Innlent

Grænbók um samgöngumál gefin út að loknu samráði

Grænbók um samgöngumál, þar sem greind er staða málaflokksins og lagður grundvöllur fyrir endurskoðaða stefnumótun í samgöngum til fimmtán ára, hefur nú verið birt ásamt fylgigögnum á vef ráðuneytisins

Grænbókin var opin til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda frá 6. júlí til 10. ágúst sl. Alls bárust 15 umsagnir. Gerð er nánari grein fyrir umsögnunum og viðbrögðum við þeim í samantekt sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.

Grænbók um samgöngumál er hluti af stefnumótunarferli samgönguáætlunar og er unnin á grunni laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Umfjöllun grænbókarinnar byggir m.a. á stöðumati framkvæmdaraðila, þ.e. stofnana ráðuneytisins og Isavia. Þá er í grænbókinni einnig byggt á nýjum greiningum, svo sem varðandi börn og samgöngur, jafnrétti í samgöngum, vöruflutninga, vinnusóknarsvæði, arðsemi umferðaröryggisaðgerða og aðlögun samgangna að loftslagsbreytingum.

Annar grundvöllur stöðumatsins er samtal við landsmenn og hagsmunaaðila. Átta opnir fundir voru haldnir í öllum  landshlutum í mars og apríl í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga. Helstu niðurstöður samtalsins voru teknar saman í sérstakri skýrslu, sem er eitt af fylgiskjölum grænbókarinnar. Jafnframt voru haldnir fundir með öðrum ráðuneytum og samstarfsaðilum, þar farið var yfir snertifleti samgönguáætlunar við aðrar áætlanir Stjórnarráðsins.

Um er að ræða fyrstu grænbókina sem tekin hefur verið saman um samgöngumál í samræmi við stefnumótunarferli Stjórnarráðsins og samhæfingu áætlana á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála. Markmið grænbókarinnar er að hvetja til umræðu um stöðumat, viðfangsefni og framtíðarsýn í samgöngumálum sem og um áherslur og valkosti. 

Næsta skref stefnumótunarvinnunnar er mótun stefnu sem inniheldur framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og markmið sem marka leiðina ásamt áherslum (hvítbók).

Innlent

María Rún kjörin til setu í GREVIO

María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, hefur fyrst Íslendinga verið kjörin til setu í GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með Istanbúl-samningnum um aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Nefndin er skipuð 15 sjálfstæðum og óvilhöllum sérfræðingum frá 34 aðildarríkjum samningsins. 

María Rún tekur þar sæti sérfræðings Tyrkja eftir að Tyrkland sagði sig frá Istanbúl-samningnum fyrr á þessu ári, en alls voru tíu framboð fyrir aðeins eitt sæti. Niðurstaðan er mikilvæg fyrir Ísland sem tekur við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022. 

GREVIO hefur meðal annars það hlutverk að sækja heim aðildarríki Istanbúl-samningsins, vinna greiningar og skýrslur um framkvæmd samningsins í hverju landi og koma með tillögur að úrbótum varðandi stefnu, löggjöf og aðgerðir til þess að sporna gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Vinna nefndarinnar hefur síðustu misseri meðal annars snúið að því að ræða og leggja til aðgerðir gegn stafrænu ofbeldi sem er vaxandi vandamál í Evrópu og í heiminum öllum.

Menntun og bakgrunnur Maríu Rúnar á sviði stafræns ofbeldis og reynsla hennar við innleiðingu nýrrar löggjafar um kynferðislega friðhelgi, mun því vera mikilvægt framlag til starfs GREVIO á næstu misserum og er í samræmi við áherslur Íslands um frekari aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum. 

„Ég hef sjálf séð jákvæð áhrif Istanbúl-samningsins á þróun umræðu og aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi á Íslandi og víðar,“ sagði María eftir kjörið. „Það er því mikill heiður að hljóta stuðning ríkja Evrópuráðsins til að halda áfram því mikilvæga starfi sem fram fer innan GREVIO í þeim tilgangi að vinna gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í álfunni. Er það ekki síst ánægjulegt að geta byggt á þeirri mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið hér á landi til að koma í veg fyrir stafrænt ofbeldi og að geta deilt þeirri reynslu með öðrum aðildarríkjum samningsins.“

Halda áfram að lesa

Innlent

Styrkir til hjálparsamtaka í aðdraganda jóla

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita samtals fimm milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til tíu hjálparsamtaka sem starfa hér á landi. Sú venja hefur skapast á undanförnum árum að ríkisstjórnin styrki slík samtök í aðdraganda jóla.

Um er að ræða Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Íslandi, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Vesturlands, Rauða krossinn á Íslandi og Samhjálp.

Halda áfram að lesa

Innlent

COVID-19: Óbreyttar sóttvarnaráðstafanir næstu tvær vikur

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja óbreytta gildandi reglugerð um samkomutakmarkanir. Almennar fjöldatakmarkanir verða því áfram 50 manns en með möguleika á hraðprófsviðburðum, áfram gilda 1 metra nálægðarmörk, reglur um grímunotkun o.s.frv. Þessi ákvörðun er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem telur nauðsynlegt að viðhalda óbreyttum takmörkunum í ljósi óvissu um þróun faraldursins, ekki síst vegna tilkomu Ómíkron-afbrigðis kórónaveirunnar.

Heilbrigðisráðherra segist sammála sóttvarnalækni um að ekki sé tímabært að slaka á sóttvarnaráðstöfunum í ljósi þessarar óvissu. Grannt sé fylgst með þróun faraldursins hérlendis og erlendis og nánari upplýsinga beðið um eiginleika Ómíkron afbrigðisins og hvort eða hve mikil ógn stafar af því. „Við bindum miklar vonir við að hægt sé að slaka á takmörkunum fyrr ef gögn um Ómíkron benda til þess að það sé óhætt. Þangað til þurfum við að verja heilbrigðiskerfið og tryggja fólki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Við sjáum að nágrannaþjóðir okkar, ekki síst Danir og Norðmenn eiga í vök að verjast þar sem smitum fjölgar nú hratt. Hér er faraldurinn hins vegar á hægri niðurleið sem bendir til þess að herðing á sóttvarnareglum sem tóku gildi 13. nóvember síðastliðinn hafi skilað árangri.” segir ráðherra.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin