Innlent

Hraðari græn umskipti og stafræn þróun rædd á fundi EES-ráðsins

Samstarf ríkja Evrópska efnahagssvæðisins til að tryggja lykilaðföng og hraðari græn umskipti og stafræna þróun voru meðal umræðuefna á fundi EES-ráðsins sem fram fór í Brussel í dag. Í umræðu um alþjóðamál samhliða fundinum var einnig rætt um samskiptin við Kína, stöðu mála í Belarús og nýjan vegvísi Evrópusambandsins á sviði öryggis- og varnarmála. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, fór fyrir sendinefnd Íslands í fjarveru utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Í tilefni af fundinum áréttaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra mikilvægt hlutverk atvinnulífsins við að skapa grænar lausnir.

„Aðgerðir til að efla öryggi aðfanga eiga að miða að því að fjölga valkostum í aðfangaöflun, frekar en að reisa múra. Þegar kemur að grænum umskiptum og stafrænni þróun er lykilatriði að leysa úr læðingi hugvit og nýsköpun, ekki síst varðandi grænar lausnir. Hlutverk atvinnulífsins og þær lausnir sem fyrirtæki þróa verða lykillinn að því að takast á við loftslagsvanda og tryggja lífskjör sem aftur skapar sátt um umbreytinguna,“ sagði Guðlaugur Þór.

Á fundinum var einnig rætt um stöðu og framkvæmd EES-samningsins. Lagði Ísland áherslu á góða framkvæmd samningsins og það að standa vörð um tveggja stoða kerfi hans. Ítrekaði Ísland jafnframt kröfu sína um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir inn til ESB. Það væri umhugsunarefni að á sama tíma og EFTA-ríkin innan EES hefðu sífellt bætt í framlög til Uppbyggingarsjóðs EES hefði markaðsaðgangur ríkjanna fyrir sjávarafurðir í besta falli staðið í stað. Þá væri mikilvægt að flýta vinnu við endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB til að takast á við það ójafnvægi sem í samningnum fælist. 

Þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA funduðu einnig um fríverslunarnet samtakanna í tengslum við fund EES-ráðsins. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði en Ísland er í formennsku í EFTA-samstarfinu um þessar mundir.

EES-ráðið kemur saman til fundar tvisvar á ári og er hlutverk þess einkum að vera pólitískur aflvaki við framkvæmd EES-samningsins. EES-ráðið er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðs ESB.

Sjá nánar yfirlýsingu EFTA-ríkjanna í EES um EES-ráðsfundinn.

Innlent

María Rún kjörin til setu í GREVIO

María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, hefur fyrst Íslendinga verið kjörin til setu í GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með Istanbúl-samningnum um aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Nefndin er skipuð 15 sjálfstæðum og óvilhöllum sérfræðingum frá 34 aðildarríkjum samningsins. 

María Rún tekur þar sæti sérfræðings Tyrkja eftir að Tyrkland sagði sig frá Istanbúl-samningnum fyrr á þessu ári, en alls voru tíu framboð fyrir aðeins eitt sæti. Niðurstaðan er mikilvæg fyrir Ísland sem tekur við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022. 

GREVIO hefur meðal annars það hlutverk að sækja heim aðildarríki Istanbúl-samningsins, vinna greiningar og skýrslur um framkvæmd samningsins í hverju landi og koma með tillögur að úrbótum varðandi stefnu, löggjöf og aðgerðir til þess að sporna gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Vinna nefndarinnar hefur síðustu misseri meðal annars snúið að því að ræða og leggja til aðgerðir gegn stafrænu ofbeldi sem er vaxandi vandamál í Evrópu og í heiminum öllum.

Menntun og bakgrunnur Maríu Rúnar á sviði stafræns ofbeldis og reynsla hennar við innleiðingu nýrrar löggjafar um kynferðislega friðhelgi, mun því vera mikilvægt framlag til starfs GREVIO á næstu misserum og er í samræmi við áherslur Íslands um frekari aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum. 

„Ég hef sjálf séð jákvæð áhrif Istanbúl-samningsins á þróun umræðu og aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi á Íslandi og víðar,“ sagði María eftir kjörið. „Það er því mikill heiður að hljóta stuðning ríkja Evrópuráðsins til að halda áfram því mikilvæga starfi sem fram fer innan GREVIO í þeim tilgangi að vinna gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í álfunni. Er það ekki síst ánægjulegt að geta byggt á þeirri mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið hér á landi til að koma í veg fyrir stafrænt ofbeldi og að geta deilt þeirri reynslu með öðrum aðildarríkjum samningsins.“

Halda áfram að lesa

Innlent

Styrkir til hjálparsamtaka í aðdraganda jóla

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita samtals fimm milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til tíu hjálparsamtaka sem starfa hér á landi. Sú venja hefur skapast á undanförnum árum að ríkisstjórnin styrki slík samtök í aðdraganda jóla.

Um er að ræða Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Íslandi, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Vesturlands, Rauða krossinn á Íslandi og Samhjálp.

Halda áfram að lesa

Innlent

COVID-19: Óbreyttar sóttvarnaráðstafanir næstu tvær vikur

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja óbreytta gildandi reglugerð um samkomutakmarkanir. Almennar fjöldatakmarkanir verða því áfram 50 manns en með möguleika á hraðprófsviðburðum, áfram gilda 1 metra nálægðarmörk, reglur um grímunotkun o.s.frv. Þessi ákvörðun er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem telur nauðsynlegt að viðhalda óbreyttum takmörkunum í ljósi óvissu um þróun faraldursins, ekki síst vegna tilkomu Ómíkron-afbrigðis kórónaveirunnar.

Heilbrigðisráðherra segist sammála sóttvarnalækni um að ekki sé tímabært að slaka á sóttvarnaráðstöfunum í ljósi þessarar óvissu. Grannt sé fylgst með þróun faraldursins hérlendis og erlendis og nánari upplýsinga beðið um eiginleika Ómíkron afbrigðisins og hvort eða hve mikil ógn stafar af því. „Við bindum miklar vonir við að hægt sé að slaka á takmörkunum fyrr ef gögn um Ómíkron benda til þess að það sé óhætt. Þangað til þurfum við að verja heilbrigðiskerfið og tryggja fólki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Við sjáum að nágrannaþjóðir okkar, ekki síst Danir og Norðmenn eiga í vök að verjast þar sem smitum fjölgar nú hratt. Hér er faraldurinn hins vegar á hægri niðurleið sem bendir til þess að herðing á sóttvarnareglum sem tóku gildi 13. nóvember síðastliðinn hafi skilað árangri.” segir ráðherra.

Halda áfram að lesa

Vinsælast

Allur réttur áskilin © 2021 Tíðin