Félag atvinnurekenda

Gera tollar okkur að meðvituðum neytendum?

14. apríl 2021

Eggjabændur eru bæði komnir út í lífræna ræktun og farnir að gefa upplýsingar um aðbúnað dýranna. Það er ekki algengt í íslenskum landbúnaði.

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, skrifaði áhugaverða grein í Morgunblaðið fyrir skemmstu og fjallaði annars vegar um gagnsemi tollverndar fyrir íslenzkan landbúnað og hins vegar um mikilvægi þess að neytendur séu meðvitaðir um matvöruinnkaupin og styðji ekki óbeint við framleiðsluhætti sem vinna gegn umhverfinu, hreinlæti, velferð dýra eða kjörum bænda og landbúnaðarverkafólks. Um seinna atriðið getum við verið sammála.

Einhvers misskilnings virðist reyndar gæta þegar Vigdís skrifar í byrjun greinar að það sé „allt eins gott í upphafi að nefna að tollar eru lagðir á fleiri vöruflokka en eingöngu innfluttar landbúnaðarvörur“ og fjallar í framhaldinu um það hlutverk tolla að vernda innlenda framleiðslu. Hér á Íslandi hafa tollar verið afnumdir af öllum vörum öðrum en sumum landbúnaðarvörum og sumum iðnaðarvörum úr landbúnaðarhráefnum. Allar aðrar framleiðslugreinar spjara sig án tollverndar.

En það er ekki aðalatriðið hér, heldur keðjuábyrgð neytandans, eins og Vigdís kallar það; að neytendur séu meðvitaðir um hvernig staðið er að framleiðslu og dreifingu matvæla og öll virðiskeðjan höfð í huga. Neytendur sýna í vaxandi mæli slíka ábyrgð og hafa skoðanir á því hvað þeir kaupa og láta ofan í sig.

Innlent=gott, útlent=slæmt?
Í umræðum á Íslandi ber enn á þeirri hugmynd að hægt sé að skipta búvörum í tvo flokka; innlendar, sem eru hollar, öruggar, umhverfisvænar og ábyrgar og erlendar, sem eru ekkert af þessu og þess vegna eins gott að koma í veg fyrir að við notum of mikið af þeim, til dæmis með háum tollum.

Veruleikinn er hins vegar ekki svarthvítur. Það er algjörlega fráleitt að setja allan útlendan landbúnað undir sama hatt hvað varðar t.d. framleiðsluaðferðir, dýravelferð og kjör starfsfólks – og jafnfráleitt að meðhöndla íslenzkan landbúnað með sama hætti. Tökum nokkur dæmi.

Það hefur verið notað sem röksemd fyrir innflutningshöftum að þau sporni gegn neyzlu Íslendinga á búvörum sem standast ekki kröfur um fæðuöryggi. Svo einfalt er það samt ekki. Síðastliðið sumar sagði Stöð 2 t.d. frétt af því að kjúklingur hefði verið innkallaður níu sinnum oftar vegna salmonellusmits hér á landi en í Danmörku á 12 mánaða tímabili. Langmest af innfluttum kjúklingi í íslenzkum verzlunum er einmitt frá Danmörku.

Fyrir nokkrum misserum býsnuðust menn yfir kolefnisspori nýsjálenzks lambakjöts, sem var keypt til landsins vegna skorts á innlendri vöru. Þar gleymdist að taka eitt og annað með í reikninginn. Flutningur, jafnvel heimshorna á milli, er oftast aðeins lítið brot af kolefnisspori vöru í samanburði við framleiðsluferlið. Nýsjálenzk lambakjötsframleiðsla er svo gott sem kolefnishlutlaus, m.a. vegna víðtækrar skógræktar á jörðum bænda. Kolefnisspor íslenzkrar sauðfjárræktar er hins vegar með því stærsta sem gerist samkvæmt nýlegri rannsókn vísindamanna við Landbúnaðarháskóla Íslands. Það getur reyndar verið mikill munur á kolefnislosun einstakra búa og fer t.d. eftir því hvort mikið votlendi var ræst fram til öflunar heyja eða hvort fé er beitt á land sem er í slæmu ástandi. En um það fær hinn íslenzki neytandi engar upplýsingar, enda veit hann sjaldnast hvaðan lambakjötið hans kemur.

Umræðan um aðbúnað dýra er ekki mjög þroskuð á Íslandi. Í grannlöndum okkar vilja margir neytendur ekki kaupa búvörur eins og kjöt og egg nema þeir séu vissir um að þær standist kröfur um „higher welfare“, þ.e. að aðbúnaður dýra sé betri en lágmarksreglur segja til um, að varphænur og grísir geti til dæmis gengið laus úti við. Segja má að eggjaframleiðendur á Íslandi séu einu bændurnir sem farnir eru að veita neytendum aðgengilegar upplýsingar um aðbúnað dýranna – líklega ýtti Brúneggjamálið duglega við þeim.

Lífræn ræktun er sömuleiðis skammt á veg komin hér á landi miðað við flest nágrannalöndin og mun betra framboð á innfluttum, lífrænt ræktuðum búvörum en innlendum.

Kjör sauðfjárbænda hafa árum saman verið til umræðu; fæstir geta þeir framfleytt sér með sauðfjárrækt einni saman og segjast sumir varla hafa í sig og á. Það er áhyggjuefni – en erum við að ýta undir léleg kjör sauðfjárbænda með því að kaupa íslenzka lambakjötið?

Frjálst val á grunni upplýsinga og umræðu
Þessar vangaveltur eru ekki settar fram til að varpa rýrð á íslenzkan landbúnað, síður en svo. Þar er margt vel gert og af gríðarlegum metnaði. En við megum ekki falla í þá gryfju að láta eins og allar innlendar búvörur séu frábærar út frá öllum mælikvörðum og allar útlendar stórvarasamar. Staðreyndin er sú að í landbúnaði nágrannalanda okkar í Evrópu, þaðan sem langstærstur hluti innfluttra mjólkur- og kjötvara kemur, er unnið samkvæmt sama regluverki og gildir hér á landi og bændur sýna sama metnað og frumkvæði í því að framleiða vörur sem neytendur treysta.

Ef við viljum efla ábyrgð og meðvitund neytenda gerum við það með umræðu og upplýsingum, bæði um það sem vel er gert og það sem ekki tekst eins vel, jafnt í íslenzkum landbúnaði og erlendum. Það er næsta víst að álagning tolla í því skyni að halda innfluttum búvörum frá neytendum gerir ekkert til að auka meðvitund okkar um það sem við kaupum og neytum. Eðlilegast er að við höfum sem frjálsast val á milli búvara af ólíkum uppruna, og veljum einmitt út frá upplýsingum og umræðu.

Félag atvinnurekenda

Hagsmunahópar og misvægi atkvæða

6. maí 2021

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Við

Orð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, um að Íslandi sé að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum, hafa vakið mikla athygli og umræðu. Í þá umræðu hefur vantað a.m.k. einn þátt í skýringu á því hvers vegna tilteknir hagsmunahópar hafa mikil völd. Það er misvægi atkvæða í landinu.

Landsbyggðarkjördæmin þrjú hafa miklu meira hlutfallslegt vægi á Alþingi en þéttbýliskjördæmin á suðvesturhorninu. Gömlu frumframleiðsluatvinnugreinarnar, landbúnaður og sjávarútvegur, vega langtum þyngra í atvinnulífi þessara kjördæma en landsins í heild. Þegar við bætist sú óskráða regla að þingmenn landsbyggðarkjördæmanna séu fyrst og fremst í vinnu við að gæta hagsmuna síns kjördæmis en þingmenn þéttbýliskjördæmanna horfi fremur á heildarhagsmuni, þýðir þetta að þessar atvinnugreinar hafa mun greiðari aðgang að pólitískri ákvarðanatöku en aðrar.

Þetta birtist með ýmsum hætti. Landbúnaðurinn er til dæmis eina atvinnugreinin sem hefur í seinni tíð beinlínis samið við stjórnvöld um að þau hækki skatta á keppinautana, eins og gert var í búvörusamningunum 2016. Í framhaldinu voru tollar á innfluttar mjólkurvörur hækkaðir duglega. Alþingismenn voru líka fljótir að hlaupa til þegar landbúnaðurinn kvartaði undan áhrifum heimsfaraldursins og tóku tímabundið upp eldri og óhagstæðari aðferð við uppboð á tollkvótum fyrir búvörur. Sagt var feimnislaust að þetta væri til að vernda innlenda framleiðendur. Meirihluti atvinnuveganefndar, sem er eingöngu skipaður þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna, vildi raunar ganga miklu lengra í verndarstefnunni.

Í sjávarútveginum sjáum við hagsmunagæzluna t.d. birtast í harðri andstöðu stóru útgerðar- og vinnslufyrirtækjanna við að sjálfstæðar fiskvinnslur búi við eðlilegt samkeppnisumhverfi með afnámi tvöfaldrar verðmyndunar. Margir sjávarútvegsráðherrar í röð – allir nema einn úr landsbyggðarkjördæmunum – hafa látið álit Samkeppniseftirlitsins um samkeppnishindranir í sjávarútvegi sem vind um eyru þjóta.

Jafn atkvæðisréttur landsmanna væri ágætt skref í þá átt að draga úr ítökum sérhagsmunahópa þannig að Alþingi og ríkisstjórn horfðu fremur á almannahagsmuni.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Á hið opinbera að hafa forystu um launahækkanir?

5. maí 2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 5. maí 2021.

Úr Hagtíðindum Hagfræðideildar Landsbankans

Nýlegar fréttir um launaþróun og hækkun launakostnaðar eru alvarlegt umhugsunarefni. Í greiningu Hagdeildar Landsbankans á gögnum Hagstofunnar um launaþróun kemur fram sú jákvæða frétt að laun verkafólks, þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hafi hækkað mest á almennum vinnumarkaði á síðasta ári, t.d. langt umfram laun stjórnenda. Markmið síðustu kjarasamninga var einmitt að hækka lægstu launin mest.

Vonda fréttin er sá augljósi munur sem er á launaþróun á almenna vinnumarkaðnum og þeim opinbera. Á einu ári hækkuðu laun á almenna markaðnum um 8,5% en hjá ríkinu um 13,7% og hjá sveitarfélögum um 18,7%.

Þessi mikla hækkun launakostnaðar á sér stað í einhverri erfiðustu kreppu sem riðið hefur yfir áratugum saman. Í því felst ákveðin þversögn. Tölurnar fela líka þá staðreynd að metfjöldi launþega er nú án vinnu vegna áhrifa heimsfaraldursins. Þar er fyrst og fremst um að ræða fólk á almennum vinnumarkaði; atvinnuöryggi starfsmanna ríkis og sveitarfélaga er allt annað og betra á tímum sem þessum.

Í síðustu samningum opinberra starfsmanna gekk illa að fá þá til að fallast á sömu hækkanir og í lífskjarasamningunum á almenna markaðnum, en samningarnir náðust saman á styttingu vinnuvikunnar, sem átti ekki að hafa verulegan kostnað í för með sér – eða þannig leit það út á yfirborðinu.

Nú er að koma í ljós að kostnaðurinn af styttingunni, umfram almennar launahækkanir, er gríðarlegur og ekki öll kurl komin til grafar. Fjármálaráðherrann upplýsti á Alþingi á dögunum að kostnaður við styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki í þjónustu ríkisins væri um 4,2 milljarðar króna og mönnunargatið sem verður til vegna styttingar vinnutímans væri 780 stöðugildi. Margt er enn allsendis óvíst um það hvernig kostnaðinum verður mætt, t.d. hvort það gengur eftir að starfsfólk í hlutastörfum bæti við sig vinnu, hvort hagræðingarverkefni gangi eftir o.s.frv.

Þá erum við ekki einu sinni byrjuð að ræða kostnaðinn hjá sveitarfélögunum. Margt bendir til að hann verði enn meiri en hjá ríkinu og að fjöldi sveitarfélaga horfist nú í augu við ófyrirséðan kostnað vegna styttingarinnar. Ýmis dæmi munu vera um að dagvinnufólk hjá sveitarfélögum fái allt að fjögurra tíma vinnustyttingu á viku en haldi engu að síður neyzluhléum – en afnám þeirra átti þó að vera forsenda styttingarinnar. Það er óhætt að segja að ólíku sé saman að jafna sé t.d. litið á síðustu samninga verzlunarfólks um 45 mínútna styttingu á viku.

Raunveruleg hækkun launakostnaðar hins opinbera vegna síðustu kjarasamninga á eftir að koma í ljós, en flest bendir til að hún verði miklu meiri en talið var þegar samningarnir voru gerðir – og miklu meiri en hækkanir hjá einkafyrirtækjum, sem eru þó í mörgum tilvikum ósjálfbærar í kreppunni.

Líklegt framhald af þessu er því miður að í næstu samningum á almenna vinnumarkaðnum verði ástandið með þeim súrrelíska hætti að á sama tíma og landið er að jafna sig á djúpri efnahagsdýfu fari stéttarfélög fram á sambærilegar kjarabætur í formi styttingar vinnutíma og starfsmenn hins opinbera hafa fengið, með tilheyrandi kostnaði sem engin innstæða er fyrir.

Það er raunveruleg hætta á að einkafyrirtæki verði ekki samkeppnisfær við hið opinbera, sem er ekki eingöngu leiðandi í hækkun launakostnaðar heldur eru laun margra hópa hjá hinu opinbera hærri en hjá einkafyrirtækjum. Því til viðbótar kemur styttri vinnutími. Samkeppnishæfni einkafyrirtækja versnar því á innanlandsmarkaði vegna samninga hins opinbera, að ekki sé talað um í alþjóðlegum samanburði.

Þessi staða sýnir enn og aftur hversu mikilvægt er að ná saman um eitthvert vitrænt vinnumarkaðslíkan, þar sem launaþróun ræðst af getu útflutningsgreinanna til að greiða laun, en ekki kröfum starfsmanna hins opinbera. Án aukinnar verðmætasköpunar einkafyrirtækja er ekki hægt að standa undir hækkunum launa, þar með talið starfsmanna hins opinbera. Það er staðreynd sem ekki verður komizt framhjá í umræðum um vinnumarkaðinn.

Halda áfram að lesa

Félag atvinnurekenda

Hækkanir á útboðsgjaldi stuðla að verðbólgu

3. maí 2021

Útboðsgjald fyrir innfluttar skinkur er 22-falt hærra en það var í júní í fyrra.

Niðurstöður útboðs á tollkvóta fyrir búvörur frá Evrópusambandinu voru birtar á föstudag. Útboðsgjald, sem innflytjendur þurfa að greiða fyrir að fá að flytja vörurnar inn án tolla, hækkar í ýmsum tilfellum frá síðasta útboði í janúar, en í öðrum tilvikum er um lækkun að ræða. Sú breyting, sem Alþingi gerði á búvörulögum í desember, að taka upp eldri aðferð við uppboð á tollkvótunum til að vernda innlenda búvöruframleiðslu tímabundið vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, leiðir hins vegar í öllum tilvikum til hækkunar á útboðsgjaldi frá því í júní síðastliðnum, en þá var tollkvótum úthlutað í fyrsta sinn með svokölluðu jafnvægisútboði.

Þróun útboðsgjaldsins fyrir mismunandi vörur má sjá í töflunni hér að neðan.

Eins og sjá má er hækkun útboðsgjaldsins á bilinu 102-185 krónur fyrir nautakjöt, alifuglakjöt, þurrkaðar og reyktar skinkur, pylsur og eldaða kjötvöru. Eingöngu í tilviki osta og svínakjöts er hækkunin óveruleg. „Þessar hækkanir á kostnaði innflytjenda við að flytja inn vöruna fara að sjálfsögðu út í matvöruverð og stuðla að hækkandi verðbólgu,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Eins og FA hefur ítrekað bent á, skýtur það mjög skökku við að stjórnvöld skuli þannig meðvitað beita sér fyrir hækkun matvöruverðs. Á sama tíma og verðbólgudraugurinn nær sér á strik og mesta verðbólga í átta ár mælist hafa stjórnvöld gripið til þess ráðs að stuðla að verðhækkunum á innfluttum mat til að verja innlenda framleiðendur búvöru. Þessi lagabreyting ver aðallega kjötafurðastöðvar og Mjólkursamsöluna fyrir samkeppni, en gerir ekkert til að bæta hag bænda. Hún bitnar hins vegar hart á almennum neytendum.“

Innflytjendum vísvitandi gert erfiðara fyrir með því að úthluta seint
FA gerir jafnframt alvarlegar athugasemdir við að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skuli birta úthlutun tollkvóta daginn áður en innflutningsheimildirnar taka gildi, en núverandi úthlutun gildir frá 1. maí til 15. september. FA hefur með bréfi til ráðuneytisins í dag ítrekað ábendingar sínar frá því í byrjun april, en þá vakti félagið athygli á að í þetta stefndi vegna þess hve auglýsing um tollkvóta birtist seint. FA benti ráðuneytinu á að þetta hefði þau áhrif að stór hluti kvótatímabilsins nýttist ekki. Innflytjendur panta eðlilega oft ekki vörur nema þeir fái úthlutað tollkvóta. Nokkrar vikur líða frá því að vörur eru pantaðar og þar til þær eru komnar á lager. Gera má ráð fyrir að vörur, sem pantaðar eru í dag, fyrsta virka daginn sem tollkvótinn er í gildi, skili sér inn á lager innflutningsfyrirtækja á tímabilinu 25. maí til 14. júní.

„Slíkar tafir auka hættuna á að fyrirtækin geti ekki fullnýtt kvóta, sem þau hafa greitt fyrir háar fjárhæðir,“ segir Ólafur Stephensen. „Þetta er annað tollkvótatímabilið í röð þar sem ráðuneytið úthlutar tollkvóta alltof seint. Við sjáum ekki annað en að með því sé vísvitandi verið að gera innflutningsfyrirtækjum erfiðara fyrir.“

FA fer þess á leit að ráðuneytið endurskoði verklag sitt við auglýsingu og úthlutun tollkvóta þannig að ferlið fari fram með mun betri fyrirvara og úthlutun kvóta liggi fyrir ekki síðar en þremur vikum fyrir upphaf úthlutunartímabils.

„Með því móti má stuðla að því að starfsumhverfi innflutnings búvöru sé stöðugra og fyrirsjáanlegra. Eins og FA benti á í fyrra erindi sínu ganga aðgerðir stjórnvalda sem hefta og takmarka innflutning gegn tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með búvörur. Ráðuneytið hlýtur því að leitast við að fyrirkomulagið sé sem skilvirkast,“ segir í erindi FA til ráðuneytisins. „Í ljósi ofanritaðs ítrekar FA þá kröfu að ráðuneytið veiti a.m.k. eins mánaðar framlengingu á nýtingu tollkvóta sem úthlutað hefur verið vegna tímabilsins 1. maí til 15. september.“

Erindi FA til ráðuneytisins

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin