Lögreglan

Helstu verkefni lögreglunnar á Suðurlandi dagana 2. til 8. desember 19

Síðast uppfært: 9 Desember 2019 klukkan 11:51

3 ökumenn sem lögreglan hafði afskipti af í liðinni viku eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna. Tveir þeirra reyndust einnig sviptir ökurétti vegna fyrri brota en sá þriðji hefur aldrei öðlast ökuréttindi.   Einn þessara einstaklinga kom akandi til skýrslugjafar að lögreglustöð vegna annars máls og vakti ástand hans grunsemdir lögreglumanna um að hann væri ekki á ástandi til aksturs.   Þrír aðrir ökumenn eru grunaðir um ölvun við akstur bifreiða sinna. Einn þeirra ók bifreið sinni ítrekað útaf vegi og inná aftur á Suðurlandsvegi í Rangárvallasýslu án þess þó að valda slysi.   Vegfarendur tilkynntu um aksturslag hans.

Einn var kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiðar sinnar.   Hann reyndist vera að aka bifreið sinni sviptur ökurétti vegna eldra brots.

13 eru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Af þeim voru 12 í Skaftafellssýslunum og sá sem hraðast ók mældist á 134 km/klst hraða. 10 þessir ökumanna eru erlendir ferðamenn en hinir íslenskir. Rúmlega 3800 manns hafa nú verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu á yfirstandandi ári.

13 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku. Í tveimur þeirra urðu meiðsl á fólki, Annarsvegar þann 4 desember en þá bilaði stýrisbúnaður bifreiðar á vesturleið í Hveradalabrekku með þeim afleiðingum að hún lenti út í vegriði. Ökumaður annarrar bifreiðar stöðvaði bifreið sína fyrir framan þessa bifreið og fór til aðstoðar við ökumann hennar. Ökumaður þriðju bifreiðarinnar sem þarna kemur við sögu dró úr hraða sinnar bifreiðar þegar hann hugðist aka framhjá en þá vildi ekki betur til en svo að fjórða ökutækið, vörubifreið með vagni, náði ekki að draga nægjanlega úr ferð og lenti aftan á henni og kastaði á bifreið þess sem í upphafi hugðist aðstoða þann ólánssama í vegriðinu. Ökumaður bifreiðarinnar sem vörubifreiðin lenti á var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús í Reykjavík.  Aðrir sluppu ómeiddir, þ.m.t. fjöldi hrossa sem voru á vagni vörubifreiðarinnar. Snjókoma var á vettvangi og snjóþekja með tilheyrandi hálku á veginum.

Föstudaginn 6. desember varð barn undir afturhjóli pallbifreiðar sem ekið var afturábak á bifreiðastæði við sveitabæ í Árnessýslu.   Það var flutt á sjúkrahús í Reykjavík en áverkar þess reyndust minniháttar og barnið sent heim að skoðun lokinni.

Skráningarnúmer fjögurra bifreða voru fjarlægð þar sem þær reyndust ótryggðar í umferðinni.

Halda áfram að lesa

Innlent

Fjárkúgunartilraunir tengdar kynferðislegu myndspjalli

15 Apríl 2021 12:50

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upp á síðkastið fengið tilkynningar um fjárkúgunartilraunir tengdar kynferðislegu myndspjalli á netinu.

Karlmenn hafa fengið skilaboð frá erlendri konu á Instagram og þeir beðnir um að setja upp Google Hangouts spjallforrit til að ræða við konuna. Spjallið verður mjög fljótt kynferðislegt. Þegar líður á spjallið og maðurinn hefur berað sig fyrir myndavélinni er upptaka af honum sýnd í spjallglugganum þar sem konan var áður. Í kjölfarið er maðurinn krafinn um greiðslu, annars verði myndbandið sent á Facebook og Instagram vinalistana.

Þeir sem verða fyrir slíkum hótunum eru hvattir til að greiða ekki: ekkert hefst upp úr því annað en áframhald á kúgunum.

Hægt er að tilkynna um mál sem þessi í netfangið [email protected]

Upplýsingar sem gott er að fylgi tilkynningunni eru m.a. Instagram reikningurinn sem fyrst var haft samband úr, netfangið á Google Hangouts reikningnum og upplýsingar um hvert á að greiða kúgaranum (reikningsnúmer).

Halda áfram að lesa

Innlent

Umfangsmiklar kannabisræktanir

14 Apríl 2021 12:27

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarið stöðvað kannabisræktanir á fjórum stöðum í umdæminu og lagt hald á mikið magn kannabisefna, eða vel á annað hundrað kíló, en það er mat lögreglu að í öllum tilvikunum hafi efnin verið ætluð til sölu og dreifingar. Um var að ræða umfangsmiklar ræktanir í bæði iðnaðar- og íbúðarhúsnæði, m.a. í sérútbúnu rými, og var búnaðurinn eftir því. Nokkrir hafa verið handteknir í þessum aðgerðum lögreglunnar og einn úrskurðaður í gæsluvarðhald, en rannsókn málanna miðar vel. Á einum staðnum var enn fremur lagt hald á tæplega eitt kíló af ætluðu amfetamíni.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið [email protected]

Halda áfram að lesa

Innlent

Rýmingarskilti til dreifingar í hús á Seyðisfirði

13 Apríl 2021 17:27

Gangskör var gerð að því af hálfu almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra að útbúa rýmingarskilti í kjölfar aurskriðna á Seyðisfirði í lok árs 2020. Skiltið er nú tilbúið og verður borið í öll hús á Seyðisfirði á næstu dögum.  Á skiltinu má finna leiðbeiningar til íbúa um það hvað rétt myndi að hafa meðferðis komi til rýmingar, að hverju skuli hyggja við rýmingu, hver tekur ákvörðun um rýmingu, afléttingu hennar og fleira.

Gert er ráð fyrir að sambærilegum skiltum verði síðar dreift í hús á Eskifirði og í Neskaupstað.

Skiltið má finna hér.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin