Það er hlutverk ríkisins að tryggja umgjörð um fjármálakerfið sem dregur úr óhóflegri áhættu og kostnaði skattgreiðenda. Ríkið átti vitaskuld að gegna þessu sama hlutverki fyrir rúmum áratug, en brást. Ísland var ekkert einsdæmi hvað það varðar. Dæmin mátti finna víða. Af þessum sökum er er skiljanlegt að margir telji að forsenda fyrir áframhaldandi stöðugleika í íslenska fjármálakerfinu sé að ríkið fari með ríkjandi eignarhlut í bankakerfinu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ríkið er meirihlutaeigandi í bankakerfinu á Íslandi. Eftir gjaldþrot Íslandsbanka árið 1930 var grunnur lagður að bankakerfi með þremur stórum bönkum í ríkiseigu, Útvegsbankanum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Í hálfa öld var bankakerfið að stórum hluta í höndum ríkisins. Á þeim tíma urðu litlar framfarir í íslenskum fjármagnsviðskiptum.
Eignarhald ríkisins reyndist engin trygging fyrir því að bankarnir kæmust hjá fjárhagsvandræðum. Seint á níunda áratug síðustu aldar varð Útvegsbankinn gjaldþrota. Bankinn var í framhaldinu endurreistur af ríkinu í formi hlutafélags og sameinaðist Alþýðubankanum, Iðnaðarbankanum og Verslunarbankanum í Íslandsbanka árið 1990. Bankinn var öflugur og veitti ríkisbönkunum harða samkeppni sem þeir höfðu ekki búið við áður.
Lán í óláni
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mat sem svo að hreinn kostnaður ríkissjóðs við fall bankanna þriggja í fjármálahruninu 2008 hefði verið 19 prósent af landsframleiðslu. Sá kostnaður var að fullu endurheimtur og vel það m.a. með tilkomu stöðugleikaframlaga slitabúa. Tap fyrrum eigenda og kröfuhafa bankans nam aftur á móti þúsundum milljarða króna.
Það var því lán í óláni að eignarhaldið var ekki í höndum ríkisins þegar alþjóðlega fjármálakreppan skall á fyrir rúmum áratug. Nú þegar umgjörð bankakerfisins hefur tekið miklum breytingum, með stífari reglum og hertu eftirliti, er einmitt tímabært að losa um eignarhlut ríkisins í íslensku bankakerfi. Ríkissjóður á ekki að standa í áhættusömum bankarekstri. Við erum reynslunni ríkari. Umhverfið er gerbreytt. Tíminn til að sleppa takinu er núna.
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.
Ísland er smáríki – lítið, opið og einhæft hagkerfi – sem byggir lífsgæði sín á fáum útflutningsgreinum. Lengst af treystu Íslendingar nær eingöngu á hrávöruútflutning sjávarafurða og landbúnaðar. Með tíð og tíma hafa aðrar greinar bæst við og vægi landbúnaðar minnkað. Þar vegur hlutur ferðaþjónustu þyngst. Árið 2018 var hlutur greinarinnar í úflutningsverðmætum 42 prósent. Árið 2019 var hlutur hennar í landsframleiðslu 8 prósent. Lítið má út af bregða. Hindranir í vegi fyrir frjálsum alþjóðlegum viðskiptum koma sér afar illa fyrir efnahag þjóðarinnar. Það er ekki síst vegna fábreytileikans sem íslenska hagkerfið hefur orðið illa fyrir barðinu á heimsfaraldri kórónuveiru.
Snertifletir faraldursins eru margir og áhrifin hafa verið misjöfn eftir atvinnugreinum. Afleiðingarnar endurspeglast til að mynda í samsetningu útflutnings vöru og þjónustu. Ferðatakmarkanir og aðrar sóttvarnaraðgerðir á landamærum settu strik í reikninginn. Hlutur ferðaþjónustu í heildarútflutningi nam aðeins 12% á liðnu ári skv. nýjustu upplýsingum Hagstofu Íslands. Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst eðli máls samkvæmt einnig umtalsvert saman og mældist aðeins 3,5%.
Leita þarf aftur til ársins 2010 til að finna viðlíka tölur. Segja má að íslenskur útflutningur hafi þannig farið aftur um heilan áratug með COVID tímavélinni.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi öllum kröfum fjögurra fyrrverandi starfsmanna starfsmannaleigu sem starfað höfðu í nokkra daga fyrir Eldum rétt. Dómurinn telur ótvírætt að laun hafi verið í samræmi við kjarasamninga og greidd að fullu, löglegt hafi verið að draga frá launum útgjöld á borð við húsaleigu og flugfargjöld og lýsing Eflingar á aðbúnaði starfsmanna hafi ekki verið í neinu samræmi við staðreyndir málsins.
Efling stéttarfélag hafði upp stór orð í fjölmiðlum og sakaði fyrirtækið Eldum rétt meðal annars um að nýta sér bágindi verkafólks og skipta við starfsmannaleigu sem framkvæmdastjóri Eflingar kallaði ,,einhvers konar mansalshring.“ Þá var teiknuð upp dökk mynd af fyrirtækinu í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV.
Ljóst er að aðför Eflingar að Eldum rétt og tilefnislausar ásakanir hafa valdið fyrirtækinu miklu tjóni og er eðlilegt að fyrirtækið skoði réttarstöðu sína gagnvart Eflingu. Starfsmönnum var gert að greiða sameiginlega fjórar milljónir í málskostnað til stefndu sem undirstrikar það mat héraðsdóms að málshöfðun Eflingar var tilefnislaus.
Á Menntadegi atvinnulífsins fór fram fjölbreytt og skemmtileg dagskrá þar sem valinkunnir stjórnendur úr atvinnulífinu fjölluðu m.a. um topp tíu færniþætti framtíðar eftir viðmiðum Alþjóðaefnahagsstofnunar fyrir árið 2025.
Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF stýrði umræðum um þessa færniþætti undir yfirskriftinni „Strax í dag“. Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, Sigrún Halldórsdóttir, mannauðsstjóri Bláa Lónsins og Ingvi Hrannar Ómarsson,sérfræðingur í skólaþróunarteymi Menntamálaráðuneytisins töluðu hispurslaust um innslög stjórnendanna og um það sem allar menntastofnanir og vinnustaðir geta ráðist í strax í dag:
Topp tíu færniþættir
1. Greiningar- og nýsköpunarhæfni
Gerum betur með
að vinna með gagnasafn
að vinna í fjölbreyttum teymum til að skapa nýjar lausnir
teymiskennslu
2. Virkni í námi og námsaðgerðum
Gerum betur með
að hvetja til sjálfsnáms t.d. netnámskeiða
að kapa námsumhverfi á vinnustað
röð fræðsluerinda
að deila hugmyndum með öðrum
3. Lausnamiðuð nálgun
Gerum betur með
að takast á við raunveruleg viðfangsefni
að vinna í hópum með ólíka styrkleika
4. Gagnrýnin hugsun og greining
Gerum betur með
að þjálfa rökræðu
að æfa ályktunarhæfni
að koma fram og færa rök fyrir máli sínu
5. Sköpun, frumleiki og frumkvæði
Gerum betur með
að vinna með spuna
að vinna með túlkun í fjölbreyttu listformi
að skapa rými fyrir flæði
að vinna með liðsheild
6. Forysta og félagsleg áhrif
Gerum betur með
að úthluta leiðtogahlutverkum
að æfa lýðræðislega þátttöku
að leggja fram tillögur að breytingum og fylgja þeim eftir
7. Tækninotkun, eftirlit og stjórn
Gerum betur með
að æfa sig að gera mistök
að æfa sig í að reka sig á
að æfa kjark og þor gagnvart hinu óþekkta
8. Tæknihönnun og forritun
Gerum betur með því að
að vinna með óvissu – hvað ef?
að æfa rökhugsun
9. Seigla, streituþol og sveigjanleiki
Gerum betur með
að vinna markvisst að langtímaverkefni með endanlegu markmiði
að æfa sjálfsvinnu
10. Rökhugsun, lausn vandamála og hugmyndaauðgi
Gerum betur með
skapandi hugsun og að leysa verkefni með mismunandi útfærslum
að geta fært rök fyrir því hvers vegna valin leið er góð leið
Horfðu á þáttinn í heild sinni hér:
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.