Veður

Hlaupið í Gígjukvísl líklega náð hámarki

Hlaupvatn streymir undir brúna yfir Gígjukvísl í síðdegissólinni í gær, 4. desember. Rennslið mældist þá um 2.600 rúmmetrar á sekúndu. (Ljósmynd: Veðurstofan – Gunnar Sigurðsson)


Veður hamlar mælingum á rennsli. Hlaupórói fer minnkandi

5.12.2021

Uppfært 5.12. kl. 16:15

Nýjustu rennslismælingar í Gígjukvísl sem gerðar voru milli 10.30 -13 í dag gáfu rennsli upp á um 2.800 m3/s. Rennslið mældist um 2.600m3/ síðdegis í gær. Rafleiðni hefur haldist nánast óbreytt frá því í gær, laugardag.

Íshellan hefur sigið um alls um 75m klukkan 14 í dag og hægt hefur verulega á siginu. Mælingar sýna einnig að talsvert hefur dregið úr hlaupóróa undir jökli frá því að óróinn náði hámarki í nótt. Hvoru tveggja eru vísbendingar um að Grímsvötn hafi tæmt sig af hlaupvatni að mestu. Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporði Skeiðarárjökuls og út í Gígjukvísl. Því má vera að hlaupið í farvegi Gígjukvíslar hafi þegar náð hámarki. Það verður hinsvegar ekki ljóst fyrr en hægt verður að gera nýjar rennslismælingar. Vatnamælingamenn á vegum Veðurstofunnar eru að störfum við Gígjukvísl en aðstæður til mælinga eru mjög slæmar vegna veðurs og því er ekki víst að nýjar mælingar berist fyrr en á morgun, mánudag.

Hlaup_trem_202111

Graf sem sýnir hlaupóróa. Mælingar sýna að hlaupórói undir jökli náði hámarki í nótt. Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporðinum og út í Gígjukvísl. Vöttur(vot) er mælitæki staðsett nokkurn veginn mitt á milli Grímsfjalls og sporðsins á Skeiðarárjökli.

Enginn gosórói mælist

Náið hefur verið fylgst með skjálftavirkninni við Grímsvötn. Talsvert hefur verið um ísskjálfta sem mælast þegar íshellan brotnar vegna atgangsins í hlaupinu. Enginn gosórói mælist, en vísindamenn munu halda áfram að greina þá skjálfta sem mælst hafa.

Í útsýnisflugi í gær sást nýr sigketill suðaustan við Grímsfjall og er staðsettur á svipuðum slóðum og farvegur hlaupvatns liggur úr Grímsvötnum undir jöklinum. Vísindamenn munu rýna í mælingar og gögn sem geta gefið vísbendingar um hvernig og hvenær ketillinn myndaðist, en viðbúið er að breytingar geti orðið á jarðhitakerfinu við Grímsvötn eftir atburðarás síðustu daga. Veður hefur hamlað útsýnisflugi í dag, en áfram verður fylgst náið með framgangi mála við Grímsvötn og Gígjukvísl.

Grimsvotn3

Sigketillinn sem sást í útsýnisflugi í gær suðaustur af Grímsvötnum. Horft í átt að eystri hnjúknum við Grímsvötn sem baðaður er síðdegissól. (Ljósmynd: Veðurstofan – Njáll Fannar Reynisson)


Uppfært 5.12. kl.11.00

Vatnamælingamenn Veðurstofunnar eru við mælingar á rennsli í Gígjukvísl en ekki er búist við niðurstöðum úr þeim mælingum fyrr en eftir hádegi í dag. Síðdegis í gær var rennslið komið í um 2.600 rúmmetra á sekúndu sem var í takt við spár um framgang hlaupsins. Íshellan í Grímsvötnum hefur sigið um 70 metra á einni og hálfri viku.

Farið var í útsýnisflug í gær og sýna myndir teknar í því flugi að vatnið kemur aðallega frá austanverðum Skeiðarárjökli, en einnig úr einni rás við miðjan jökulsporðinn.

Grimsvotn4_Skeidararjokull

Mynd tekin í útsýnisflugi í gær og sýnir hlaupvatn streyma undan austanverðum Skeiðarárjökli (Ljósmynd: Veðurstofan – Njáll Fannar Reynisson)


Uppfært 4.12. kl 15:15

Samkvæmt nýjustu mælingum sem teknar voru á milli 09:40-12:30 er rennsli í Gígjukvísl 2220 m3/s og rafleiðni mælist nú um 550µS/cm. Þessar mælingar eru í takti við þær rennslisspár sem gerðar hafa verið og er ennþá gert ráð fyrir að flóðið nái hámarki á morgun, sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð. Hlaupórói er enn vaxandi á Grímsfjalli og nálægum stöðvum og nokkrir skjálftar hafa mælst á svæðinu, sumir þeirra eiga líkleg upptök í ísnum yfir vötnunum eða þar sem vatnið ryður sér leið. Fylgst er náið með svæðinu.

Uppfært 3.12. kl 15:15

Samkvæmt nýjastu mælingum er rennsli í Gígjukvísl 1600 m3/s  og rafleiðni mælist 464 µS/cm og fer hækkandi.

Nýjustu mælingar falla áfram nokkuð vel að þeim rennslisspám sem gerðar hafa verið og gera ráð fyrir að flóðið nái hámarki að öllum líkindum næstkomandi sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð. Nýjustu útreikningar áætla að hámarksrennsli geti verið í kringum 4000 m3/s.

Áfram verður fylgst grannt með skjálftavirkni í Grímsvötnum.

Uppfært 2.12. kl. 16:00

Um 9 dagar eru frá því að íshellan í Grímsvötnum byrjaði að síga og hlaupvatn byrjaði að brjóta sér leið undir jöklinum. Nýjustu mælingar sýna að íshellan í Grímsvötnum hefur frá þeim tíma sigið um rúma 17 m. Vatnamælingamenn Veðurstofunnar mældu rennsli í Gígjukvísl um kl. 11 í morgun sem var þá tæplega 930m3/s og hefur rennslið því nær þrefaldast á um þremur sólarhringum. Þetta rennsli er 10-falt rennsli árinnar miðað við árstíma. Rafleiðni, sem gefur til kynna magn hlaupvatns í ánni, hefur einnig aukist undanfarna daga og mældist um 272 uS/cm kl. 13 í dag og fer hækkandi. Gas mælist í litlu magni við jökulsporðinn og er vel innan hættumarka


Vatnamælingamenn Veðurstofunnar að störfum við Gígjukvísl í dag. Gunnar Sigurðsson tekur aurðburðarsýni á brúnni yfir Gígjukvísl á Þjóðvegi 1. (Ljósmynd: Veðurstofan/Njáll Fannar Reynisson)

Rennslispár að ganga eftir en atburðarásin getur breyst

Nýjustu mælingar falla nokkuð vel að þeim rennslisspám sem gerðar hafa verið og gera ráð fyrir að flóðið nái hámarki að öllum líkindum næstkomandi sunnudag. Ef miklar breytingar verða á þróun rennslisins úr Grímsvötnum mun það hafa áhrif á hvenær flóðatoppnum er náð.

Eins og áður hefur komið fram, eru dæmi um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. Engir slíkir skjálftar hafa þó mælst nú.

Síðast gaus í Grímsvötnum 2011, en í það skiptið hafði hlaupið úr Grímsvötnum rúmum sex mánuðum áður. Síðan 2011 hefur svo hlaupið alls 6 sinnum úr Grímsvötnum án þess að eldgos verði.

Gosið hefur á fimm til tíu ára fresti úr Grímsvötnum og kemur vísindamönnum saman um að mælingar sýna að aðstæður eru með þeim hætti að Grímsvötn eru tilbúin að gjósa. Ekkert er þó hægt að fullyrða um að eldgos verði samfara þessu hlaupi og fylgjast þarf grannt með skjálftavirkni í Grímsvötnum sem gætu gefið vísbendingar um að gos sé yfirvofandi.

Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og munu birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður.


Uppfært 01.12 kl 12:10

GPS mælir Veðurstofunnar í Grímsvötnum sýnir að íshellan haldur áfram að síga og hefur hún sigið tæpa 10 metra frá því að hún mældist hæst.

Haedarbreyting-i-grimsvotnum

Hlaupvatn er nú komið fram í Gígjukvísl og hefur vatnshæð þar hækkað smátt og smátt í gærdag og nótt. Vatnamælingamenn frá Veðurstofunni eru á leið á vettvang og munu þeir fylgjast með þróun hlaupsins og mæla rennsli í ánni.

Gigjukvisl1

Gigjukvisl2

mynd : Gígjukvísl. Myndir teknar til suðurs með vefmyndavél Veðurstofu Íslands. Mynd frá 28. nóvember (A) og mynd tekin í morgun 1. desember (B).

Búast má við því að vatnshæð og rennsli haldi áfram að aukast í Gígjukvísl næstu daga. Jöklafræðingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hafa birt spálíkan sem gerir ráð fyrir því  að hámarksrennsli í þessum atburði verði náð kringum næstu helgi eða byrjun næstu viku. Rennsli úr Grímsvötnum hefur vaxið hægar í þessu hlaupi en í Grímsvatnahlaup 2010, og miðaðvið nýjustu gögn er búist við að hámarksrennsli i Gígjukvísl verði um 4000 m3/s. Engar líkur eru á að hlaupvatn fari í hinn gamla farveg Skeiðarár. Sjá nánari upplýsingar um spálíkanið á f acebook síðu Jarðvísindastofnunar. .


Uppfært 29.11. kl. 16.45

Íshellan hefur nú sigið um tæpa 5m. Vatnamælingamenn frá Veðurstofunni voru að störfum á bökkum árinnar í dag til að huga að mælitækjum. Rétt fyrir hádegi mældist rennsli árinnar um 240m3/s og hefur haldist óbreytt þegar þessi tilkynning er birt kl. 16.45 í dag. Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum gæti hámarksrennsli hlaupsins orðið um 5.000 m3/s þó ekkert sé hægt að fullyrða á þessu stigi að það verði raunin. Hlaupórói mælist á skjálftamælum, sem gefur til kynna að vatn er farið að streyma undir jöklinum. Rafleiðni hefur hinsvegar vaxið mjög hægt í ánni og ekkert gas mælist.

Mælingar á vegum Jarðvísindastofnunar Háskólans benda til þess að um 0.1km3 vatns hafi þegar farið úr vötnunum, sem er um 10% af því vatni sem var í Grímsvötnum áður en íshellan tók að síga. Ekki er þó sjálfgefið að vötnin tæmist.

Discharge_29112021

Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.

Uppfært 25.11. kl. 9.15

Sighraði á íshellu hefur haldist nokkuð jafn í nótt. GPS mælir Veðurstofunnar sýnir að hellan hefur sigið um 25 sm frá því um kl. 10 í gærmorgun.

Engar markverðar breytingar hafa mælst í Gígjukvísl hvort sem er vatnshæð, rafleiðni né gas.

Veðurstofan í samstarfi við vísindamenn Jarðvísindastofnunar Háskólans fylgjast áfram náið með þróun mála.

Uppfært 24.11. kl. 16.30

Vísindaráð almannavarna fundaði í dag um stöðu mála í Grímsvötnum en mælingar sýna að íshellan þar sé farin að síga sem er vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum.

Íshellan í Grímsvötnum hefur nú sigið um tæpa 60sm á síðustu dögum og hraðinn á siginu hefur verið að aukast síðasta sólarhringinn. Miðað við þessar mælingar eru allar líkur á því að vatn sé farið að streyma úr Grímsvötnum og að vona sé á hlaupi í Gígjukvísl. 

Miðað við fyrri hlaup má gera ráð fyrir að hlaupvatn komi fram við jökuljaðar á næstu tveimur dögum og muni ná hámarki á 4-8 dögum eftir það. Eins og er mælist engin aukning í rafleiðni í Gígjukvísl sem er skýrasta merki þess að hlaupvatn sé komið undan jöklinum. Veðurstofan er einnig með gasmæla við upptök Gígjukvíslar sem einnig gæfu vísbendingar um hvort hlaupvatn sé í farveginum. 

Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum núna má reikna með að hámarksrennsli hlaupsins verði um 5000 m3/s. Slíkt hlaup hefði að öllum líkindum lítil áhrif á á mannvirki s.s. vegi og brýr. Of snemmt er þó að fullyrða um hvert umfang hlaupsins getur orðið.

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. Engir slíkir skjálftar hafa mælst nú.

Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og munu birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður.


24.11. kl 14:00

Mælingar í Grímsvötnum benda til þess að íshellan sé farin að síga. Þetta gæti verið vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum. Vísindaráð almannavarna mun funda um stöðuna síðar í dag og frekari upplýsinga er að vænta að loknum þeim fundi.
Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Síðast gaus í Grímsvötnum 2011.

Veður

Tíðarfar í desember 2021

Stutt yfirlit

4.1.2022

Desember var hægviðrasamur og tíð almennt góð. Að tiltölu var snjólétt á landinu, einkum um miðbik mánaðar. Undir lok mánaðar snjóaði töluvert á Norðausturlandi og var jafnfallinn snjór á Akureyri 47 cm á gamlársdag. Fyrri hluti mánaðar var þurr á Norðurlandi á meðan úrkomusamara var suðvestanlands. Síðari hluti mánaðarins var hins vegar þurr á Suðvesturlandi og kviknuðu víða gróðureldar um áramótin í tengslum við flugelda.

Hiti

Meðalhiti desembermánaðar var 1,5 stig í Reykjavík. Það er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,0 stigi yfir meðallagi undanfarinna tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,2 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi undanfarinna þriggja áratuga og 0,2 stigum undir meðallagi síðastliðins áratugar. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,9 stig og 1,2 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðvum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 1,5 0,8 28 151 1,0
Stykkishólmur 0,9 0,5 34 176 0,8
Bolungarvík 0,9 0,8 26 124 1,0
Grímsey 0,6 -0,1 43 148 -0,2
Akureyri -1,2 -0,5 63 141 -0,2
Egilsstaðir -1,9 -0,8 38 67 -0,8
Dalatangi 2,5 0,7 20 84 0,6
Teigarhorn 1,2 0,2 48 til 53 149 0,0
Höfn í Hornaf. 1,2 0,0
Stórhöfði 3,3 1,0 20 145 1,2
Hveravellir -4,3 0,7 14 57 1,0
Árnes 0,1 0,9 31 142 1,1

Meðalhiti og vik (°C) í desember 2021.

Að tiltölu var hlýjast á sunnan- og vestanverðu landinu þar sem hitavik miðað við síðustu tíu ár voru að mestu leyti jákvæð. Kaldara var að tiltölu á norðaustanverðu landinu þar sem hitavikin voru að mestu neikvæð.  Jákvætt hitavik var mest 1,5 stig í Mikladal á Vestfjörðum. Neikvætt hitavik var mest -1,5 stig á Brú á Jökuldal.  

Hitavik sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,4 stig. Lægstur mældist mánaðarmeðalhitinn -6,3 stig í Sandbúðum á Sprengisandi. Lægsti meðalhiti í byggð mældist -5,6 stig í Möðrudal.

Um miðjan mánuðinn var óvenju hlýtt á Austurlandi. Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,1 stig á Dalatanga þ. 17. Lægstur mældist hitinn -21,4 stig við Mývatn þ. 4. Það var jafnframt lægsti hiti mánaðarins í byggð.

Úrkoma

Heildarúrkoma mánaðarins í Reykjavík mældist 92,2 mm sem er 2,7 mm undir meðallagi desembermánaðar áranna 1991 til 2020 og 97% af meðalúrkomu þess tímabils. Á Akureyri var heildarúrkoma mánaðarins 46,8 mm sem eru um 64% af meðalúrkomu undanfarinna þriggja áratuga. Úrkoma mældist einnig undir meðallagi í Stykkishólmi, en þar mældust 45,0 mm sem eru um 53% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri 17 desemberdaga í Reykjavík, þremur fleiri en að meðallagi undanfarna þrjá áratugi. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 6 daga, sex færri en í meðalári.

Snjór

Desember var að tiltölu snjóléttur á landinu, sérstaklega um miðbik mánaðar.

Jörð var alauð 17 desembermorgna í Reykjavík og alhvít 6 morgna, sex færri en að meðallagi undanfarinna þriggja áratuga. Á Akureyri voru alauðir morgnar 10 og alhvítir morgnar 15, þremur færri en í meðalári. Þar var snjólétt langt fram eftir mánuðinum en svo kyngdi niður snjó þann 27. og 28., samtals 39 cm jafnfallið. Jafnfallinn snjór var 47 cm á gamlársdag á Akureyri.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir mánaðarins mældust 10,3 í Reykjavík sem er 2,3 klukkustundum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 0,8 sólskinsstundir í desember, en það er hálfri klukkustund yfir meðallagi sama tímabils.

Vindur

Desember var hægviðrasamur. Meðalvindhraði á landsvísu var 1,3 m/s lægri en í meðaldesember 1991 til 2020.  Hvassast var þ. 5. (suðaustanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1001,4 hPa sem er 2,2 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1039,7 hPa þ. 19. á Fonti og á Kollaleiru í Reyðarfirði. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 962,3 hPa í Grindavík þ. 11.

Skjöl fyrir desember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2021

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu

Halda áfram að lesa

Veður

Hefur sinnt veðurmælingum í 58 ár samfellt

Myri-27.9.90

Mynd frá Mýri í Bárðdal.


Guðrún Sveinbjörnsdóttir á Mýri lætur af störfum

21.12.2021

Guðrún Sveinbjörnsdóttir lætur nú af störfum eftir 58 ára samfellda þjónustu við Veðurstofu Íslands. Guðrún eGudrunTryggvadottirr fædd í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1942 og ólst þar upp við sveitastörf og að læra að nýta öll hlunnindi sem sjórinn gaf. Eftir nám við Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði og í Reykjavík fór Guðrún í Bændaskólann á Hólum sem þá var afar fátítt um stúlkur. Þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Tryggva Höskuldssyni frá Bólstað í Bárðardal, sem þar stundaði einnig nám.  Guðrún og Tryggvi hófu búskap á Mýri í Bárðardal vorið 1963, en þar hafði fyrri ábúandi, Karl móðurbróðir Tryggva, séð um að annast úrkomumælingar fyrir Veðurstofuna, en var um þetta leyti að bregða búi.

Við flutninginn í Mýri tók Guðrún að sér að gera þessar mælingar, einungis 21 árs gömul, þótt hún hafi ekki formlega verið skráð fyrir þeim fyrr en 1971. Á Mýri eignuðust Guðrún og Tryggvi fjóra syni sem allir hafa erft dugnað og myndarskap foreldranna og sækja gjarnan þangað heim í fríum frá sínu daglega amstri enda Guðrún og Tryggvi gestrisin með afbrigðum; ekki bara við að taka á móti eigin afkomendum heldur stórum frændgarði, sveitungum og alls kyns ferðalöngum. Þá dvöldu mörg ungmenni hjá þeim sumarlangt við leik og störf auk fjölda barnabarna sem dvalið hafa langdvölum hjá ömmu og afa á Mýri á sumrin þar sem þau hafa lært að vinna og létta undir með eldri kynslóðinni. Oft var glatt á hjalla í Mýrareldhúsinu þar sem Guðrún bar fram veitingar, nær allar útbúnar með eigin höndum, og Tryggvi spilaði á harmonikkuna.

Guðrún og Tryggvi hafa verið einstaklega lagin við að lifa af landsins gæðum; hvort sem um er að ræða sauðkindina, fugl eða silung og eru sérfræðingar í því að reykja kjöt og silung sem og að skapa sér gott og innihaldsríkt líf í annars fremur hrjóstrugu landi.

Myri

Mynd frá Mýri í Bárðardal. (Ljósmyndari: Elvar Ástráðsson)

Lengst af eftir 1969 var Mýri veðurfarsstöð sem fól í sér mælingar á hita og athuganir á vindi, skýjafari og fleiri veðurþáttum. Einu mælitækin voru hitamælar og úrkomumælir þótt einnig hafi alltaf verið spáð í vindátt og vindhraða á Mýri sem þar sem glöggskyggni Guðrúnar kom sér vel. Á árunum 2001–2013 var Mýri veðurskeytastöð, og fengust þaðan mikilvægar upplýsingar um veður við hálendismörk Norðausturlands.

Guðrún hefur sinnt starfi sínu af alúð og vandvirkni alla tíð en hún er af þeirri kynslóð veðurathugunarfólks sem lagði Veðurstofunni mikilsvert lið um langa hríð. Margir þeirra hafa verið að láta af störfum á síðustu árum. Starf veðurathugnarmannsins einkennist fyrst og fremst af mikilli bindingu því að veðurskeytin þurfa að berast á réttum tíma alla daga vikunnar, allan ársins hring, og því hefur gjarnan valist til þessara starfa fólk í sveitum landsins sem fyrir var bundið við búskap.

Veðurstofa Íslands þakkar Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur langt, farsælt og óeigingjarnt starf óskar henni velfarnaðar á komandi árum.

Halda áfram að lesa

Veður

Ekkert hraunflæði í þrjá mánuði við Fagradalsfjall

Eldgosið í apríl 2021. (Ljósmynd: Veðurstofan/Bryndís Ýr Gísladóttir)


18.12.2021

Í dag eru liðnir þrír mánuðir frá því að síðast sást til hraunflæðis úr eldstöðinni við Fagradalsfjall. Áfram mælist þensla á svæðinu og unnið er að útreikningum og líkangerð svo hægt sé að túlka mælingarnar, en niðurstöður liggja ekki fyrir.

„Það er auðvitað alltaf snúið að segja nákvæmlega hvenær tilteknu eldgosi sé lokið, því eldvirkni getur verið mjög lotubundin“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. „Við höfum bent á það alveg frá því að jarðhræringarnar í Geldingadölum hófust að Reykjanesskaginn er virkur með tilliti til jarðskjálfa- og eldvirkni og sagan segir okkur að eldvirkni þar kemur í lotum“, segir Sara.

Þrír mánuðir eru liðnir frá því að hraun sást koma úr gígnum í Geldingadölum og því er ljóst að goshrinan sem hófst 19. mars stóð yfir í nákvæmlega 6 mánuði.  Aflögunarmælingar sýna að kvíkusöfnun er í gangi í jarðskorpunni við Fagradalsfjall og erfitt er að spá fyrir um hvert framhaldið verður. „Við munum því áfram fylgjast vel með virkninni á Reykjanesskaga, en við getum sagt að þessum tiltekna atburði sem hófst með eldgosi 19. mars við Fagradalsfjall er lokið, hver sem þróunin á svæðinu verður. Það eina sem vitað er með vissu er að náttúran fer sínu fram“, segir Sara.

Vakin er athygli á því að varhugavert getur verið að fara inn á hraunbreiðuna við Geldingadali og að gígum. Töluverðan tíma getur tekið fyrir hraun að kólna og ennþá er yfirborð og gígar óstöðugir, hrun getur orðið eða sprungur geta myndast.  Auk þess má búast við að afgösun hraunsins haldi áfram um einhvern tíma og hættulegar aðstæður myndast þar sem gas getur safnast saman.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin