3/s. Engar líkur eru á að hlaupvatn fari í hinn gamla farveg Skeiðarár. Sjá nánari upplýsingar um spálíkanið á f acebook síðu Jarðvísindastofnunar. .


Uppfært 29.11. kl. 16.45

Íshellan hefur nú sigið um tæpa 5m. Vatnamælingamenn frá Veðurstofunni voru að störfum á bökkum árinnar í dag til að huga að mælitækjum. Rétt fyrir hádegi mældist rennsli árinnar um 240m3/s og hefur haldist óbreytt þegar þessi tilkynning er birt kl. 16.45 í dag. Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum gæti hámarksrennsli hlaupsins orðið um 5.000 m3/s þó ekkert sé hægt að fullyrða á þessu stigi að það verði raunin. Hlaupórói mælist á skjálftamælum, sem gefur til kynna að vatn er farið að streyma undir jöklinum. Rafleiðni hefur hinsvegar vaxið mjög hægt í ánni og ekkert gas mælist.

Mælingar á vegum Jarðvísindastofnunar Háskólans benda til þess að um 0.1km3 vatns hafi þegar farið úr vötnunum, sem er um 10% af því vatni sem var í Grímsvötnum áður en íshellan tók að síga. Ekki er þó sjálfgefið að vötnin tæmist.

Discharge_29112021

Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.

Uppfært 25.11. kl. 9.15

Sighraði á íshellu hefur haldist nokkuð jafn í nótt. GPS mælir Veðurstofunnar sýnir að hellan hefur sigið um 25 sm frá því um kl. 10 í gærmorgun.

Engar markverðar breytingar hafa mælst í Gígjukvísl hvort sem er vatnshæð, rafleiðni né gas.

Veðurstofan í samstarfi við vísindamenn Jarðvísindastofnunar Háskólans fylgjast áfram náið með þróun mála.

Uppfært 24.11. kl. 16.30

Vísindaráð almannavarna fundaði í dag um stöðu mála í Grímsvötnum en mælingar sýna að íshellan þar sé farin að síga sem er vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum.

Íshellan í Grímsvötnum hefur nú sigið um tæpa 60sm á síðustu dögum og hraðinn á siginu hefur verið að aukast síðasta sólarhringinn. Miðað við þessar mælingar eru allar líkur á því að vatn sé farið að streyma úr Grímsvötnum og að vona sé á hlaupi í Gígjukvísl. 

Miðað við fyrri hlaup má gera ráð fyrir að hlaupvatn komi fram við jökuljaðar á næstu tveimur dögum og muni ná hámarki á 4-8 dögum eftir það. Eins og er mælist engin aukning í rafleiðni í Gígjukvísl sem er skýrasta merki þess að hlaupvatn sé komið undan jöklinum. Veðurstofan er einnig með gasmæla við upptök Gígjukvíslar sem einnig gæfu vísbendingar um hvort hlaupvatn sé í farveginum. 

Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum núna má reikna með að hámarksrennsli hlaupsins verði um 5000 m3/s. Slíkt hlaup hefði að öllum líkindum lítil áhrif á á mannvirki s.s. vegi og brýr. Of snemmt er þó að fullyrða um hvert umfang hlaupsins getur orðið.

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. Engir slíkir skjálftar hafa mælst nú.

Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og munu birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður.


24.11. kl 14:00

Mælingar í Grímsvötnum benda til þess að íshellan sé farin að síga. Þetta gæti verið vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum. Vísindaráð almannavarna mun funda um stöðuna síðar í dag og frekari upplýsinga er að vænta að loknum þeim fundi.
Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Síðast gaus í Grímsvötnum 2011.

Halda áfram að lesa

Veður

Tíðarfar í nóvember 2021

Stutt yfirlit

3.12.2021

Tíð var nokkuð hagstæð í nóvember. Mánuðurinn var kaldari en meðalnóvembermánuður undanfarinn áratug um allt land. Úrkomusamt var á sunnan- og vestanverðu landinu. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í nóvember í Reykjavík síðan árið 1993.

Hiti

Í nóvember var meðalhiti í Reykjavík 2,1 stig. Það er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,6 stigum undir meðallagi undanfarinna tíu ára. Meðalhitinn var 0,3 stig á Akureyri sem er 0,3 stigum undir meðallagi síðustu þriggja áratuga og 0,7 stigum undir meðallagi síðastliðins áratugar. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 1,7 stig og á Höfn í Hornafirði var hann 2,1 stig.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðvum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 2,1 -0,1 55 151 -0,6
Stykkishólmur 1,7 -0,2 71 176 -0,6
Bolungarvík 1,0 -0,4 60 124 -1,0
Grímsey 1,0 -0,9 76 148 -1,5
Akureyri 0,3 -0,3 61 141 -0,7
Egilsstaðir 0,2 -0,4 30 til 31 67 -0,8
Dalatangi 2,8 -0,3 36 84 -0,8
Teigarhorn 2,2 -0,4 62 149 -0,9
Höfn í Hornaf. 2,1 -0,9
Stórhöfði 3,4 0,0 46 145 -0,4
Hveravellir -3,6 0,0 24 57 -0,6
Árnes 0,5 -0,3 60 til 61 142 -0,5

Meðalhiti og vik (°C) í nóvember 2021

Mánuðurinn var kaldari en meðalnóvembermánuður undanfarinn áratug um allt land. Hitavik mánaðarins var m.ö.o. neikvætt alls staðar þegar mánaðarhitinn er borinn saman við meðalhita nóvember síðustu tíu ára. Að tiltölu var hitavikið meira á norðan- og austanverðu landinu en á Suðvesturlandi. Neikvæða hitavikið var mest -1,7 stig á Vantsskarði eystra en minnst var það -0,1 stig við Skarðsfjöruvita.

Hitavik sjálfvirkra stöðva í nóvember miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 4,6 stig í Surtsey en lægstur var hann -5,4 stig í Sandbúðum. Lægsti meðalhiti í byggð var -3,1 stig í Svartárkoti.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,8 stig á mönnuðu stöðinni á Skjaldþingsstöðum þ. 22. Á sjálfvirkum stöðvum fór hitinn hæst í 13,9 stig, annars vegar þ. 14. á Skjaldþingsstöðum og hins vegar þ. 23. á Kvískerjum. Lægsti hiti mánaðarins mældist -18,9 stig í Svartárkoti þ. 12.

Úrkoma

Nóvember var úrkomusamur í Reykjavík. Þar var heildarúrkoma mánaðarins 139,6 mm sem er 61% yfir meðalúrkomu nóvembermánaðar á tímabilinu 1991 til 2020. Ekki hefur mælst eins mikil úrkoma í Reykjavík í nóvember síðan árið 1993. Á Akureyri mældust 59,9 mm sem er 88% af meðalúrkomu mánaðarins undanfarna þrjá áratugi. Í Stykkishólmi mældist heildarúrkoman 94,2 mm sem er yfir meðallagi 1991 til 2020.

Úrkoma var 1,0 mm eða meiri 22 nóvemberdaga í Reykjavík, níu fleiri en í meðalári. Á Akureyri var úrkoman 1,0 mm eða meiri 13 daga sem er þremur fleiri en að meðaltali.

Snjór

Jörð var alhvít einn nóvembermorgun í Reykjavík og alauð 24 morgna. Á Akureyri voru alauðir morgnar 8 og alhvítir morgnar 15, þremur fleiri en í meðalári síðustu þrjá áratugi en fimm daga umfram meðallag undanfarins áratugar.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir mánaðarins mældust 21,7 í Reykjavík sem er 18 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 13,9 sólskinsstundir í mánuðinum sem er 1,3 stundum undir meðallagi undangenginna þriggja áratuga.

Vindur

Á landsvísu var vindur 0,4 m/s undir meðallagi nóvembermánaðar. Hvassast var 13. (suðaustanátt) og 14. (sunnanátt) daga mánaðarins.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1004,9 hPa sem er 3,9 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1040,1 hPa á Grundarfirði þ. 24. Lægstur mældist loftþrýstingur 967,2 hPa í Grindavík þ. 9.

Fyrstu ellefu mánuðir ársins

Fyrstu ellefu mánuði ársins var meðalhiti í Reykjavík 5,7 stig og er það 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn raðast í 21. til 22. sæti á lisita 151 árs í Reykjavík. Á Akureyri var meðalhitinn 5,2 stig fyrstu ellefu mánuði ársins. Það er 0,5 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020 og 0,2 stigum yfir meðallagi síðastliðinna tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 8. sæti á lista 141 árs.

Úrkoma fyrstu ellefu mánaðanna var 86% af meðallagi áranna 1991 til 2020 í Reykjavík en á Akureyri var hún 18% yfir meðallagi sama tímabils. Þegar borið er saman við síðustu tíu ár er úrkoman 80% af meðalúrkomu í Reykjavík en 8% yfir meðallagi á Akureyri.

Haustið (október og nóvember)

Í Reykjavík var meðalhiti haustsins 3,9 stig sem er 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu þriggja áratuga en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn í höfuðborginni raðast í 37. sæti á lista 151 árs. Meðalhiti haustsins var 1,6 stig á Akureyri. Það er 0,5 stigum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 1,3 stigum undir meðallagi áranna 2011 til 2020. Haustmeðalhitinn á Akureyri raðast í 72. til 74. sæti á lista 141 árs.

Samanlögð úrkoma október- og nóvembermánaða mældist 194,7 mm í Reykjavík. Það er 28,5 mm eða 17% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 8,9 mm eða 5% yfir meðaltali síðustu tíu ára. Úrkoma haustsins mældist 224,7 mm á Akureyri sem er 82,4 mm eða 58% umfram meðallag síðustu þriggja áratuga og 77,3 mm eða 52% umfram meðallag tímabilsins 2011 til 2020. Ekki hefur mælst eins mikil haustúrkoma á Akureyri síðan árið 2011.

Skjöl fyrir nóvember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2021

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu

Halda áfram að lesa

Veður

Lokafundur EUROVOLC samstarfsverkefnisins

Hluti þátttakenda fór í feltferð að gosstöðvunum á Reykjanesi

Hluti þátttakenda fór í feltferð að gosstöðvunum á Reykjanesi. Mynd: Veðurstofa Íslands


Ávinningur verkefnsins mikill þegar kemur að rannsóknum og vöktun eldstöðva

29.11.2021

Lokafundur EUROVOLC samstarfsverkefnisins fór fram dagana 16.-18. nóvember. Verkefnið, sem miðar að samstarfi og samtengingu evrópskra eldfjallaeftirlits- og rannsóknarstofnanna hóf göngu sína 1. febrúar 2018 og átti að standa yfir í 3 ár. Þegar ljóst var að kórónuveirufaraldurinn myndi hafa mikil áhrif á verkefnið sökum ferðabanns og/eða -takmarkana sótti verkefnisstjórn um 10 mánaða framlengingju sem samþykkt var af Evrópusambandinu í desember 2020 og verkefnið því framlengt til 30. nóvember 2021. Framlengingin var afar mikilvæg, sér í lagi fyrir framkvæmd sérstakra rannsóknarverkefna sem styrkt voru af EUROVOLC, en verkefnið bauð vísindamönnum að sækja um aðgang að innviðum evrópsku eldfjallarannsóknarstofnanna. Slíkar eldfjallaeftirlitsstöðvar eru meðal annars á Reunion-eyju í Indlandshafi og á Gualdeloupe og Montserrat eyjum í Karíbahafi. Umsækjendur gátu sótt um að framkvæma rannsóknir og fá aðgang að annars óaðgengilegum rannsóknarinnviðum og gögnum. Framlengingin varð til þess að af 39 samþykktum rannsóknarverkefnum féllu aðeins 3 niður.

Sottvarnir

Mæting var góð þrátt fyrir hertar aðgerðir sóttvarnaryfirvalda. Mynd: Hanna Blanck.

Verkefnið er Veðurstofunni mikilvægt

Í anda nýrra viðmiða í fundarhöldum vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins var mæting á lokafundinn tvíþætt og sótti helmingur þátttakenda fundinn í gegnum fjarfundarbúnað en aðrir gerðu sér ferð til Íslands. Alls sóttu um 70 manns fundinn. Við upphaf fundarins ávarpaði Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands fundargesti og undirstrikaði mikilvægi verkefna og samstarfs á borð við EUROVOLC og annarra verkefna eins og EPOS (European Plate Observing System) sem Veðurstofan hefur tekið virkan þátt í. Slík innviðaverkefni gegna mikilvægu hlutverki í uppbyggingu og eflingu innviða, auk þess að beina augum stjórnvalda að mikilvægi rannsókna af þessu tagi. Verkefni á borð við EUROVOLC hafa fjármagnað vöktun og rannsóknir á eldfjöllum um alla Evrópu og eru því gríðarlega mikilvæg fyrir alla virðiskeðjuna.

Ávinningur EUROVOLC, sem Evrópusambandið styrkti um 5 milljónir evra og hvers heildarumfang er 6 milljónir evra, mælist í auknum afurðum af ýmsum gerðum eldfjallagagna og -afurða, þróun aðferðafræði og hugbúnaðar, stöðlun og samþættingu bestu starfsvenja (e. standard of best practice) og aukins samstarfs vísindamanna ólíkra stofnanna á sviði eldfjallarannsókna og -vöktunar um alla Evrópu.

Framtíðarsýn eldfjallasamfélagsins rædd á fundinum

Að þessu sinni var áhersla fundarins á þau fjögur þemu sem verkefnið byggðist upp á, fremur en að einblínt væri á vinnu stakra verkþátta. Heildstæð niðurstaða verkefnisins innan þemanna:  (1) ,,Community building“, (2) ,,Volcano-atmosphere interaction“, (3) ,,Sub-surface processes“ og (4) ,,Volcanic crisis preparedness and risk management“ var kynnt og framtíðarhorfur ræddar. Þar sem verkefninu lýkur formlega þann 30. nóvember var fundurinn í senn uppskeruhátíð í bland við umfjöllun um framtíðarsýn eldfjallasamfélagsins. Á fundinum voru ennfremur flutt stutt erindi um eldfjallatengda atburði víðsvegar um Evrópu þetta árið, s.s. um eldgos og óróa í Fagradalsfjalli, Etnu og  Vulcano á Ítalíu og La Palma á Kanaríeyjum.

KristinogGiuseppe

Kristín S. Vogfjörð (VÍ) og Giuseppe Puglisi (INGV) sameinuðu krafta sína þegar styrkumsóknin var skrifuð til Evrópusambandasins. Mynd: Hanna Blanck.

Formlegum fundi lauk á umræðum um næstu skref eldfjallasamfélagsins og var það einróma álit hópsins að afurðum verkefnisins yrði best komið innan rafrænna þjónusta EPOS samtakanna. Lokaorð fundarins áttu Giuseppe Puglisi, INGV (Instituto nazionale di geofisica e vulcanologia); Patrick Allard, stjórnarformaður alþjóðlega eldfjallarannsóknarsamfélagsins IAVCEI (International Association of Volcanology and Chemistry of the Earth’s Interior), og Kristín S. Vogfjörð, Veðurstofu Íslands, sem leitt hefur verkefnið frá upphafi.

Kroppud-mynd

Hluti þátttakenda fór í feltferð að gosstöðvunum á Reykjanesi. Þeir þátttakendur sem sáu sér fært að heimsækja okkur á Íslandi fögnuðu saman í kvöldverði og botninn var sleginn með frábærri ferð til gosstöðvanna á Fagradalsfjalli undir leiðsögn Freysteins Sigmundssonar (HÍ), Ármanns Höskuldssonar (HÍ) og Söru Barsotti (VÍ). Hanna Blanck (VÍ) var til taks til að svara spurningum um jarðskjálfta og Bergrún Óladóttir um gjósku. Á fjallinu fundum við Björn Oddsson (Almannavarnir) sem fór yfir áskoranirnar sem hans deild tókst á við þegar eldgos verður að helsta aðdráttarafli túrismans í miðjum heimsfaraldri. Mynd: Ríkey Júlíusdóttir

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin