Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Framtíðin björt fyrir blak og strandblak

08.06.2021

49. ársþing Blaksambands Íslands (BLÍ) var haldið 5. júní og var vel sótt af fulltrúum félaganna og íþróttahéraða. Ekkert mótframboð var á móti sitjandi formanni, Grétari Eggertssyni, og var hann því kjörinn með lófaklappi. Inn í stjórn BLÍ komu Steinn Einarsson og Valgeir Bergmann Magnússon. Þrjár konur voru kosnar inn sem varamenn í stjórn BLÍ, þær Ásta Sigrún Gylfadóttir, Fríða Sigurðardóttir og Hildur Mósesdóttir. Árni Jón Eggertsson hætti í stjórn sambandsins eftir 7 ár sem gjaldkeri. Í þinglok var honum þakkað fyrir vel unnin störf í þágu hreyfingarinnar og honum afhentur blómvöndur. Svandís Þorsteinsdóttir hætti einnig í stjórn BLÍ og var þakkað sérstaklega fyrir sitt framlag en hún var því miður ekki viðstödd.

Fyrir þinginu lágu tillögur um viðbætur í lög BLÍ vegna aga- og úrskurðarnefndar og dómstóls BLÍ. Laganefnd þingsins tók fyrir breytingartillögur um lög BLÍ sem voru samþykktar og staðfestar á ársþinginu. Er því komin aga- og úrskurðarnefnd inn í starfsemi BLÍ ásamt áfrýjunardómstól sem er æðsta dómstig innan sambandsins. Nánari upplýsingar um um samþykktar tillögur á þinginu verða aðgengilegar á heimasíðu BLÍ þegar búið verður að vinna úr gögnum þingsins.

Þremur einstaklingum var veitt heiðursmerki BLÍ úr silfri, fyrir óeigingjarnt starf í þágu blakíþróttarinnar á Íslandi, enda hafa þau verið starfandi í sínum félögum svo árum skiptir. Það voru þau Arnar Már Sigurðsson, Knattspyrnufélagi Akureyrar (KA), Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir, Íþróttafélaginu Þrótti á Neskaupstað og Sigurður Jón Hreinsson, Íþróttafélaginu Vestra.

Hafsteinn Pálsson 2. varaforseti ÍSÍ flutti ávarp á ársþinginu. Í máli hans kom fram hvatning til blakhreyfingarinnar að standa vörð um fyrirtæki hreyfingarinnar, Íslenska getspá og von um bjartari tíma án heimsfaraldurs í framtíðinni.Guðmundur Helgi Þorsteinsson flutti ávarp um stöðu verkefnisins „BIG4 Good Governance in Volleyball Federations”. Burkhard Disch fjallaði um sitt starf hjá sambandinu en hann hefur verið á landinu síðustu fjórar vikurnar í vinnu við að heimsækja félögin. Honum líst vel á framtíð blaks á Íslandi og bindur vonir við að skólamót BLÍ í haust verði árangursríkt og fjölgi iðkendum í íþróttinni. Alls eru 12 blakviðburðir skipulagðir í október um allt land.Grétar Eggertsson formaður sleit þingi og þakkaði traustið sem honum er sýnt í embætti formanns BLÍ. Hann sagðist telja framtíðina bjarta fyrir blak og strandblak á Íslandi.

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Ólympíudeginum fagnað í Hveragerði

24.06.2021

Á hverju ári er haldið upp á Alþjóða Ólympíudaginn þann 23. júní út um allan heim í tilefni af stofnun Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) 23. júní 1894. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) fagnaði Ólympíudeginum 2021 í gær ásamt alþjóðaólympíuhreyfingunni og íþrótta- og Ólympíusamböndum um heim allan.

Ólympíudagurinn á Íslandi var haldinn hátíðlegur í Lystigarðinum í Hveragerði í gær í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðinn og Hveragerðisbæ. Föruneyti ÍSÍ lagði snemma af stað ásamt Valdimari Gunnarssyni framkvæmdastjóra Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) sem lánaði ÍSÍ kerru fulla af ýmsu skemmtilegu dóti til íþróttaiðkunar. Í Lystigarðinum tóku þau Guðríður Aadnegard formaður HSK og Engilbert Olgeirsson framkvæmdastjóri á móti hópnum en þau voru ÍSÍ innan handar með skipulag og framkvæmd dagsins. Einnig heilsaði bæjarstóri Hvergerðinga Aldís Hafsteinsdóttir upp á mannskapinn. 

Á Ólympíudeginum er kjörið að spreyta sig á ýmiss konar íþróttum og þrautum, en ekki einungis íþróttum sem keppt er í á Ólympíuleikum. Í Lystigarðinum voru settar upp fjórar ólíkar stöðvar; skotfimi, ringó, krossbolti/fótbolti og æfing sirkusatriða. Um 40 unglingar Vinnuskólans mættu á svæðið, skipt var í hópa og fjörið hófst. Unglingarnir tóku virkan þátt og voru áhugasamir um að læra nýjar, skemmtilegar íþróttir. Veðrið var gott og sól skein í heiði. Mikla lukku vakti fimleikameistarinn Jón Sigurður Gunnarsson, en hann bauð unglingunum upp á að læra sirkusatriði eins og að djöggla með keilum og boltum, snúa diskum á spýtu o.fl., en einnig er óhætt að segja að skotfimin hafi vakið mikinn áhuga unglinganna.  Í lokin var grillað og fóru því sáttir unglingarnir aftur í vinnuna eftir skemmtilegan morgunn.

Eftir hádegi mætti yngri kynslóðin í garðinn.  Hópurinn taldi um 60 krakka á aldrinum 5-10 ára sem flest voru á leikjanámskeiðum í bænum. Krökkunum var skipt á fjórar ólíkar stöðvar sem flestar byggðust á leikjum en svo var ein sirkusstöð. Eftir að krakkarnir höfðu farið á allar stöðvar mætti Blossi á svæðið og dansaði með krökkunum, en hann vekur alltaf lukku. Í lokin fengu allir íspinna í boði Kjöríss.

Allur dagurinn var tekinn upp og sýndur í Story á Instagram aðgangi ÍSÍ (@isiiceland)

Á morgun föstudag verður Elísa Viðarsdóttir næringar- og matvælafræðingur og landsliðskona í knattspyrnu með hádegisfyrirlestur í E-sal Íþróttamiðstöðvarinnar í tilefni af Ólympíudeginum. Sýnt verður beint frá fyrirlestrinum á fésbókarsíðu ÍSÍ.

Myndir frá Ólympíudeginum í Hveragerði má sjá hér.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Hádegisfundur um næringarfræði íþróttafólks

24.06.2021

Föstudaginn 25. Júní kl. 12 verður Elísa Viðarsdóttir matvæla- og næringafræðingur og landsliðskona í knattspyrnu með fyrirlestur um næringarfræði íþróttafólks í E-sal Íþróttamiðstöðvarinnar og ber fyrirlesturinn titilinn Næringarfræðsla og ráðgjöf fyrir íþróttahreyfinguna: Þarfagreining með Delphi aðferð. Fyrirlesturinn er byggður á meistaraprófsritgerð hennar í næringarfræði íþróttafólks. Hádegisfundurinn er haldinn í tilefni af Ólympíudeginum en hann er haldinn hátíðlegur af Alþjóða Ólympíuhreyfingunni um allan heim þann 23. júní ár hvert og dagana í kringum afmælið.

Um innihald fyrirlestursins segir Elísa: ,,Mataræði skiptir miklu máli þegar kemur að frammistöðu íþróttafólks. Mikilvægt er að uppfylla þarfir líkamans fyrir orku-, vítamín, steinefni og önnur holl efni með næringarríkum mat auk þess að tímasetja máltíðir rétt og drekka nægilegan vökva. Næringarþekking íþróttafólks getur haft veruleg áhrif á hvernig það sinnir sínum næringarþörfum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að næringarþekking íþróttafólks er ekki nægilega góð og nýleg rannsókn sem var gerð á íslensku afreksíþróttafólki og þjálfurum þeirra sýndi slíkt hið sama. Markmið verkefnisins var að kanna hvernig nágrannalöndin hafa mótað stefnur þegar kemur að næringarfræðslu til íþróttamanna og nýta þá þekkingu til að finna hentuga nálgun fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi. Markmiðið var að ná samstöðu (e. consensus) um þarfir og óskir þeirra aðila sem vinna innan sérsambandanna annars vegar og íþróttanæringafræðingum/ráðgjöfum hins vegar til að þróa næringarfræðslu og ráðgjöf fyrir íþróttahreyfinguna”. Í fyrirlestrinum mun íþróttamaður segja frá reynslu sinni eftir að hafa tekið mataræði sitt í gegn. Sýnt verður beint frá fyrirlestrinum á fésbókarsíðu ÍSÍ.

Þú getur fylgst með viðburðinum hér.

Halda áfram að lesa

Íþrótta og ólympíu samband Íslands

Einn mánuður í setningu ÓL í Tókýó – Útgáfa smáforrits

23.06.2021

Ólympíuleikarnir í Tókýó verða settir föstudaginn 23. júlí nk. og í dag er því einn mánuður í að leikanir hefjist formlega með setningarhátíð á Ólympíuleikvanginum.

Í Tókýó er allt tilbúið fyrir leikana. Keppnismannvirki eru glæsileg og Ólympíuþorpið ekki síðra en það er staðsett í fallegu umhverfi við flóann (Tokyo Bay).

Skipuleggjendur í Tókýó settu í loftið í dag nýtt smáforrit sem tilvalið er að niðurhala í símann sinn. Smáforritið er hugsað fyrir alla áhugasama um Ólympíuleikana og Paralympics í Tókýó. Þar er að finna allar helstu upplýsingar um leikana, keppnisdagskrá, birting úrslita þegar þar að kemur, upplýsingar um mannvirki og fréttir. Með ákveðnum stillingum getur hver og einn getur fengið valdar upplýsingar um sínar uppáhalds keppnisgreinar og fengið sérsniðnar tilkynningar og áminningar því tengdu. Einnig er hægt að fylgjast með kyndilhlaupinu sem fer um marga af þekktustu stöðum Japans. Þar sem leikarnir verða ekki opnir fyrir áhorfendur utan Japans þá hafa skipuleggjendur lagt mikið í smáforritið og vonast til að það hjálpi til við að færa leikana nær áhorfendum og aðdáendum um allan heim. Í forritinu eru einnig nokkrir leikir sem tengjast leikunum, svo sem Trivia, Magic Moments, Fantasy og Bracket Challenge.

Hér er hægt að nálgast forritið til niðurhals.

„Þessi leikar verða óvenjulegir á margan hátt“, segir Andri Stefánsson, sem verður aðalfararstjóri íslenska hópsins. „Heimsfaraldurinn hefur mikil áhrif á undirbúning og þátttöku og er að mörgu að hyggja í lokaundirbúningnum. Þessir leikar eru með þeim flóknari sem við höfum komið að og óvissan gagnvart mörgum þátttum er meiri en oft áður. Þeir aðilar sem vinna sér inn þátttökurétt munu án efa standa sig vel á leikunum og við hlökkum til að sjá hvernig endanlegur keppendahópur lítur út í byrjun næsta mánaðar“.

Ekki liggur enn fyrir hversu margir íslenskir keppendur verða á leikunum, en það stefnir í að þeir verði færri en oft áður. Fjölmargir þættir hafa áhrif á úthlutun sæta á leikana og eru reglur íþróttagreina mismunandi. Þannig er hægt að ná lágmörkum í sumum greinum, í öðrum gildir árangur á ákveðnum mótum og þá eru einnig heimslistar ráðandi í fjölmörgum íþróttagreinum. Auk þessa eru til ýmsar útfærslur þar sem allir þessir þættir hafa áhrif á úthlutun sæta.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin