Innlent

Fundu verndandi arfgerð gegn riðuveiki í íslensku sauðfé

Hin klassíska verndandi arfgerð gegn riðuveiki í sauðfé, ARR, hefur nú fundist í fyrsta sinn í íslenskri kind. Þetta er stórmerkur fundur, því hér er um að ræða arfgerð sem er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi og unnið hefur verið með í löndum Evrópusambandsins við útrýmingu riðu með góðum árangri. Arfgerðin hefur aldrei áður fundist í sauðfé hérlendis þrátt fyrir víðtæka leit. Þessi fundur gefur miklar vonir um að fé með ARR arfgerðina geti fundist víðar á landinu.

Svandís Svavarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra:

„Þessar fréttir gefa fyrirheit um að eftir áratuga baráttu sé loksins komin leið til að vinna lokasigur á riðuveiki á Íslandi. Næstu skref eru að greina hversu útbreitt hin verndandi arfgerð er og með hvaða hætti megi nýta sér þessa nýju þekkingu í ræktunarstarfi.

Síðastliðið vor var hleypt af stokkunum tveim rannsóknarverkefnum sem höfðu sama meginmarkmið –  að leita að verndandi arfgerðum gegn riðu í íslensku sauðfé.

Annars vegar eru það sérfræðingar á Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og hins vegar sauðfjárbóndinn Karólína Elísabetardóttir ásamt erlendum vísindamönnum sem standa fyrir rannsóknunum. Þessi rannsóknaverkefni hlutu bæði styrk úr Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar sem er í umsjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Forsvarsmenn þessara verkefna mynduðu síðan teymi sem unnið hefur saman að leitinni.

Þegar raðgreind höfðu verið rúmlega 4.200 sýni, sem bæði tilheyra þessari rannsókn og öðrum verkefnum á síðustu 10 mánuðum gerðist hið óvænta, sex gripir fundust á Austurlandi sem bera arfgerðina ARR. Kindurnar eru allar á bænum Þernunesi í Reyðarfirði og eftir frekari rannsóknir fundust fjórir skyldir gripir til viðbótar á bænum sem bera þessa arfgerð. Kindur þessar eru kollóttar og rekja ættir sínar m.a í kollótta féð í Reykhólasveit og á Ströndum.

Þessi fundur gefur miklar vonir um að fé með ARR arfgerðina geti fundist víðar á landinu. Það kemur sér vel að um þessar mundir er að hefjast stórátak meðal bænda í riðuarfgerðargreiningum, þar sem áætlað er að ná a.m.k. upplýsingum um arfgerðir 15 þúsund gripa til viðbótar nú í vetur. Fyrir ræktunarstarfið verður áskorunin á næstu árum að koma ARR arfgerðinni sem hraðast inn í stofninn án þess að draga um of úr erfðafjölbreytileika hans, en um er að ræða langtíma uppbyggingarstarf. Vonir standa til að áframhaldandi leit í stofninum skila upplýsingum um fleiri gripi með þessa arfgerð.

Nánar má lesa um fundinn og arfgerðina á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Alþingi

Nefndadagar miðvikudaginn 25. maí og föstudaginn 27. maí

23.5.2022

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru nefndadagar miðvikudaginn 25. maí og föstudaginn 27. maí. Samkvæmt venju verður fundað bæði fyrir og eftir hádegi í nefndum. Við ákvörðun um fundartíma er reynt að gæta samræmis og mið tekið af stöðu mála í nefndum og fundaþörf nefnda.

Miðvikudagur 25. maí

  • Kl. 9–12: Fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd
  • Kl. 13–14: Þingflokksfundir
  • Kl. 14–16: Allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd

Föstudagur 27. maí

  • Kl. 9–12: Fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd
  • Kl. 13–16: Allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd

Endanlegir fundartímar og dagskrár birtast á vef Alþingis.

Halda áfram að lesa

Innlent

Fréttir frá félagsfólki SVÞ | Waldorfsskólinn hlaut foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Mbl.is birtir í dag frétt um foreldraverðlaun Heimilis og skóla sem Waldorfsskólinn hlaut frá samtökum.

For­eldra­verðlaun Heim­il­is og skóla voru af­hent í 27. sinn í Safna­hús­inu við Hverf­is­götu. Waldorf­skól­inn í Lækj­ar­botn­um hlaut verðlaun­in í ár fyr­ir verk­efnið „Vinnu­dag­ar Lækj­ar­botna og gróður­setn­ing plantna á skóla­setn­ingu“.

Fram fór hátíðleg at­höfn í Safna­hús­inu við Hverf­is­götu og mættu þau Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, og El­iza Reid for­setafrú til að ávarpa sam­kom­una og af­henda verðlaun­in.

SMELLIÐ HÉR FYRIR FRÉTT Á MBL.IS

Ljósmynd: Stjórnarráðið

Halda áfram að lesa

Innlent

Tuttugu og þrír nemendur útskrifast frá Jafnréttisskóla GRÓ

Jafnréttisskóli GRÓ (GRÓ-GEST) útskrifaði 23 sérfræðinga frá 15 löndum á föstudag, en þá var útskrift fjórtánda nemendahóps skólans frá upphafi fagnað í hátíðarsal Háskóla Íslands. Alls hafa nú 195 nemendur, frá 34 löndum útskrifast frá Jafnréttisskólanum með diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Í ár voru í fyrsta sinn nemendur við skólann frá Moldóvu, Pakistan og Simbabve.

Í útskriftinni fengu tveir nemendur verðlaun fyrir lokaverkefni sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur verndara Jafnréttisskólans. Að þessu sinni féllu verðlaun fyrir rannsóknarverkefni í skaut Nicole Wasuna. Verkefni hennar fjallar um morð á konum í heimalandi hennar Kenía og hún setti þar fram tillögur að stefnumótun sem snúa meðal annars að þjálfun starfsmanna lögreglu, dómsstóla og fjölmiðla. Verðlaun fyrir lokaverkefni hlaut Sandani N. Yapa Abeywardena, en hún fjallaði um meðferð kynferðisbrotamála fyrir dómstólum í Sri Lanka. Hún skoðaði dóma í nauðgunarmálum, alvarlegum kynferðisafbrota- og áreitnimálum og hvernig dómarar líta á kynferði við túlkun laga um kynbundið ofbeldi og trúverðugleika fórnarlamba.

Ávörp fluttu Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sem færði nemendum hamingjuóskir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, en Jafnréttisskólinn er hýstur af hugvísindasviði Háskólans, og Dr. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ. Diana Motsi, nemandi frá Zimbabwe flutti áhrifamikið ljóð, sem hún samdi sjálf og Maame Adwoa Amoa-Marfo frá Gana flutti ávarp fyrir hönd nemenda. Nemendur tóku við skírteinum sínum frá Ólöfu Garðarsdóttur, forseta Hugvísindasviðs HÍ, og Nínu Björk Jónsdóttir, forstöðumanni GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu.

Jafnréttisskólinn er einn fjögurra skóla sem GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfrækir á Íslandi undir merkjum UNESCO. Hinir skólarnir eru Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn, en GRÓ er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Samtals hafa nú 1.536 nemendur, frá rúmlega 100 löndum, lokið námi við skólana fjóra. Að auki hafa fjölmörg styttri námskeið verið haldin á vettvangi. Einnig veitir GRÓ skólastyrki til útskrifaðra nemenda til meistara- og doktorsnáms við íslenska háskóla.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin