Innlent

Fyrsta opinbera heimsókn íslensks forsætisráðherra til Grænlands síðan 1998

Áframhaldandi gott samstarf Íslands og Grænlands var efst á baugi í opinberri heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til Nuuk sem fram fór í gær og fyrradag. Heimsóknin var í boði Múte B. Egede, formanns grænlensku landsstjórnarinnar, og fyrsta heimsókn íslensks forsætisráðherra til Grænlands síðan árið 1998. Á fundi þeirra Katrínar var rætt um náið samstarf landanna og þau tækifæri sem eru fyrir hendi til að efla samskiptin enn frekar. Þar voru Katrín og Múte sammála um að leggja áherslu á mögulegan fríverslunarsamning, sjávarútveg og ferðaþjónustu, menntun og rannsóknir, jafnrétti og orku- og loftslagsmál. Þau fyrirhuga annan fund síðar á árinu til að formgera þessa samskipti frekar.

Þau ræddu einnig sérstaklega þær áskoranir sem löndin tvö standa frammi fyrir á sviði loftslagsmála þar sem bráðnun jökla og önnur áhrif hlýnunar jarðar raungerast á degi hverjum. Ráðherrarnir ræddu einnig stöðuna á alþjóðavettvangi, auðlindanýtingu og ýmis samfélagsmál sem Ísland og Grænland eiga sameiginleg.

„Íslendingar og Grænlendingar eru nágrannar og vinir og eiga margvíslega sameiginlega hagsmuni. Það eru mikil tækifæri til aukins samstarfs á sviði loftslags- og orkumála, verslunar og viðskipta, aukinnar verðmætasköpunar í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, jafnréttismála og menntunar og rannsókna. Það er mjög jákvætt að við stefnum nú að því að formfesta þessi samskipti og ég sé fyrir mér að samstarfið verði kröftugra og skapi enn fleiri tækifæri.“

Forsætisráðherra átti einnig fund með Naaju Nathanielsen, fjármálaráðherra Grænlands, en hún er einnig ráðherra jafnréttismála. Á þeim fundi var einkum rætt um stöðu efnahagsmála í löndunum eftir Covid og hvernig auka má efnahagssamstarf Íslands og Grænlands, þ.m.t. í ferðaþjónustu. Einnig var rætt um hvernig efla megi stjórnsýslu í fámennari löndum og sammæltust ráðherrarnir um leggja áherslu á að stuðla að starfsmannaskiptum sérfræðinga innan stjórnsýslunnar á milli landanna til að deila þekkingu og reynslu.

Þá heimsótti Katrín grænlenska þingið þar sem Kim Kielsen, forseti þingsins, tók á móti henni og Þjóðminjasafn Grænlands. Forsætisráðherra heimsótti einnig háskólann í Nuuk og átti samtal við nemendur og kennara þar sem sjónum var beint að jafnréttismálum og aðstæðum grænlenskra kvenna. Þá heimsótti hún loftslagsstofnunina í Nuuk þar sem rætt var um rannsóknarstarf á sviði náttúruvísinda og loftslagsmála áhrif loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag og aðgerðir til að bregðast við þeim. Loks hitti forsætisráðherra grænlenskar konur úr stjórnmálum, viðskiptum, menningu og háskólasamfélagi og ræddi um þær áskoranir og tækifæri sem eru fyrir hendi í löndunum tveimur, sem og í samstarfi Íslands og Grænlands.

 

Naaja Nathanielsen, fjármála- og jafnréttisráðherra Grænlands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra     Kim Kielsen, forseti grænlenska þingsins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
     

            

 

Innlent

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 13. – 14. júní 2022

01. júlí 2022

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands hefur verið birt hér á vef Seðlabankans. Nefndin ræddi stöðu og horfur fyrir fjármálastöðugleika og helstu áhættuþætti, svo sem þróun efnahagsmála, áhættu fjármálafyrirtækja og fjármálakerfis, þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðuna á fasteignamarkaði og eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Jafnframt ræddi nefndin um öryggi og skilvirkni fjármálainnviða og mikilvægi þeirra fyrir stöðugleika fjármálakerfisins. Nefndin fékk upplýsingar um skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka og um gerð opinberrar stefnu um fjármálastöðugleika sem Fjármálastöðugleikaráð vinnur að.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% en að halda hlutfallinu fyrir aðra kaupendur óbreyttu í 80%. Nefndin ákvað jafnframt að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið er að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað jafnframt að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Fjármálastöðugleikanefnd ákvað við ársfjórðungslegt endurmat á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi hans óbreyttu en samkvæmt ákvörðun nefndarinnar í september sl. mun hann hækka úr 0% í 2% í lok september 2022.

Þá áréttaði nefndin mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.

Sjá fundargerðina í heild hér: Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Fundur 13. -14. júní 2022 (13.fundur). Birt 1. júlí 2022.

Sjá hér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar

Halda áfram að lesa

Innlent

Tiltekinn fjöldi tapaðra tanna ekki eina forsenda þátttöku sjúkratrygginga vegna slyss

 

Í lögum um sjúkratryggingar er ekki kveðið með tæmandi hætti á um hvaða rétt fólk hefur til fjárhagslegrar aðstoðar vegna tannréttinga. Sama gegndi um reglugerðarákvæði þar að lútandi. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Utanríkisráðherra ávarpar sérstaka umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan

Mikilvægi þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum kvenna og stúlkna bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í sérstakri umræðu mannréttindaráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan í dag. Ráðherra tók þátt í gegnum fjarfundabúnað. 

„Síversnandi staða mannréttinda kvenna og stúlkna í Afganistan er gífurlegt áhyggjuefni. Ekkert ríki í alþjóðasamfélaginu neitar stúlkum um grunnskólamenntun með aðeins einni undantekningu, Afganistan,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá lagði hún áherslu á að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við afgönsku þjóðina og hvatti til stofnsetningu réttmæts kjörins stjórnvalds sem fulltrúi þjóðarinnar sem virðir jafnframt mannréttindi allra, þar með talið kvenna og stúlkna. 

Ávarp sem utanríkisráðherra flutti á fundinum í dag má lesa í heild sinni hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © Tíðin