Innlent

Hlutafjárútboð Íslandsbanka hafið

Útboð á rúmlega 636 milljón hlutum af hlutafé ríkissjóðs í Íslandsbanka hófst í dag og stendur til 15. júní. Til viðbótar munu söluráðgjafar úthluta 10% af útboðsmagninu ef umfram eftirspurn verður í útboðinu. Þeir hlutir sem verða boðnir út nema þannig að hámarki 35% af heildarhlutafé bankans.

Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum, og Íslandsbanki hf. birtu í dag lýsingu og tilkynntu stærð útboðsins og leiðbeinandi verðbil þess. Það er á bilinu 71-79 krónur á útboðshlut sem leiðir til að áætlað markaðsvirði Íslandsbanka í kjölfar útboðsins er um 150 milljarðar króna. Í síðasta ríkisreikningi er bókfært virði bankans 142 milljarðar. Venja er í útboðum sem þessum að birta verðbil í frumútboði.

Almenningur og hornsteinsfjárfestar taka þátt

Almenningi býðst þátttaka í útboðinu, en tekið verður við áskriftum allt niður í 50 þúsund krónur. Skv. ákvörðun ráðherra, að höfðu samráði við Alþingi, er stefnt að því að áskriftir almennings allt að einni milljón króna verði ekki skertar.

Enn fremur taka svonefndir hornsteinsfjárfestar þátt í útboðinu, en þar eru annars vegar íslenskir lífeyrissjóðir og hins vegar traustir og reynslumiklir erlendir aðilar.

Algengt er í Evrópu að virtir og leiðandi fjárfestingasjóðir taki þátt í útboðum sem þessum í hlutverki hornsteinsfjárfesta og skuldbindi sig þannig til að kaupa hluti í bankanum á útboðsverðbilinu. Slíkir fjárfestar eru allajafna langtíma fjárfestar og styður þátttaka þeirra við þátttöku annarra stærri fjárfesta og þannig bæði við magn og verð í útboðinu. Þá hafa hornsteinsfjárfestar tilhneigingu til að bæta við stöðu sína við frekari sölu.  Sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors, RWC Asset Management LLP, Gildi-lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verzlunarmanna eru hornsteinsfjárfestar í útboðinu. Hefur hver hornsteinsfjárfestir, skuldbundið sig til að kaupa um 77, 31 og 46 milljón hluti i á endanlegu útboðsgengi.

Sala í samræmi við lög og stjórnarsáttmála

Allt söluandvirðið úr útboðinu rennur til ríkissjóðs, sem fer beint og óbeint með 100% af útgefnu og útistandandi hlutafé bankans. Í lok útboðsins má áætla að hlutur ríkissjóðs í bankanum verði að lágmarki 65% af heildarhlutafé.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Það er ánægjulegt að sjá hlutafjárútboð Íslandsbanka hefjast eftir mikla og vandaða vinnu síðustu mánuði. Það hefur lengi staðið til að draga úr umfangsmiklu eignarhaldi ríkisins á fjármálamarkaði, en gert er ráð fyrir sölu hluta í Íslandsbanka í gildandi lögum, stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki.

Útboðið er fyrsta skrefið í þá átt og færir okkur skrefi nær heilbrigðara umhverfi í betra samræmi við það sem þekkist á Norðurlöndunum og í öðrum nágrannaríkjum okkar. Með skráningunni verður íslenskur hlutabréfamarkaður stærri og fjölbreyttari, og það er jákvætt að fjárfestingarkostum almennings og fagfjárfesta fer sífellt fjölgandi.“

Innlent

Grein um fullveldi og peningastefnu birt í nýjustu útgáfu Efnahagsmála

24. júní 2021

Ritið Efnahagsmál nr. 10 með greininni „Fullveldi og peningastefna“ eftir Arnór Sighvatsson hefur verið birt á vef Seðlabanka Íslands. Í greininni er fjallað um peningalegt fullveldi, hvernig hugmyndir um það hafa þróast í gegnum aldirnar og því verið beitt til tekjuöflunar, eflingar viðskipta eða hagstjórnar.

Þá er fjallað um takmörk peningalegs fullveldis, m.a. í ljósi óheftra fjármagnshreyfinga og alþjóðavæðingar viðskiptalífsins, hvernig þróun hagfræðikenninga hefur haft áhrif á skilning stjórnvalda og fræðimanna á hlutverki peningalegs fullveldis, togstreitu sem myndast getur á milli trúverðugleika peningastefnu og þarfar fyrir sveigjanleika í hagsstjórn, valið á milli leiða samtryggingar og sjálfstryggingar og samband fullveldis og athafnafrelsis einstaklinga og fyrirtækja.

Efnahagsmál nr. 10 með umfjöllun Arnórs Sighvatssonar um fullveldi og peningastefnu má nálgast hér: Efnahagsmál nr. 10 – Fullveldi og peningastefna.

Sjá hér nánari upplýsingar um útgefin rit Seðlabanka Íslands: Rit og skýrslur

Halda áfram að lesa

Innlent

Hvað með trukkana?

Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur SVÞ

Trukkur, samkvæmt orðabók, er stór og kraftmikill vörubíll. Trukkar eru okkur mikilvægir þó flest okkar leiði hugann sjaldnast að þeim. Trukkar eru ekki bara öskubílar, olíubílar og mjólkurbílar heldur flutningabílar sem færa vörur milli staða. Trukkar færa t.d. matinn í verslanirnar, byggingarefnið á byggingastað og fiskinn í útflutning. Sérstakir trukkar flytja túrista en eru þá kallaðir rútur, sem væntanlega á að vísa til dálítils kassa af öli. Í þessu ljósi má t.d. ímynda sér að heiti trukksins, sem er frábær réttur á matseðli Gráa Kattarins, vísi til gagnsemi trukksins enda er hann samansettur úr fjölmörgum hráefnum og fullnægir daglegum þörfum afar vel. Það er sennilega ekki tilviljun að þegar rætt er um að taka eitthvað með trukki er gjarnan skírskotað til þess að gera eitthvað að afli, almennilega, fara alla leið.

Tökum það með trukki

Stjórnvöld hafa sett fram afar metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Í gildandi aðgerðaáætlun er m.a. fjallað um hvernig megi draga úr losun koltvísýrings í samgöngum. Ein af aðgerðunum snýr að því hvernig draga megi úr losun í þungaflutningum innanlands, m.ö.o. hvernig tökum við trukkana með trukki án þess að missa trukkið.

Trukkaland

Hér á landi eru margir trukkar í notkun miðað við höfðatölu eða a.m.k. finnst mér rökrænt að álykta á þennan hátt. Samkvæmt Wikipedíu er Ísland 16. stærsta ríki heims, miðað við höfðatölu. Ef íbúaþéttleiki á Íslandi væri hinn sami og í Mónakó byggju hér tæplega 2 milljarðar Íslendinga. Ef íbúaþéttleiki í Mónakó væri hinn sami og hér á landi byggju þar 8 manns. Ef við gefum okkur að nokkuð margir trukkar séu í notkun í okkar stóra, strjálbýla, veðurbarða og mishæðótta landi, miðað við höfðatölu, má jafnframt álykta sem svo að fjarlægðir manna á milli kalli á töluverðan trukkaakstur.

Réttu trukkarnir

Nýverið keypti ég mér rafmagnsbíl. Kaupin voru ekki sérlega frumleg enda fer hver að verða síðastur að kaupa bensín- eða dísilbíl. Bílinn losar ekki gróðurhúsalofttegundir í akstri og nú kaupi ég eingöngu innlenda orku. Umskiptin voru einföld. Fólksbílar knúnir rafmagni eru vel þróaðir, framleiddir á nokkuð hagkvæman máta og hleðsluinnviðir til staðar, bæði heima hjá mér og víða um landið. En ekki eru allir eins. Hyggist eigandi trukks kaupa nýjan trukk, sem gengur fyrir öðru en dísilolíu, vandast málið. Valkostirnir eru fáir og þeir sem eru þó til staðar kosta svo heiftarlega mikið að kaupin ganga ekki upp. Þá er drægi sumra kostanna enn takmörkuð og flutningagetan óljós. Sé trukki stungið í samband er hætt við að það verði ekki margar innstungur eftir fyrir aðra.

Við þurfum öll á trukkunum að halda. Eigendur trukkanna vilja eiga trukka til að þjónusta okkur. Helst vilja þeir aka trukkunum á innlendri orku. Þar liggur vandinn því slíkir trukkar standa enn vart til boða en eru þó á leiðinni, í framtíðinni og vonandi þeirri nánustu. Að hanna og smíða trukk tekur mörg ár, jafnvel fyrir reyndustu menn, og þegar hann hefur verið smíðaður þarf að prófa hann við ýmsar aðstæður. Þar að auki þarf að koma upp tækjum til að koma orkugjafa á trukkinn, þ.e. hliðstæðu olíudælunnar.

Trukkar í loftslagsvísi atvinnulífsins

Hinn 23. júní var Loftslagsvísir atvinnulífsins gefinn út. Eins og önnur fyrirtæki hafa flutningafyrirtæki verulegan áhuga á að taka virkan þátt í orkuskiptum í samgöngum. Þegar kemur að akstri trukka á lengri leiðum virðist vetnisvæðing helsta lausnin framundan. Nokkrir trukkaframleiðendur eru að prófa sína trukka erlendis en það er enn nokkuð í að hægt verði að kaupa þá. Það er hins vegar ljóst að trukkarnir verða ekki bara dýrir í innkaupum heldur verður það töluvert vesen að fara að nota þá. Til dæmis vantar okkur fjölda vetnisstöðva.

Púslin í nýorkuveruleika trukka eru sannarlega mörg en það er búið að taka lokið af öskjunni. Wasgij-púslið blasir við, menn eru búnir að klóra sér svolítið í hausnum en eru sannfærðir um að þetta muni klárast.

Að lokum skora ég á Gráa köttinn að breyta nafninu á trukknum í vetnistrukkinn, svona til að taka af allan vafa.

Benedikt S. Benediktsson
lögfræðingur SVÞ

Greinin birtist fyrst á Vísi.is, fimmtudaginn 24. júní 2021.

Halda áfram að lesa

Innlent

Heimsókn fulltrúa Geðhjálpar

Formaður og framkvæmdastjóri Geðhjálpar fóru yfir ýmis hagsmunamál umbjóðenda sinna, einkum hvað snertir réttarstöðu þeirra sem vistaðir eru á lokuðum deildum geðheilbrigðisstofnana, á fundi með umboðsmanni í dag.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin