Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endanlegt skiptihlutfall vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2019. Áður hafa verið gefnar út þrjár áætlanir fyrir árið. Breytingar sem verða á skiptihlutfalli frá þriðju áætlun eru til komnar vegna nýliðunar, endurmats og öðrum minniháttar uppfærslum. Nýsamþykkt og endanlegt skiptihlutfall byggir því á uppfærðum tölum og endurspeglar betur þann kostnað og þá þjónustu sem þjónustusvæðin veita. Áætlað er framlög ársins nemi rúmum 16,7 milljörðum króna.

Ráðherra hefur einnig samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um úthlutun framlaga vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) á árinu 2019, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 145/2019.
Alls voru gerðir 90 NPA samningar á árinu 2019 og nemur heildarfjárhæð þeirra 1.728,4 m.kr. Jöfnunarsjóður greiðir 25% af þeim kostnaði og því nema framlög sjóðsins vegna NPA samtals 438,1 m.kr. á árinu 2019. Framlögin koma til greiðslu á næstu dögum.

Loks hefur ráðherra samþykkt tillögu ráðgjafarnefndarinnar um úthlutun framlaga vegna lengdrar viðveru fatlaðra grunn- og framhaldsskólanemenda á árinu 2019. Framlögin falla undir heildarfjárhagsramma vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Fjármagn til ráðstöfunar nemur samtals 180.000.000 kr. á árinu 2019 og er gert ráð fyrir að 142.000.000 kr. komi til úthlutunar vegna lengdrar viðveru fatlaðra grunnskólanemenda og 38.000.000 kr. vegna lengdrar viðveru fatlaðra framhaldsskólanemenda. Allir útreikningar byggja á umsóknum þjónustusvæða. Framlögin koma til útgreiðslu á næstu dögum.