Stjórnarráðið

Grænbók um fjárveitingar til háskóla

Meginmarkmið stjórnvalda hvað varðar starfsemi á háskólastigi er að framsæknar og alþjóðlega samkeppnishæfar rannsóknastofnanir og háskólar skapi þekkingu, miðli henni og undirbúi nemendur til virkrar þátttöku í nútímaþekkingarsamfélagi og til verðmætasköpunar sem byggist á hugviti, nýsköpun og rannsóknum.

Meðal aðgerða í stefnu- og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs er að auka gæði og skilvirkni í háskólastarfi með því að efla fjármögnun og endurskoða reglur um fjárveitingar til háskóla. Því hefur verið unnin grænbók um fjármögnun háskóla og er hún nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Í henni er gerð grein fyrir núverandi fjárveitingakerfi, valmöguleikum við hönnun á nýju kerfi og settar fram lykilspurningar til að efla umræðu um stefnu um háskóla og hvaða fyrirkomulag fjárveitinga styðji best við innleiðingu á slíkri stefnu. Þar er einnig fjallað um hlutverk háskóla og núverandi stefnu, stöðu háskólakerfisins og háskólamenntunar. Farið er yfir mögulegar aðferðir við skiptingu fjár til háskóla og dæmi tekin frá samanburðarríkjum um útfærslu á fjárveitingum.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Með reiknilíkaninu og öðrum aðferðum sem notaðar eru við útdeilingu fjármuna til háskólanna skapast hvatar sem hafa áhrif á nemendur og stofnanir. Reiknilíkön eru ákveðin leið til að hrinda stefnu í framkvæmd. Hér er því bæði tækifæri til að dýpka umræðu okkar um framtíð háskóla og háskólanáms hér á landi. Þegar reiknilíkan háskóla var innleitt á sínum tíma var áhersla stjórnvalda fyrst og fremst að efla háskólakerfið, stækka það og fjölga háskólamenntuðum hér á landi. Hvatarnir í því reiknilíkani eru í takt við þau markmið og í megindráttum gekk stefnan eftir: brautskráningum fjölgaði, námsframboð jókst, háskólum fjölgaði og rannsóknarstarf efldist. Hins vegar eru einnig fjölmargar áskoranir í háskólamenntun hér á landi: sumar alþjóðlegar, aðrar séríslenskar og enn aðrar sérstaklega tengdar sjálfu reiknilíkaninu. Í grænbókinni er gerð tilraun til að skilgreina þær og skapa samráðsgrundvöll um næstu skref,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Háskólakerfið hefur eflst mjög á undanförnum árum og kemur það m.a. fram í auknu framboði náms, ekki síst á framhaldsstigi, öflugri rannsóknarstarfsemi á mörgum sviðum og auknum alþjóðlegum tengslum og nemendaskiptum. Þegar skoðaðir eru alþjóðlegir mælikvarðar um háskóla, rannsóknir og nýsköpun má til dæmis sjá að Ísland er í öðru sæti á lista Efnahags- og framfarastofnunarinnar þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi í vísindum (2015) og með hæst hlutfall kvenna meðal prófessora samkvæmt tölfræði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (2018).

Hlutfall háskólamenntaðra hér á landi hefur hækkað töluvert á síðastliðnum árum. Árið 2018 höfðu 44% fólks á aldrinum 25-64 ára lokið háskólanámi miðað við 28% árið 2003. Í alþjóðlegum samanburði er hlutfall háskólamenntaðra svipað og í þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við.

Mynd: Hlutfall mannfjölda 25-64 ára sem lokið hefur háskólagráðu í nokkrum ríkjum OECD árið 2018.

Stefnt er að því að ljúka endurskoðun á reiknilíkani háskólastigsins á árinu 2020. Verkefni þetta er liður í mótun menntastefnu til ársins 2030 og aðgerð 5 í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

Halda áfram að lesa

Innlent

Ungir Íslendingar geti búið og starfað í Bretlandi

Samkomulag er í höfn milli Íslands og Bretlands sem gerir ungu fólki frá Íslandi, á aldrinum 18 til 30 ára, mögulegt að búa og starfa í Bretlandi í allt að tvö ár. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í dag en það gerir ungum Bretum að sama skapi mögulegt að búa og starfa á Íslandi. 

Viðræður um framtíðarsamband Íslands og Bretlands hafa verið afar umfangsmiklar. Í byrjun júlí undirritaði ráðherra nýjan fríverslunarsamning við Bretland og þá hefur einnig verið skrifað undir samkomulag við bresk stjórnvöld um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda

Guðlaugur Þór fagnar samkomulaginu sem hann segir afar mikilvægt. „Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að tryggja tækifæri ungs fólks til þess að búa, starfa og mennta sig í Bretlandi, sem sést meðal annars í þeirri staðreynd að Ísland er fyrsta ríkið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu til að gera samning við Bretland um vinnudvöl ungs fólks frá því landið gekk úr Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að sterk tengsl ríkjanna muni styrkjast enn frekar með þessum samningi,“ segir Guðlaugur Þór. 

Eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu þurfa allir sem vilja flytja til Bretlands að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi Bretlands, en nýja samkomulagið mun auðvelda ungu fólki frá Íslandi ferlið til muna. 

Áætlað er að nýja fyrirkomulagið taki gildi í byrjun árs 2022 að undangengnum nauðsynlegum lagabreytingum. 

Halda áfram að lesa

Innlent

Ríkisstjórnin styrkir Norræna félagið á Íslandi

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Norræna félaginu á Íslandi 5 milljóna króna styrk í tilefni 100 ára afmælis félagsins á næsta ári.

Félagið hyggst setja á laggirnar tímabundinn afmælissjóð sem nýttur verður til að fjármagna viðburði og ýmis verkefni á afmælisárinu sem verður helgað norrænni menningu, vitund og norrænu samstarfi.

Markmið Norræna félagsins á Íslandi sem var stofnað 29. september 1922 er að efla samstarf og vináttutengsl Íslendinga og annarra Norðurlandabúa en félagið starfar í 30 deildum um allt land.

Halda áfram að lesa

Innlent

Reglugerð um skyldu flugrekenda til að kanna vottorð vegna COVID-19 tekur breytingum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn